Ferill 121. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1093  —  121. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um mótun klasastefnu.

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur frá Íslenska ferðaklasanum, Þór Sigfússon frá Íslenska sjávarklasanum, Guðbjörgu H. Óskarsdóttur frá Álklasanum, félagasamtökum, Berglindi Hilmarsdóttur frá Landbúnaðarklasanum og Karl Friðriksson og Hannes Ottósson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
    Umsagnir bárust frá Álklasanum, félagasamtökum, Íslenska sjávarklasanum ehf., Landbúnaðarklasanum og Regus á Íslandi og Orange Project.
    Með tillögunni, sem lögð hefur verið fram nokkrum sinnum áður, er lagt til Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram eindreginn stuðningur við málið. Bent var á að klösum hér á landi hafi farið fjölgandi og fjölmörg fyrirtæki hafa verið sett á stofn í beinum tengslum við starfsemi þeirra. Mótun klasastefnu sé til þess fallin að efla nýsköpunarvirkni og samkeppnishæfni fyrirtækja hér á landi og auka samstarf þeirra við rannsóknarstofnanir og háskóla. Þá gæti klasastefna betur mótað ramma um það hvernig rannsóknir og greining á klösum hér á landi fer fram og árangur þeirra metinn.
    Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og bendir á að önnur ríki Norðurlandanna, m.a. Danmörk og Noregur, hafa mótað sér opinbera stefnu um klasa með góðum árangri. Mikilvægt er að horft sé til þeirra fyrirmynda við mótun stefnunnar.
    Þá bendir nefndin á að í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, Nýsköpunarlandið Ísland, sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti haustið 2019, segir að nýsköpun sé lykillinn að úrlausn stærstu viðfangsefna komandi áratuga. Meðal þeirra markmiða sem fram koma í stefnunni er að stjórnvöld gæti þess að stuðningur sé markviss og að Ísland dragist ekki aftur úr öðrum svæðum. Við umfjöllun um málið á 149. löggjafarþingi var bent á að mögulega væri rétt að klasastefna yrði hluti af nýsköpunarstefnu fyrir landið. Þótt nýsköpunarstefna liggi nú fyrir, og þar sé ekki fjallað sérstaklega um klasa, telur nefndin ljóst að þeir séu mikilvægt verkfæri til þess að ná þeim markmiðum sem þar er stefnt að. Því telur nefndin brýnt að við mótun klasastefnu verði höfð hliðsjón af nýsköpunarstefnu.
    Að lokum bendir nefndin á að lagt er til að ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshópsins í lok maí 2020. Í ljósi þess að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fer með málefni atvinnuþróunar, tæknirannsókna og nýsköpunar er lögð til breyting þess efnis að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið að skila Alþingi skýrslunni. Þá leggur nefndin til að starfshópnum verði veittur rýmri frestur til þess að skila niðurstöðum sínum og leggur einnig til breytingu þess efnis.

    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. mgr. tillögugreinarinnar orðist svo:
    Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps fyrir 1. febrúar 2021.

    Rósa Björk Brynjólfsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. mars 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Jón Þór Ólafsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.