Ferill 724. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1333  —  724. mál.
Viðbót.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 26/2020.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


Umsagnaraðilar og gestakomur.
    Nefndin hefur fjallað um málið á 12 fundum og kallað til umsagnaraðila. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins komu á fund nefndarinnar og kynntu frumvarpið. Eftirtaldir komu frá skrifstofu opinberra fjármála: Björn Þór Hermannsson, Jón Viðar Pálmason, Katrín Anna Guðmundsdóttir, Hlynur Hreinsson, Dóróthea Jóhannsdóttir, Kristinn Bjarnason, Sólrún Halldóra Þrastardóttir og Hilda Hrund Cortez.
    Nefndin kallaði einnig til fulltrúa þeirra ráðuneyta sem bera ábyrgð á þeim málefnasviðum og málaflokkum sem fram koma í frumvarpinu. Þeir voru Guðrún Gísladóttir, Ingvi Már Pálsson, Magnús Óskar Hafsteinsson og Arnór Snæbjörnsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Páll Magnússon, Auður B. Árnadóttir, Jón Vilberg Guðjónsson, Björg Pétursdóttir og Helgi Freyr Kristinsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Ingilín Kristmannsdóttir og Hermann Sæmundsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Gissur Pétursson, Svanhvít Jakobsdóttir, Erna Kristín Blöndal og Gunnhildur Gunnarsdóttir frá félagsmálaráðuneytinu og Ásta Valdimarsdóttir, Runólfur Birgir Leifsson og Dagný Brynjólfsdóttir frá heilbrigðisráðuneytinu.
    Allir fundir nefndarinnar eru fjarfundir og gestir tengjast fundum stafrænt í stað þess að mæta á nefndasvið Alþingis. Samtals skiluðu 23 aðilar inn umsögn um frumvarpið og var þeim öllum boðið að koma á fundi nefndarinnar. Í tveimur tilfellum sneru umsagnir nær eingöngu að tengdum þingmálum, þ.e. 725. og 726 máli, sem eru til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd og ekki var talin ástæða til að funda sérstaklega um þær umsagnir.
    Eftirtaldir gestir komu á fund nefndarinnar: Henný Hinz frá ASÍ, Ásdís Kristjánsdóttir og Davíð Þorláksson frá SA, Skúli Eggert Þórðarson og Guðný Jenný Jónsdóttir frá Ríkisendurskoðun, Ásta S. Fjeldsted og Konráð Guðjónsson frá Viðskiptaráði Íslands, Karl Björnsson, Guðjón Bragason og Sigurður Snævarr frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sigurður Hannesson, Ingólfur Bender og Sigríður Mogensen frá Samtökum iðnaðarins.
    Einnig komu Árni Múli Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir frá BSRB, Grímur Atlason og Héðinn Unnsteinsson frá Geðhjálp, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Georg Brynjarsson frá Bandalagi háskólamanna, Heiða Björg Pálmadóttir frá Barnaverndarstofu, Auður Axelsdóttir og Málfríður Hrund Einarsdóttir frá Hugarafli, Atli Þór Fanndal frá Geimvísinda- og tækniskrifstofu, Erna Magnúsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir frá Vísindafélagi Íslands, Skúli Eggert Þórðarson og Guðrún Jenný Jónsdóttir frá Ríkisendurskoðun.
    Halldóra Káradóttir og Birgir Björn Sigurjónsson komu frá Reykjavíkurborg, Jóhannes Þór Skúlason frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Auður I. Þorsteinsdóttir og Jóhann Steinar Ingimundarson frá UMFÍ og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Sigurjón Unnar Sveinsson og Bergþór Heimir Þórðarson frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Nefndin boðaði einnig fulltrúa frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og frá SÁÁ þrátt fyrir að þeir aðilar hafi ekki skilað formlegri umsögn. Frá SFV komu Eybjörg Hauksdóttir, Pétur Magnússon og Bjarki Þorsteinsson og frá SÁÁ komu Arnþór Jónsson, Ásgerður Björnsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir.

Aðgerðir stjórnvalda og tilgangur frumvarpsins.
    Frumvarp þetta er hluti af umfangsmiklum aðgerðum og viðbrögðum stjórnvalda til að mæta efnahagslegum afleiðingum af völdum COVID-19-heimsfaraldursins. Fyrstu aðgerðir vegna faraldursins voru samþykktar á Alþingi í lok marsmánaðar í formi fjáraukalaga og með margvíslegum breytingum á skattalögum, lögum um sveitarfélög og tekjustofna þeirra auk breytinga á lögum um ríkisábyrgðir og um Seðlabanka Íslands. Þar með voru lögfestar fyrstu aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins.
    Meðal aðgerða sem Alþingi hefur nú þegar veitt heimildir fyrir er greiðsla atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli, greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví, frestun á skattgreiðslum og veiting ábyrgða ríkisins á hluta lána til fyrirtækja í greiðsluvanda. Þá hefur verið ráðist í sérstakt fjárfestingarátak og auknar heimildir veittar fyrir markaðsátaki í ferðaþjónustu, sbr. fjáraukalögin sem Alþingi samþykkti 30. mars sl.
    Áherslur stjórnvalda fyrst um sinn beindust að því að verja afkomu heimila og fyrirtækja. Þannig var lögð áhersla á að mæta þeirri skyndilegu röskun sem varð á stórum hluta efnahagskerfisins og tryggja eftir mætti áframhaldandi ráðningarsamband launafólks og fyrirtækja.
    Þegar hefur verið gripið til fjölmargra ráðstafana og tilgangur þessa frumvarps er að útvíkka frekar stuðning við hópa sem fyrri ráðstafanir náðu ekki til og er lagt fram samhliða öðrum ráðstöfunum í ríkisfjármálum, annars vegar á sviði skattamála og hins vegar vegna ráðstafana sem varða fjárstuðning til rekstraraðila.
    Samhliða þessu frumvarpi eru til umfjöllunar á Alþingi tvö önnur frumvörp, 725. og 726. mál, sem fjalla um fjárstuðning til minni rekstraraðila og frekari breytingar á skattalögum, stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og einkarekna fjölmiðla, auk aðgerða til að bæta fjárhagslega stöðu sveitarfélaga.

Meginefni frumvarpsins.
    Líkt og í fjáraukalögunum sem samþykkt voru í lok mars þá er í frumvarpinu núna fyrst óskað eftir fjárheimildum vegna afmarkaðra og tímabundinna ráðstafana til að bregðast við áhrifum faraldursins.
    Frumvarpið er tvíþætt. Annars vegar er kallað eftir heimild til að veita stuðningslán og hins vegar er aflað útgjaldaheimilda fyrir rúmlega 13 milljarða kr. og eru þær tillögur af þrennum toga. Í fyrsta lagi eru félagslegar aðgerðir að fjárhæð 8,4 milljarðar kr., í öðru lagi framlög til nýsköpunar og þróunar að fjárhæð 2,3 milljarðar kr. og í þriðja lagi framlag vegna lokunarstyrkja til rekstraraðila sem áætlaðir eru 2,5 milljarðar kr. samtals.

Félagslegar aðgerðir.
    Umfangsmestu aðgerðirnar eru af félagslegum toga, samtals að fjárhæð 8,4 milljarðar kr. Þar af eru 5 milljarðar kr. sem snúa að aðgerðum fyrir námsmenn og fólk í atvinnuleit. Fjárhæðin skiptist á tvö málefnasvið og munar mest um 4,2 milljarða kr. af tveimur tilefnum, annars vegar 2,2 milljarða kr. til sérstaks átaks til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn sem hafa takmarkaðan rétt í atvinnuleysisbóta og hins vegar 2 milljarða kr. sem nýtast eiga til átaks í náms- og starfsúrræðum fyrir atvinnuleitendur þegar í sumar og næsta vetur. Það verkefni er á vegum félagsmálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar. Einnig er óskað eftir 800 millj. kr. vegna tveggja aðgerða á sviði menntamála, annars vegar fyrir sumarnám á háskólastigi með 500 millj. kr. framlagi, og er markmiðið að sporna við atvinnuleysi og efla menntun ungs fólks, og hins vegar 300 millj. kr. til að bjóða upp á sumarnám á framhaldsskólastigi.
    Af öðrum félagslegum aðgerðum munar mest um 1 milljarð kr. sem hugsaður er til að fjármagna álagsgreiðslur til þess heilbrigðisstarfsfólks sem staðið hefur í framlínunni í baráttunni við COVID-19-faraldurinn. Fjárhæðinni er skipt á þrjá málaflokka heilbrigðismála. Þeir eru sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, almenn sjúkrahúsþjónusta og heilsugæsla.
    Þá er 895 millj. kr. varið í ýmis félagsleg úrræði sem skipt er á fjögur málefnasvið. Þar munar mest um 450 millj. kr. til að vinna gegn félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja. Fjölskyldum fatlaðra barna verður veittur félagslegur stuðningur, landshlutateymi fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra styrkt og sérstök verkefni sett af stað til að styrkja stöðu barna af erlendum uppruna. Þá er lagt til að heimila sérstakar tímabundnar greiðslur til þeirra sem sinna umönnun langveikra barna sem búa við skerta þjónustu vegna áhrifa COVID-19 og er gert ráð fyrir 200 millj. kr. vegna þessa. Enn fremur er sérstök áhersla lögð á aðgerðir gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum, samtals 200 millj. kr.
    Einnig eru lagðar til aðrar félagslegar aðgerðir. Til að takast á við áskoranir sem fylgja COVID-19 í félagsþjónustu og barnavernd í dreifðustu byggðum landsins eru ætlaðar 30 millj. kr. og 15 millj. kr. til að efla samstarf lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar í sumar til að auðvelda markvissari aðkomu að þjónustu við börn í viðkvæmri stöðu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir átaki í geðheilbrigðismálum með 540 millj. kr. fjárheimild til verkefnisins Heilsuefling í heimabyggð, sem samanstendur af fjölda aðgerða. Heilsugæsluþjónusta um land allt verður efld með sérstakri áherslu á geðrækt og andlegt heilbrigði. Í því felst að sérhæfðu starfsfólki innan heilsugæslunnar verður fjölgað, svo sem geðlæknum, sálfræðingum og félagsráðgjöfum.
    Þá er lögð til fjárheimild er lýtur að sértækum stuðningi til sveitarfélaga og Suðurnesja, samtals 975 millj. kr. Þar vegur þyngst tillaga á málefnasviði 29 Fjölskyldumál um að verja 600 millj. kr. til sveitarfélaga í því skyni að gera þeim kleift að veita styrki til tekjulágra heimila þannig að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir í sumar. Þá er einnig gert ráð fyrir 250 millj. kr. til aðgerða á Suðurnesjum. Staðið verður fyrir átaki til að efla félagslega þátttöku og virkni íbúa með erlendan bakgrunn ásamt því að koma á fót þverfaglegum teymum á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála. Auk þess er fyrirhugað að styrkja og þróa Reykjanes Geopark.
    Að auki er lagt til að sveitarfélög fái 125 millj. kr. framlag vegna tveggja verkefna. Annars vegar eru 100 millj. kr. til að efla stafræna tækni og þjónustu sveitarfélaga með því að nýta sem best upplýsingatækniinnviði sem þegar eru til staðar. Hins vegar eru 25 millj. kr. vegna þróunar á sviðsmyndalíkani sem hægt er að byggja á til framtíðar fyrir fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga.

Nýsköpun og þróun.
    Í frumvarpinu er einnig óskað eftir samtals 2,3 milljarða kr. framlögum til eflingar nýsköpunar og þróunar. Þar munar mest um að lagt er til að framlag til Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs, hækki um 1.150 millj. kr. Sjóðurinn byggist á sérstöku frumvarpi, 711. máli, um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Markmið sjóðsins er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.
    Einnig er lagt til að framlög hækki um 500 millj. kr. til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu með stofnun Matvælasjóðs. Með stofnun hans voru Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs sameinaðir.
    Lagt er til að veita 300 millj. kr. til Nýsköpunarsjóðs námsmanna vegna þriggja mánaða launa til ungra frumkvöðla þar sem áhersla verður lögð á þjálfun í frumkvöðlamennsku og nýsköpun. Markmiðið er að sporna við atvinnuleysi og efla nýsköpun meðal ungs fólks.
    Lagt er til að 250 millj. kr. verði bætt í launasjóði listamanna. Með framlaginu er mánaðarlaunum listamanna fjölgað úr 1.600 í 2.200 eða um 38% og þannig má tryggja að 100 listamenn fái starfslaun í sex mánuði á árinu 2020 með sömu hlutfallsskiptingu og fram kemur í lögum um listamannalaun.
    Loks er lagt til að 100 millj. kr. verði varið í sameiginlegt kynningarátak ráðuneytis og samtaka í atvinnulífi um að verja störf og auka verðmætasköpun á Íslandi. Með því að hvetja til viðskipta við innlenda verslun og þjónustu verði þannig unnið gegn efnahagslegum samdrætti með það að markmiði að lágmarka áhrif á íslenskt atvinnulíf.

Lokunarstyrkir.
    Í þriðja lagi eru lokunarstyrkir til fyrirtækja að fjárhæð 2,5 milljarðar kr. Fjárhæðin er ætluð til þeirra rekstraraðila sem var gert skylt að loka eða láta af starfsemi samkvæmt opinberum tilmælum um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Styrkirnir eiga að koma til móts við tekjutap þessara aðila og gera þeim kleift að halda í horfinu.
    Í frumvarpi til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila (725. mál) er fjallað um skilyrði, fjárhæðir, umsóknarferli o.fl. sem snýr að öllum umbúnaði utan um styrkina. Það frumvarp er til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd.

Efnahagshorfur og þróun, sviðsmyndir.
    Mikil óvissa ríkir um framvindu efnahagsmála bæði hérlendis og ekki síður í heimshagkerfinu. Að öllu jöfnu væri fjármálaáætlun til næstu fimm ára nú til umfjöllunar í þinginu en óvissa gerir spáaðilum erfitt um vik. Gildandi stefna hefur verið tekin úr sambandi og ný uppfærð áætlun liggur ekki fyrir og ekki víst hvenær raunhæft er að leggja fram drög að nýrri fjármálastefnu og áætlun.
    Hagstofan hefur ekki endurmetið þjóðhagsspá eftir að faraldurinn kom upp. Seðlabankinn birti 25. mars sl. tvær sviðsmyndir sem að hluta til byggjast á sviðsmyndum OECD á alþjóðlegum hagvexti. Frá þeirri sviðsmynd má segja að horfur hafi dökknað og flest bendir til þess að efnahagsáfallið verði meira og langvinnara en áður var talið. Af þeim sökum voru sviðsmyndirnar uppfærðar í byrjun apríl. Mildari sviðsmyndin gerir ráð fyrir 4% samdrætti í efnahagslífinu, að útflutningur vöru og þjónustu dragist saman um 18,7%, atvinnuleysi verði að meðaltali 6,1% og einkaneysla dragist saman um 1,7%.
     Dekkri sviðsmyndin miðast við enn meiri samdrátt efnahagslífsins í heild eða 6,9%, útflutningur dragist saman um 27,2%, atvinnuleysi verði 7,5% og einkaneyslan lækki um 4%. Bankinn spáir því að verðbólguhorfur breytist lítið þrátt fyrir mikið umrót í efnahagsmálum, eða 1,4% milli ára.
    Seðlabankinn mun áfram vinna að því að greina efnahagsleg áhrif faraldursins og nýjar sviðsmyndir verða kynntar 20. maí nk.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) birti nýlega endurskoðaða efnahagsspá fyrir heimshagkerfið og fyrir einstök ríki sem tekur til yfirstandandi árs og næsta árs. Það er fyrsta spá AGS eftir að COVID-19-faraldurinn braust út. Þar er gert ráð fyrir 3% samdrætti í heimshagkerfinu sem yrði mesti samdráttur síðan í kreppunni miklu á 3. og 4. áratug síðustu aldar. Til samanburðar dróst heimshagvöxtur saman um 0,1% í fjármálakreppunni 2009.
    Í grunnsviðsmynd AGS er gert ráð fyrir að efnahagsleg áhrif faraldursins verði tímabundin og þau fjari út á seinni hluta þessa árs. Á næsta ári er spáð kröftugum hagvexti, eða 5,8% samkvæmt spánni. Lögð er áhersla á að óvissan í spánni sé mun meiri nú en í venjulegu árferði og að mögulega kunni samdrátturinn á yfirstandandi ári að verða meiri.
    Í Evrópu er áætlað að í ár verði hagvöxtur neikvæður á bilinu 3–10%, misjafnt eftir löndum. Gert er ráð fyrir mestum samdrætti á Ítalíu, Grikklandi og Spáni en í þessum löndum gæti hagvöxtur í ár orðið neikvæður um á bilinu 8–10%.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Eins og fram kemur í töflunni þá áætlar AGS að í ár verði hagvöxtur á Íslandi neikvæður um 7,2%. Það er lítils háttar meiri samdráttur en dekkri sviðsmynd Seðlabankans sýnir eða sem nemur 0,3%. Af Norðurlöndunum er þetta versta spáin sem endurspeglar glöggt vægi ferðaþjónustu á Íslandi. Hins vegar er áætlað að á næsta ári muni hagkerfið á Íslandi taka vel við sér og er þá áætlað að hagvöxtur verði jákvæður um 6%. Til samanburðar dróst hagvöxtur saman um 6,8% árið 2009. Öfugt við spána nú hélt samdrátturinn árið 2009 áfram næsta ár á eftir. AGS gerir ekki ráð fyrir verðbólguskoti hérlendis og telur að verðbólgan verði um 2,3% á yfirstandandi ári og 2,5% á því næsta.

Athugasemdir umsagnaraðila um efnahagshorfur.
    Nokkrir umsagnaraðilar hafa dregið upp eigin sviðsmyndir og ef miðað er við að engir ferðamenn komi það sem eftir lifir árs gæti hagkerfið dregist saman meira en fram kemur í kaflanum um efnahagshorfur hér á undan, eða á bilinu 10–13%.
    Bent var á að frá því að fyrri fjáraukalögin voru samþykkt hafa efnahagshorfur orðið lakari en þá var áætlað og við blasti verulegur samdráttur útflutningstekna og samdráttur vergrar landsframleiðslu árið 2020. Þá virðist ljóst að töluvert muni vanta upp á að samdrátturinn gangi til baka á árinu 2021. Ekki virðist fyrirséð að ástandið muni leiða af sér þrýsting á verðlag en atvinnuleysishorfur út árið 2021 eru dekkri en áður. Undir slíkum kringumstæðum horfa atvinnurekendur fram á verulega þörf fyrir aðlögun sem einkum mun koma fram í aðgerðum sem stefna að lækkun rekstrarkostnaðar.

Umfjöllun nefndarinnar og ábendingar umsagnaraðila.
    Meiri hlutinn bendir á að í þessu frumvarpi er einvörðungu verið að óska eftir fjárheimildum sem tengjast efnahagsaðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áhrifum faraldursins. Frekari fjáraukalög verða síðar á árinu, t.d. vantar fjárheimildir til að bregðast við stórauknu atvinnuleysi og viðbótarrekstrarkostnaði heilbrigðiskerfisins vegna faraldursins.
    Fram kom í fjölmörgum umsögnum að efnahagshorfur hefðu dökknað sérstaklega þegar kemur að ferðaþjónustu og að niðursveiflan yrði dýpri og langvinnari en upphaflega var talið. Fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu og ýmislegri annarri þjónustu hefur nær engar tekjur. Mesta óvissan tengist því hve langan tíma tekur að ráða niðurlögum faraldursins og enn meiri óvissa tengist alþjóðlega hagkerfinu þar sem vísbendingar eru um að fjölmörg ríki verði lengur að ráða niðurlögum faraldursins en Ísland.
    Nær allir umsagnaraðilar voru jákvæðir gagnvart þeim aðgerðum sem fram koma í frumvarpinu en margir þeirra bentu á að frekari aðgerðir þurfa að koma til í ljósi umfangs niðursveiflunnar. Félagslegar aðgerðir og framlög til nýsköpunar og þróunar mælast vel fyrir.
    Athugasemdir umsagnaraðila fjölluðu töluvert um aðgerðir sem útfærðar eru í frumvarpi til laga um að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs að fullu á höfuðstól lána (725. mál) og um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar faraldursins (726. mál). Einnig voru athugasemdir gerðar um fyrirkomulag og skilyrði lokunarstyrkja þar sem 2,5 milljarðar kr. eru áætlaðir í það verkefni.

Heimild til að veita 100% ríkisábyrgð á lán til fyrirtækja með vissum skilyrðum.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til viðbótarheimild við 6. gr. fjárlaga til að veita megi 100% ábyrgð ríkissjóðs vegna lánveitinga til minni rekstraraðila en lagaramma úrræðisins er að finna í III. kafla frumvarps til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila, 725. mál. Margvíslegar athugasemdir komu fram frá umsagnaraðilum varðandi stuðningslánin sem snúa að skilyrðum og útfærslu lánanna en málið er til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Í kaflanum er fjallað um skilyrði, fjárhæðir, lánskjör og fyrirkomulag svokallaðra stuðningslána sem verða veitt með 100% ábyrgð ríkissjóðs.
    Fjárlaganefnd gerir því ekki tillögur um breytingar en er meðvituð um að breytingar Alþingis á því frumvarpi geta kallað á breytingu á heimildargrein fjáraukalagafrumvarpsins.
    Í umsögn Ríkisendurskoðunar er velt upp álitamálum um með hvaða hætti er tryggt að ekki sé vikið frá fjárstjórnarvaldi Alþingis og hvernig eftirliti með lánunum verði háttað. Nefndin hefur fylgt því eftir og aflað minnisblaðs frá lagaskrifstofu Alþingis og kallað eftir viðbrögðum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Niðurstaðan er sú að með þeim takmörkunum sem fram koma í frumvarpi um fjárstuðning til minni rekstraraðila er tryggt að ekki er um að ræða opið framsal ríkisábyrgða til framkvæmdarvaldsins.
    Til að auka skýrleika ákvæðis í 3. gr. frumvarps til fjáraukalaga gerir meiri hlutinn tillögu um viðbótarmálsgrein aftast í heimildargreinina þar sem segði: Heimildin verður ekki nýtt nema frumvarp um fjárstuðning til rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru verði samþykkt á Alþingi.
    Ríkisendurskoðun veltir því einnig upp hvort verið sé að fela lánastofnunum tiltekið opinbert vald, þó með vissum takmörkunum. Í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar er lagt til að undanskilja stuðningslán með 100% ríkisábyrgð frá ákvæðum stjórnsýslulaga og þar með er einnig skýrt að ákvarðanir um stuðningslán sæti ekki stjórnsýslukæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga. Eftir atvikum kann þó að vera að slíkar ákvarðanir geti sætt málskoti til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Lokunarstyrkir.
    Í frumvarpinu er áætlað fyrir 2,5 milljarða kr. útgjöldum vegna lokunarstyrkja til aðila sem var gert skylt að loka eða láta af starfsemi vegna sóttvarnamála. Talið er að þessi hópur samanstandi af um 2.000 rekstraraðilum en ekki muni allir uppfylla skilyrði til að fá styrk.
    Hámark styrks miðast við 2,4 millj. kr. fyrir hvern rekstraraðila og ekki hærri en 800 þús. kr. á hvern launþega hjá fyrirtækinu. Miðað er við að tekjur í apríl 2020 verði a.m.k. 75% lægri heldur en í apríl í fyrra og að heildartekjur í fyrra hafi numið a.m.k. 4,2 millj. kr.
    Skilyrðin og heildarfjárhæð lokunarstyrkja er gagnrýnd af nokkrum umsagnaraðilum sem leggja til að hámarkið sé hækkað og benda á að miða mætti við starfshlutfall launamanna fyrirtækis við mat á hámarksstyrk.
    Ef fram koma tillögur til breytinga á ákvæðum um lokunarstyrki frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar eða ítarlegri upplýsingar um fjölda þeirra sem falla undir ákvæðið þá mun fjárlaganefnd endurmeta áætlun um útgjöld í málaflokki 34.20 Sértækar fjárráðstafanir þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir 2,5 milljarða kr. útgjöldum.

Málefni fjölmiðla.
    Í greinargerð frumvarpsins er vísað til frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum (726. mál) þar sem í 9. gr. er fjallað um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Efnahags- og viðskiptanefnd leggur til breytingar á greininni í því skyni af afmarka stuðninginn.
    Í fjárlögum ársins er gert ráð fyrir allt að 400 millj. kr. framlagi sem ætlað var að fjármagna útgjöld vegna annars frumvarps, 458. máls, um breytingu á lögum um fjölmiðla.
    Meiri hlutinn heimilar hér með að nýta þá fjárheimild til þess að fjármagna rekstrarstuðning skv. 9. gr. frumvarps um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldursins, 726. mál.
    Af þeim sökum er ekki gerð tillaga um sérstaka gjaldaheimild í frumvarpi til fjáraukalaga.

Félagslegar aðgerðir.
    Nær allir umsagnaraðilar voru jákvæðir gagnvart þeim aðgerðum sem boðaðar eru í frumvarpinu og falla undir félagslegar aðgerðir.
    Undir aðgerðirnar falla t.d. álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks sem staðið hefur í framlínunni í baráttunni við COVID-19-faraldurinn. Nokkrir umsagnaraðilar bentu engu að síður á að greiðslur af þessu tagi ættu einnig að taka til fjölmargra starfshópa sem ekki eru ríkisstarfsmenn.
    Meiri hlutinn bendir á að útfærsla álagsgreiðslna er ætið vandmeðfarin. Augljóst er að viðbótarkostnaður ýmissa aðila vegna ráðstafana vegna COVID-19 er ekki fullljós enn þá. Meiri hlutinn minnir á að sá ágæti árangur sem hingað til hefur náðst er vegna mjög markvissra aðgerða. Ein af þeim aðgerðum var að vernda sérstaklega viðkvæma hópa, svo sem aldraða á hjúkrunarheimilum. Hjúkrunarheimilin hafa með aðgerðum sínum almennt náð góðum árangri. Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðherra að láta kanna kostnað sem ráðstafanir þeirra hafa valdið. Rekstrarform og eignarhald starfseminnar er mismunandi á milli heimila en mikilvægt er að endurspegla álag og viðbótarkostnað með einhverjum hætti í samningum við heimilin.
    Í tengslum við aðgerðir á sviði menntamála sem gerðar eru tillögur um í frumvarpinu telur meiri hlutinn mikilvægt að við núverandi samfélagslegar aðstæður verði lögð áhersla á nægjanlegt framboð námsplássa í háskólum landsins. Í þessu samhengi leggur meiri hlutinn sérstaka áherslu á verk- og starfsnám og tækninám á háskólastigi um land allt. Þá er mikilvægt að tryggja innflytjendum aðgang að íslenskukennslu og símenntun sem eykur tækifæri þeirra og samfélagsins til að nýta þá menntun og reynslu sem þeir hafa nú þegar.
    Bent var á að ekki væri í frumvarpinu gert ráð fyrir stuðningi við ýmsa viðkvæma hópa sem verða fyrir tekjufalli ef undirliggjandi sjúkdómar eða rof á skólahaldi gera þeim ekki kleift að mæta til vinnu. Fram komu áhyggjur af hugsanlegum niðurskurði opinberra útgjalda á næstu árum.
    Umsagnaraðilar fagna auknum framlögum í vinnumarkaðsaðgerðir og menntaúrræði á framhalds- og háskólastigi. Meiri hlutinn tekur undir það og minnir á að vinnumarkaðsaðgerðir og menntaúrræði þurfa að geta hentað fjölbreyttum hópi fólks, þ.m.t. fötluðu fólki og fólki með skerta starfsgetu á vinnumarkaði og innan skólakerfisins.
    Þá kom í umsögnum fram ánægja með þá áherslu að efla heilsugæslu um allt land með sérstakri áherslu á geðrækt og andlegt heilbrigði, þótt einnig sé bent á að enn þurfi að gera betur á því sviði. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þessara aðgerða sem og að haldið verði áfram á þeirri braut að efla þjónustu heilsugæslunnar.
    Í umsögnum kom fram almenn ánægja með það að verja 600 millj. kr. til sveitarfélaga í því skyni að gera þeim kleift að veita styrki til tekjulágra heimila, svo að öll börn geti óháð efnahag stundað íþróttir og aðrar tómstundir í sumar. Rannsóknir sýna að þátttaka í slíku starfi hefur forvarnagildi fyrir börn og stuðlar að andlegum og líkamlegum þroska þeirra auk þess að vera mikilvægur vettvangur félagslegra tengsla sem geta verið börnum vörn á umrótstímum. Ábendingar hafa borist um að þegar þrengir að fjárhag fjölskyldna sé mikil hætta á að dragi úr þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi. Ætla má að hópurinn sem sé í hættu á að heltast úr tómstundastarfi sé um 8.000 börn. Með auknum fjölda þeirra sem þurfa atvinnuleysisbætur má áætla að þessi tala verði töluvert hærri, eða um 12.000 börn. Gert er ráð fyrir að framkvæmd úrræðisins verði á hendi sveitarfélaga. Samráð skal haft við fulltrúa félagsþjónustu, íþróttafélaga og aðra þá aðila sem málið varðar um ráðstöfun fjármagnsins.
    Meiri hlutinn bendir á að mikilvægt er að aðgerðin nái til allra barna á tekjulágum heimilum, óháð því hvaðan tekjur heimilis koma, þ.m.t. vegna endurhæfingarlífeyris, ellilífeyris eða fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga.
    Hætt er við að neyslu- og fíknivandi aukist í samfélaginu vegna áhrifa COVID-19 m.a. á efnahag fólks og atvinnu. Mikilvægt er að innleiða skimun og samhæfða meðferðarnálgun við þessum vanda. Lögð er áhersla á að skimun fyrir áfengis-, fíkniefna- og lyfjavanda fari fram í heilsugæslu. Innleiða þarf skimun fyrir þessum vanda og þróa meðferðarúrræði í heilsugæslu, hjá geðheilsuteymum og í heimahjúkrun.
    Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar leiðir faglega þróun og stýrir samhæfingu heilsugæslunnar í landinu. Þá er einnig mikilvægt að tryggja sem fyrst að nauðsynleg meðferðarúrræði séu í boði. Því er lagt til að Sjúkratryggingum Íslands verði gert að semja um styrkingu göngudeildarþjónustu og vinna á biðlistum hjá SÁÁ eftir áfengismeðferð sem hafa myndast vegna faraldursins. Til þessa verkefnis verði bætt við 30 millj. kr.
    Meiri hlutinn bendir á að ein afleiðing COVID-19-faraldursins er einangrun fatlaðs fólks sem þurft hefur að sæta skertri þjónustu eða haldið sig til hlés vegna eigin aðstæðna eða aðstæðna í samfélaginu. Fjölmargir staðir á landinu bjóða upp á starfsendurhæfingu eða vinnu og virkni fyrir fatlað fólk og eiga sumir þeirra, t.d. þeir sem að hluta byggja rekstur sinn á sölu varnings eða vinnu, í erfiðleikum með að halda uppi starfsemi vegna afleiðinga COVID-19.
    Mikilvægt er í ljósi framangreinds að í kjölfar COVID-19-faraldursins verði sett fjármagn og áhersla lögð á að tryggja að möguleikar fatlaðs fólks á hæfingu, starfsþjálfun og verndaðri vinnu verði ekki skertir sökum faraldursins og afleiðinga hans.
    Meiri hlutinn gerir því tillögu um 100 millj. kr. fjárveitingu til þess að tryggja sérstakan tímabundinn viðbótarstuðning við aðila sem slíkri þjónustu sinna.
    Fulltrúar sveitarfélaga bentu m.a. á að niðursveiflan leiðir bæði til lækkunar tekna og aukinna útgjalda þeirra eins og hjá ríkissjóði. Þá lækka framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem þau eru hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs. Fjárhagsstaða sveitarfélaga er þó mjög misjöfn og fer mikið eftir samsetningu og vægi atvinnugreina í tekjuöflun sveitarfélaganna.
    Sveitarfélögin eiga mikið undir aðgerðum ríkisins á fjölmörgum sviðum og óvissa um aðgerðir ríkisins á næstu mánuðum hefur í för með sér að erfitt er að meta endanleg áhrif COVID-19-kreppunnar á sveitarfélögin. Horft er til þess að greining á stöðu einstakra sveitarfélaga og landshluta muni leiða til frekari sértækra aðgerða.
    Rekstrarhalli sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks var sérstaklega ræddur, m.a. framlög ríkissjóðs til að standa undir 25% hlutdeild útgjalda til NPA-samninga. Meiri hlutinn mun beita sér sérstaklega á því sviði og sér þess stað í breytingartillögum.
    Möguleikar eru á að styrkir úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs muni hafa jákvæð áhrif á möguleika sveitarfélaga til að fara í framkvæmdir. Beinir meiri hlutinn því til sveitarfélaga að gera gangskör að því að nýta það til að bæta aðgengismál fatlaðra. Tillaga um endurgreiðslu á virðisaukaskatti er frekari útvíkkun á því ákvæði sem samþykkt var í síðustu aðgerðum stjórnvalda.
    Fulltrúar sveitarfélaga lýstu ánægju sinni með ýmsar þær aðgerðir frumvarpsins sem snúa að framlögum til umönnunar langveikra barna og styðja aðgerðir sem stuðla að virkni í atvinnuleit.
    Lögð var áhersla á að þar sem mikil óvissa er um umfang einstakra aðgerða og aðstæður geta einnig verið misjafnar milli landshluta og sveitarfélaga þá er nauðsynlegt að heimila að færa fjárveitingar á milli einstakra málaflokka og málefnasviða ef þurfa þykir þegar kemur að framkvæmdinni þannig að heimildir nýtist sem best.
    Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið.

Aðgerðir til eflingar nýsköpunar og þróunar.
    Almennt lýstu umsagnaraðilar yfir ánægju með aukið fjármagn til nýsköpunar og þróunar og þær endurgreiðslur sem fyrirhugaðar eru og koma fram í frumvarpi um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldursins. Þær aðgerðir beinast að því að efla til muna hagnýtar rannsóknir.
    Fram komu tillögur um að gæta þyrfti að grunnrannsóknum og efla þær samhliða. Það kallar á aukið framlag í rannsóknarsjóði.
    Einnig var bent á að Alþingi samþykkti þingsályktun árið 2016 um að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu að undangenginni nánari skoðun á skuldbindingum samfara aðild, ályktun 69/145. Talið er að veruleg tækifæri felist í aðildinni varðandi atvinnusköpun sem tengist rannsóknum og vísindum og beinir meiri hlutinn því til utanríkisráðuneytis og eftir atvikum mennta- og menningarmálaráðuneytis að ljúka aðildarumsókninni í samræmi við samþykkt Alþingis þann 13. október 2016.
    Við nánari skoðun á tillögu frumvarpsins um 1.150 millj. kr. gjaldaheimild vegna framlags til Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs er lagt til að framlagið færist sem eiginfjárframlag í sjóðinn og þar með í gegnum sjóðstreymi ríkissjóðs í stað þess að gjaldfærast.
    Meiri hlutinn gerir breytingartillögu vegna þessa með því að leggja til að gjaldaheimildin falli niður en þess í stað komi ný heimildagrein, 7.35, þar sem heimilt verði að veita allt að 1.150 millj. kr. framlag til Kríu, sem er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins sem fjárfestir í sérhæfðum sjóðum sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Efnahagsleg viðspyrna.
    Við þær aðstæður sem nú eru uppi er viðspyrna atvinnulífs og aukin skilvirkni hins opinbera grunnforsenda áframhaldandi velferðar. Í ljósi þess hve mikið er í húfi, einkum vegna meira atvinnuleysis en dæmi eru um í 100 ár, ætti forgangsatriði stjórnvalda að vera að beinast að því að draga eins hratt og kostur er úr atvinnuleysi. Forgangsverkefnið er því að efla útflutning á ný og atvinnulífið í heild.
    Nýlega hafa verið samþykktar þingsályktanir um mótun klasastefnu (nr. 27/150) og aðgengi að stafrænum smiðjum (nr. 19/148). Báðar fjalla um eflingu nýsköpunar um allt land og báðar bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til þess að takast á við það efnahagsástand sem við komum til með að glíma við á næstu árum. Það þarf nýsköpunaraðstöðu út um allt land þar sem bæði opinberi og almenni geirinn geta komið saman og nýtt þau tækifæri sem eru til staðar. Þar er hægt að horfa til Blábankans á Þingeyri eða vísindagarðanna í Vatnsmýrinni. Til þess að nýta það nýsköpunarfjármagn og stemma stigu við auknu atvinnuleysi væri eðlilegt að stíga ákveðin skref í áttina að þessum tveimur þingsályktunum. Það þarf að byggja upp aðstöðu um allt land þar sem fólk getur komið saman, fyrirtæki og einstaklingar, og notað þá aðstöðu sem er aðgengileg í nærsamfélaginu til þess að gera meira og betra. Það er lykilatriðið í endurreisn samfélagsins eftir COVID-19 og uppbyggingu til framtíðar.
    Í þessu sambandi er einnig rétt að hafa í huga að afkoma ríkissjóðs mun versna verulega á yfirstandandi ári. Meiri hlutinn minnir á að ekki hefur verið dregið úr umfangi gildandi fjárlaga og allar aðgerðir stjórnvalda til varna og viðspyrnu bætast þar við. Það mun að öllu jöfnu leiða til kröftugrar sveiflujöfnunar.
    Verkefni næstu ára, þ.m.t. í tengslum við fjármálaáætlun til fimm ára, verður að miklu leyti að snúast um það verkefni að draga úr hallanum og koma aftur á jafnvægi í tekjum og gjöldum hins opinbera.

Skilvirkni stjórnkerfisins.
    Skilvirkni stjórnkerfisins til að hrinda af stað aðgerðum og framkvæmdum til efnahagslegrar viðspyrnu verður að vera í forgangi. Langur afgreiðslutími og málsmeðferðartími getur tafið. Hér er ekki átt við að gefa eigi afslátt af gildandi lögum reglum – heldur áherslu á að við lögbundinn afgreiðslutíma verði staðið. Það getur skipt verulegu máli til að flýta atvinnu- og verðmætaskapandi framkvæmdum.
     Áhrif af völdum þess ástands sem aðgerðir til varnar heilsu fólks hafa leitt fram eru margvísleg og hafa opnað fyrir möguleika á miklum breytingum á fjölmörgum sviðum samfélagsins og ekki síst hins opinbera. Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa á skömmum tíma gjörbreytt starfsemi sinni og jafnvel vistun verkefna. Í því geta falist mikil verðmæti sem fylgja má eftir með markvissum aðgerðum til aukinnar skilvirkni stjórnsýslu. Einn grunnur þess er að Ísland er í raun vel undirbúið undir slíkar breytingar. Með markvissum aðgerðum undanfarin ár hefur ríkisvaldið stutt við markaðsfyrirtæki í uppbyggingu á öflugum fjarskiptum. Gæði fjarskipta hafa í raun verið lykill að því að þær aðgerðir sem grípa þurfti til dugðu til að margir þættir samfélagsins héldust gangandi.
    Með hliðsjón af þessu eru því aðgerðir ríkisstjórnarinnar um nýsköpun og rannsóknir þýðingarmikill áfangi í að sækja enn fram – ekki síst efling menntunar og þróun sem styðja við sókn á grunni fjórðu iðnbyltingarinnar.
    Setja má margar af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þann flokk að skapi grunn að kröftugri viðspyrnu. Þá eru önnur tækifæri sem meiri hlutinn beinir til ríkisstjórnarinnar að vinna markvisst að og nefnir í því sambandi endurskoðun á starfsumhverfi kvikmyndagerðar. Aukinn áhugi er á að koma með stór kvikmyndaverkefni til landsins. Í því geta falist eftirsóknarverð tækifæri til viðspyrnu, ekki aðeins að slík verkefni gætu haft mjög jákvæð áhrif á atvinnulíf – heldur ekki síst á almenna landkynningu.

Uppsöfnuð útgjöld vegna faraldursins.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að í frumvarpinu er ekki að finna beiðnir um útgjaldaheimildir vegna stóraukinna rekstrar- og tilfærsluútgjalda ríkisins í tengslum við heimsfaraldurinn. Þar munar langmest um gjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna hlutabótaleiðarinnar og einnig vegna fjölda fólks sem hefur verið sagt upp störfum á sl. vikum nú þegar stjórnvöld hafa lýst því yfir að ríkissjóður greiði laun í uppsagnarfresti.
    Nefndin hefur kallað eftir margvíslegum upplýsingum frá ráðuneytum og kallað fulltrúa þeirra á fundi nefndarinnar. Meðal þess sem þar kom fram um COVID-19 tengdan rekstrarkostnað heilbrigðiskerfisins sem af er árinu er að hann nemur um 3,5 milljörðum kr. og þar af eru 2,6 milljarðar kr. hjá Landspítalanum.
    Meiri hlutinn beinir því til stjórnvalda að kalla eftir nauðsynlegum útgjaldaheimildum jafnóðum og þörf er á. Það má gera samhliða frekari aðgerðum vegna efnahagsáfallsins.

Breytingartillögur við sundurliðun 1, fjárheimildir málefnasviða eftir málaflokkum og ráðuneytum.
    Meiri hlutinn gerir nokkrar breytingartillögur við sundurliðun 1 sem hafa samsvarandi áhrif á 1. og 2. gr.

Málaflokkur 07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum.
    Gerð er tillaga um 200 millj. kr. einskiptisframlag í Rannsóknasjóð sem ætlað er að efla enn frekar fjármögnun til vísindafólks bæði í grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum. Með þessari tillögu er samtals búið að bæta 775 millj. kr. á fjárlög ársins til Rannsóknasjóðs sem leiðir til nær þriðjungshækkunar frá fjárlögum eða 31%.

Málaflokkur 07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar.
    Gerð er tillaga um að fella niður 1.150 millj. kr. gjaldfært framlag til Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs. Þess í stað færist framlagið sem eiginfjárframlag í gegnum sjóðstreymi ríkissjóðs og er gerð tillaga um heimild til að ráðstafa framlaginu í breytingartillögu við 3. gr. frumvarpsins.

Málaflokkur 25.20 Endurhæfingarþjónusta.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. einskiptisframlag til starfsemi SÁÁ. Sjálfsaflafé samtakanna hefur nær alveg fallið niður sökum faraldursins. Mikilvægt er að tryggja sem fyrst að nauðsynleg meðferðarúrræði séu í boði. Því er lagt til að Sjúkratryggingum Íslands verði gert að semja um styrkingu göngudeildarþjónustu og vinna á biðlistum eftir áfengismeðferð sem hafa myndast vegna faraldursins.

Málaflokkur 27.3 Málefni fatlaðs fólks.
    Gerð er tillaga um 157 millj. kr. einskiptisframlag til að fullfjármagna hlutdeild ríkissjóðs vegna fyrirliggjandi samninga sveitarfélaganna um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlaða einstaklinga (NPA). Fjöldi NPA-samninga við árslok 2019 var 87 talsins og komið hefur í ljós að samningar þeir sem sveitarfélögin hafa gert og ríkið greitt 25% hlutdeild í hafa reynst verulega kostnaðarsamari en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Af þeim sökum er gerð þessi tillaga um 157 millj. kr. hækkun sem fullfjármagnar hlutdeild ríkisjóðs í samningunum.

Málaflokkur 30.10 Vinnumál og atvinnuleysi.
    Gerð er tillaga um 100 millj. kr. einskiptisframlag til að gera ráðuneytinu kleift að tryggja að starfsemi verndaðra vinnustaða skerðist ekki sökum faraldursins og afleiðinga hans.

Málaflokkur 32.40 Stjórnsýsla félagsmála.
    Gerð er tillaga um 25 millj. kr. einskiptisframlag í því skyni að gera félagsmálaráðuneytinu kleift að styrkja sérstaklega þau félagasamtök sem styðja við viðkvæma hópa í samfélaginu og finna fyrir aukinni eftirspurn í kjölfar heimsfaraldursins. Til að mynda er mikil eftirspurn eftir aðstoð hjálparstofnana sem sjá um matarúthlutanir og kallað hefur verið eftir auknu fjármagni til að bregðast við því, m.a. í samvinnu við félagsþjónustu sveitarfélaga og hjálparsamtök.

Eftirtaldar breytingar verða á 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020.
    Gerð er tillaga um viðbót við textann í tölulið 7.33 í 3. gr. um heimildir. Aftast við málsliðinn bætist: Heimildin verður ekki nýtt nema frumvarp til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru verði samþykkt á Alþingi.
    Gerð er tillaga um að við bætist töluliður 7.34, svohljóðandi: Að veita allt að 1.150 millj. kr. framlag til Kríu, sem er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins, sem fjárfestir í sérhæfðum sjóðum sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Fyrirvarar nefndarmanna.
    Birgir Þórarinsson og Inga Sæland skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Gerð verður grein fyrir fyrirvörum þeirra í þessum kafla.

Birgir Þórarinsson.

    Miðflokkurinn hefur frá upphafi þeirra efnahagslegu hamfara sem nú ganga yfir þjóðina vegna veirufaraldursins lagt áherslu á að gripið yrði tímanlega til stórra og almennra aðgerða svo að lágmarka megi það efnahagslega tjón sem við stöndum frammi fyrir. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að grípa til margra takmarkaðra aðgerða sem gerir það erfiðara nú en áður að ná því skjóli fyrir atvinnulífið og heimilin sem nauðsynlegt er. Miðflokkurinn hefur á fyrri stigum, í samstarfi við minni hluta nefndarinnar, lagt fram breytingartillögur sem allar hafa verið felldar af ríkisstjórnarflokkunum. Auk þess hefur flokkurinn birt í fjölmiðlum fjölmargar tillögur og ábendingar ásamt því að senda forsætisráðuneytinu tillögur líkt og óskað var eftir.
    Starfið innan fjárlaganefndar hefur verið viðamikið á þessum fordæmalausu tímum og hefur Miðflokkurinn lagt fram tillögur ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum um aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í.
    Þrátt fyrir fögur fyrirheit og góðan vilja á vettvangi fjárlaganefndar um aðkomu minni hlutans að tillögugerðinni hefur sú ekki orðið raunin í verulegum mæli. Verður ekki annað séð en orsaka þessa sé að leita í andstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Sé það raunin, er um óeðlileg afskipti framkvæmdarvaldsins af fjárveitingavaldinu að ræða. Vekur það upp spurningar um hvert raunverulegt hlutverk Alþingis er í þessum grundvallarstörfum lýðræðislega kjörinna fulltrúa.
    Ofanritaður telur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í frumvarpi þessu gangi ekki nógu langt til að mæta brýnni þörf fyrir nauðsynleg úrræði á þessum erfiðum tímum, fyrir heimili og atvinnufyrirtæki landsmanna. Mun ég því leggja fram eigin breytingartillögu auk breytingartillagna í samstarfi við aðra þingmenn.

Inga Sæland.

    Enda þótt breytingartillögur meiri hlutans séu um margt jákvæðar þá ganga þær ekki nógu langt í að tryggja stuðning við viðkvæmustu þjóðfélagshópana, almannatryggingaþega, atvinnulausa og fátækar fjölskyldur.
    Fólk sem bjó við fátækt fyrir COVID-19-heimsfaraldurinn er ekki nefnt á nafn í þessum svokölluðu björgunarpökkum ríkisstjórnarinnar. Þessi þjóðfélagshópur hefur rétt eins og aðrir orðið fyrir tekjumissi og útgjaldaaukningu vegna faraldursins. Stjórnarflokkarnir neita að framlengja uppbót á örorkulífeyri eða að veita sams konar úrræði fyrir ellilífeyrisþega. Eigi að síður finna þeir til fjármuni handa einkareknum fjölmiðlum í eigu auðmanna með bein tengsl við stjórnmálaflokka.
    Þá er í nefndarálitinu gert ráð fyrir fjárframlögum til SÁÁ gegn því að samið verði um ráðstöfun þeirra við Sjúkratryggingar Íslands. Hér er um einskiptisaðgerð að ræða sem hugsuð er til að mæta hluta af því tekjutapi sem samtökin hafa orðið fyrir vegna COVID-19-faraldursins. Því er afar mikilvægt að greiðslan berist strax og milliliðalaust svo ekki verði um skerðingu á þjónustunni að ræða.
    Nauðsynlegt er að styrkja enn frekar við hjálparsamtök umfram þær 25 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í nefndarálitinu. Miðað við þau hundruð milljarða króna sem setja á í björgunaraðgerðir er ótrúlegt að ekki skuli vera gert ráð fyrir því að gefa svöngum að borða. Nefna má Fjölskylduhjálp Íslands í því sambandi sem vinnur nú þrekvirki á hverjum virkum degi með matargjöfum. Við verðum að tryggja að allir þeir sem gefa fólki mat geti starfað af fullum krafti á meðan við göngum í gegnum þennan dimma dal.
    Þá er dapurlegt að sjá að ríkisstjórnin ætlar ekki að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir stórfelldar hækkanir á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Á þessum óvissutímum er nauðsynlegt að setja 2,5% þak á vísitölu neysluverðs, ellegar er hætta á að fjöldi landsmanna missi heimili sitt líkt og gerðist hér í kjölfar efnahagshrunsins 2008.

    Björn Leví Gunnarsson skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu.
    Jón Steindór Valdimarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður tillögur sem fram koma í álitinu en telur þær alls ekki ganga nógu langt til að takast á við þann vanda sem við er að fást. Staða efnahagsmála er erfið og óvissa mikil. Við þær aðstæður er mikilvægt að grípa til aðgerða til skemmri tíma til að draga úr tjóni og örva umsvif í hagkerfinu. Ekki er síður mikilvægt að taka djarfar stefnumótandi ákvarðanir sem hafa áhrif til lengri tíma og skjóta styrkari og fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Það má öllum vera ljóst að efnahagsáföll okkar Íslendinga eru tíðari og alvarlegri vegna þess að við treystum á fáar greinar sem eru viðkvæmar fyrir ytri aðstæðum. Breytingartillögur verða því lagðar fram sem styðja þessi markmið.

    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 6. maí 2020.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Inga Sæland,
með fyrirvara.
Birgir Þórarinsson,
með fyrirvara.
Björn Leví Gunnarsson,
með fyrirvara.
Njáll Trausti Friðbertsson.
Páll Magnússon. Steinunn Þóra Árnadóttir.