Ferill 840. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1486  —  840. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991 (samkomudagur reglulegs Alþingis 2020).

Flm.: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 1. gr. skal reglulegt Alþingi 2020, 151. löggjafarþing, koma saman fimmtudaginn 1. október, sbr. 35. gr. stjórnarskrárinnar. Sama dag lýkur 150. löggjafarþingi sem var sett 10. september 2019.
    151. löggjafarþing skal standa fram til samkomudags reglulegs Alþingis 2021, annars þriðjudags septembermánaðar það ár, sbr. 4. mgr. 1. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að samkomudagur reglulegs Alþingis haustið 2020, 151. löggjafarþings, verði ekki annar þriðjudagur í september (8. september), eins og þingskapalög kveða á um, heldur fimmtudagurinn 1. október. Er það gert til þess að betra ráðrúm fáist til þess að undirbúa nauðsynlegar breytingar á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og til að ganga frá fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 til framlagningar á Alþingi sem og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Stefnt er að því að þessi þrjú þingmál ríkisstjórnarinnar verði lögð fram samhliða á þingsetningarfundi 1. október 2020, sem og frumvörp til skattalagabreytinga og annarra ráðstafana í ríkisfjármálum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis. Ber að skoða frumvarp þetta í samhengi við frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum um opinber fjármál, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi, þar sem óskað er heimildar til að víkja frá tímafresti þeirra laga vegna nauðsynlegrar endurskoðunar á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og framlagningar fjármálaáætlunar á Alþingi.
    Efnahagsleg óvissa vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar er slík um þessar mundir að ekki er talið ráðlegt að leggja fram endurskoðaða fjármálastefnu og fjármálaáætlun á fyrri hluta ársins. Miðar frumvarpið að því að veita ríkisstjórn og Alþingi nauðsynlegt svigrúm til að aðlaga stefnu og áætlun í ríkisfjármálum að gerbreyttum efnahagslegum veruleika enda má ætla að skýrari mynd fáist af því á komandi mánuðum hversu umfangsmikil og langvinn hin efnahagslegu áhrif verða.
    Í 1. mgr. 35. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að reglulegt Alþingi skuli koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er og standi til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið.
Í 2. mgr. ákvæðisins er löggjafanum veitt heimild til að breyta þeirri dagsetningu með lögum. Svo var gert með lögum nr. 84/2011, um breytingu á lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis (nefndaskipan, eftirlitshlutverk Alþingis o.fl.), og var samkomudagurinn þá ákveðinn annar þriðjudagur í september ár hvert.
    Samkomudagur Alþingis hefur tvívegis verið fluttur til bráðabirgða eftir 1991 þegar gildandi ákvæði stjórnarskrárinnar um samkomudaginn var sett, annars vegar árið 2013 og hins vegar árið 1992. Árið 2013 var samkomudeginum frestað til þess að betra ráðrúm fengist til þess að undirbúa fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 og frumvörp um skattalagabreytingar og aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Árið 1992 var samkomudeginum hins vegar flýtt til 17. ágúst (í stað 1. október) til þess að skapa betra rými á haustþingi til umræðna um EES-samninginn sem síðan var endanlega samþykktur í janúar 1993. Frumvarp þetta er samið með hliðsjón af framangreindum lagabreytingum.
    Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við forseta Alþingis og formenn flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi.