Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1702, 150. löggjafarþing 839. mál: ferðagjöf.
Lög nr. 54 16. júní 2020.

Lög um ferðagjöf.


1. gr.

     Ferðagjöf er stafræn 5.000 kr. inneign útgefin af stjórnvöldum til einstaklinga 18 ára eða eldri með íslenska kennitölu og með skráð lögheimili á Íslandi.
     Einstaklingur getur notað ferðagjöf til greiðslu hjá fyrirtækjum sem uppfylla eitt af eftirfarandi skilyrðum og hafa starfsstöð á Íslandi:
  1. Fyrirtækjum með gilt leyfi Ferðamálastofu skv. III. kafla laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018.
  2. Fyrirtækjum með gilt rekstrarleyfi skv. 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
  3. Fyrirtækjum með gilt starfsleyfi frá viðeigandi heilbrigðisnefnd sem hefur verið gefið út fyrir veitingastað í flokki I, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
  4. Ökutækjaleigum með gilt starfsleyfi frá Samgöngustofu skv. 1. mgr. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.
  5. Söfnum og fyrirtækjum sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru.

     Einstaklingi er heimilt að gefa eigin ferðagjöf.
     Einstaklingur getur að hámarki greitt með 15 ferðagjöfum.
     Gildistími ferðagjafar er frá útgáfudegi til og með 31. desember 2020.

2. gr.

     Ferðagjöf er undanþegin skattskyldu skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

3. gr.

     Hvert fyrirtæki getur að hámarki tekið við samanlagt 100 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa.
     Fyrirtæki sem metið var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 getur að hámarki tekið við samanlagt 25 millj. kr. greiðslu í formi ferðagjafa.

4. gr.

     Ferðamálastofa hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. júní 2020.