Ferill 960. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1870  —  960. mál.
Viðbót.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og þinglýsingalögum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


I. KAFLI
Breyting á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020.
1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Rekstraraðili getur fengið allt að fjögur stuðningslán.

2. gr.

    Á undan tilvísuninni „10. gr.“ í 4. mgr. 12. gr. laganna kemur: 1. mgr.

3. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó má nýta stuðningslán til að borga af eða endurfjármagna lán sem rekstraraðili hefur fengið eftir lok febrúar 2020 til að standa straum af rekstrarkostnaði.

II. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, með síðari breytingum.
4. gr.

    Í stað orðanna „á skipulegan markað“ í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: í verðbréfamiðstöð.

III. KAFLI
Breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, með síðari breytingum.
5. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. september 2020“ í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: 1. janúar 2021.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

Lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, er varða stuðningslán. Annars vegar er lagt til að hver rekstraraðili geti að hámarki fengið fjögur stuðningslán. Nokkur umsýsla fylgir því að veita og halda utan um hvert stuðningslán og ekki er ætlunin að unnt verði að nýta þau sem ígildi yfirdráttar eða lánalínu. Talið er unnt að girða fyrir það, en um leið tryggja að úrræðið verði áfram sveigjanlegt og að rekstraraðilum verði ekki ýtt út í að sækja strax um hámarksfjárhæð lána, með því að heimila hverjum rekstraraðila að fá allt að fjögur stuðningslán. Samanlögð fjárhæð stuðningslána til hvers rekstraraðila má þó ekki verða hærri en leiðir af 11. gr. laganna.
    Hins vegar er lagt til að unnt verði að nýta stuðningslán til að greiða af eða inn á lán sem rekstraraðili hefur fengið eftir lok febrúar 2020 til að standa straum af rekstrarkostnaði. Samkvæmt gildandi lögum má aðeins nýta stuðningslán til að standa undir rekstrarkostnaði lánþega. Til rekstrarkostnaðar teljast vextir af skuldum, þ.m.t. dráttarvextir, lántökukostnaður, verðbætur og annar kostnaður af lánum, en ekki afborganir eða uppgreiðsla höfuðstóls. Sú afmörkun samræmist því að tilgangur stuðningslána er að aðstoða rekstraraðila við að standa undir kostnaði við að viðhalda rekstri til skamms tíma en ekki að endurfjármagna eldri lán á hagstæðari kjörum. Aftur á móti hefur verið bent á að margir rekstraraðilar hafa síðustu vikur þurft að taka lán til að mæta tekjumissi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á meðan stuðningslán hafa ekki enn staðið þeim til boða. Þar sem þau lán gegna í reynd sama hlutverki og stuðningslán er lagt til að unnt verði að nýta stuðningslán til að greiða af eða inn á þau. Heimildin nær aðeins til lána sem tekin hafa verið til að standa undir rekstrarkostnaði. Ekki má því til dæmis nýta stuðningslán til að greiða upp lán sem tekið hefur verið eftir lok febrúar 2020 til að endurfjármagna eldra lán, enda telst það ekki til rekstrarkostnaðar.

Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
    Með frumvarpinu er jafnframt lögð til breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996. Við meðferð nefndarinnar á frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (450. mál á yfirstandandi löggjafarþingi) lagði meiri hluti nefndarinnar til að bætt yrði við frumvarpið breytingu á 2. mgr. 3. gr. laganna um að afdráttarskylda staðgreiðslu af arði hvíldi á fjármálafyrirtæki þegar hlutabréf sem arður væri greiddur af væri í vörslu innlends fjármálafyrirtækis vegna rafrænnar skráningar á skipulegan markað. Nefndinni hefur verið bent á að misskilnings gæti í textanum um rafræna skráningu á skipulegan markað og að átt sé við rafræna skráningu hlutabréfa í verðbréfamiðstöð. Leggur nefndin til að ákvæðið verði leiðrétt að þessu leyti.

Þinglýsingalög.
    Með 16. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, var ákvæði til bráðabirgða bætt við þinglýsingalög þess efnis að viðaukar við veðbréf sem eingöngu kvæðu á um greiðslufrest skuldara skyldu öðlast sömu réttaráhrif og hefði þeim verið þinglýst. Ákvæðinu var bætt við frumvarpið sem varð að lögum nr. 25/2020 að tillögu nefndarinnar og í tengslum við samkomulag lánveitenda um tímabundinn greiðslufrest á lánum til fyrirtækja og einstaklinga. Ákvæðið gildir til 1. september næstkomandi. Nefndin hefur verið upplýst um að vilji sé til að framlengja samkomulag lánveitenda um greiðslufresti. Samhliða því er ástæða til að framlengja gildistíma bráðabirgðaákvæðisins og er lagt til að hann verði ákveðinn til áramóta.