Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1420, 150. löggjafarþing 725. mál: fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Lög nr. 38 20. maí 2020.

Lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki um stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.

3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
 1. Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi: Starfsemi aðila sem greiðir laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráður á launagreiðendaskrá, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
 2. Launamaður: Launamaður skv. 1. eða 2. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
 3. Lokunarstyrkur: Fjárframlag úr ríkissjóði skv. II. kafla.
 4. Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara skv. 1. gr.
 5. Rekstrarkostnaður: Rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna.
 6. Stuðningslán: Lán með ábyrgð ríkissjóðs skv. III. kafla.
 7. Tekjur: Skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu rekstrareigna.
 8. Varanlegur miðill: Tæki sem gerir neytanda kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans, óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í hæfilegan tíma, svo sem netbanki lánastofnunar.


II. KAFLI
Lokunarstyrkur.

4. gr.

Skilyrði.
     Rekstraraðili sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði á rétt á lokunarstyrk úr ríkissjóði:
 1. Honum var gert skylt að loka samkomustað skv. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 243/2020, eða láta af starfsemi eða þjónustu skv. 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.
 2. Tekjur hans í apríl 2020 voru a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans í apríl 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 30 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
 3. Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 voru a.m.k. 4,2 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
 4. Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög nr. 82/2019.
 5. Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.


5. gr.

Fjárhæð.
     Fjárhæð lokunarstyrks skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila tímabilið 24. mars til 3. maí 2020. Lokunarstyrkur getur þó ekki orðið hærri en 800 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í febrúar 2020, þó að hámarki 2,4 millj. kr. á hvern rekstraraðila.
     Lokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.

6. gr.

Umsókn.
     Umsókn um lokunarstyrk skal beint til Skattsins eigi síðar en 1. september 2020. Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem Skatturinn ákveður.
     Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

7. gr.

Ákvörðun.
     Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
     Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um umsókn getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til lokunarstyrks. Skatturinn getur leitað umsagnar ráðherra sem fer með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúta að skilyrðum 1. tölul. 4. gr.
     Skatturinn skal endurákvarða lokunarstyrk komi í ljós að rekstraraðili átti ekki rétt á styrknum eða átti rétt á hærri eða lægri styrk en hann fékk greiddan.
     Að því leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í lögum þessum gilda ákvæði 94., 95., 96. og 97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eftir því sem við getur átt um afgreiðslu umsókna og endurákvarðanir Skattsins.

8. gr.

Málskot.
     Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins samkvæmt lögum þessum sæta kæru til yfirskattanefndar. Um kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd. Yfirskattanefnd getur leitað umsagnar ráðherra sem fer með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúta að skilyrðum 1. tölul. 4. gr.

9. gr.

Ofgreiðsla.
     Hafi aðili fengið lokunarstyrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins.
     Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um styrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef aðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn. Telji Skatturinn að háttsemi rekstraraðila geti varðað sektum eða fangelsi skal hann ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu.
     Ákvarðanir Skattsins og úrskurðir yfirskattanefndar um endurgreiðslur ofgreiddra lokunarstyrkja eru aðfararhæfir. Kæra til yfirskattanefndar eða málshöfðun fyrir dómstólum frestar aðför.

III. KAFLI
Stuðningslán.

10. gr.

Skilyrði.
     Ríkissjóður ábyrgist, eftir því sem nánar greinir í 2. mgr. 11. gr., stuðningslán sem lánastofnun sem hefur samið við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 20. gr. veitir fyrir lok árs 2020 til rekstraraðila sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:
 1. Tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili frá 1. mars til 30. september 2020 voru, eða fyrirséð er að þau verði, a.m.k. 40% lægri en á sama 60 daga tímabili 2019. Hafi hann hafið starfsemi svo seint að ekki er unnt að bera saman tekjur hans á sama 60 daga tímabili bæði ár skulu tekjur hans á 60 daga samfelldu tímabili 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 60 dögum frá því að hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
 2. Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 voru að lágmarki 9 millj. kr. og að hámarki 1.200 millj. kr. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
 3. Launakostnaður hans á rekstrarárinu 2019 var a.m.k. 10% af rekstrarkostnaði hans sama ár. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna launa- og rekstrarkostnað þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
 4. Hann hefur ekki greitt út arð eða óumsamda kaupauka, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eigendum eða nákomnum aðilum lán eða aðrar greiðslur sem eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda rekstri og rekstrarhæfi rekstraraðilans frá 1. mars 2020 og skuldbindur sig til að svo verði ekki þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við. Hugtakið nákominn aðili skal túlkað til samræmis við 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
 5. Hann er ekki í vanskilum við lánastofnun sem hafa staðið lengur en 90 daga.
 6. Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög nr. 82/2019, og staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum.
 7. Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.
 8. Hann uppfyllir hlutlæg viðmið sem ráðherra skilgreinir í reglugerð og gefa tilefni til að ætla að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru eru liðin hjá.


11. gr.

Fjárhæð.
     Stuðningslán getur numið allt að 10% af tekjum rekstraraðila á rekstrarárinu 2019. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll. Stuðningslán getur þó ekki orðið hærra en 40 millj. kr.
     Ríkissjóður ábyrgist að fullu stuðningslán að 10 millj. kr. til hvers rekstraraðila og vexti skv. 17. gr. af því. Ríkissjóður ábyrgist 85% af þeirri fjárhæð stuðningsláns til tiltekins rekstraraðila sem er umfram 10 millj. kr. og af vöxtum skv. 17. gr. af henni.

12. gr.

Umsókn.
     Umsókn um stuðningslán skal beint, í gegnum miðlæga þjónustugátt á vefnum, til lánastofnunar sem hefur samið við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 20. gr.
     Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 10. gr., eftir atvikum eins og þau kunna að verða útfærð í reglugerð ráðherra, að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 11. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.
     Ríkisábyrgð skv. 10. og 11. gr. heldur gildi sínu gagnvart lánveitanda þótt í ljós komi að stuðningslán hafi verið veitt án þess að öll skilyrði fyrir ríkisábyrgð hafi verið uppfyllt enda liggi fyrir staðfesting skv. 2. mgr. og að ekki verði sýnt fram á að lánveitandi hafi bersýnilega mátt ætla að umsókn byggðist á ófullnægjandi upplýsingum.
     Þrátt fyrir 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er Skattinum heimilt, samkvæmt beiðni umsjónaraðila miðlægrar þjónustugáttar skv. 1. mgr. og lánastofnunar sem hefur samið við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 20. gr., að miðla tiltækum upplýsingum sem eru nauðsynlegar skv. 2., 3., 6. og 7. tölul. 10. gr. til að meta hvort umsækjandi um stuðningslán uppfylli skilyrði fyrir lánveitingu og hvert hámark hennar geti orðið. Umsjónaraðilinn og lánastofnunin eru bundin þagnarskyldu um veittar upplýsingar og er óheimilt að nýta þær í öðrum tilgangi. Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að honum sé kunnugt um að Skatturinn kunni að veita upplýsingar á þessum grundvelli og um úrvinnslu þeirra.

13. gr.

Afgreiðsla.
     Lánastofnun afgreiðir stuðningslán að 10 millj. kr. til rekstraraðila sem fullnægir skilyrðum 10. gr. og ákvarðar fjárhæð þess í samræmi við 11. gr. Lánastofnun er heimilt að veita rekstraraðila hærra stuðningslán ef það samræmist 10. og 11. gr. og, eftir atvikum, viðmiðum sem lánastofnun setur um veitingu slíkra lána á grundvelli samnings við Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 20. gr.
     Lánstími stuðningslána skal að lágmarki vera 30 mánuðir. Nánar skal kveðið á um lánstíma stuðningslána í reglugerð.

14. gr.

Rafræn skuldabréf, rafræn undirritun og frumrit.
     Skuldabréf vegna stuðningsláns geta verið rafræn og skulu þau þá undirrituð með fullgildri rafrænni undirskrift samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum og um niðurfellingu á tilskipun 1999/93/EB, sbr. lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019.
     Hafi skuldabréf skv. 1. mgr. verið undirritað með fullgildri rafrænni undirskrift skal ekki gera kröfu um vottun á undirskrift og fjárræði þeirra sem undirrita og á dagsetningu undirritunar.
     Rafrænt skuldabréf vegna stuðningsláns sem undirritað hefur verið með fullgildri rafrænni undirskrift skal teljast uppfylla áskilnað í öðrum lögum um frumrit skuldabréfs. Þá skal rafræn móttaka slíks rafræns skuldabréfs teljast uppfylla áskilnað í öðrum lögum um framlagningu frumrits skuldabréfs. Þetta á við þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. 37. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

15. gr.

Kvittanir, fullnaðargreiðsla og framsal.
     Lánastofnun skal tryggja að rekstraraðili sem fengið hefur stuðningslán hafi aðgang að rafrænum kvittunum fyrir afborgunum og uppfærðum upplýsingum um eftirstöðvar og greiðslusögu lánsins á varanlegum miðli.
     Þegar rafrænt skuldabréf vegna stuðningsláns er að fullu greitt skal lánastofnun staðfesta það með fullgildri rafrænni undirskrift á skuldabréfið og í kjölfarið afhenda rekstraraðila það á varanlegum miðli. Lánastofnun skal jafnframt varðveita rafræna skuldabréfið í að a.m.k. sjö ár frá því að það er að fullu greitt.
     Sé rafrænt skuldabréf vegna stuðningsláns framselt skal framsalið áritað á skuldabréfið og staðfest með fullgildri rafrænni undirskrift. Framseljandi skal veita rekstraraðila upplýsingar um framsalið á varanlegum miðli.
     Ákvæði tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798 eiga ekki við um rafræn skuldabréf samkvæmt þessum kafla.

16. gr.

Nýting.
     Stuðningslán má aðeins nýta til að standa undir rekstrarkostnaði lánþega. Óheimilt er að nýta stuðningslán til að borga af eða endurfjármagna önnur lán.

17. gr.

Lánskjör.
     Stuðningslán er óverðtryggt og ber vexti sem eru jafnháir vöxtum af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni.
     Í samningi lánastofnunar við Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 20. gr., er heimilt að kveða á um sérstakt álag á vexti skv. 1. mgr. sé lánsfjárhæð stuðningsláns hærri en 10 millj. kr.
     Lánastofnun er heimilt að innheimta þóknun, sem skal dregin frá upphæð stuðningsláns við útborgun þess, til að standa undir kostnaði við umsýslu stuðningslána. Fjárhæð hennar skal nánar ákvörðuð í samningi Seðlabanka Íslands við lánastofnun skv. 2. mgr. 20. gr. en skal þó að hámarki vera 2% af höfuðstól stuðningsláns. Lánastofnun er ekki heimilt að taka aðra þóknun eða gjald fyrir afgreiðslu stuðningsláns.

18. gr.

Endurgreiðsla.
     Stuðningslán, að meðtöldum vöxtum, skal að jafnaði endurgreitt með 12 jöfnum greiðslum síðustu 12 mánuði lánstímans, með fyrirvara um vanefndaúrræði lánastofnunar. Lántaka er heimilt að greiða upp eða inn á stuðningslán án uppgreiðsluþóknunar hvenær sem er á lánstíma.

19. gr.

Ofgreiðsla.
     Hafi rekstraraðili fengið stuðningslán umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með áföllnum vöxtum skv. 1. mgr. 17. gr. Dráttarvextir skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan eins mánaðar frá því að lánastofnun krafði rekstraraðila um endurgreiðslu.
     Telji lánastofnun að rekstraraðili hafi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar svo að sektum eða fangelsi geti varðað skal hún kæra málið til lögreglu.

20. gr.

Samningar Seðlabanka Íslands.
     Ráðherra er heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um að annast umsýslu vegna ábyrgða ríkissjóðs á stuðningslánum, þar á meðal uppgjör ábyrgða.
     Seðlabanka Íslands er heimilt að semja við lánastofnanir um framkvæmd þeirra á stuðningslánum og samskipti þeirra við Seðlabankann, þar á meðal um uppgjör ábyrgða ríkissjóðs á lánunum og upplýsingagjöf lánastofnana til Seðlabankans. Í samningum Seðlabankans við lánastofnanir skal jafnframt fjallað um álag á vexti og þóknanir lánastofnana, sbr. 2. og 3. mgr. 17. gr.

21. gr.

Eftirlit.
     Nefnd sem ráðherra skipar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, hefur eftirlit með framkvæmd þessa kafla, þar á meðal samninga skv. 20. gr. Ákvæði 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins gilda að breyttu breytanda um eftirlit samkvæmt þessari grein.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

22. gr.

Reglugerð um minniháttaraðstoð.
     Stuðningur samkvæmt lögum þessum skal samræmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samninginn.

23. gr.

Viðurlög.
     Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögum þessum, svo sem með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um lokunarstyrk eða stuðningslán eða með því að nýta stuðningslán á ólögmætan hátt, skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum nema brot megi teljast minni háttar.

24. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð, þar á meðal um nánari útfærslu skilyrða 10. gr.

25. gr.

Lagaskil.
      Stjórnsýslulög, nr. 37/1993, upplýsingalög, nr. 140/2012, og lög um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, eiga ekki við um ákvarðanir um veitingu stuðningslána skv. III. kafla.

26. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

27. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Breyting á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
 2.      Ákvæði laga þessara gilda ekki um þær ábyrgðarskuldbindingar sem ríkissjóði er heimilt að undirgangast gagnvart lánastofnunum samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
 3. Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
 4.      Þrátt fyrir 1. mgr. 1. gr. má gera aðför til fullnustu kröfum samkvæmt rafrænu skuldabréfi vegna stuðningsláns sem undirritað hefur verið með fullgildri rafrænni undirskrift, sbr. III. kafla laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, ef berum orðum er tekið fram í ákvæðum skuldabréfsins að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar. Ekki skal gera kröfu um að undirskrift skuldara á slíkt rafrænt skuldabréf hafi verið vottuð af lögbókanda, lögmanni, löggiltum fasteignasala eða tveimur vitundarvottum.


Samþykkt á Alþingi 13. maí 2020.