Ferill 972. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 2079  —  972. mál.
Breyttur texti.

2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar).

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Annar minni hluti fagnar þeim nauðsynlegu breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu, svo sem framlengingu hlutabótaleiðar, lengingu tekjutengingar atvinnuleysisbóta, hvatningu til náms, heimild atvinnuleitenda til að stunda nám sem skipulagt er með vinnu, framlengingu launa í sóttkví og stuðningi við þá sem lenda í slysi eða veikjast og þurfa tímabundið að hverfa af vinnumarkaði. Bendir 2. minni hluti þó á að tímasetning framlagningar frumvarpsins og boðaðrar framlengingar úrræða er ófullnægjandi þar sem fólki og fyrirtækjum er nauðsynlegt að skipuleggja sig til lengri tíma. Augljóst er að með því að taka ákvörðun eftir mánaðamót um framlengingu úrræðis sem féll úr gildi um mánaðamót skapar óöryggi hjá fjölskyldum og fyrirtækjum sem þurfa að reiða sig á úrræðin. Skipulagning starfsemi í fyrirtækjum sem reiða sig á atvinnugreinar sem hafa orðið fyrir miklu höggi getur ekki átt sér stað með þeim hætti að bregðast þurfi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá degi til dags heldur er nauðsynlegt að stjórnvöld skapi eins mikið öryggi og mögulegt er til lengri framtíðar.

Breyting á atvinnuleysisbótum.
    Annar minni hluti fagnar þeirri viðleitni ríkisstjórnarinnar að lengja tekjutengt tímabil atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex en afleiðingar þess áfalls sem vinnumarkaðurinn og íslenskt samfélag í heild sinni hefur orðið fyrir munu ekki hverfa á næstu mánuðum og því verður að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að fjöldi fjölskyldna glími við fátækt í vetur. Nauðsynlegt er því að lengja tekjutengda tímabilið frekar og bendir 2. minni hluti stjórnvöldum á að hefja strax undirbúning við kostnaðarmat og greiningar á frekari framlengingu tekjutengingar atvinnuleysisbóta. 2. minni hluti bendir þar að auki á að mikið tekjufall hefur orðið hjá stórum hluta þeirra sem nú hafa misst vinnu sína, en meðallaun fyrir fullt starf eru í kringum 800.000 kr. á mánuði samkvæmt framreiknuðum tölum frá Hagstofu Íslands um laun fyrir árið 2018. Á Íslandi eru atvinnuleysisbætur áunnin réttindi launafólks til að tryggja afkomuöryggi við atvinnumissi. Fyrirkomulagið byggist á grunngildum norrænnar jafnaðarstefnu og var komið á hérlendis eftir mikla baráttu verkalýðshreyfingar og stjórnmálaflokka sem tóku slaginn fyrir almenning. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir þau heimili sem verða fyrir atvinnuleysi en atvinnuleysistryggingar eru einnig hagkvæmar út frá þjóðhagslegu sjónarmiði og hagstjórnarlegum markmiðum.
    Grunnatvinnuleysisbætur eru 289.510 kr. á mánuði sem er töluvert lægra en lægstu laun, sem nú eru 335.000 kr. Að auki eru greiddar 11.580 kr. eða 4% af grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni undir 18 ára. Með samþykkt laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 37/2020, frá 11. maí 2020, voru greiðslur með hverju barni hækkaðar í 6% til bráðabirgða til 31. desember 2020 eða í 17.371 kr.
    Atvinnuleysisbætur nema 70% af tekjum fyrir atvinnumissi en þó að hámarki 456.404 kr. á mánuði. Tekjufall þeirra sem hafa tekjur umfram 652.000 kr. er því umfram þau 30% sem lagt er upp með á tekjutengda tímabilinu. Tekjutenging bóta skiptir því litlu máli fyrir heildarmyndina ef atvinnuleysistímabil verður langt. Eftir skatt eru grunnatvinnuleysisbætur 242.700 kr. og tekjutengdar bætur 348.500 kr. Af þessum tölum má sjá að fjárhagslegt tjón einstaklings sem missir vinnuna er verulegt og hefur mikil áhrif á fjárhag heimilis hans og fjölskyldu og þar með líf og heilsu viðkomandi. Stór hluti þeirrar upphæðar sem ríkið leggur til hækkunar atvinnuleysistrygginga skilar sér beint til baka í gegnum skatta og aukin efnahagsumsvif. Augljóslega dregur sá sem þarf að framfleyta sér á atvinnuleysisbótum verulega úr neyslu sinni. Mikið og langvarandi atvinnuleysi hefur því einnig neikvæð áhrif á eftirspurn í hagkerfinu sem aftur fækkar störfum. Fátækt og neyð á heimilum er samfélaginu þannig dýr í öllum skilningi. Áhrif kreppunnar í kjölfar COVID-19-faraldursins bitnar harðast á þeim sem missa vinnuna og fjölskyldum þeirra. Til að dreifa byrðum og draga úr tekjufalli heimila landsins telur 2. minni hluti mikilvægt að hækka atvinnuleysisbætur og leggur því til að þær hækki í að minnsta kosti eitt ár. Fátækt er pólitísk ákvörðun sem stjórnvöld geta og eiga að koma í veg fyrir.

Hlutabótaleiðin.
    Annar minni hluti leggur til að hlutabótaleiðin verði framlengd til 1. júní 2021. Hlutabótaleiðin var vel heppnuð aðgerð sem fyrst og fremst gekk út á að viðhalda ráðningarsamningi þegar atvinnuleysi jókst mikið. Stjórnvöld tóku því miður þá ákvörðun síðastliðið vor að beina fyrirtækjum frekar í það úrræði að segja upp fólki með stuðningi stjórnvalda í uppsagnarfresti en að liðka til fyrir fyrirtæki að viðhalda ráðningarsambandi. 2. minni hluti varaði mjög við þeirri ákvörðun enda hefur komið í ljós að það voru dýr mistök. Fækkaði einstaklingum í hlutabótaúrræði úr rúmum 30.000 í tæplega 3.000 á tímabilinu. Stærstur hluti fyrirtækja og stofnana finnur fyrir áhrifum COVID-19-faraldursins og við stjórnun og rekstur fyrirtækja þarf að ígrunda vel hvers kyns útgjöld. Því þarf rekstraraðili að hafa góð rök fyrir því að fjölga starfsmönnum þegar þannig árar. Það að auka starfshlutfall þeirra starfsmanna sem þegar starfa hjá fyrirtækinu eða stofnuninni er því einfaldari aðgerð þar sem ráðningarsamband er þegar fyrir hendi og því skiptir máli að stjórnvöld geri allt sem hægt er til að ráðningarsamband þeirra sem enn nýta sér úrræðið haldist. 2. minni hluti vonast til þess að hagir í íslensku samfélagi hafi vænkast þegar líður á vorið 2021 og leggur því til framlengingu úrræðisins til 31. maí 2021.
    Með vísan til framangreinds eru að auki lagðar til breytingar á gildistíma 7. og 10. gr. frumvarpsins.

Greiðslur í sóttkví.
    Fyrir liggur að umsóknir um greiðslur launa í sóttkví eru umtalsvert færri en áætlað var. Kostnaðarmat með úrræðinu hljóðaði upp á 600–700 millj. kr. en ljóst er að kostnaður er mun minni eða um 190 millj. kr. Tekin var sú ákvörðun að heimila að foreldrum barna sem þurfa að sæta sóttkví að séu greidd laun í sóttkví enda nauðsynlegt að foreldrar geti annast ung börn sín. Mikil umræða skapaðist um þá foreldra langveikra og mikið fatlaðra barna sem þurfa sólarhringsþjónustu. Þau börn hafa mörg hver þurft að dvelja heima án skólaþjónustu eða annarrar daglegrar þjónustu frá því að faraldurinn hófst án þess að vera sjálf í sóttkví. Stjórnvöld mættu þeim foreldrum sem augljóslega urðu fyrir því að þurfa að vera frá vinnu allan þann tíma með því að greiða hluta umönnunargreiðslna. Fyrir nefndinni kom fram að fjárhæðin fyrir allt að þriggja mánaða fjarveru hefði verið á bilinu 25.000–33.000 kr. alls. Það er augljóst að vinnuveitendur geta ekki einir borið kostnaðinn við fjarveru starfsfólks síns í svo langan tíma né geta foreldrar langveikra og fatlaðra barna þolað tekjumissi mánuðum saman. 2. minni hluti leggur því til að heimild til greiðslu launa í sóttkví nái einnig til þeirra tilvika þegar foreldrar geta ekki sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta vegna sóttvarnaráðstafana sem leiða til skerðingar á þjónustu eða lokunar skóla barns undir 18 ára aldri sem hann hefur forsjá með en þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þó að barnið hafi ekki sætt sóttkví.

Námsmenn.
    Annar minni hluti ítrekar nauðsyn þess að stjórnvöld komi til móts við námsmenn. Allt að 70% námsmanna framfleyta sér með hlutastörfum samkvæmt könnun EUROSTUDENT en fjöldi slíkra starfa hvarf í faraldrinum án þess að stjórnvöld tækju tillit til þess og kæmu námsmönnum til aðstoðar. Vakin er athygli stjórnvalda á því að námsmönnum sem taka námslán hefur fækkað um helming á undanförnum 10 árum, oftar en ekki vegna ónógrar framfærslufjárhæðar námslána. Samfylkingin hefur áður gert tilraun til þess að fá ríkisstjórnina til að fallast á að námsmenn fái heimild til töku atvinnuleysisbóta tímabundið en það var fellt af stjórnarliðum. Lánshæfi miðast við nám að lágmarki 22 ECTS-einingar á önn. Þannig liggur fyrir að þeir námsmenn sem stunda nám undir téðum einingafjölda eiga ekki rétt á námslánum. 2. minni hluti telur rétt að hækka einingaviðmið laganna að 22 ECTS-einingum svo að þeir námsmenn sem hafa misst vinnuna og geta ekki verið í fullu námi hafi heimild til töku atvinnuleysisbóta. Minnt er á að námsmenn greiða sinn hluta inn í atvinnuleysiskerfið þegar þeir eru úti á vinnumarkaði án þess að njóta nokkurra réttinda í kerfinu. Það skapar misrétti sem ekki er hægt að gera námsmönnum og fjölskyldum þeirra að búa við. Með vísan til framangreinds styður 2. minni hluti breytingartillögu 1. minni hluta þess efnis að einingaviðmið 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði hækkað úr 10 ECTS-einingum í allt að 22 ECTS-einingar.

Sjálfstætt starfandi listamenn.
    Fyrir nefndinni kom fram að sjálfstætt starfandi listamenn hafa orðið fyrir umtalsverðu höggi vegna COVID-19-faraldursins. Fjölbreytt vinnufyrirkomulag þeirra hefur vafist mikið fyrir Vinnumálastofnun vegna þess að þeir eru í blandaðri starfsemi launþega og sjálfstætt starfandi listamanna. Einhver hópur var einnig launþegi í verkefnatengdu ráðningarsambandi sem féll niður vegna faraldursins þegar menningarstofnanir lokuðu. Kom fram fyrir nefndinni að meiri hluti þeirra sem misstu framfærslu sinni að hluta eða öllu leyti í upphafi faraldursins í mars hafi enn, 24 vikum síðar, ekki fengin neina lausn sinna mála hjá stofnuninni. Svo virðist sem það umtalsverða álag sem skyndilega lagðist á starfsfólk stofnunarinnar hafi leitt til þess að þau mál þar sem vinnufyrirkomulag er fjölbreytt og kallar á frekari úrvinnslu hafi verið lögð til hliðar og bíði þar enn. Þetta þýðir að stór hópur hefur engar tekjur haft frá því í byrjun mars, eða í sex mánuði. Stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir þessari stöðu og bregðast við án tafar.

Álag á Vinnumálastofnun.
    Við vinnslu vinnumarkaðsmála fyrir velferðarnefnd vegna COVID-19-faraldursins hefur ítrekað verið fjallað um álag á Vinnumálastofnun. Fram kom að úrvinnslutími umsókna sé núna að styttast og sé oftar en ekki undir átta vikum í venjubundnum málum. 2. minni hluti vill árétta að stjórnvöld verði að gera allt til að koma í veg fyrir að fólk sem missir vinnuna og fjölskyldur þeirra búi við sára fátækt. Atvinnumissir bitnar mest á efnalitlum fjölskyldum og fjölskyldum í félagslega viðkvæmri stöðu sem eiga lítið eða viðkvæmt bakland hér á landi. Það að þurfa að bíða tvenn mánaðamót eða lengur eftir úrræði er of langur tími þegar enginn er varasjóðurinn. 2. minni hluti bendir á að samhliða faraldrinum hefur fólk í auknum mæli tekið út séreignarsparnað sinn og má ætla að það sé einnig vegna þess langa tíma sem tekur að greiða úr umsóknum þeirra sem leita til Vinnumálastofnunar.
    Annar minni hluti vekur athygli á að víða um land hafa þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar verið lokaðar frá því faraldurinn hófst hér á landi. Þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu hafa sömuleiðis verið lokaðar frá því í lok júlí sl. Nú eru rúmlega 20.000 einstaklingar á atvinnuleysisskrá og eru þá ekki teknir með þeir sem misstu vinnuna síðastliðin mánaðamót. Þeir sem þurfa að leita upplýsinga geta gert það í síma eða á netinu. Símatími stofnunarinnar á þessum álagstíma hefur hins vegar ekki verið rýmkaður þrátt fyrir lokun þjónustuskrifstofa og er eingöngu svarað í síma kl. 9–15 mánudag til fimmtudags og 9–12 á föstudögum. Það er skylda stjórnvalda að tryggja að stofnanir á þeirra vegum geti sinnt lögbundnum skyldum sínum, svo sem leiðbeiningarskyldu og upplýsingagjöf til atvinnuleitenda. Þegar fjöldaatvinnuleysi skellur á með viðlíka þunga og raun ber vitni núna er óásættanlegt að þjónusta sé af svo skornum skammti. Skorar 2. minni hluti á ríkisstjórnina að tryggja stofnuninni viðbótarframlag svo hægt sé að fjölga starfsfólki stofnunarinnar um land allt og auka við og tryggja nauðsynlega þjónustu við atvinnuleitendur.
    Með vísan til framangreinds leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. september 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form.