Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1372, 150. löggjafarþing 726. mál: breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir).
Lög nr. 37 19. maí 2020.

Lög um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir).


I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

1. gr.

     Við lögin bætast fjögur ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (LXIV.)
     Þeim lögaðilum sem skattskyldir eru skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. og bera tekjuskatt við álagningu á árinu 2020 er heimilt að fresta að hluta til eða að öllu leyti um eitt ár greiðslu tekjuskatts allt að 20 millj. kr., enda sé fyrirsjáanlegur taprekstur á yfirstandandi rekstrarári. Samskattaðir lögaðilar teljast sem einn lögaðili í þessu sambandi.
     Reikna skal skatteign við álagningu á árinu 2021 hjá lögaðila, sem frestað hefur greiðslu skv. 1. mgr., hafi orðið tap á rekstri samkvæmt niðurstöðu álagningar á tekjur ársins 2020. Skatteign reiknast 20% af rekstrartapi við álagningu á árinu 2021 og skal henni jafnað sem nemur allt að frestuðum skatti skv. 1. mgr. Nemi rekstrartap hærri fjárhæð en nægir til fullrar jöfnunar yfirfærist það sem umfram er skv. 8. tölul. 31. gr.
     Skilyrði fyrir frestun skv. 1. mgr. eru að arði sé ekki úthlutað eða eigin hlutir keyptir á meðan krafan er óuppgerð við ríkissjóð. Enn fremur er það skilyrði frestunar að lögaðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, síðastliðin þrjú ár eða síðan lögaðilinn hóf starfsemi.
     Lögaðili skal tilkynna Skattinum um fjárhæð þeirrar skattgreiðslu sem hann kýs að fresta skv. 1. mgr. fyrir 10. nóvember 2020, á því formi sem Skatturinn ákveður.
     Nemi frestuð skattgreiðsla skv. 1. mgr. hærri fjárhæð en jöfnuð verður skv. 2. mgr. skulu dráttarvextir falla á fjárhæð sem nemur mismuninum frá þeim tíma þegar hann hefði fallið í gjalddaga hefði frestun ekki komið til. Dráttarvextir reiknast frá sama tíma af frestaðri fjárhæð reynist skilyrði frestunar ekki til staðar skv. 1. málsl. 3. mgr. Skattinum skal heimilt að fella niður dráttarvexti þegar lögaðili sem frestar skattgreiðslu skv. 1. mgr. getur sýnt fram á að hann hafi haft réttmæta ástæðu, þegar Skattinum var tilkynnt um frestun skv. 4. mgr., til að ætla að skatteign skv. 2. mgr. næmi að lágmarki fjárhæð jafnri hinni frestuðu skattgreiðslu.
     Engir vextir skulu falla á fjárhæð sem jöfnuð er skv. 2. mgr.
     
     b. (LXV.)
     Í stað þess að telja að fullu til tekna eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp vegna greiðsluerfiðleika á árunum 2020, 2021 og 2022 skal lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi vera heimilt að færa á milli tekjuáranna 2020 til og með 2022 þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram yfirfæranleg rekstrartöp og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu. Skilyrði fyrir yfirfærslu skv. 1. málsl. er að skattaðili hafi fyrnt að fullu, að teknu tilliti til 42. gr., allar fyrnanlegar eignir sínar og nýtt mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum. Þá er skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2020 til og með 2022. Skatturinn getur heimilað skattaðila að taka þátt í samsköttun og sameiningu við aðra skattaðila eða skiptingu upp í fleiri félög að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis. Nýta skal allar heimildir samkvæmt ákvæðinu áður en til samsköttunaruppgjörs kemur.
     Standi eftir í árslok 2022 eftirgjöf skulda sem er hærri en 500 millj. kr. er skattaðila heimilt að færa það sem umfram er til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2023 til og með 2027. Sé eftirgjöf lægri en 500 millj. kr. í lok árs 2022 færist hún ekki til tekna.
     Skilyrði er að til skuldanna hafi verið stofnað í beinum tengslum við atvinnureksturinn.
     Ákvæðið gildir ekki um eftirgjöf skulda milli móður- og dótturfélaga að því undanskildu þegar fjármálafyrirtæki yfirtaka félög til að tryggja fullnustu kröfu, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     Þegar kröfu er breytt í hlutafé í hinu skuldsetta félagi í stað eftirgjafar skal það talið fullnaðargreiðsla hennar. Aðilar geta samið um niðurfellingu á hluta kröfunnar áður en slík greiðsla með hlutafé er innt af hendi. Sé skipt á kröfu og hlutafé skal fara fram mat á verðmæti hlutafjárins og skal matsverðið miðast við þann dag þegar skiptin eiga sér stað. Skuldara ber að tekjufæra mismun á verðmæti hlutafjárins og bókfærðu verði skuldarinnar. Kröfuhafa ber eftir atvikum að tekjufæra eða gjaldfæra mismun á bókfærðu verði kröfunnar og matsverði hlutafjárins. Mat á verðmæti hlutafjár skal unnið af óháðum matsaðila þegar skipti á kröfu og hlutafé fara fram á milli eignatengdra aðila.
     Við eftirgjöf skulda er kröfuhafa skylt að varðveita öll gögn sem forsendur eftirgjafarinnar byggjast á þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu skv. 92. gr. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Eftirgefnar skuldir sem á einhvern hátt tengjast refsiverðri háttsemi skattaðila skal tekjufæra án nokkurs frádráttar.
     
     c. (LXVI.)
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 98. gr. er Skattinum ekki skylt að leggja fram álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag að lokinni álagningu skattaðila á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019.
     
     d. (LXVII.)
     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. skal einstaklingi heimilt að draga frá tekjuskattsstofni sínum, sbr. 1. og 3. gr., að viðbættum fjármagnstekjum, 75% af fjárhæð sem hann sýnir fram á að sé tilkomin vegna fjárfestinga í hlutafélagi eða einkahlutafélagi sem uppfyllir skilyrði 2. og 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. við álagningu opinberra gjalda á árunum 2021 og 2022, vegna fjárfestinga á árunum 2020 og 2021. Jafnframt skal einstaklingi heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. 2. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr., að nýta frádráttarheimild vegna heildarfjárfestinga sem nemi að hámarki 15 millj. kr. á almanaksári 2020 og 2021. Að öðru leyti gilda ákvæði B-liðar 1. mgr. 30. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009.

2. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. skal nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu skv. 5. gr. eiga rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 sem nemur 35 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja en 25 hundraðshlutum í tilviki stórra fyrirtækja enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
     
     b. (II.)
     Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. málsl. 1. mgr. 10. gr. skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 vera samtals 1.100.000.000 kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr.

III. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

3. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða XXXIII í lögunum, sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 25/2020, bætist ný málsgrein er verður 5. mgr., svohljóðandi:
     Ákvæði 1. mgr. nær á viðkomandi tímabili jafnframt til annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga, enda sé húsnæðið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

4. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 7. mgr. 36. gr. c er lífeyrissjóði heimilt að eiga allt að 35% í stað 20% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra, þó aldrei umfram 1% heildareigna sinna í hverjum sjóði um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt þessari málsgrein. Heimildin nær til sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum skv. 1. og 2. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Innlausnir í sjóðunum skulu fyrst fara fram að fimm árum liðnum frá því að þeir hófu fjárfestingar.
     Heimild skv. 1. mgr. gildir til 1. janúar 2025 en þó verður lífeyrissjóði ekki gert að innleysa hlutdeildarskírteini eða hluti sem fjárfest var í á grundvelli hennar.

V. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. b laganna:
  1. Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: og til úrbóta í ferlimálum fatlaðs fólks, einkum hvað varðar aðgengi að fasteignum, mannvirkjum og útisvæðum á vegum sveitarfélaga.
  2. Við 3. mgr. bætist: og til úrbóta í ferlimálum fatlaðs fólks, einkum hvað varðar aðgengi að fasteignum, mannvirkjum og útisvæðum á vegum sveitarfélaga.
  3. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um að sveitarfélagi sé heimilt að ráðstafa framlagi úr fasteignasjóði til að auka eða bæta aðgengi fyrir fatlað fólk enda séu framkvæmdir unnar í samstarfi við félagasamtök og aðra aðila sem starfa í þágu almannaheilla.


6. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir 13. gr. b er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimilt að nýta allt að 1.500 millj. kr. úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til greiðslu almennra jöfnunarframlaga skv. c-lið 9. gr., jöfnunarframlaga vegna reksturs grunnskóla skv. d-lið 9. gr., jöfnunarframlaga vegna þjónustu við fatlað fólk skv. e-lið 9. gr., bundinna framlaga skv. a- og b-lið 10. gr. og fasteignaskattsframlaga skv. d-lið 11. gr. á árinu 2020. Til að jafna stöðu fasteignasjóðs skal Jöfnunarsjóður halda eftir hluta af sömu framlögum á tímabilinu 2021–2028 eða þar til staða fasteignasjóðs hefur verið jöfnuð út.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Í stað dagsetningarinnar „30. apríl 2020“ í 1. málsl. kemur: 30. september 2020.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Ekki kemur til greiðslna samkvæmt lögum þessum hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví enda hafi heilbrigðisyfirvöld ákveðið að þeir sem dveljast í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu.


8. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2020“ í 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: 31. desember 2020.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011.

9. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Á árinu 2020 er ráðherra heimilt að veita sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir sérstökum rekstrarstuðningi er m.a. að einkarekinn fjölmiðill sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og að álagðir skattar og gjöld byggist ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðslugreinum og virðisaukaskattsskýrslum til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan fjölmiðillinn hóf starfsemi ef það var síðar. Ráðherra skal í reglugerð tilgreina fyrirkomulag umsókna einkarekinna fjölmiðla um rekstrarstuðning. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um greitt tryggingagjald, meðalfjölda stöðugilda, fjölda verktaka og heildarfjárhæð greiðslna til þeirra vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni árið 2019. Upplýsingarnar skulu staðfestar af endurskoðanda.
     Við ákvörðun um fjárhæð sérstaks rekstrarstuðnings skal m.a. litið til launa, fjölda starfsmanna og verktakagreiðslna vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni á ritstjórnum árið 2019, útgáfutíðni og fjölbreytileika fjölmiðla. Endanlegt hlutfall ræðst af fjölda umsókna og skal setja hámark á stuðning til einstakra fjölmiðla. Úthlutun sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla skal fara fram eigi síðar en 1. september 2020.
     Ráðherra skal útfæra nánar fyrirkomulag sérstaks rekstrarstuðnings í reglugerð.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009.

10. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir 5. gr. skulu samanlögð starfslaun árið 2020 miðast við 2.200 mánaðarlaun. Þrátt fyrir ákvæði 6.–11. gr. skulu starfslaun og styrkir til listamanna árið 2020 vera sem hér segir:
  1. Starfslaun og styrkir hönnuða árið 2020 skulu svara til 69 mánaðarlauna.
  2. Starfslaun og styrkir myndlistarmanna árið 2020 skulu svara til 598 mánaðarlauna.
  3. Starfslaun og styrkir rithöfunda árið 2020 skulu svara til 763 mánaðarlauna.
  4. Starfslaun og styrkir sviðslistafólks árið 2020 skulu svara til 261 mánaðarlauna.
  5. Starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda árið 2020 skulu svara til 248 mánaðarlauna.
  6. Starfslaun og styrkir tónskálda árið 2020 skulu svara til 261 mánaðarlauna.


IX. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

11. gr.

     Við 2. mgr. 23. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem ekki áttu rétt á desemberuppbót 2019 en eiga rétt á orlofsuppbót á árinu 2020, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2020, nr. 1124/2019.

X. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

12. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 34. gr. skal sá einstaklingur sem telst tryggður skv. III. og IV. kafla og hefur framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára eiga rétt á 6% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni eigi hann aðeins rétt til grunnatvinnuleysisbóta eða þegar að loknu tímabili tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 32. gr.
     Ákvæði þetta öðlast gildi 1. júní 2020 og gildir til 31. desember 2020.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2020.