Ferill 964. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2125  —  964. mál.


         

Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni um örorkumat og endurhæfingarlífeyri.


     1.      Hver var árlegur fjöldi umsókna um örorkumat árin 2017, 2018 og 2019, hver hefur fjöldinn verið það sem af er árinu 2020 og hversu margir umsækjendur voru hvert ár á bilinu 18–20 ára, 21–30 ára, 31–40 ára, 41–50 ára, 51–60 ára og 61 árs eða eldri?
    Á tímabilinu 2018–2019 var lítil breyting á fjölda umsókna um örorkumat en þó fækkaði umsóknum lítillega milli þeirra ára, eða um 2,3%, og fjölda umsækjenda um örorkumat fækkaði um 1,8% á sama tímabili. Skýringin á því að ekki er sami fjöldi umsókna og umsækjenda um örorkumat er að sami einstaklingur getur sótt um örorkulífeyri oftar en einu sinni á sama ári. Þróunin sem af er árs 2020 bendir til fjölgunar umsókna og fjölgunar umsækjenda um örorkumat í öllum aldursflokkum en þar sem árið er rúmlega hálfnað er of snemmt að áætla nákvæmlega fjölgun miðað við undangengin ár. Miðað við núverandi spá fyrir árið 2020 stefnir þó í um 10% aukningu í umsóknum um örorkulífeyri frá síðastliðnu ári. Þó ber að benda á að nýjum umsóknum, sem og nýjum umsækjendum, um örorkulífeyri fer að fækkandi milli ára en umsóknum um endurmat á örorku fjölgar.
    Á myndum 1 og 2 má sjá annars vegar fjölda umsókna um örorkulífeyri og hins vegar fjölda umsækjenda.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Fjöldi umsókna um örorkulífeyri.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2. Fjöldi umsækjenda um örorkulífeyri.

    Á mynd 3 má sjá fjölda umsækjenda um örorkumat hvert ár og aldursdreifingu umsækjenda. Nánar varðandi fjölda aldursskiptingu umsókna og umsækjenda má sjá töflu 1 í viðauka.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 3. Fjöldi umsækjenda um örorkulífeyri hvert ár eftir aldursbili.

     2.      Hve mörgum þessara umsókna, eftir sömu flokkun og að framan, var hafnað á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd?
    Í töflu 1 í viðauka er sýnt yfirlit yfir fjölda hafnaðra umsókna, auk umsækjenda sem fengu höfnun á umsókn, út frá aldursdreifingu. Einnig má sjá nánar svar í töflu við 3. tölulið fyrirspurnarinnar. Þar má sjá að frá árinu 2018 til dagsins í dag hlutfall synjaðra umsókna, vegna þess að endurhæfing var ekki fullreynd, af heildarfjölda umsókna hefur hækkað.
    Er það vísbending um aukna áherslu á að láta reyna á árangur af endurhæfingu og auka þannig mögulega starfsgetu á ný, eða auka og viðhalda fyrri færni. Í yngstu aldurshópunum hefur fjöldi synjaðra umsókna á ofangreindri forsendu aukist. Í yngsta aldursflokknum, 18–30 ára, hefur 24% umsókna verið synjað á þessari forsendu á þessu ári. Árið 2019 var hlutfallið 28% og árið 2018 16%. Þessar tölur endurspegla aukna áherslu á að endurhæfingarmöguleikar þess hluta ungra umsækjenda sem bætt getur betur stöðu sína með meðferð, hæfingu og endurhæfingu, verði fullnýttir áður en til örorkumats kemur.

     3.      Hve mörgum umsóknum um örorkumat, eftir sömu flokkun og að framan, var hafnað árlega og hvert var hlutfall þeirra af heildarfjölda umsókna?
    Höfnun umsókna um örorkulífeyri er það sem hér er kallað synjun umsóknar sem getur átt sér mismunandi forsendur. Einnig er nokkuð um að umsóknum sé vísað frá, en það er gert ef gögn með umsókn vantar, þ.e. skila sér ekki þrátt fyrir ábendingar um að viðbótargögn vanti svo að hægt sé að leggja mat til umsókn. Þegar umsókn er vísað frá er það gert innan ákveðins tímaramma en hindrar ekki umsækjanda í því sækja um á ný og senda inn tilheyrandi gögn. Hér er því birt hlutfall samþykktra, frávísaðra og synjaðra umsókna af árlegum heildarfjölda umsókna um örorkulífeyri.

Höfnun umsókna af annarri ástæðu en að endurhæfing var ekki fullreynd.
    Alls hefur 663 umsóknum verið hafnað á þessari forsendu á yfirstandandi ári af 4.411 umsóknum eða um 14% umsókna. Árið 2019 var hlutfallið 16% og árið 2018 um 10%. Í yngsta aldursflokknum, 18–30 ára, hefur 27% umsókna verið synjað á þessari forsendu á yfirstandandi ári. Árið 2019 var hlutfallið 30% og árið 2018 18%. Helsta ástæða fyrir synjun umsókna um örorkulífeyri er að nánara mat á heilsufari umsækjanda leiðir í ljós að skilyrði örorkumatsstaðals reynast ekki uppfyllt. Til samanburðar, í elsta aldurshópnum, 61–66 ára umsækjenda, var 8% umsókna synjað af öðrum ástæðum en að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Mynd 4. Hlutfall samþykktra, frávísaðra og synjaðra umsókna af árlegum heildarfjölda umsókna um örorkulífeyri.

     4.      Hver var árlegur fjöldi umsókna um endurhæfingarlífeyri eftir sömu flokkun og að framan?
    Frá árinu 2017 fram til dagsins í dag hefur verið gífurleg aukning í fjölda umsókna og umsækjenda um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun. Í ár stefnir í að um þriðjungi fleiri sæki um endurhæfingarlífeyri en á síðasta ári. Árlegur vöxtur í fjölda endurhæfingarlífeyrisþega síðustu ár hefur verið á bilinu 15–20%. Í ár er áætlað að um 42% fleiri einstaklingar fái samþykktan endurhæfingarlífeyri en á síðasta ári.
    Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri eru samþykktar greiðslur fyrir endurhæfingartímabil að hámarki sex mánuði í senn. Skýringin á því að ekki er sami fjöldi umsókna og umsækjenda sem hafa fengið endurhæfingarlífeyri er að sami einstaklingur getur fengið samþykktan endurhæfingarlífeyri oftar en einu sinni á sama ári. Þegar um er að ræða frummat er talað um fyrsta mat en endurmat er þegar óskað er eftir framlengingu á greiðslum. Þess má geta að framlenging getur verið í beinu framhaldi af síðasta mati en einnig geta liðið nokkrir mánuðir og jafnvel ár á milli endurmata.
    Þegar tekinn er fjöldi umsækjenda eftir aldurshópum þá er langstærsti hópurinn 30 ára og yngri og virðist sá aldurshópur hafa stækkað mikið, en sá fjöldi var samtals 1.290 árið 2017, 1.404 umsækjendur árið 2018 en var kominn upp í 2.579 árið 2019. Það sem af er árinu 2020 er fjöldi einstaklinga sem hafa fengið samþykktan endurhæfingarlífeyri á þessum aldri orðinn 1.313.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 5. Fjöldi umsókna um endurhæfingarlífeyri eftir aldri og hlutfall samþykktra umsókna.

    Á mynd 6 má sjá fjölda umsækjenda um endurhæfingarlífeyri hvert ár og aldursdreifingu umsækjenda. Nánar varðandi fjölda aldurskiptingu umsókna og umsækjenda má sjá töflu 2 í viðauka.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 6. Fjöldi umsækjenda um endurhæfingarlífeyri hvert ár og aldursdreifingu umsækjenda.


     5.      Hve mörgum umsóknum um endurhæfingarlífeyri, eftir sömu flokkun og að framan, var hafnað á grundvelli þess að:
                  a.      fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun teldist ekki uppfylla skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð,
                  b.      ekki þættu rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil fram yfir fyrstu 18 mánuði greiðslu endurhæfingarlífeyris,
                  c.      36 mánaða endurhæfingartímabili væri lokið?
     6.      Hve mörgum umsóknum um endurhæfingarlífeyri var hafnað í heild eftir sömu flokkun og að framan?

    Á árinu 2017 var samtals 453 umsækjendum synjað um greiðslur endurhæfingarlífeyris en á sama tíma var fjöldi samþykktra umsókna 2.883. Á árinu 2018 var samtals 486 umsækjendum synjað um greiðslur endurhæfingarlífeyris en á sama tíma var fjöldi samþykktra umsókna 3.282. Á árinu 2019 var samtals 520 umsækjendum synjað um greiðslur endurhæfingarlífeyris en á sama tíma var fjöldi samþykktra umsókna 4.529. Það sem af er árinu 2020 hefur 383 umsækjendum verið synjað um greiðslur endurhæfingarlífeyris en á sama tíma er fjöldi samþykktra umsókna 3.814.
    Fjöldi umsækjenda sem var hafnað á grundvelli þess að fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun taldist ekki uppfylla skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, var árið 2017 samtals 223, árið 2018 samtals 241, árið 2019 samtals 290 og 179 það sem af er árinu 2020.
    Fjöldi umsækjenda sem var synjað um framlengingu umfram 18 mánuði árið 2017 var 29, árið 2018 fengu 30 einstaklingar synjun, 24 einstaklingar árið 2019 og 20 einstaklingar það sem af er árinu 2020.
    Fjöldi umsækjenda sem var synjað vegna 36 mánaða hámarks greiðslutímabils var árið 2017 samtals 8 einstaklingar, 6 árið 2018, 7 árið 2019 og 14 einstaklingar það sem af er árinu 2020.
    Aðrar ástæður geta legið fyrir synjunum á greiðslum endurhæfingarlífeyris, eins og að umsækjandi hafi ekki lokið rétti vegna veikinda frá atvinnurekanda eða sjúkrasjóði stéttarfélags, hann teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysisbætur, eða eigi ekki rétt vegna búsetu eða vegna sjúkrahúsdvalar, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.
    Einstaklingum sem er synjað um endurhæfingarlífeyri hefur því ekki fjölgað miðað við umsóknafjölda og fjölda einstaklinga sem sækja um endurhæfingarlífeyri. Þess ber einnig að geta að umsækjandi sem synjað er um greiðslur endurhæfingarlífeyris getur sótt um aftur og fengið þá samþykkt endurhæfingartímabil ef skilyrði eru uppfyllt.
    Svör við framangreindum spurningum byggjast á upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 1. Yfirlit fjölda umsókna og umsækjenda um örorkulífeyri eftir árum og aldurshópum og afdrif umsókna.

Tafla 2. Yfirlit fjölda umsókna og umsækjenda um endurhæfingarlífyeyri eftir árum og aldurhópum og afdrif umsókna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.