Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 13  —  13. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um viðskiptaleyndarmál.

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um vernd gegn ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.

2. gr.

Skilgreiningar.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Brotavarningur: Varningur sem verulegur ávinningur hlýst af vegna ólögmætrar öflunar, notkunar eða afhjúpunar viðskiptaleyndarmála, í krafti hönnunar, eiginleika, virkni, framleiðsluferlis eða markaðssetningar hans.
     2.      Handhafi viðskiptaleyndarmáls: Einstaklingur eða lögaðili sem ræður löglega yfir viðskiptaleyndarmáli.
     3.      Hinn brotlegi: Einstaklingur eða lögaðili sem hefur öðlast, notað eða afhjúpað viðskiptaleyndarmál ólöglega.
     4.      Viðskiptaleyndarmál: Upplýsingar sem:
                  a.      eru leyndarmál í þeim skilningi að þær eru ekki, sem heild eða í samskipan og samsetningu einstakra hluta þeirra, almennt þekktar eða auðvelt að nálgast meðal aðila í hópum sem venjulega fjalla um þá tegund upplýsinga sem um er að ræða,
                  b.      hafa viðskiptalegt gildi vegna þess að þær eru leyndarmál,
                  c.      einstaklingur eða lögaðili ræður löglega yfir og hefur gert eðlilegar ráðstafanir eftir aðstæðum til að halda leyndum.

II. KAFLI

Öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.

3. gr.

Lögmæt öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.

    Öflun viðskiptaleyndarmáls telst lögmæt sé þess aflað með:
     a.      sjálfstæðri uppgötvun eða sköpun,
     b.      athugun, rannsókn, sundurhlutun eða prófun vöru eða hlutar sem hefur verið gerður aðgengilegur almenningi eða er lögleg eign þess sem fær upplýsingarnar og er ekki skuldbundinn að lögum til að takmarka öflun viðskiptaleyndarmálsins,
     c.      nýtingu réttar launþega eða fulltrúa þeirra til upplýsinga og samráðs í samræmi við lög og venjur og skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða
     d.      hvers konar annarri framkvæmd sem er eftir aðstæðum í samræmi við heiðarlega viðskiptahætti.
    Öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls telst lögmæt að svo miklu leyti sem hennar er krafist eða hún leyfð samkvæmt lögum eða skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

4. gr.

Ólögmæt öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.

    Ólögmæt öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls er bönnuð.
    Öflun viðskiptaleyndarmáls án samþykkis handhafa þess telst ólögmæt sé þess aflað með:
     a.      óheimilum aðgangi að, töku eða afritun skjala, hluta, efnis eða rafrænna skráa sem handhafi viðskiptaleyndarmálsins ræður löglega yfir og sem fela í sér viðskiptaleyndarmál eða hægt er að draga ályktanir um viðskiptaleyndarmál af eða
     b.      hvers konar annarri háttsemi sem, eftir aðstæðum, telst í andstöðu við heiðarlega viðskiptahætti.
    Notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls án samþykkis handhafa þess telst ólögmæt sé það notað eða afhjúpað af þeim sem:
     a.      hefur aflað viðskiptaleyndarmálsins ólöglega,
     b.      brýtur gegn trúnaðarsamkomulagi eða öðrum skyldum um að afhjúpa viðskiptaleyndarmálið ekki eða
     c.      brýtur gegn samningi eða öðrum skyldum um að takmarka notkun viðskiptaleyndarmálsins.
    Einnig telst ólögmætt að afla, nota eða afhjúpa viðskiptaleyndarmál þegar sá sem það gerir vissi eða mátti vita þegar hann aflaði, notaði eða afhjúpaði viðskiptaleyndarmálið að það var fengið beint eða óbeint frá öðrum einstaklingi eða lögaðila sem notaði eða afhjúpaði það ólöglega skv. 3. mgr.
    Einnig telst ólögmæt notkun viðskiptaleyndarmáls að framleiða, bjóða eða setja á markað eða flytja inn, flytja út eða geyma brotavarning í því skyni þegar sá sem gerir slíkt vissi eða mátti vita að viðskiptaleyndarmálið var notað ólöglega skv. 3. mgr.

5. gr.

Vernd uppljóstrara og starfsmanna.

    Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. telst öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmáls lögmæt þegar:
     a.      hún á sér stað til að ljóstra upp um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi svo fremi það sé gert í því skyni að vernda almannahagsmuni eða
     b.      starfsmenn miðla viðskiptaleyndarmáli til fulltrúa sinna og það er liður í að viðkomandi fulltrúar inni störf sín af hendi í samræmi við lög eða kjarasamning svo fremi að afhendingin hafi verið nauðsynleg í þeim tilgangi.

III. KAFLI

Vernd viðskiptaleyndarmála fyrir dómi og við lögbannsgerð.

6. gr.

Trúnaðarmerking.

    Að kröfu málsaðila getur sýslumaður eða dómari trúnaðarmerkt upplýsingar sem fela í sér viðskiptaleyndarmál eða ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

7. gr.

Þagnarskylda.

    Þeir sem eiga aðkomu að málum um ólögmæta öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmáls eða hafa aðgang að skjölum mála bera þagnarskyldu samkvæmt þessari grein og ákvæðum annarra laga eftir því sem við á.
    Á sérfróðum meðdómsmönnum og matsmönnum hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga.
    Lögmönnum, lögmannsfulltrúum og starfsmönnum lögmanna er óheimilt að notfæra sér í eigin þágu eða annarra viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál sem hefur verið trúnaðarmerkt og þeir hafa orðið áskynja um í starfi sínu eða vegna starfs síns.
    Málsaðilum, vitnum og öðrum þeim sem taka þátt í máli um ólögmæta öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls eða hafa aðgang að skjölum málsins er óheimilt að afhjúpa eða notfæra sér í eigin þágu eða annarra viðskiptaleyndarmálið eða meint viðskiptaleyndarmál sem hefur verið trúnaðarmerkt og þeir hafa orðið áskynja um vegna aðildar að málinu eða aðgangs að skjölum þess.
    Þagnarskylda helst eftir að máli lýkur. Ef ákveðið er með dómi að upplýsingar teljist ekki viðskiptaleyndarmál eða þær verða almennt þekktar eða aðgengilegar meðal einstaklinga innan hópa sem venjulega fást við þess konar upplýsingar fellur þagnarskyldan niður.

8. gr.

Vernd viðskiptaleyndarmála fyrir dómi.

    Við ákvörðun dómara skv. 8. gr., 14. gr., 4. mgr. 52. gr., 3. mgr. 53. gr. og 69. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og 10. gr., 16. gr., 2. mgr. 118. gr., 3. og 4. mgr. 119. gr. og 136. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og við ákvörðun um afhendingu upplýsinga og gagna til almennings eða birtingu dóma og úrskurða í málum um ólögmæta öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmáls skal tekið tillit til:
     a.      þess að rétturinn til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns og réttlátrar málsmeðferðar sé tryggður,
     b.      lögmætra hagsmuna málsaðila og, ef við á, þriðja aðila og
     c.      hugsanlegs tjóns sem ákvörðunin kann að valda fyrir annan hvorn málsaðila og, ef við á, þriðja aðila.

IV. KAFLI

Lögbann.

9. gr.

Lögbann.

    Handhafi viðskiptaleyndarmáls getur fengið lagt lögbann við öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. þó 2. og 4. mgr.
    Lögbann má leggja við athöfn skv. 1. mgr. ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að:
     a.      viðskiptaleyndarmál sé fyrir hendi,
     b.      gerðarbeiðandi sé handhafi viðskiptaleyndarmálsins og
     c.      viðskiptaleyndarmálsins hafi verið aflað ólöglega, það sé notað eða afhjúpað ólöglega eða ólögmæt öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins sé yfirvofandi.
    Við mat á því hvort lögbann verði lagt á skv. 1. mgr. skal tekið tillit til sérstakra aðstæðna í málinu, þ.m.t. eftir því sem við á:
     a.      verðmæta og annarra séreinkenna viðskiptaleyndarmálsins,
     b.      ráðstafana sem gerðar hafa verið til að vernda viðskiptaleyndarmálið,
     c.      framferði gerðarþola við öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmálsins,
     d.      áhrifa af ólögmætri notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins,
     e.      lögmætra hagsmuna málsaðila og áhrifa sem það gæti haft á þá ef lögbannið verður lagt á eða því hafnað,
     f.      lögmætra hagsmuna þriðja aðila,
     g.      almannahagsmuna og
     h.      verndar grundvallarréttinda.
    Að kröfu gerðarþola getur sýslumaður fellt lögbann úr gildi ef upplýsingarnar sem lögbannið varðar teljast ekki lengur viðskiptaleyndarmál af ástæðum sem ekki verða raktar til gerðarþola.
    Í stað lögbanns getur sýslumaður ákveðið að hinn brotlegi geti haldið áfram notkun viðskiptaleyndarmálsins enda sé trygging sett fyrir endurgjaldi til þess sem misgert er við.

10. gr.

Afhending muna við lögbannsgerð.

    Við lögbannsgerð getur sýslumaður að kröfu handhafa viðskiptaleyndarmáls tekið muni úr vörslum gerðarþola og afhent þá handhafa viðskiptaleyndarmálsins hafi þeir verið nýttir eða bersýnilega verið ætlaðir til nota við þá athöfn sem lögbann er lagt við, enda þyki sýnt að brýn hætta sé á að gerðarþoli muni nýta þá til að brjóta lögbannið ef hann heldur vörslum þeirra.

V. KAFLI

Dómar í málum um viðskiptaleyndarmál.

11. gr.

Ráðstafanir með dómi.

    Ef öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls telst ólögmæt má grípa til eftirfarandi ráðstafana með dómi:
     a.      stöðvun eða, eftir atvikum, bann við notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmálsins,
     b.      bann við framleiðslu, söluboði, markaðssetningu eða notkun brotavarnings eða innflutningi, útflutningi eða geymslu slíks varnings í því skyni,
     c.      innköllun brotavarnings af markaði,
     d.      að þeir eiginleikar brotavarnings sem brjóta gegn viðskiptaleyndarmáli séu fjarlægðir,
     e.      eyðingu brotavarnings eða, eftir því sem við á, að hann sé fjarlægður af markaði, svo fremi að það grafi ekki undan verndun viðskiptaleyndarmálsins,
     f.      eyðingu skjals, hlutar, efnis eða rafrænnar skrár, í heild eða að hluta, sem hefur að geyma eða felur í sér viðskiptaleyndarmálið eða, eftir því sem við á, afhendingu skjalsins, hlutarins, efnisins eða rafrænu skrárinnar til stefnanda í heild eða að hluta.
    Við mat á því hvaða ráðstafanir verða gerðar skv. 1. mgr. og hvort þær hæfi brotinu skal tekið tillit til sérstakra aðstæðna í málinu, þ.m.t. eftir því sem við á:
     a.      verðmæta og annarra séreinkenna viðskiptaleyndarmálsins,
     b.      ráðstafana sem gerðar hafa verið til að vernda viðskiptaleyndarmálið,
     c.      framferði hins brotlega við öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmálsins,
     d.      áhrifa af ólögmætri notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins,
     e.      lögmætra hagsmuna málsaðila og áhrifa sem það gæti haft á þá ef lögbannið yrði lagt á eða því hafnað,
     f.      lögmætra hagsmuna þriðja aðila,
     g.      almannahagsmuna og
     h.      verndar grundvallarréttinda.
    Ef ákveðið er að gildistími ráðstafana skv. a- og b-lið 1. mgr. skuli takmarkaður skal hann vera nægur til að útiloka hvers kyns viðskiptalegan eða efnahagslegan ávinning sem hinn brotlegi gæti hafa fengið af ólögmætri öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmálsins. Ráðstafanir sem gripið hefur verið til með dómi falla úr gildi ef þær varða ekki lengur viðskiptaleyndarmál af ástæðum sem ekki verða raktar til stefnda.
    Ráðstafanir skv. c–f-lið 1. mgr. skulu vera á kostnað hins brotlega nema sérstakar ástæður mæli á móti því. Ráðstafanirnar taka ekki til mögulegra skaðabóta fyrir tjón sem handhafi viðskiptaleyndarmálsins kann að verða fyrir af völdum ólögmætrar öflunar, notkunar eða birtingar viðskiptaleyndarmálsins.

12. gr.

Bætur fyrir fjártjón.

    Í stað ráðstafana skv. 11. gr. má að kröfu þess sem þær beinast að ákveða með dómi að hann skuli greiða handhafa viðskiptaleyndarmáls bætur fyrir fjártjón ef:
     a.      hann hvorki vissi né hefði mátt vita, miðað við aðstæður þegar notkun eða afhjúpun fór fram, að viðskiptaleyndarmálið var fengið frá öðrum einstaklingi sem notaði eða afhjúpaði það ólöglega,
     b.      ráðstafanirnar mundu valda honum óhóflegum skaða og
     c.      bætur til tjónþola virðast hæfilegar.
    Bætur skv. 1. mgr. skulu ekki vera hærri en rétthafagreiðslur eða gjöld sem komið hefðu til greiðslu hefði sá sem dæmdur er til að greiða handhafa bætur fyrir fjártjón óskað eftir heimild til að nota viðkomandi viðskiptaleyndarmál fyrir tímabilið sem hefði verið hægt að banna notkun þess.

13. gr.

Skaðabætur.

    Þeim sem brýtur af ásetningi eða gáleysi gegn ákvæðum 4. gr. er skylt að greiða skaðabætur vegna tjóns sem handhafi viðskiptaleyndarmáls hefur orðið fyrir vegna þess.
    Við ákvörðun bóta skal meðal annars litið til tapaðs hagnaðar handhafa viðskiptaleyndarmálsins og óréttmætrar auðgunar hins brotlega.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. má ákveða að bætur svari a.m.k. til hæfilegs endurgjalds fyrir hagnýtingu viðskiptaleyndarmálsins.
    Auk bóta fyrir fjártjón má dæma bætur til handhafa viðskiptaleyndarmálsins vegna ófjárhagslegs tjóns.

14. gr.

Miðlun dómsniðurstöðu.

    Að kröfu þess sem misgert er við má, ef við á, gera viðeigandi ráðstafanir með dómi til að miðla upplýsingum um dóm í máli á kostnað hins brotlega.
    Þegar ráðstafanir skv. 1. mgr. eru gerðar skal gætt að því að viðskiptaleyndarmál sé varðveitt.
    Þegar ráðstafanir skv. 1. mgr. eru gerðar og við mat á því hvort þær hæfi brotinu skal, eftir því sem við á, litið til:
     a.      verðmætis viðskiptaleyndarmálsins,
     b.      framferðis hins brotlega við að afla, nota eða afhjúpa viðskiptaleyndarmálið,
     c.      áhrifa af ólögmætri notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins,
     d.      þess hve líklegt er að hinn brotlegi noti frekar eða afhjúpi viðskiptaleyndarmálið ólöglega og
     e.      hvort upplýsingarnar um hinn brotlega séu þess eðlis að hægt sé að bera kennsl á einstakling og, ef svo er, hvort birting þeirra sé réttlætanleg, einkum í ljósi hugsanlegs tjóns sem ráðstöfunin gæti haft í för með sér fyrir friðhelgi einkalífs og orðspor hins brotlega.

VI. KAFLI

Frestir.

15. gr.

Málshöfðunarfrestir.

    Beiðni um lögbann skv. 9. gr. skal beint til sýslumanns innan fjögurra ára frá þeim degi sem handhafi viðskiptaleyndarmáls fékk nauðsynlegar upplýsingar um hina ólögmætu öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins til grundvallar kröfu máls eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.
    Mál um kröfu um ráðstafanir skv. 11. gr. skal höfðað innan fjögurra ára frá þeim degi sem handhafi viðskiptaleyndarmáls fékk nauðsynlegar upplýsingar um hina ólögmætu öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins til grundvallar kröfu máls eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.
    Ef mál er réttilega höfðað til staðfestingar lögbanni sem beiðst var innan frests telst það höfðað innan frests.

VII. KAFLI

Viðurlög o.fl.

16. gr.

Dagsektir.

    Við fullnustu dóma um ráðstafanir skv. 11. gr. og við brot á lögbanni skv. 9 gr. er sýslumanni heimilt að ákveða gerðarþola dagsektir samkvæmt kröfu handhafa viðskiptaleyndarmáls.
    Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði og falla á fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu hans þar til farið er að dómnum eða lögbanninu. Gera má aðför fyrir dagsektum þessum og renna þær í ríkissjóð.
    Um meðferð þessara mála fer að öðru leyti eftir lögum um aðför og lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. eftir því sem við á.

17. gr.

Viðurlög.

    Hver sem aflar sér eða öðrum umráða eða vitneskju um viðskiptaleyndarmál ólöglega skal sæta fésektum eða fangelsi allt að tveimur árum en allt að fjórum árum ef brot er stórfellt. Við mat á því hvort brot sé stórfellt skal sérstaklega líta til þess tjóns sem verknaður hefur valdið, umfangs verknaðar og þeirrar aðferðar sem notuð var.
    Brot gegn ákvæðum 4. gr. varða fésektum eða fangelsi allt að einu ári ef sá sem brot fremur:
     a.      er í vinnu- eða verksambandi við þann sem misgert er við eða er í félagi við hann,
     b.      hefur löglegan aðgang að starfsstöð þess sem misgert er við eða
     c.      hefur vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar.
    Ef brot skv. 2. mgr. er stórfellt getur það varðað allt að fjögurra ára fangelsi. Við mat á því hvort brot sé stórfellt skal sérstaklega líta til þess tjóns sem verknaður hefur valdið eða hvort verknaður hafi haft í för með sér augljósa hættu.
    Brot lögmanna, lögmannsfulltrúa og starfsmanna lögmanna gegn þagnarskyldu, sbr. 3. mgr. 7. gr. varða fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Brot málsaðila, vitna og annarra gegn þagnarskyldu, sbr. 4. mgr. 7. gr., varða fésektum eða fangelsi allt að einu ári.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í broti er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum. Fésektir má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi í samræmi við II. kafla A almennra hegningarlaga.
    Brot skv. 2. mgr. sæta ákæru eftir kröfu þess sem misgert var við.

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

18. gr.

Innleiðing á tilskipun.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskipti (viðskiptaleyndarmál) gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra sem vísað er til í XVII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2019 frá 29. mars 2019, sem birt var 19. desember 2019 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 101, bls. 85–102.

19. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Frestir skv. 15. gr. renna fyrst út fjórum árum eftir gildistöku laganna.

20. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Stjórnsýslulög, nr. 37/1993: Í stað orðanna „atvinnu- og framleiðsluleyndarmál“ í 9. tölul. 1. mgr. 42. gr. laganna kemur: viðskiptaleyndarmál.
     2.      Lög um lausafjárkaup, nr. 50/2000: Í stað orðsins „atvinnuleyndarmál“ í 4. mgr. 64. gr. laganna kemur: viðskiptaleyndarmál.
     3.      Lög um neytendakaup, nr. 48/2003: Í stað orðsins „atvinnuleyndarmál“ í 4. mgr. 49. gr. laganna kemur: viðskiptaleyndarmál.
     4.      Lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005: 16. gr. c laganna fellur brott.
     5.      Lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014: Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
                  a.      Orðin „atvinnu-, framleiðslu- eða“ falla brott.
                  b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Upplýsingar um viðskiptaleyndarmál.
     6.      Lög um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta, nr. 125/2019: Orðin „rekstrar- og“ í 1. málsl. 4. gr., 3. mgr. 6. gr. og d-lið 11. gr. laganna falla brott.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu er stefnt að því að styrkja réttarvernd viðskiptaleyndarmála, gera handhöfum þeirra auðveldara að leita réttar síns og einfalda stofnanaumgjörð. Frumvarpið er í samræmi við áherslur í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland um að íslenskt regluverk ýti undir samkeppnishæfni og nýsköpun og að eignarréttur fyrirtækja og frumkvöðla yfir hugverkum og viðskiptaleyndarmálum verði verndaður í hvívetna.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskipti (viðskiptaleyndarmál) gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra (hér eftir nefnd tilskipunin). Lagt er til að sett verði ný lög um viðskiptaleyndarmál þar sem kveðið verði heildstætt á um viðskiptaleyndarmál og réttarúrræði til verndar þeim. Lagt er til að hin nýju lög komi í stað sérákvæða um vernd atvinnuleyndarmála í 16. gr. c laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005 (hér eftir nefnd markaðssetningarlögin). Auk innleiðingar á tilskipuninni felur frumvarpið í sér ríkari refsivernd viðskiptaleyndarmála en í gildandi lögum og afnám stjórnsýslueftirlits með öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Almennt.
    Viðskiptaleyndarmál gegna mikilvægu hlutverki fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja, nýsköpun og rannsóknir og þróun, ýmist til viðbótar við réttarvernd hugverka- og einkaréttinda eða í stað hennar. Ólögmæt öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmála felur í sér misnotkun á fjárfestingu og vinnu sem liggur til grundvallar viðskiptaleyndarmálum og getur haft í för með sér mikið tjón fyrir handhafa þeirra. Ólíkt hefðbundnum hugverka- og einkaréttindum fela viðskiptaleyndarmál ekki í sér einkarétt handhafa þeirra og réttarvernd þeirra felst ekki í skráningu eins og t.d. á við um einkaleyfi. Vernd viðskiptaleyndarmála felst öllu heldur í því að gripið er til ráðstafana til að halda þeim leyndum.
    Aukin starfsmannavelta fyrirtækja og möguleikar á miðlun og vistun gagna fela í sér aukna möguleika til misnotkunar á viðskiptaleyndarmálum. Þá reynist litlum og meðalstórum fyrirtækjum oft kostnaðarsamt að sækja um og halda við réttarvernd annarra tegunda hugverkaréttinda á borð við einkaleyfi. Skilvirk vernd viðskiptaleyndarmála gegn ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun stuðlar að heilbrigðri samkeppni, rannsóknum og þróun, aukinni nýsköpun og auknum möguleikum til hagnýtingar í atvinnurekstri.
    Markmið lagasetningarinnar er að sjá til þess að kröfur tilskipunarinnar um vernd gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu viðskiptaleyndarmála séu uppfylltar í íslenskum rétti. Markmiðið er einnig að styrkja réttarvernd viðskiptaleyndarmála og gera handhöfum þeirra auðveldara að leita réttar síns. Þá er stefnt að því að einfalda stofnanaumgjörð á sviðinu með afnámi stjórnsýslueftirlits. Að nokkru leyti er tekið mið af ákvæðum danskra laga um viðskiptaleyndarmál.

2.2. Innleiðing tilskipunar.
    Með frumvarpinu er lagt til að tilskipunin verði innleidd í íslenskan rétt. Tilskipunin var samþykkt á vegum Evrópusambandsins 8. júní 2016 og tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2019 frá 29. mars 2019 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn (Hugverkaréttindi). Í tilskipuninni er mælt fyrir um reglur um vernd gegn ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að skapa vel starfhæfan innri markað með því að koma á fullnægjandi og sambærilegum úrlausnum á vettvangi innri markaðarins þegar um er að ræða ólögmæta öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls. Tilskipunin er lágmarkstilskipun og er aðildarríkjum heimilt að ganga lengra til að vernda viðskiptaleyndarmál gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu.
    Ákvæði um vernd atvinnuleyndarmála hafa verið í íslenskum rétti allt frá árinu 1933, sbr. 12. gr. laga um varnir gegn óréttmætum verzlunarháttum, nr. 84/1933. Með lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, nr. 56/1978, var ákvæðunum breytt í núverandi horf en 35. gr. þeirra laga var nánast orðrétt samhljóða gildandi 16. gr. c markaðssetningarlaganna. Frá lögfestingu samkeppnislaga, nr. 8/1993, og fram til gildistöku markaðssetningarlaganna árið 2005 var ákvæðið að finna í 27. gr. samkeppnislaga. Gildandi ákvæði um vernd atvinnuleyndarmála er, sem fyrr segir, að finna í 16. gr. c markaðssetningarlaganna. Atvinnuleyndarmálum er einnig veitt afmörkuð vernd með ákvæðum laga um uppfinningar starfsmanna, nr. 72/2004. Þar er kveðið á um í 2. mgr. 6. gr. að starfsmanni sé óheimilt án skriflegs samþykkis atvinnurekanda, að upplýsa aðra um uppfinningu eða ráðstafa henni þannig að unnt sé að birta upplýsingar um uppfinninguna eða nota hana í þágu annarra. Þetta gildir þó ekki ef atvinnurekandinn hefur lýst því yfir skriflega að hann hafi ekki áhuga á uppfinningunni.
    Verndarhagsmunir ákvæða markaðssetningarlaganna og ákvæða tilskipunarinnar eru þeir sömu, þ.e. að fyrirtæki eigi rétt á lögvernd þeirra hagsmuna sem felast í því að ákveðnum þáttum varðandi starfsemi þeirra er snerta sérstaklega samkeppnisstöðu sé haldið leyndum og að upplýsingum um þessa þætti sé haldið innan fyrirtækjanna. Ákvæði tilskipunarinnar um viðskiptaleyndarmál eru ítarlegri en ákvæði markaðssetningarlaganna. Þá eru ákvæði tilskipunarinnar um réttarúrræði til verndar ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála nokkuð frábrugðin því sem gildir í íslenskum rétti. Innleiðing tilskipunarinnar krefst því nokkurra breytinga bæði á efnisákvæðum og réttarúrræðum til verndar viðskiptaleyndarmálum. Til að tryggja heildstæða innleiðingu tilskipunarinnar og til að gera atvinnurekendum sem auðveldast að kynna sér reglur sem gilda um vernd viðskiptaleyndarmála er lagt til að sett verði ný heildarlög um viðskiptaleyndarmál þar sem kveðið er á um vernd viðskiptaleyndarmála, réttarúrræði og viðurlög með heildstæðum hætti.

2.3. Mat á leið til innleiðingar.
    Við mat á færum leiðum til innleiðingar var litið til þess að um er að ræða tilskipun Evrópusambandsins. Tilskipanir skulu veita stjórnvöldum samningsaðila EES-samningsins val um form og aðferð við framkvæmdina í samræmi við b-lið 7. gr. EES-samningsins. Þar sem tilskipunin veitir nokkuð svigrúm við innleiðingu er hún innleidd með umritunaraðferð. Í því felst að ákvæði tilskipunarinnar eru nánar útfærð með lögum án þess að um orðrétta tilvísun sé að ræða.
    Við ritun frumvarpsins var lagt til grundvallar að innleiðing fæli aðeins í sér þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að endurspegla þá EES-skuldbindingu sem við á og að gætt væri samræmis við orðalag tilskipunarinnar eins og kostur er. Þó er lagt til að refsiákvæði markaðssetningarlaganna er varða atvinnuleyndarmál verði að mestu flutt yfir í nýju lögin og að refsimörk vegna brota gegn lögunum verði hækkuð til samræmis við sambærileg brot í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Vísast nánar um það til kafla 3.8 í greinargerð og skýringa við 17. gr.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Nýtt heildarhugtak: Viðskiptaleyndarmál.
    Í 16. gr. c markaðssetningarlaganna er stuðst við hugtakið atvinnuleyndarmál. Í gildandi lögum er þó ekki að finna eiginlega skilgreiningu á hugtakinu. Hugtakið á jafnt við um það sem kalla mætti rekstrarleyndarmál, framleiðsluleyndarmál og viðskiptaleyndarmál. Ekki eru skörp skil á milli þessara hugtaka og í einstöku leyndarmáli geta verið þættir úr þeim öllum. Af réttarframkvæmd má ráða að atvinnuleyndarmál verður að uppfylla nokkur grunnskilyrði til þess að njóta verndar. Í fyrsta lagi mega upplýsingarnar ekki vera almennt aðgengilegar. Með þessu er átt við að almenn þekking og reynsla starfsmanns getur ekki fallið undir það að vera atvinnuleyndarmál. Til þess að svo sé þarf að liggja fyrir þekking sem er sérstaklega bundin við viðkomandi rekstur og skiptir máli fyrir starfsemina. Í öðru lagi verða upplýsingarnar að hafa eitthvert fjárhagslegt gildi. Með þessu er t.d. átt við að upplýsingarnar hafi einhverja þýðingu fyrir stöðu fyrirtækisins á markaði. Í þriðja lagi verður krafa um leynd að hafa verið látin í ljós af hálfu fyrirtækis eða það liggi í hlutarins eðli. Um atvinnuleyndarmál getur verið að ræða enda þótt fleiri en eigandi eða stjórnandi viti um það. Eftir því sem fleiri sem ekki eru háðir þagnarskyldu þekkja atvinnuleyndarmál leikur meiri vafi á um hvort hagsmunirnir eru þess eðlis að þeir eigi að njóta verndar sem atvinnuleyndarmál.
    Í 1. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar er hugtakið viðskiptaleyndarmál skilgreint. Með viðskiptaleyndarmáli er átt við upplýsingar sem uppfylla þrjú skilyrði. Í fyrsta lagi að það sé leyndarmál í þeim skilningi að það er ekki, sem heild eða í samskipan og samsetningu einstakra hluta þess, almennt þekkt eða auðvelt að nálgast meðal aðila í hópum sem venjulega fjalla um þá tegund upplýsinga sem um er að ræða. Í öðru lagi að í því felst viðskiptalegt gildi vegna þess að það er leyndarmál. Í þriðja lagi að sá einstaklingur sem löglega ræður yfir upplýsingunum hefur gert eðlilegar ráðstafanir eftir aðstæðum til að halda þeim leyndum. Af þessu er ljóst að hugtakið samsvarar í öllum aðalatriðum hugtakinu atvinnuleyndarmál í gildandi rétti.
    Nánar er fjallað um skilgreiningu hugtaksins viðskiptaleyndarmál í 14. lið aðfararorða tilskipunarinnar. Þar segir að skilgreining viðskiptaleyndarmáls taki til sérþekkingar, viðskiptaupplýsinga og tækniupplýsinga í tilvikum þar sem bæði lögmætir hagsmunir og lögmætar væntingar eru um að trúnaður sé um þær og að slík trúnaðarskylda sé virt. Enn fremur ætti slík sérþekking eða upplýsingar að hafa viðskiptalegt gildi, hvort heldur er raunverulegt eða hugsanlegt. Líta beri á að slík sérþekking eða upplýsingar hafi viðskiptalegt gildi, t.d. þegar ólögmæt öflun, notkun eða birting er líkleg til að skaða hagsmuni þess aðila sem hefur lögleg yfirráð yfir þeim, að því leyti að það grafi undan vísindalegum og tæknilegum möguleikum þess aðila, viðskiptahagsmunum eða fjárhagslegum hagsmunum hans, mikilvægri stöðu eða getu til samkeppni. Í skilgreiningu á viðskiptaleyndarmáli séu undanskildar smávægilegar upplýsingar og sú reynsla og færni sem starfsmenn hafa hlotið í venjubundnu starfi sínu, einnig séu undanskildar upplýsingar sem almennt eru þekktar, eða auðvelt er að nálgast, meðal aðila í hópum sem venjulega fjalla um þess konar upplýsingar.
    Í 14. lið aðfararorða tilskipunarinnar kemur fram að mikilvægt sé að ákvarða einsleita skilgreiningu á viðskiptaleyndarmáli án þess að takmarka viðfangsefnið sem á að vernda gegn óréttmætri nýtingu. Til að tryggja markmið tilskipunarinnar um einsleitni er lagt að stuðst verði við hugtakið viðskiptaleyndarmál í stað hugtaksins atvinnuleyndarmál í hinum nýju lögum. Ákvæði 4. tölul. 2. gr. frumvarpsins svara því efnislega til 1. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar. Auk þess er lagt til að hugtakið viðskiptaleyndarmál verði samræmt í íslenskum rétti svo að úr verði heildarheiti yfir allar tegundir leyndarmála sem fallið geta undir skilgreininguna. Í 20. gr. frumvarpsins er lagt til að hugtökin atvinnuleyndarmál, rekstrarleyndarmál og framleiðsluleyndarmál verði felld brott úr lögum þar sem það á við og að hugtakið viðskiptaleyndarmál komi í stað þeirra.

3.2. Skýrari vernd gegn misnotkun viðskiptaleyndarmála.
    Í 16. gr. c markaðssetningarlaganna er kveðið á um hvað teljist til ólögmætrar öflunar, notkunar eða upplýsingagjafar um atvinnuleyndarmál. Í 1. mgr. segir að óheimilt sé í atvinnustarfsemi að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar. Með skilyrðinu um ótilhlýðileika er átt við að um ámælisvert atferli sé að ræða. Ákvæði 1. mgr. beinist að þeim sem aflar sér eða reynir að afla sér upplýsinga um atvinnuleyndarmál annars. Iðnaðarnjósnir falla hér undir. Ákvæðið tekur bæði til utanaðkomandi aðila og starfsmanna í viðkomandi fyrirtæki. Í 2. mgr. segir að sá sem fengið hafi vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, sbr. 1. mgr., megi ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bannið gildi í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið. Í 3. mgr. segir að þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hafi verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar sé óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar. Í 4. mgr. segir að ef upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmáli hafi verið aflað á þann hátt að brotið hefur verið gegn ákvæðum 1.–3. mgr. sé þeim sem brotlegur er eða þeim sem fengið hafa upplýsingar frá honum óheimilt að færa sér það í nyt.
    Í 4. gr. tilskipunarinnar er sérstaklega kveðið á um hvað teljist til ólögmætrar öflunar, notkunar og birtingar viðskiptaleyndarmála. Ákvæðið tekur bæði til utanaðkomandi aðila og starfsmanna í viðkomandi fyrirtæki. Auk þess nær ákvæði 4. gr. tilskipunarinnar til hvers konar hvers konar framferðis sem, við viðkomandi aðstæður, telst vera í andstöðu við heiðarlega viðskiptahætti. Ákvæði um góða viðskiptahætti er þegar að finna í markaðssetningarlögunum. Þá nær ákvæði 4. gr. tilskipunarinnar einnig til þeirra tilfella þegar þriðji maður hefur fengið upplýsingar um viðskiptaleyndarmál, sbr. 4. mgr. 16. gr. c markaðssetningarlaganna. Önnur ákvæði 4. gr. teljast vera í efnislegu samræmi við 16. gr. c markaðssetningarlaganna. Ákvæði 4. gr. tilskipunarinnar fela þannig ekki í sér breytingar umfram það sem telja má að gildi nú þegar í íslenskum rétti. 4. gr. tilskipunarinnar skilur sig hins vegar frá gildandi rétti að því leyti að verknaðarlýsing hennar er nákvæmari en hið almenna ákvæði 16. gr. c markaðssetningarlaganna. Er því lagt til að 16. gr. c markaðssetningarlaganna verði afnumin og ákvæði tilskipunarinnar komi þess í stað. Ákvæði 4. gr. frumvarpsins svara efnislega til 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. 16. gr. c markaðssetningarlaganna segir að bann við því að hagnýta eða veita upplýsingar um atvinnuleyndarmál gildi í þrjú ár frá því að starfi eða samningi er slitið. Þriggja ára reglan er talin felast í 4. gr. tilskipunarinnar eins og hún er nánar útfærð í 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins, þ.e. að brotið sé gegn trúnaðarsamkomulagi eða öðrum skyldum um að afhjúpa ekki eða takmarka notkun viðskiptaleyndarmálsins. Í frumvarpinu er ekki lagt til að viðhalda þriggja ára reglunni þar sem hún er ekki talin vera í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar um ólögmæta afhjúpun viðskiptaleyndarmála. Þetta þýðir að samningur starfsmanns og fyrirtækis um trúnaðarskyldu eftir að starfi lýkur gildir um réttarstöðuna að svo miklu leyti sem slík skuldbinding telst gild lögum samkvæmt. Rétt er að taka fram að ákvæði laganna hafa ekki áhrif á samkeppnishamlandi ákvæði í ráðningarsamningum sem eru gild lögum samkvæmt.

3.3. Vernd uppljóstrara og starfsmanna.
    Í b-lið 5. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríki skuli tryggja að beiðni um beitingu ráðstafana, verklagsreglna og úrræða verði vísað frá þegar meint öflun, notkun eða birting viðskiptaleyndarmálsins fór fram til að sýna fram á misferli, brot eða ólöglega starfsemi, svo fremi að stefndi hafi gert það í því skyni að vernda almannahagsmuni. Í 20. lið aðfararorða tilskipunarinnar segir að ráðstafanir, verklagsreglur og úrræði sem kveðið er á um í tilskipuninni eigi ekki að takmarka starfsemi uppljóstrara. Verndun viðskiptaleyndarmála ætti því ekki að taka til tilvika þar sem birting viðskiptaleyndarmáls er í þágu almannahagsmuna, að svo miklu leyti sem misferli, brot eða ólögmæt starfsemi, sem beinlínis á við, er afhjúpað. Þetta ætti ekki að koma í veg fyrir að lögbær dómsyfirvöld leyfi undantekningu frá því að beita ráðstöfunum, verklagsreglum og úrræðum í tilvikum þar sem stefndi hafði ástæðu til að ætla í góðri trú að framferði hans uppfyllti viðkomandi viðmiðanir sem settar eru fram í þessari tilskipun. Ekki hefur reynt sérstaklega á vernd uppljóstrara skv. 73. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um tjáningarfrelsi. Hins vegar hefur reynt nokkuð á tengda vernd, þ.e. vernd heimildarmanna, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 255/2014 frá 2. maí 2014 og nr. 403/2014 frá 16. júní 2014. Þá hafa afmörkuð ákvæði um vernd uppljóstrara verið lögfest hér á landi, sbr. t.d. 13. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, (starfsmannalög) og 60. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Á 150. löggjafarþingi 2019–2020 voru samþykkt lög um vernd uppljóstrara, nr. 40/2020. Með hliðsjón af þessu þykir rétt að setja sérstakt ákvæði sem verndar uppljóstrara þegar upplýsingar um viðskiptaleyndarmál skipta máli fyrir uppljóstrun á lögbrotum eða annarri ámælisverðri háttsemi. Vísast nánar um það til skýringa við a-lið 5. gr. frumvarpsins.
    Í c-lið 5. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríki skuli tryggja að beiðni um beitingu ráðstafana, verklagsreglna og úrræða verði vísað frá þegar launþegar afhenda fulltrúum sínum viðskiptaleyndarmál. Það er liður í því að viðkomandi fulltrúar inni störf sín löglega af hendi, þ.e. í samræmi við lög Evrópusambandsins eða landslög, svo fremi að afhendingin hafi verið nauðsynleg í þeim tilgangi. Í 18. lið aðfararorða tilskipunarinnar segir að líta eigi svo á að öflun, notkun eða birting viðskiptaleyndarmála sé lögmæt að því er varðar þessa tilskipun þegar lögin krefjast þess eða heimila það. Þetta tengist einkum öflun og birtingu viðskiptaleyndarmála í tengslum við að fulltrúar launþega neyti þess réttar að fá upplýsingar, hafa samráð og taka þátt, í samræmi við lög Evrópusambandsins og landslög og venjur, og sameiginlega verndun hagsmuna launþega og vinnuveitenda, þ.m.t. sameiginlega ákvarðanatöku, ásamt öflun eða birtingu viðskiptaleyndarmáls í sambandi við lögboðna endurskoðun sem framkvæmd er í samræmi við lög Evrópusambandsins eða landslög. Með hliðsjón af þessu þykir rétt að setja sérstakt ákvæði til að taka af vafa um að starfsmanni sé heimilt að afhjúpa viðskiptaleyndarmál gagnvart fulltrúa sínum svo að fulltrúinn geti innt störf sín af hendi löglega. Vísast nánar um það til skýringa við b-lið 5. gr. frumvarpsins.

3.4. Ítarlegri ákvæði um lögbann og dóma í málum um viðskiptaleyndarmál.
    Í 2. þætti tilskipunarinnar er gert ráð fyrir að nokkrar tegundir bráðabirgða- og varrúðarráðstafana séu í boði fyrir handhafa viðskiptaleyndarmála. Í fyrsta lagi að unnt sé að fyrirskipa stöðvun eða bann við notkun og birtingu viðskiptaleyndarmáls, í öðru lagi bann við framleiðslu, söluboði, markaðssetningu eða notkun brotavarnings eða innflutningi, útflutningi eða geymslu slíks varnings í þessu skyni og í þriðja lagi haldlagningu eða afhendingu á varningi sem grunur leikur á að sé brotlegur, þ.m.t. innfluttur varningur, til að koma í veg fyrir að hann sé settur á markað eða fari þar í umferð. Talið er að tvö fyrstu atriðin auk ákvæða 2. þáttar tilskipunarinnar um skilyrði fyrir bráðabirgða- og varrúðarráðstöfunum séu uppfyllt með ákvæðum laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Aftur á móti er talin þörf á að kveðið verði sérstaklega á um afhendingu muna í 10. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þá grein. Þá er lagt til að kveðið verði á um skilyrði lögbanns sem koma ýmist til viðbótar við eða í stað greindra ákvæða laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Um það vísast til skýringa við 9. gr.
    Í 3. þætti tilskipunarinnar er fjallað um ráðstafanir sem lögbær dómsyfirvöld eiga að geta gripið til gagnvart hinum brotlega. Í meginatriðum er um að ræða bann eða stöðvun notkunar og birtingar viðskiptaleyndarmáls, bann við framleiðslu, söluboði, markaðssetningu eða notkun brotavarnings eða innflutningi, útflutningi eða geymslu slíks varnings í þessu skyni, samþykkt viðeigandi ráðstafana til úrbóta með tilliti til brotavarningsins og eyðingu hvers konar skjala eða hluta sem hafa að geyma viðskiptaleyndarmálið. Samkvæmt gildandi lögum hafa dómstólar vald til að dæma um allar kröfur um ráðstafanir sem taldar eru upp í 2. þætti tilskipunarinnar. Hins vegar þykir rétt og í samræmi við tilskipunina að tekin verði upp skýr ákvæði um úrræði sem unnt er að beita og sjónarmið við beitingu þeirra. Ákvæði tilskipunarinnar um málsmeðferð og úrræði taka mið af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB. Ákvæðum 11.–13. gr. frumvarpsins svipar því að nokkru leyti til 55. og 56. gr. höfundalaga en með lögum nr. 93/2010, um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, voru valin ákvæði tilskipunarinnar tekin upp í íslenskan rétt.

3.5. Heildstæðar reglur um skaðabætur.
    Í 14. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um skaðabætur vegna tjóns af völdum ólögmætrar öflunar, notkunar eða birtingar viðskiptaleyndarmáls. Við ákvörðun skaðabóta skuli tekið tillit til allra viðeigandi þátta, t.d. neikvæðra efnahagslegra afleiðinga, þ.m.t. glataðs hagnaðar, ósanngjarns hagnaðar hins brotlega og annarra atriða en efnahagslegra þátta, svo sem siðferðilegs tjóns ef við á. Að öðrum kosti verði unnt að ákveða eingreiðslu skaðabóta á grundvelli þátta á borð við lágmarksfjárhæð rétthafagreiðslna eða gjalda sem komið hefðu til greiðslu ef hinn brotlegi hefði óskað heimildar fyrir notkun á viðkomandi viðskiptaleyndarmáli. Í 1. mgr. 14. gr. segir jafnframt að aðildarríkin geti takmarkað tjónaábyrgð starfsmanna gagnvart vinnuveitendum sínum vegna ólögmætrar öflunar, notkunar eða birtingar viðskiptaleyndarmáls vinnuveitandans þegar það er ekki gert að yfirlögðu ráði.
    Í frumvarpinu er lagt til að fella brott 16. gr. c markaðssetningarlaganna um vernd atvinnuleyndarmála og munu því ákvæði 25. gr. b laganna ekki lengur gilda um skaðabætur og endurgjald vegna misnotkunar atvinnuleyndarmála. Almennar reglur skaðabótaréttar og kröfuréttar geta gilt um skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón vegna misnotkunar viðskiptaleyndarmála, ýmist innan samninga eða utan. Í íslenskum rétti eru hins vegar að meginstefnu ekki dæmdar bætur fyrir ófjárhagslegt tjón vegna vanefnda samnings. Svo slíkar bætur verði dæmdar þarf sérstaka lagaheimild. Í íslenskum rétti er ekki að finna lagaákvæði um miskabætur fyrir misnotkun viðskiptaleyndarmála innan samninga. Þá er ekki er ljóst hvort unnt sé að óbreyttu að dæma lögaðila miskabætur skv. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, vegna brota gegn friðhelgi einkalífs lögaðilans, svo sem með misnotkun viðskiptaleyndarmála. Í frumvarpinu er því lagt til að sett verði sérstakt ákvæði um skaðabætur fyrir ófjárhagslegt tjón vegna ólögmætrar öflunar, notkunar eða afhjúpunar viðskiptaleyndarmála. Í þágu skýrleika og til að tryggja rétta innleiðingu 14. gr. tilskipunarinnar þykir einnig rétt að setja sérstök ákvæði um rétt til skaðabóta og atriði sem líta ber til við ákvörðun skaðabóta en sérstök skaðabótaákvæði af svipuðum meiði er að finna í flestum sérlögum um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar og í markaðssetningarlögunum. Vísast nánar um það til skýringa við 13. gr.

3.6. Frestir.
3.6.1. Fyrningarfrestir.
    Í 1. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríki skuli mæla fyrir um reglur um fyrningarfresti sem gilda um efnislegar kröfur og aðgerðir fyrir beitingu ráðstafana, verklagsreglna og úrræða sem kveðið er á um í tilskipuninni. Með reglunum skuli ákvarðað hvenær fyrningarfrestur hefst, hve langur hann er og aðstæður sem valda því að hann er rofinn eða felldur niður tímabundið. Í 2. mgr. 8. gr. segir að fyrningarfrestur skuli ekki vera lengri en sex ár.
    Í gildandi lögum er ekki að finna sérstakar reglur um fyrningarfresti krafna sem eiga rætur að rekja til óheimilar öflunar, veitingar eða hagnýtingar atvinnuleyndarmála skv. 16. gr. c markaðssetningarlaganna. Um fyrningu peningakrafna eða krafna um aðrar greiðslur sem eiga rætur að rekja til slíkrar háttsemi fer hins vegar eftir lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga. Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár, sbr. 3. gr. laganna. Krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Krafa um skaðabætur fyrnist þó í síðasta lagi 20 árum eftir að tjónsatburði eða öðru atviki sem liggur til grundvallar ábyrgðinni lauk, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Ákvæði 9. gr. fela annars vegar í sér afstæðan frest sem byrjar að líða þegar tjónþoli fær nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og tjónvald eða bar að afla sér slíkra upplýsinga og hins vegar 20 ára hámarksfrest sem almennt byrjar að líða við tjónsatburð.
    Í tilskipuninni er ekki gerður greinarmunur á afstæðum fresti og hámarksfresti. Ekki verður annað séð en að fresturinn sem kveðið er á um í tilskipuninni sé almennur afstæður frestur. Þá kemur tilskipunin ekki í veg fyrir að kveðið sé á um hámarksfrest. Fyrningarfrestur almennra krafna og skaðabótakrafna samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, er fjögur ár og rúmast því innan hámarksins sem kveðið er á um í tilskipuninni. Í lögunum er jafnframt kveðið á um lengd fyrningarfresta, hvenær þeir hefjast og við hvaða aðstæður þeir séu rofnir. Ákvæði tilskipunarinnar teljast því uppfyllt í íslenskum rétti að því er varðar fyrningu peningakrafna eða krafna um aðrar greiðslur. Af þeim sökum er óþarfi að setja sérreglur um fyrningu slíkra krafna.

3.6.2. Málshöfðunarfrestir.
    Í 1. mgr. 8. gr. tilskipunarinnar segir að fyrningarfrestir skuli gilda um aðgerðir fyrir beitingu ráðstafana, verklagsreglna og úrræða samkvæmt tilskipuninni. Í frumvarpinu er lagt til að unnt sé að krefjast lögbanns og ýmissa annarra ráðstafana vegna ólögmætrar öflunar, notkunar og afhjúpunar viðskiptaleyndarmála. Í lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, er ekki gert ráð fyrir að kröfur um að tiltekinn aðili þoli eitthvað eða láti eitthvað ógert falli, þ.e. neikvæðar kröfur, falli undir gildissvið laganna. Í gildandi lögum er því ekki að finna fyrningarfresti fyrir kröfur um lögbann og aðrar ráðstafanir samkvæmt frumvarpinu. Þar af leiðandi þarf að kveða sérstaklega á um slíka fresti.
    Í 23. lið aðfararorða tilskipunarinnar segir að í þágu réttarvissu og þar sem til þess er ætlast að lögmætir handhafar viðskiptaleyndarmála framfylgi varúðarskyldu að því er varðar varðveislu trúnaðar vegna verðmætra viðskiptaleyndarmála og eftirlit með notkun þeirra sé rétt að takmarka tímabundið efnislegar kröfur eða möguleikann á að hefja aðgerðir til verndar viðskiptaleyndarmálum. Með hliðsjón af þessu og þegar litið er til þess að fyrningarfrestur skaðabótakrafna og almennra krafna er fjögur ár þykja fjögur ár hæfilegur frestur fyrir handhafa viðskiptaleyndarmáls til þess að afla gagna og gæta hagsmuna sinna með málshöfðun eða lögbannsbeiðni. Nærtækast er að kveðið verði á um málshöfðunarfresti vegna krafna um lögbann og aðrar ráðstafanir, sbr. tillögu í 15. gr. frumvarpsins. Rétt er að taka fram að þrátt fyrir tillöguna um málshöfðunarfrest er enn gert ráð fyrir að handhafi viðskiptaleyndarmáls sýni alla þá aðgæslu sem hægt er að ætlast til af honum til að fylgja eftir kröfu sinni eða verja viðskiptaleyndarmálið. Til að mynda getur tómlæti hans í þeim efnum haft áhrif á það hvort efnisskilyrði fyrir lögbanni séu fyrir hendi eða hvort ráðstafanir verði ákveðnar með dómi.

3.7. Stjórnsýslueftirlit aflagt.
    Í frumvarpinu er lagt til að 16. gr. c markaðssetningarlaganna verði felld brott og að sérlög verði sett um vernd viðskiptaleyndarmála. Markaðssetningarlögin munu því ekki lengur innihalda sérákvæði um ólögmæta öflun, miðlun og hagnýtingu viðskiptaleyndarmála. Vísiregla 5. gr. markaðssetningarlaganna mun þó eftir sem áður einnig gilda um viðskiptaleyndarmál. Hvorki Neytendastofu né öðru stjórnvaldi er ætlað eftirlitshlutverk samkvæmt frumvarpinu. Tvö meginsjónarmið liggja þessu til grundvallar, annars vegar neytendaverndarsjónarmið og hins vegar réttaröryggissjónarmið.
    Í fyrsta lagi útheimtir rekstur mála á stjórnsýslustigi vegna viðskiptaleyndarmála umtalsverða vinnu og geta málin verið umfangsmikil og þung í vöfum. Af því leiðir annaðhvort aukinn kostnað eða minna svigrúm Neytendastofu til að sinna öðrum verkefnum. Ákvæði um vernd viðskiptaleyndarmála snerta neytendur einungis með takmörkuðum hætti og er því talið æskilegra að Neytendastofa beini sjónum sínum fyrst og fremst að þeim verkefnum sem varða hagsmuni neytenda. Skref í þá átt hefur þegar verið tekið með nýju forgangsröðunarákvæði 1. mgr. 4. gr. markaðssetningarlaganna, sbr. 1. gr. laga nr. 21/2020, um breytingu á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd (heimildir til rannsókna og framfylgdar). Ákvæðið gerir Neytendastofu kleift að forgangsraða og sinna fyrst og fremst þeim verkefnum sem þykja brýnust. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram það meginsjónarmið við forgangsröðun verkefna að Neytendastofa eigi einna helst að sinna verkefnum sem varða heildarhagsmuni neytenda. Í skýringum við ákvæðið kemur einnig fram að Neytendastofa eigi ekki að láta sig varða mál sem snerta neytendur með takmörkuðum hætti eins og til dæmis ólögmæta öflun eða hagnýtingu atvinnuleyndarmála. Í þessu samhengi má benda á að annars staðar á Norðurlöndum er ekki haft sérstakt stjórnsýslueftirlit með öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmála. Ekki er heldur vitað til þess að sérstakt eftirlit sé haft með öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmála í öðrum nágrannaríkjum Íslands.
    Í öðru lagi er algengt að í málum um viðskiptaleyndarmál reyni talsvert á sönnun. Oft reynir á hvort fyrirliggjandi gögn og upplýsingar teljist sanna að viðskiptaleyndarmáli hafi verið miðlað eða það hagnýtt. Aðstaða stjórnvalda og dómstóla við slíkt mat er hins vegar að nokkru marki ólík, meðal annars vegna rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem og ólíkra reglna um skýrslutökur af aðilum og vitnum. Fyrir dómi fara almennt fram skýrslutökur af aðilum og vitnum, sem eru betur til þess fallnar að upplýsa um málsatvik en skrifleg málsmeðferð hjá stjórnvöldum. Dómstólar geta beitt almennum sönnunarreglum sem gilda fyrir dómi en stjórnvöld komast ekki hjá því að rannsaka mál á viðhlítandi hátt. Stjórnvöld eru bundin af rannsóknarreglunni og örðugt getur reynst að ákvarða hvenær mál teljist nægilega upplýst svo að unnt sé að beita sönnunarreglum og taka ákvörðun í máli. Af þeim sökum er talið að deilur um viðskiptaleyndarmál eigi betur undir dómstóla þar sem munnlegar skýrslutökur fara fram og hefðbundnar sönnunarreglur gilda.
    Í samræmi við framangreint er lagt til að framvegis verði leyst úr ágreiningi vegna viðskiptaleyndarmála fyrir dómi en ekki á stjórnsýslustigi. Er það enda í samræmi við þann tilgang frumvarpsins að styrkja réttarvernd viðskiptaleyndarmála og réttarúrræði handhafa þeirra. Auk þess er lagt til í frumvarpinu að refsimörk vegna öflunar, notkunar og birtingar viðskiptaleyndarmála verði hækkuð. Hækkun refsimarka eykur vernd viðskiptaleyndarmála sem einnig dregur úr þörf fyrir sérstöku stjórnsýslueftirliti.

3.8. Viðurlög.
3.8.1. Almennt.
    Í tilskipuninni er ekki gerð krafa um að aðildarríki setji refsiviðurlög við ólögmætri öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmála. Það er undir hverju aðildarríki komið að ákveða hvort háttsemi af því tagi teljist refsiverð.
    Í markaðssetningarlögunum er þegar lögð refsing við ólögmætri öflun, miðlun og hagnýtingu atvinnuleyndarmála. Ekki er kveðið á um sérstök refsimörk vegna slíkra brota en þau falla undir hið almenna refsiákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna þar sem segir að brot gegn lögunum, reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim varði fésektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar.
    Í 228.–230. gr. almennra hegningarlaga er einnig lögð refsing við að afla og miðla upplýsingum sem leynt eiga að fara. Þannig segir í 1. mgr. 228. gr. að ef maður hnýsist í bréf, skjöl, dagbækur eða önnur slík gögn, sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns, og hann hefur komist yfir gögnin með brögðum, opnað bréf, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári. Sömu refsingu skal sá sæta sem ólöglega verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi. Sömu refsingu varðar það að ónýta eða skjóta undan einkagögnum þeim sem nefnd eru í 1. mgr. greinarinnar. Þá varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum ef maður hnýsist í hirslur annars manns án nægilegra ástæðna, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í 229. gr. segir að hver sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Þá segir í 230. gr. að ef maður sem hefur eða haft hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segi frá einhverjum einkamálefnum, sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Sömu refsingu varðar einnig sams konar verknaður þeirra manna, sem aðstoðað hafa ofangreinda menn í starfi þeirra.

3.8.2. Norræn refsiákvæði.
    Í löggjöf annars staðar á Norðurlöndum er bæði kveðið á um refsingar fyrir ólögmæta öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmála og fyrir iðnaðarnjósnir (d. industrispionage).
    Í 18. gr. danskra laga um viðskiptaleyndarmál (d. lov om forretningshemmeligheder) er kveðið á um að ólögmæt öflun, notkun og miðlun viðskiptaleyndarmála varði sektum eða fangelsi allt að einu ári og sex mánuðum nema hærri refsing sé lögð við í 299. gr. a dönsku hegningarlaganna (d. straffeloven). Ákvæðið gildir einungis um þá sem eru í verk- eða vinnusambandi eða öðrum tengslum við handhafa viðskiptaleyndarmálsins. Brot sæta einungis ákæru eftir kröfu þess sem misgert var við. Í 299. gr. a dönsku hegningarlaganna er kveðið á um að brot gegn 4. gr., sbr. 1. mgr. 18. gr. dönsku laganna um viðskiptaleyndarmál, geti varðað fangelsi allt að sex árum ef refsihækkunarástæður eru fyrir hendi (d. særligt skærpende omstændigheder), þ.e. ef háttsemi hefur haft í för með sér umtalsvert tjón eða augljósa hættu. Auk þess er kveðið á um það í 3. mgr. 263. gr. dönsku refsilaganna að ólögmæt öflun viðskiptaleyndarmáls varði fangelsi allt að sex árum. Ákvæðið tekur jafnt til utanaðkomandi aðila og þeirra sem eru í verk- eða vinnusambandi eða öðrum tengslum við handhafa viðskiptaleyndarmálsins. Ákvæði 3. mgr. 263. gr. tekur til iðnaðarnjósna. Þá geta ákvæði 264. gr. og 264. gr. c dönsku hegningarlaganna einnig náð til verknaðar sem talist getur til iðnaðarnjósna.
    Í 4. gr. 30. kafla finnsku hegningarlaganna (s. strafflagen) er kveðið á um að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að afla sér umráða yfir viðskiptaleyndarmáli í hagnýtingarskyni.
    Í 48. gr. norsku markaðssetningarlaganna (d. markedsføringsloven) er kveðið á um að óheimil notkun viðskiptaleyndarmála varði sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar. Ákvæðið gildir einungis um þá sem eru í verk- eða vinnusambandi eða öðrum tengslum við handhafa viðskiptaleyndarmálsins. Refsing er ekki lögð við háttseminni ef meira en tvö ár eru liðin frá því tengslunum lauk. Í 207. og 208. gr. norsku hegningarlaganna (n. straffeloven) segir að óheimil notkun eða miðlun viðskiptaleyndarmáls varði fangelsi allt að tveimur árum. Ákvæðin gilda jafnt um utanaðkomandi sem og þá sem eru í verk- eða vinnusambandi eða öðrum tengslum við handhafa viðskiptaleyndarmálsins. Í frumvarpi til nýrra norskra laga um viðskiptaleyndarmál er lagt til að afnema refsiákvæði norsku hegningarlaganna og fella þau inn í nýju lögin. Þá er lagt til að refsimörk verði hækkuð annars vegar úr hálfu ári í eitt ár og hins vegar úr tveimur árum í þrjú ár ef sakir eru miklar.
    Í 26. gr. sænskra laga um viðskiptaleyndarmál (s. lag om företagshemligheter) er kveðið á um að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að afla sér umráða yfir viðskiptaleyndarmáli. Sé um gróft brot að ræða varðar það minnst sex mánaða fangelsi og allt að sex ára fangelsi. Í 27. gr. laganna segir að afli þriðji maður viðskiptaleyndarmáls frá þeim sem hefur aflað sér umráða yfir því með þeim hætti sem greinir í 26. gr. og hann vissi hvernig leyndarmálsins var aflað þá varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum eða fjórum árum ef brot er gróft.

3.8.3. Breytt refsiákvæði.
    Eins og fram hefur komið er lagt til að 16. gr. c markaðssetningarlaganna verði felld brott og að sérlög verði sett um vernd viðskiptaleyndarmála. Refsiákvæði markaðssetningarlaganna mun því ekki lengur gilda um ólögmæta öflun, miðlun og hagnýtingu viðskiptaleyndarmála. Lagt er til að refsing verði áfram lögð við ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála með áþekkum hætti og gert er í gildandi markaðssetningarlögum. Til viðbótar er lagt til að refsimörk verði hækkuð úr fésektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar í fésektir eða fangelsi allt að einu ári. Tvær ástæður eru fyrir þessum breytingum. Annars vegar þykja refsimörk markaðssetningarlaganna ekki endurspegla verndarhagsmuni ákvæðisins með fullnægjandi hætti. Ólögmæt öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fyrirtæki, minnkað viðskiptalegt gildi leyndarmáls og stjórn handhafa þess yfir því og raskað samkeppnisstöðu. Hins vegar er breyting refsimarka til þess fallin að auka samræmi við refsimörk 228.–230. gr. almennra hegningarlaga en verndarhagsmunir þeirra ákvæða eru af svipuðum toga og verndarhagsmunir 2. mgr. 17. gr. Auk hækkaðra refsimarka er lagt til að brot sæti einungis ákæru eftir kröfu þess sem misgert er við. Þykir þetta rétt þar sem vernd ákvæðisins lýtur fyrst og fremst að einkahagsmunum fyrirtækja sem njóta auk þess verndar með ýmsum öðrum hætti. Þá er lagt til í 3. mgr. 17. gr. ef um stórfellt brot er að ræða skv. 2. mgr. megi beita allt að fjögurra ára fangelsi en með því er stefnt að samræmi við refsimörk 1. mgr. 17. gr. frumvarpsins þegar sérstaklega stendur á.
    Einnig er lagt til að sett verði sérstakt refsiákvæði sem tekið getur til iðnaðarnjósna. Ákvæði af því tagi er ekki að finna í almennum hegningarlögum en í 1. mgr. 16. gr. c markaðssetningarlaganna er hins vegar kveðið á um að óheimilt sé í atvinnustarfsemi er lögin taka til að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar. Ákvæði 16. gr. c markaðssetningarlaganna tekur þannig bæði til utanaðkomandi aðila sem og starfsmanna og tengdra aðila. Ákvæðið beinist að þeim sem aflar sér eða reynir að afla sér upplýsinga um atvinnuleyndarmál og falla iðnaðarnjósnir hér undir. Í markaðssetningarlögunum er aftur á móti ekki gerður greinarmunur á refsimörkum vegna brota starfsmanns eða annars tengds aðila og brota utanaðkomandi aðila eða þeirra aðferða sem beitt er, tjóns eða hættu sem er samfara verknaðinum.
    Með 1. mgr. 17. gr. er þannig lagt til að gerður sé greinarmunur á iðnaðarnjósnum og annarri ólögmætri, öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála í atvinnustarfsemi. Með iðnaðarnjósnum er fremur átt við skipulagðar og kerfisbundnar aðgerðir utanaðkomandi aðila til að reyna að komast yfir upplýsingar fyrirtækja sem leynt eiga að fara. Þegar höfð er hliðsjón af tækniþróun síðustu áratuga, aukinni fjölbreytni og alþjóðavæðingu atvinnulífs hér á landi þykir rétt að íslensk fyrirtæki og hugverk séu vernduð með fullnægjandi hætti gegn slíkum aðgerðum. Því er lagt til að refsimörk verði hækkuð og verði sektir eða fangelsi allt að tveimur árum, en allt að fjórum árum ef brot er stórfellt. Hærri refsimörk ákvæðisins eru jafnframt ákveðin til að samræmi náist við ákvæði 175. gr. a almennra hegningarlaga sem kveður á um refsingar fyrir skipulagða brotastarfsemi fyrir verknað sem varðar að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi. Þá þykir rétt að refsiákvæði vegna iðnaðarnjósna verði í hinum nýju lögum en ekki í almennum hegningarlögum. Er það í samræmi við markmið með frumvarpinu um ný heildarlög um viðskiptaleyndarmál þar sem kveðið verði á um vernd viðskiptaleyndarmála, réttarúrræði og viðurlög á heildstæðan hátt. Breytingarnar sem lagðar eru til í 17. gr. eru að norrænni fyrirmynd. Að öðru leyti vísast til skýringa við 17. gr.

3.9. Ákvæði tilskipunarinnar sem eru uppfyllt í íslenskum lögum. Tjáningarfrelsisvernd fjölmiðla og vernd lögmætra hagsmuna.
    Í a-lið 5. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríki skuli tryggja að beiðni um beitingu ráðstafana, verklagsreglna og úrræða sem kveðið er á um í tilskipuninni verði vísað frá þegar meint öflun, notkun eða birting viðskiptaleyndarmálsins fór fram til að neyta réttar til tjáningarfrelsis og upplýsinga eins og sett er fram í sáttmálanum, þ.m.t. að frelsi og fjölræði fjölmiðlanna sé virt. Í 19. lið aðfararorða tilskipunarinnar segir að þótt tilskipunin kveði á um ráðstafanir og úrræði sem geta falist í að hindra birtingu upplýsinga í því skyni að vernda trúnaðarskyldu um viðskiptaleyndarmál sé mikilvægt að réttur til tjáningarfrelsis og upplýsinga sem tekur til frelsis og fjölræðis í fjölmiðlum, eins og fram komi í 11. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sé ekki takmarkaður, einkum með tilliti til rannsóknarblaðamennsku og verndunar heimilda blaðamanna. Af þessu er ljóst að vernd a-liðar 5. gr. tilskipunarinnar er einkum ætlað að ná til þess þegar blaðamenn nýta tjáningarfrelsi til þess að fjalla um viðskiptaleyndarmál. Þá er ljóst að aðildarríkjum er ekki heimilt að takmarka tjáningarfrelsi vegna verndar viðskiptaleyndarmála umfram það sem leiðir af sáttmála Evrópusambandsins um grunnréttindi.
    Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu njóta fjölmiðlar ríkrar verndar tjáningarfrelsis. Verndin nær til þess að taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum auk heimildaöflunar blaðamanna. Þá er nafnleynd heimildarmanna sérstaklega vernduð með a-lið 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og 25. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Með vísan til þessa er talið að skilyrði a-liðar 5. gr. tilskipunarinnar séu þegar uppfyllt í íslenskum rétti og ekki talin þörf á að setja sérstakar efnisreglur til viðbótar við þær sem þegar gilda.
    Í d-lið 5. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríki skuli tryggja að beiðni um beitingu ráðstafana, verklagsreglna og úrræða sem kveðið er á um í tilskipuninni verði vísað frá þegar meint öflun, notkun eða birting viðskiptaleyndarmálsins fór fram til að vernda lögmæta hagsmuni sem eru viðurkenndir í lögum Evrópusambandsins eða landslögum. Þetta getur t.d. átt við þegar launþegi ræður sér lögmann til þess að framfylgja ákvæði í ráðningarsamningi um bónusgreiðslur vegna uppfinninga eða annarra hugverka sem hann hefur skapað eða til að verjast ásökunum vinnuveitanda um brot á vinnusamningi. Litið er svo á að matið á því hvort öflun, notkun eða afhjúpun hafi farið fram til að vernda lögmæta hagsmuni felist óhjákvæmilega í efnislegu mati á ólögmæti skv. 4. gr. frumvarpsins. Af þeim sökum þykir ekki nauðsynlegt að innleiða d-lið 5. gr. tilskipunarinnar með sérstöku lagaákvæði.

3.9.1. Tilefnislaus málshöfðun.
    Í 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríki skuli tryggja að lögbær dómsyfirvöld geti, að beiðni stefnda, beitt viðeigandi ráðstöfunum eins og landslög kveði á um þegar kæra varðandi ólögmæta öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmáls er augljóslega tilefnislaus og í ljós kemur að kærandinn hefur hafið dómsmál með ótilhlýðilegum hætti eða í vondri trú. Slíkar ráðstafanir geti, eins og við á, falið í sér að stefnda eru dæmdar skaðabætur, kærandi sé beittur viðurlögum eða fyrirmæli séu gefin um miðlun upplýsinga um úrskurð eins og um getur í 15. gr. tilskipunarinnar.
    Í a-lið 1. mgr. 135. gr. laga um meðferð einkamála segir að ákveða megi sekt á hendur aðila fyrir að höfða mál að þarflausu. Hið sama gildir þegar hafðar eru uppi vísvitandi rangar kröfur, staðhæfingar eða mótbárur, sbr. d-lið sömu málsgreinar. Þá segir í 5. mgr. sömu greinar að fyrir æðra dómi megi ákveða sekt á hendur aðila, umboðsmanni hans eða þeim báðum í senn fyrir tilefnislaust málskot. Ákvæðin eru í samræmi við kröfur 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar og er ekki þörf á að setja sérstök ákvæði til viðbótar við þau.

3.9.2. Þagnarskylda.
    Í 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríki skuli tryggja að málsaðilar, lögmenn þeirra eða aðrir fulltrúar, embættismenn dómstóla, vitni, sérfræðingar og sérhver annar einstaklingur, sem tekur þátt í dómsmáli er varðar ólögmæta öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmáls eða sem hefur aðgang að skjölum sem eru hluti af viðkomandi dómsmáli, hafi ekki heimild til að nota eða birta nokkurt viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál sem lögbær dómsyfirvöld hafa, á grundvelli tilhlýðilega rökstuddrar kæru hagsmunaaðila, auðkennt sem trúnaðarmál og þessir aðilar hafa fengið að vita um vegna slíkrar þátttöku eða slíks aðgangs. Að því er þetta varðar geta aðildarríki einnig heimilað lögbærum dómsyfirvöldum að gera ráðstafanir að eigin frumkvæði. Í annarri undirgrein 1. mgr. 9. gr. segir að skyldan skuli gilda áfram eftir að dómsmálinu lýkur. Skyldan sé þó ekki lengur fyrir hendi þegar litið er svo á, samkvæmt lokaákvörðun, að meint viðskiptaleyndarmál uppfylli ekki kröfurnar til að teljast viðskiptaleyndarmál eða upplýsingarnar sem um er að ræða verða almennt þekktar með tímanum meðal einstaklinga innan hópa sem venjulega fást við þess konar upplýsingar eða eiga greiðan aðgang að þeim.
    Í 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar segir jafnframt að aðildarríki skuli tryggja að lögbær dómsyfirvöld geti lagt viðurlög á hvern þann einstakling sem hlítir ekki eða neitar að hlíta hvers konar ráðstöfun sem er samþykkt skv. 9., 10. og 12. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar, geta tekið til dómara, starfsmanna dómstóla, sérfróðra meðdómenda, dómkvaddra matsmanna, saksóknara, saksóknarfulltrúa, lögmanna, lögmannsfulltrúa, starfsmanna lögmanna, málsaðila, vitna og annarra sem taka þátt í málsmeðferð einkamála, sakamála og lögbannsmála eða hafa aðgang að skjölum þeirra.
    Í gildandi lögum er víða kveðið á um þagnarskyldu þeirra sem taka þátt í málsmeðferð fyrir dómi eða hjá sýslumanni.
    Í 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að á hverjum starfsmanni hvíli þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Í 9. tölul. 1. mgr. 42. gr., stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, segir að hver sá sem starfar á vegum ríkis eða sveitarfélaga sé bundinn þagnarskyldu um upplýsingar sem eru trúnaðarmerktar á grundvelli laga eða annarra reglna, eða þegar að öðru leyti er nauðsynlegt að halda þeim leyndum til að vernda verulega opinbera hagsmuni eða einkahagsmuni, svo sem um virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra einkaréttarlegra lögaðila, svo sem um rekstrar- eða samkeppnisstöðu, svo og atvinnu- og framleiðsluleyndarmál sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Telja verður ljóst að upplýsingar um viðskiptaleyndarmál samkvæmt tilskipuninni falli hér undir. Í 3. mgr. 42. gr. stjórnsýslulaga segir að í þagnarskyldu felist að starfsmanni sé óheimilt að miðla eða notfæra sér sjálfur eða í þágu annarra upplýsingar um málsatvik sem leynt eiga að fara og starfsmaður hefur orðið áskynja um í starfi sínu eða vegna starfs síns, hvort sem það er fyrir tilviljun eða ekki. Þá beri starfsmanni að gera viðhlítandi ráðstafanir til þess að upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu komist ekki til vitundar óviðkomandi við meðferð og varðveislu þeirra. Þagnarskylda haldist þótt látið sé af starfi.
    Í 136. gr. almennra hegningarlaga segir að opinber starfsmaður, sem segir frá nokkru, er leynt eigi að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða varðar embætti hans eða sýslan, skuli sæta fangelsi allt að einu ári. Hafi hann gert það til þess að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings, eða noti hann slíka vitneskju í því skyni, megi beita fangelsi allt að þremur árum. Sömu refsingu skuli sá sæta sem látið hefur af opinberu starfi og eftir það segir frá eða misnotar á ofangreindan hátt vitneskju sem hann hafði fengið í stöðu sinni og leynt á að fara. Þá segir í 230. gr. almennra hegningarlaga ef maður, sem hefur eða haft hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segi frá einhverjum einkamálefnum, sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, þá varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári. Sömu refsingu varði einnig sams konar verknaður þeirra manna sem aðstoðað hafa ofangreinda menn í starfi þeirra.
    Í 1. mgr. 22. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, segir að lögmaður beri þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Starfsmaður lögmanns sé einnig bundinn þagnarskyldu um slík trúnaðarmál sem hann kunni að komast að vegna starfa sinna. Skv. 4. mgr. 29. gr. laganna varða brot gegn 1. mgr. 22. gr. sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Með vísan til ofangreinds teljast skilyrði 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar uppfyllt í íslenskum rétti að því er varðar dómara, starfsmenn dómstóla, saksóknara og saksóknarfulltrúa og er því óþarft að kveða sérstaklega á um þagnarskyldu þeirra til innleiðingar ákvæðisins. Þá teljast skilyrðin uppfyllt að því er varðar afhjúpun lögmanna, starfsmanna þeirra og fulltrúa á viðskiptaleyndarmálum sem þeir hafa orðið áskynja um í starfinu.
    Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði á um þagnarskyldu sérfróðra meðdómenda, matsmanna, málsaðila, vitna og annarra þeirra sem tekið hafa þátt í máli um ólögmæta öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls eða hafa aðgang að skjölum máls. Í gildandi lögum er ekki kveðið sérstaklega á um þagnarskyldu þessara aðila á þann hátt sem tilskipunin áskilur. Er því lagt til að kveðið verði á um þagnarskyldu þessara aðila. Þá er lagt til að kveðið verði á um að lögmönnum, lögmannsfulltrúum og starfsmönnum lögmanna sé óheimilt að notfæra sér sjálfir eða í þágu annarra viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál sem hefur verið trúnaðarmerkt og þeir hafa orðið áskynja um í starfi sínu eða vegna starfs síns. Rétt þykir að kveða sérstaklega á um þetta til að taka af vafa um að þagnarskylda lögmanna nái einnig til eigin hagnýtingar viðskiptaleyndarmála. Að öðru leyti er vísað til skýringa við 6. og 7. gr.

3.9.3. Ráðstafanir dómstóla og sýslumanns til að varðveita trúnaðarskyldu.
    Í 2. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að aðildarríki skuli tryggja að lögbær dómsyfirvöld geti, með tilhlýðilega rökstuddri kæru frá málsaðila, gert sérstakar nauðsynlegar ráðstafanir til að varðveita trúnaðarskyldu um hvers konar viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál sem er notað eða vísað til í dómsmáli er varðar ólögmæta öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmáls. Aðildarríki geta einnig heimilað lögbærum dómsyfirvöldum að grípa til slíkra ráðstafana að eigin frumkvæði. Ráðstafanirnar skuli a.m.k. taka til möguleika á að takmarka aðgang að hverju því skjali sem hefur að geyma viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál sem málsaðilar eða þriðju aðilar leggja fyrir takmarkaðan fjölda einstaklinga, í heild eða að hluta (hér er átt við að aðgangur að skjali sé takmarkaður við ákveðinn fjölda einstaklinga), sbr. a-lið, að takmarka aðgang að réttarhöldum þar sem viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál kunna að vera upplýst, einnig aðgang að samsvarandi skrá eða umriti réttarhaldanna við takmarkaðan fjölda einstaklinga, sbr. b-lið, og að veita hverjum þeim einstaklingi, öðrum en þeim sem telst til þess takmarkaða fjölda einstaklinga sem um getur í a- og b-lið, aðgang að útgáfu dómsniðurstöðu sem ekki er háð trúnaðarkvöð, þar sem kaflar sem hafa að geyma viðskiptaleyndarmál hafa verið fjarlægðir eða ritskoðaðir, sbr. c-lið. Í 2. mgr. 9. gr. segir einnig að einstaklingarnir, sem um geti í a- og b-lið, skuli ekki vera fleiri en nauðsyn krefur til þess að tryggja aðilum dómsmálsins rétt til skilvirks úrræðis og réttlátrar málsmeðferðar og í þeim hópi skuli vera a.m.k. einn einstaklingur frá hvorum málsaðila og lögmenn þeirra eða aðrir fulltrúar þessara málsaðila.
    Það er meginregla í íslensku réttarfari að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 8. gr. laga um meðferð einkamála og 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála. Hins vegar eru heimildir í lögum fyrir dómara til að loka þinghaldi fyrir almenningi við vissar kringumstæður. Í b-lið 1. mgr. 8. gr. laga um meðferð einkamála segir að dómari geti ákveðið að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum vegna nauðsynjar aðila, vitnis eða annars sem málið varðar á því að halda leyndum atriðum varðandi hagsmuni í viðskiptum eða samsvarandi aðstöðu. Í b-lið 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála er einnig kveðið á um það með sama hætti að dómari geti ákveðið að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum vegna nauðsynjar aðila, vitnis eða annars sem málið varðar á því að halda leyndum atriðum varðandi hagsmuni í viðskiptum eða samsvarandi aðstöðu. Ljóst er að heimildirnar geta náð til þess að takmarka aðgang að þinghaldi til verndar viðskiptaleyndarmálum eða meintum viðskiptaleyndarmálum.
    Í 1. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála er kveðið á um rétt þeirra sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta til staðfests eftirrits af málskjölum og úr þingbók eða dómabók. Í 2. mgr. sömu greinar segir að áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eða eftirrit málskjala eru afhent öðrum en aðilum máls skuli ef sérstök ástæða er til afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna. Í 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð sakamála er kveðið á um rétt ákærða og brotaþola til aðgangs að málskjölum. Þar segir einnig að þó skuli synja um að láta í té afrit af þeim hlutum skjala sem hafa að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Ljóst er að heimildirnar geta náð til þess að takmarka aðgang að gögnum sem hafa að geyma viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál.
    Í lögum um meðferð einkamála er fjallað um viðskiptaleyndarmál. Í 4. mgr. 52. gr. segir að dómari geti undanþegið vitni frá því að upplýsa um leyndarmál varðandi viðskipti þess, uppgötvanir eða önnur slík verk ef hann telur hagsmuni vitnis af leyndinni verulega ríkari en hagsmuni aðila af vættinu. Í d-lið 2. mgr. 53. gr. segir að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um leyndarmál um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem það hefur komist að í starfi. Í lögum um meðferð sakamála er einnig fjallað um viðskiptaleyndarmál. Í 2. mgr. 118. gr. segir að dómari geti undanþegið vitni frá því að upplýsa um leyndarmál varðandi viðskipti þess, uppgötvanir eða önnur slík verk ef hann telur hagsmuni vitnis af leyndinni verulega ríkari en hagsmuni af vættinu. Í d-lið 2. mgr. 119. gr. segir að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um leyndarmál um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem það hefur komist að í starfi. Skv. 3. mgr. sömu greinar getur dómari þó ákveðið að vitni skuli svara spurningum um tiltekin atriði ef hann telur að vitnisburður geti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls enda séu ríkari hagsmunir af því að spurningunum verði svarað en trúnaði haldið. Þetta á þó ekki við um það sem ákærði hefur trúað verjanda sínum, presti eða forstöðumanni trúfélags fyrir um málsatvik.
    Í 69. gr. laga um meðferð einkamála er kveðið á um að ef skjal, sem er skylt að láta af hendi skv. 67. gr. eftir kröfu gagnaðila, hefur að geyma atriði sem hlutaðeiganda væri óskylt eða óheimilt að bera vitni um, þá getur dómari ákveðið að skjalið verði lagt fyrir hann í trúnaði og gegn þagnarskyldu og annaðhvort að hann taki eftirrit af því úr skjalinu sem er skylt og heimilt að láta uppi eða geri skýrslu um þau atriði. Í 2. mgr. sömu greinar segir að ef sá sem er skylt að láta af hendi skjal skv. 67. gr. gerir sennilegt að það baki sér tjón eða óhagræði að verða við þeirri skyldu getur dómari ákveðið að láta við það sitja að skjalið verði afhent fyrir dómi til eftirritunar. Það sama á við ef skjal er verðmætt fyrir hlutaðeiganda eða sérstök hætta er á því að það glatist eða spillist ef það er látið af hendi. Hlutaðeigandi getur einnig krafist að trygging verði sett fyrir tjóni sem afhending skjals kann að baka honum áður en hann lætur það frá sér. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að frumrit skjala, sem ákvæði 1. og 2. mgr. taka til, skuli afhent hlutaðeiganda um leið og afnotum er lokið. Ákvæði 136. gr. laga um meðferð sakamála gildir með hliðstæðum hætti um skjöl í sakamálum að því er varðar skjöl sem hald hefur verið lagt á skv. 1. mgr. 135. gr. laganna.
    Um aðgang almennings að endurritum úr þingbók, dómum og framlögðum skjölum fer eftir reglum dómstólasýslunnar um aðgang að upplýsingum og gögnum hjá héraðsdómstólum nr. 9/2018. Í 3. gr. reglnanna kemur fram að áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum eða afrit málsgagna eru afhent skuli, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tillit til almanna- eða einkahagsmuna. Hliðstæðar reglur um aðgang almennings að gögnum úr sakamálum er að finna í 4. gr. reglnanna. Þar segir í 2. mgr. að synja megi um afrit af þeim hluta ákæru og greinargerðar sem hefur að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Í 3. mgr. 4. gr. er kveðið á um að fyrir afhendingu skuli afmá úr endurriti úr dómabók og af úrskurðum og ákvörðunum sem færðar hafa verið í þingbók atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna, þar á meðal atriði úr endurritum af úrskurðum og ákvörðunum ef það hefði í för með sér þá hættu á sakarspjöllum að þau kæmust til vitundar almennings. Um birtingu dómsúrlausna fer eftir reglum dómstólasýslunnar um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstólanna nr. 3/2019. Í 4. gr. reglnanna segir að við birtingu dómsúrlausna skuli nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna sem eðlilegt er að leynt fari. Í 4. gr. segir jafnframt að ef ekki verði tryggt að trúnaður ríki um atriði sem leynt eiga að fara með því að fella út nöfn og afmá önnur atriði úr dómsúrlausn þá sé heimilt í stað þess að birta dómsúrlausnina sjálfa að birta útdrátt þar sem meðal annars kemur fram á hverju niðurstaðan er reist. Jafnframt megi ákveða að fresta birtingu slíks útdráttar ef það er til þess fallið að tryggja betur persónuvernd. Ljóst er að heimildirnar í ofangreindum reglum dómstólasýslunnar geta náð til þess að takmarka aðgang að gögnum eða upplýsingum sem hafa að geyma viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál.
    Í IV. kafla frumvarpsins er lagt til að unnt sé að beiðast lögbanns vegna ólögmætrar öflunar, notkunar og afhjúpunar viðskiptaleyndarmáls. Er það gert til innleiðingar á 2. þætti tilskipunarinnar um bráðabirgða- og varúðarráðstafanir. Ákvæði 2. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar eiga jafnt við um lögbær dómsyfirvöld sem taka ákvarðanir um bráðabirgða- og varúðarráðstafanir, sbr. 2. þátt tilskipunarinnar og sem taka ákvarðanir um lögbönn og ráðstafanir til úrbóta, sbr. 3. þátt tilskipunarinnar. Ákvæði 2. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar eiga því við um málsmeðferð sýslumanna vegna lögbannsbeiðna.
    Í upphafi lögbannsgerðar kynnir sýslumaður gerðarþola eða málsvara hans málavexti og fyrirliggjandi gögn, sbr. 9. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Að jafnaði eru aðrir ekki kallaðir til gerðarinnar en gerðarbeiðandi, gerðarþoli og málsvarar þeirra. Aðrir en þessir aðilar hafa að jafnaði ekki aðgang að gögnum málsins. Ákvæði upplýsingalaga, nr. 140/2012, gilda ekki um lögbannsgerðir, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og er sýslumanni ekki skylt að birta gerðina eða afhenda öðrum en þeim sem taka þátt í henni eftirrit gerðarinnar eða afrit af gögnum málsins. Aðgangur að gerðinni, skjölum hennar og eftirriti er því takmarkaður við þá sem taka þátt í henni. Í 6. gr. frumvarpsins er jafnframt gert ráð fyrir að sýslumaður geti trúnaðarmerkt skjöl strax við upphaf gerðar.
    Að öllu framangreindu virtu er talið að ákvæði íslenskra laga um ráðstafanir sem dómstólar og sýslumenn geta beitt til að varðveita trúnaðarskyldu um viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál séu í samræmi við kröfur 2. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar. Því er ekki talin þörf á að setja sérstakar efnisreglur til viðbótar við þær sem þegar gilda.

3.10. Norræn lög um viðskiptaleyndarmál.
    Annars staðar á Norðurlöndum hafa verið sett ný heildarlög til innleiðingar á tilskipuninni.
    Í Danmörku voru ákvæði um viðskiptaleyndarmál felld úr dönsku markaðssetningarlögunum og ný heildarlög sett um viðskiptaleyndarmál til innleiðingar tilskipuninni (d. lov om forretningshemmeligheder (lov nr. 309 av 25. april 2018)).
    Í Finnlandi voru ákvæði til verndar viðskiptaleyndarmálum áður að finna í nokkrum mismunandi lögum. Í Finnlandi voru sett ný heildarlög til innleiðingar á tilskipuninni (s. lag om företagshemligheter (595/2018)).
    Í Noregi voru ákvæði um viðskiptaleyndarmál felld úr norsku markaðssetningarlögunum. Ný heildarlög um vernd viðskiptaleyndarmála hafa verið samþykkt í norska Stórþinginu en þau hafa ekki tekið gildi (n. lov om vern av forretningshemmeligheter).
    Í Svíþjóð hafa verið í gildi heildarlög um viðskiptaleyndarmál frá árinu 1990 (s. lag (1990:409) om företagshemligheter). Lögin voru felld úr gildi með nýjum lögum um viðskiptaleyndarmál (s. lag (2018:558) om företagshemligheter) sem voru sett til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar í sænskan rétt.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Við ritun frumvarpsins kom til álita hvort innleiða þyrfti ákvæði a- og b-liðar 5. gr. tilskipunarinnar með sérstökum hætti en ákvæðin fjalla um vernd tjáningafrelsis, þ.m.t. tjáningarfrelsis fjölmiðla og vernd uppljóstrara vegna öflunar, notkunar og afhjúpunar upplýsinga um viðskiptaleyndarmál. Ekki var talið tilefni til þess að taka upp sérstakt ákvæði um vernd tjáningarfrelsis þar sem kröfur a-liðar 5. gr. tilskipunarinnar eru tryggðar með tjáningarfrelsisvernd 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að því er varðar uppljóstraravernd þá hefur ekki reynt sérstaklega á vernd uppljóstrara skv. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Afmörkuð ákvæði hafa verið sett í íslensk lög um vernd uppljóstrara og á 150. löggjafarþingi 2019–2020 voru samþykkt lög á Alþingi um vernd uppljóstrara, nr. 40/2020. Með hliðsjón af þessu þótti rétt að setja sérstakt ákvæði sem verndar uppljóstrara þegar upplýsingar um viðskiptaleyndarmál skipta máli fyrir uppljóstrun á lögbrotum eða annarri ámælisverðri háttsemi. Um bæði atriði vísast nánar til kafla 3.3 í greinargerð.
    Efni frumvarpsins gefur að öðru leyti ekki sérstaka ástæðu til að ætla að það fari gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt. Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2019 frá 29. mars 2019 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn (Hugverkaréttindi) og er Ísland skuldbundið til að taka efni hennar upp í íslenskan rétt. Lagt er til að innleiða reglugerðina með umritunaraðferð.
    Stjórnskipulegum fyrirvara vegna innleiðingar var aflétt með þingsályktun nr. 8/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr.  91/2019 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, dags. 18. nóvember 2019.

5. Samráð.
    Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst starfsemi handhafa viðskiptaleyndarmála. Áform um lagasetninguna voru send öðrum ráðuneytum til kynningar 11. nóvember 2019. Samráð var haft við dómsmálaráðuneyti vegna viðurlagaákvæða og réttarfarsákvæða. Þá var haft samráð við dómstólasýsluna vegna ákvæða um þagnarskyldu þeirra sem koma að meðferð mála um ólögmæta öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.
    Frumdrög frumvarpsins voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 17. mars 2020 og frestur til umsagna veittur til 15. apríl 2020 (mál nr. S-75/2020). Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Neytendastofu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Athugasemdir sem bárust í samráði voru hafðar til hliðsjónar við undirbúning frumvarpsins.
    Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur bendir á að lög um viðskiptaleyndarmál megi ekki koma í veg fyrir aðgang þess að upplýsingum sem eru nauðsynlegar vegna lögbundins eftirlits auk þess sem nauðsynlegt geti verið að miðla áríðandi upplýsingum til almennings. Af því tilefni bendir ráðuneytið á að í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls teljist lögmæt að svo miklu leyti sem hennar sé krafist eða hún leyfð samkvæmt lögum eða skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Samtök atvinnulífsins benda á að hugtakið ámælisverð háttsemi í 5. gr. frumvarpsins sem fjalli um vernd uppljóstrara sé verulega matskennt og óljóst og að frekar ætti að nota orðalag tilskipunarinnar. Ráðuneytið telur gott samræmi milli efnisinntaks 5. gr. tilskipunarinnar og 5. gr. frumvarpsins en ákvæði 5. gr. tilskipunarinnar er einnig nokkuð matskennt. Einnig er bent á að við ritun frumvarpsins var gætt samræmis við ákvæði 2. mgr. 41. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og ákvæði laga um vernd uppljóstrara, nr. 40/2020. Þá er bent á að ákvæði 5. gr. frumvarpsins skal skýra að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við ákvæði 5. gr. tilskipunarinnar, sbr. 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.
    Samtök iðnaðarins benda á að 17. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, sé kveðið á um trúnaðarskyldu, en þar segi að kaupanda sé óheimilt að láta af hendi viðkvæmar upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Samtök iðnaðarins leggja til að ákvæði verði bætt við frumvarpið þar sem kveðið verði á um að um öflun, notkun og afhjúpun trúnaðarupplýsinga skv. 17. gr. laganna fari eftir lögum um viðskiptaleyndarmál. Slík viðbót við frumvarpið myndi tryggja bjóðendum í opinberum innkaupum þau úrræði sem frumvarpið hefur að geyma, til að mynda heimild til að leggja lögbann, bætur fyrir fjártjón og/eða bætur fyrir ófjárhagslegt tjón. Ráðuneytið bendir á að ákvæði 17. gr. laga um opinber innkaup kann að vera víðtækara en hugtakið viðskiptaleyndarmál samkvæmt frumvarpinu. Þá er bent á að ef upplýsingar skv. 17. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, uppfylla skilyrði 4. tölul. 2. gr. frumvarpsins þá eru þær til þess fallnar að teljast viðskiptaleyndarmál og njóta réttarverndar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Ráðuneytið telur ekki þörf á sérstakri vernd upplýsinga sem ekki teljast viðskiptaleyndarmál umfram þá vernd sem þær njóta samkvæmt lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016, X. kafla stjórnsýslulaga og almennum reglum skaðabótaréttar.
    Réttarfarsnefnd fékk frumvarpið til umsagnar 16. apríl 2020. Í umsögn réttarfarsnefndar frá 11. ágúst 2020 var bent á að í b-lið 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins væri að finna bannreglu sem einnig væri refsiákvæði skv. 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins. Þar sé vísað til heiðarlegra viðskiptahátta sem sé ekki gott orðalag í bann- og refsiákvæði. Þá sé í 2. og 3. mgr. 4. gr. að finna lýsingu á því hvað teljist ólögmæt öflun, notkun og afhjúpun á viðskiptaleyndarmáli. Í 4. mgr. 4. gr. sé tilvísun til ásetningsstigs orðað þannig: „vissi eða hefði, eftir aðstæðum, átt að vita …“ Í 4. mgr. sé að finna orðalagið: „vissi, eða ætti að hafa vitað, eftir aðstæðum …“ Háttseminni sem þar sé lýst sé refsinæm skv. 17. gr. frumvarpsins. Væntanlega séu gáleysisbrot þar með refsiverð. Heppilegra sé að kveða nákvæmar á um þetta og nota hefðbundin hugtök til að lýsa gáleysisbrotum á borð við vissi eða mátti vita eða vísa beinlínis til gáleysis eða stórfellds gáleysis. Þá sé ekki fjallað nánar um gáleysisbrot í greinargerð frumvarpsins. Við ritun frumvarpsins var tekið tillit til umsagnar réttarfarsnefndar.

6. Mat á áhrifum.
    Efni frumvarpsins getur haft áhrif til hagsbóta fyrir handhafa viðskiptaleyndarmála. Með því eru skilyrði fyrir réttarvernd viðskiptaleyndarmála gerð skýrari og handhöfum viðskiptaleyndarmála veitt bætt réttarúrræði til að gæta hagsmuna sinna. Lagt er til að réttarvernd viðskiptaleyndarmála verði færð til samræmis við réttarvernd á Evrópska efnahagssvæðinu sem eykur möguleika á hagnýtingu viðskiptaleyndarmála í atvinnurekstri yfir landamæri. Tillögunum er ætlað að hafa góð áhrif á nýsköpunarfyrirtæki sem og lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa síður fjárhagslegt bolmagn til að afla sér og viðhalda einkarétti sem fæst með skráningu einkaleyfa.
    Ekki er gert ráð fyrir að efni frumvarpsins hafi teljandi áhrif á stjórnsýslu ríkisins. Í frumvarpinu er aftur á móti gert ráð fyrir að stjórnsýslueftirlit Neytendastofu verði aflagt. Verði frumvarpið samþykkt mun Neytendastofa öðlast aukið svigrúm til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum. Hugsanlegt er að afnám stjórnsýslueftirlits, skýrari úrræði og bætt vernd viðskiptaleyndarmála muni hafa í för með sér einhverja fjölgun dómsmála sem handhafar viðskiptaleyndarmála höfða fyrir dómi.
    Efni frumvarpsins felur hvorki í sér auknar tekjur né gjöld fyrir ríkissjóð. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir neinum fjárhagsáhrifum á afkomu ríkissjóðs vegna lagabreytinganna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að innleiða 1. gr. tilskipunarinnar. Greinin fjallar um gildissvið laganna og kveður á um að lögin gildi um vernd gegn ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála. Lagt er til grundvallar að gildissviðið sé hið sama og 1. gr. tilskipunarinnar, sbr. 11.–13. lið aðfararorða hennar.
    Í samræmi við 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar hefur efni frumvarpsins ekki áhrif á:
     1.      Rétt til tjáningarfrelsis og upplýsinga, þ.m.t. að frelsi og fjölræði fjölmiðla sé virt. Sá réttur er einnig tryggður sérstaklega með a-lið 5. gr.
     2.      Beitingu Evrópusambands- eða landsreglna þar sem krafist er að handhafar viðskiptaleyndarmála birti, í þágu almannahagsmuna, upplýsingar, þ.m.t. viðskiptaleyndarmál, almenningi eða stjórnvöldum eða dómsyfirvöldum fyrir framkvæmd skyldustarfa þessara yfirvalda.
     3.      Beitingu Evrópusambands- eða landsreglna þar sem þess er krafist eða það leyft að stofnanir og aðilar Evrópusambandsins eða landsbundin opinber stjórnvöld birti upplýsingar sem fyrirtæki leggja fram og sem þessar stofnanir, aðilar eða stjórnvöld hafa með höndum samkvæmt og í samræmi við skuldbindingar og heimildir sem eru settar fram í lögum Evrópusambandsins eða landslögum.
     4.      Sjálfstæði aðila vinnumarkaðarins og rétt þeirra til að gera kjarasamninga, í samræmi við lög Evrópusambandsins eða landslög og venjur.
    Í samræmi við 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar er með frumvarpinu ekki ætlunin að takmarka hreyfanleika starfsmanna. Efni þess á því ekki að gefa tilefni til að takmarka notkun starfsmanna á upplýsingum sem ekki fela í sér viðskiptaleyndarmál, takmarka notkun starfsmanna á reynslu og færni sem þeir hafa öðlast heiðarlega í daglegum störfum sínum eða setja hvers konar viðbótartakmarkanir á starfsmenn í ráðningarsamninga aðrar en takmarkanir sem eru settar í samræmi við lög Evrópusambandsins eða landslög.

Um 2. gr.

    Lagt er til að innleiða 2. gr. tilskipunarinnar. Í greininni er kveðið á um hugtaksskilgreiningar sem hafa þýðingu fyrir ákvæði laganna.
    Í 1.–3. tölul. er að finna skilgreiningar á hugtökunum brotavarningur, handhafi viðskiptaleyndarmáls og hinn brotlegi. Hugtökin svara efnislega til hugtakanna í 2.–4. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar.
    Í gildandi lögum er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu atvinnuleyndarmál. Í 4. tölul. er lagt til að í stað hugtaksins atvinnuleyndarmál verði stuðst við hugtakið viðskiptaleyndarmál. Hugtakið svarar efnislega til hugtaksins í 1. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. 14. lið aðfararorða hennar. Í c-lið 4. tölul. greinarinnar er lagt til að notuð verði orðin „einstaklingur eða lögaðili“ um þá sem ráða löglega yfir og hafa gert eðlilegar ráðstafanir eftir aðstæðum til að halda upplýsingunum sem um ræðir leyndum. Ástæða þess er að orðið „einstaklingur“ eitt og sér kann að hafa of þrönga skírskotun. Í c-lið 1. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar er einungis notað orðið „einstaklingur“. Í 2. og 3. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar er aftur á móti gerður greinarmunur á einstaklingi og lögaðila. Í 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins er þannig gert ráð fyrir að handhafi viðskiptaleyndarmáls sé einstaklingur eða lögaðili sem ræður löglega yfir viðskiptaleyndarmáli. Samanburður við útgáfur tilskipunarinnar á öðrum tungumálum leiðir í ljós að notast er við orðið „person“ í c-lið 1. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar, en greinarmunur er hins vegar gerður á „legal person“ og „natural person“ í 2. og 3. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar svo dæmi sé tekið úr enskri útgáfu hennar. Um skýringar á hugtakinu viðskiptaleyndarmál vísast að öðru leyti til umfjöllunar í kafla 3.1 í greinargerð.

Um 3. gr.

    Með greininni er lagt til að innleiða 3. gr. tilskipunarinnar og kveðið á um hvenær öflun viðskiptaleyndarmáls telst lögmæt. Greinin samsvarar efnislega 3. gr. tilskipunarinnar, sbr. 15.–18. lið aðfararorða hennar.
    Í frumvarpinu er ekki lagt til að einkaréttur skapist á sérþekkingu eða upplýsingum sem njóta verndar sem viðskiptaleyndarmál. Þannig ætti sjálfstæð uppgötvun sömu sérþekkingar eða upplýsinga að vera möguleg áfram. Af þeim sökum fellur svokölluð vendismíði (e. reverse engineering) undir b-lið 1. mgr. 3. gr. Vendismíði vöru sem er aflað löglega ætti að teljast lögmæt aðferð til að afla upplýsinga nema samið hafi verið um annað. Þá getur almenn þekking og reynsla ekki fallið undir það að vera viðskiptaleyndarmál. Rétt er að vekja athygli á því að í b-lið 1. mgr. 3. gr. er stuðst við orðalagið „skuldbundinn að lögum“. Með því er bæði átt við gilda einkaréttarlega skuldbindingu sem samið hefur verið um og lagaskyldu.

Um 4. gr.

    Með greininni er lagt til að innleiða 4. gr. tilskipunarinnar. Greininni er ætlað að vernda viðskiptaleyndarmál gegn ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun þeirra. Ákvæðin taka bæði til misnotkunar af hálfu utanaðkomandi aðila og þeirra sem tengjast handhafa viðskiptaleyndarmálsins á einhvern hátt, svo sem í verk- eða vinnusambandi. Ákvæði greinarinnar ná til ýmiss konar óréttmætrar nýtingar viðskiptaleyndarmála, svo sem með þjófnaði, afritun án leyfis, iðnaðarnjósnum eða brotum á trúnaðarskyldu.
    Í 1. mgr. er lagt bann við ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hvenær öflun viðskiptaleyndarmáls án samþykkis handhafa þess telst ólögmæt. Í a-lið. segir að öflun viðskiptaleyndarmáls án samþykkis handhafa þess teljist ólögmæt sé viðskiptaleyndarmálsins aflað með óheimilum aðgangi að, töku eða afritun skjala, hluta, efnis eða rafrænna skráa sem handhafi viðskiptaleyndarmálsins ræður löglega yfir og sem fela í sér viðskiptaleyndarmál eða að hægt sé að draga ályktanir um viðskiptaleyndarmál af. Í b-lið segir að öflun viðskiptaleyndarmáls án samþykkis handhafa þess teljist ólögmæt sé viðskiptaleyndarmálsins aflað með hvers konar annarri háttsemi sem, eftir aðstæðum, telst í andstöðu við heiðarlega viðskiptahætti. Það nægir að annað hvort skilyrðanna sé uppfyllt til þess að um ólögmæta öflun sé að ræða. Ákvæði 2. mgr. geta, eftir því sem við á, átt við um þá sem hafa annars lögmætan aðgang að fyrirtæki. Ákvæði 2. mgr. geta, eftir því sem við á, átt við um þá sem hafa annars lögmætan aðgang að fyrirtæki, t.d. einstakling sem er boðið í heimsókn til fyrirtækis. Vísiregluna um heiðarlega viðskiptahætti er þegar að finna í 5. gr. markaðssetningarlaganna og veita ákvæði þeirra laga og frumvarpsins viðskiptaleyndarmálum víðtæka vernd. Gengið er út frá því að unnt verði að beita bæði b-lið 2. mgr. frumvarpsins og 5. gr. markaðssetningarlaganna til verndar viðskiptaleyndarmálum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um það hvenær notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls án samþykkis handhafa þess telst ólögmæt. Skilyrði þess að notkunin eða afhjúpunin teljist ólögmæt eru talin upp í a–c-lið 3. mgr. Í a-lið segir að notkun eða afhjúpun án samþykkis handhafa viðskiptaleyndarmálsins teljist ólögmæt ef viðkomandi hefur aflað viðskiptaleyndarmálsins ólöglega, sbr. 2. mgr. Notkun eða afhjúpun án samþykkis handhafa viðskiptaleyndarmálsins telst einnig ólögmæt ef viðkomandi brýtur gegn trúnaðarsamkomulagi eða öðrum skyldum um að afhjúpa ekki viðskiptaleyndarmálið, sbr. b-lið. Þá telst notkun eða afhjúpun án samþykkis handhafa viðskiptaleyndarmálsins einnig ólögmæt ef viðkomandi brýtur gegn samningi eða öðrum skyldum um að takmarka notkun viðskiptaleyndarmálsins, sbr. c-lið. Það nægir að eitt af skilyrðunum þremur sé uppfyllt til þess að um ólögmæta notkun eða afhjúpun sé að ræða.
    Ákvæði 3. mgr. nær til ólögmætrar notkunar eða afhjúpunar. Hafi leyfi verið gefið til notkunarinnar eða afhjúpunarinnar eða ef hún er nauðsynlegur þáttur í starfi viðkomandi fellur slíkt utan 3. mgr. Ákvæðið getur til dæmis átt við um starfsmenn sem láta keppinautum í té upplýsingar um viðskiptaleyndarmál. Það getur hins vegar einnig átt við um þá sem hafa látið af störfum fyrir fyrirtæki. Með notkun í skilningi 3. mgr. er átt við hvers konar notkun, svo sem eins og að nota viðskiptaleyndarmálið í verkefni, til að útbúa vörur eða markaðssetja þær. Með hugtakinu afhjúpun er átt við að sagt sé frá leyndarmálinu, að upplýsingar um það séu afhentar þriðja aðila, að þær séu birtar eða á annan hátt gerðar aðgengilegar almenningi. Í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar er stuðst við hugtakið birting viðskiptaleyndarmáls, sbr. 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að notað verði orðið „afhjúpun“ í stað orðsins „birting“. Ástæða þess er sú að orðið „birting“ kann að hafa of þrönga skírskotun en „afhjúpun“ þykir endurspegla betur merkingu þeirra orða sem eru notuð í sænsku (s. röjande), frönsku (fr. divulgation), þýsku (þ. Offenlegung) og ensku (e. disclosure) útgáfu tilskipunarinnar svo dæmi séu tekin. Viðskiptaleyndarmál sem njóta verndar geta verið af ýmsum toga og erfitt að gefa fyrir fram leiðbeiningar um hvers eðlis þau eru. Upplýsingarnar um viðskiptaleyndarmál geta hafa verið merktar sem trúnaðarmál en þurfa ekki að hafa verið það til þess að njóta verndar.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að það teljist einnig ólögmætt að afla, nota eða afhjúpa viðskiptaleyndarmál þegar sá sem vissi eða hefði, eftir aðstæðum, átt að vita á þeim tíma þegar viðskiptaleyndarmálsins var aflað, það notað eða afhjúpað að það var fengið beint eða óbeint frá öðrum einstaklingi eða lögaðila sem notaði eða afhjúpaði það ólöglega skv. 3. mgr. Ákvæðinu er ætlað að ná til þriðja aðila sem aflar, notar eða afhjúpar viðskiptaleyndarmál og fær það frá öðrum einstaklingi eða lögaðila sem notaði eða afhjúpaði það ólöglega. Gert er að skilyrði að þriðji aðili hafi vitað eða hefði eftir aðstæðum mátt vita um ólögmæti notkunarinnar eða afhjúpunarinnar. Með hinu síðara ásetningsstigi er vísað til þess að gáleysi nægi til að háttsemi verði refsiverð. Við mat á ásetningsstigi er rétt að litið sé til aðstæðna hverju sinni, sbr. orðalag 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Sé þriðji aðili í góðri trú á ákvæðið ekki við og verður ekki gerð refsing fyrir. Enda þótt svo sé ástatt um þriðja aðila getur handhafi viðskiptaleyndarmálsins engu að síður krafist þess að sá hinn sami afhendi honum uppdrætti, lýsingar, uppskriftir, líkön eða þess háttar sem hafa að geyma viðskiptaleyndarmálið.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að það teljist einnig ólögmæt notkun viðskiptaleyndarmáls að framleiða, bjóða eða setja á markað brotavarning. Að sama skapi er ólögmætt að flytja inn, flytja út eða geyma brotavarning í því skyni að framleiða, bjóða eða setja varninginn á markað þegar sá sem gerir slíkt vissi, eða mátti vita að viðskiptaleyndarmálið var notað ólöglega skv. 3. mgr. Með hinu síðara ásetningsstigi er vísað til þess að gáleysi nægi til að háttsemi verði refsiverð. Við mat á ásetningsstigi er rétt að litið sé til aðstæðna hverju sinni, sbr. orðalag 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar.

Um 5. gr.

    Með greininni er lagt til að innleiða b- og c-lið 5. gr. tilskipunarinnar. Ekki er talin þörf á að innleiða a- eða d-lið 5. gr. með sérstökum ákvæðum og vísast um það til kafla 3.9 í greinargerð.
    Greinin fjallar um vernd uppljóstrara og vernd starfsmanna vegna öflunar, notkunar eða afhjúpunar viðskiptaleyndarmála. Greinin felur í sér að öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmáls telst lögmæt í skilningi 4. gr. ef skilyrði a- eða b-liðar greinarinnar eru uppfyllt. Ber þá að hafna kröfum um ráðstafanir, skaðabætur eða lögbann skv. IV. og V. kafla. Rétt þykir að niðurstaða um að skilyrði undanþágu séu uppfyllt leiði til sýknu enda snýr mat á því að efnishlið málsins. Fyrirmynd þessa ákvæðis er sótt til ákvæða finnskra, norskra og sænskra laga um sama efni. Þar sem greinin felur í sér undantekningu frá 4. gr. frumvarpsins hvílir sönnunarbyrði á stefnda eða gerðarþola um að ákvæði greinarinnar eigi við um hann.
    Í a-lið greinarinnar segir að þrátt fyrir ákvæði 4. gr. teljist öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmáls lögmæt þegar hún á sér stað til að ljóstra upp um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi svo fremi það sé gert í því skyni að vernda almannahagsmuni. Ákvæði b-liðar greinarinnar svarar efnislega til b-liðar 5. gr. tilskipunarinnar en hefur verið aðlagað orðalagi íslensks réttar, svo sem ákvæði 2. mgr. 41. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ákvæðið getur átt við um háttsemi sem er alla jafna refsiverð, ólögmæt eða telst á annan hátt ámælisverð án þess að brjóta beinlínis gegn lögum. Upplýsingarnar verða að vera nægilega áreiðanlegar og nákvæmar til þess að ákvæðið eigi við. Dylgjur eða vangaveltur um misferli, brot eða ólöglega starfsemi nægja því ekki til þess að ákvæðið eigi við. Rétt er að taka fram að upplýsingar um misferli, brot eða ólöglega starfsemi eru ekki viðskiptaleyndarmál og geta ekki notið verndar samkvæmt frumvarpinu. Aftur á móti kann að vera óhjákvæmilegt að miðla upplýsingum um viðskiptaleyndarmál til þess að ljóstra upp um tengda háttsemi sem felur í sér misferli, brot eða ólöglega starfsemi. Upplýsingar sem í viðskiptaleyndarmálinu felast verða að skipta máli fyrir uppljóstrunina. Ef afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins hefur enga þýðingu fyrir uppljóstrunina á ákvæðið ekki við. Uppljóstrun í skilningi ákvæðisins þarf ekki endilega að fela í sér miðlun upplýsinga til almennings. Miðlunin getur t.d. verið til viðeigandi stjórnvalds sem rannsakar háttsemina í kjölfarið á grundvelli upplýsinganna. Ákvæðið á einungis við ef uppljóstrunin er gerð í því skyni að vernda almannahagsmuni. Til almannahagsmuna getur meðal annars talist háttsemi sem ógnar almannaöryggi, neytendavernd, lýðheilsu eða umhverfisvernd.
    Í b-lið greinarinnar segir að þrátt fyrir ákvæði 4. gr. teljist öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmáls lögmæt þegar starfsmenn miðla viðskiptaleyndarmáli til fulltrúa sinna og það er liður í að viðkomandi fulltrúar inni störf sín af hendi í samræmi við lög eða kjarasamning svo fremi að afhendingin hafi verið nauðsynleg í þeim tilgangi. Ákvæðið svarar efnislega til c-liðar 5. gr. tilskipunarinnar þar sem kveðið er á um launþega sem afhenda fulltrúum sínum viðskiptaleyndarmál. Lagt er til að hugtakið fulltrúar starfsmanna verði túlkað í samræmi við 1. tölul. 3. gr. laga um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, nr. 151/2006. Ákvæðið er sett til þess að taka af allan vafa um að starfsmanni sé heimilt að upplýsa fulltrúa sinn um viðskiptaleyndarmál til þess að fulltrúinn geti innt störf sín af hendi með löglegum hætti. Ákvæðið getur t.d. átt við þegar ágreiningur ríkir um hugverk starfsmannsins eða notkun þess. Fulltrúanum kann að vera nauðsynlegt að fá upplýsingar um viðskiptaleyndarmálið til þess að hann geti staðfest að atvik máls séu með tilteknum hætti eða með öðrum hætti unnið í þágu starfsmannsins. Rétt er að taka fram að afhjúpunin verður að vera nauðsynleg og sannarlega tengjast starfi fulltrúans svo ákvæðið eigi við.

Um 6. gr.

    Greinin er að hluta til innleiðing á 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar. Lagt til að sýslumaður eða dómari geti trúnaðarmerkt upplýsingar sem fela í sér viðskiptaleyndarmál eða ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Með sérstökum ástæðum er t.d. átt við ef ekki er ljóst hvort um viðskiptaleyndarmál sé að ræða en sérstakar ástæður mæli með því að upplýsingar séu trúnaðarmerktar meðan á málsmeðferð stendur.

Um 7. gr.

    Greinin er að hluta til innleiðing á 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar og er ætlað að koma til viðbótar við þau ákvæði laga sem þegar gilda um þagnarskyldu ýmissa aðila sem komið geta að málum um ólögmæta öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála. Vísast um þau til umfjöllunar um þagnarskyldu í kafla 3.9.2 í greinargerð. Ákvæði greinarinnar eiga jafnt við um lögbannsgerðir, einkamál og sakamál.
    Í 1. mgr. segir að þeir sem taka þátt í málum um ólögmæta öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmáls eða sem hafa aðgang að skjölum mála beri þagnarskyldu samkvæmt ákvæðum greinarinnar og ákvæðum annarra laga eftir því sem við á. Með þessu er átt við að þagnarskyldan fari eftir ákvæðum greinarinnar sem og ákvæðum sérlaga um þagnarskyldu sem hvílir á einstaklingunum. Þannig gilda t.d. ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um þagnarskyldu dómara, starfsmanna dómstólanna, sýslumanna og starfsmanna þeirra, saksóknara, saksóknarfulltrúa og annarra starfsmanna.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um þagnarskyldu sérfróðra meðdómsmanna og matsmanna. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um þagnarskyldu þessara aðila og er því þörf á sérákvæði um þagnarskyldu þeirra. Lagt er til að um þagnarskyldu sérfróðra meðdómsmanna og matsmanna í málum um ólögmæta öflun, notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmáls fari eftir ákvæðum X. kafla stjórnsýslulaga. Ákvæði kaflans gilda með hliðstæðum hætti um dómara, sbr. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, auk þess sem þau fullnægja kröfum 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er lagt til að lögmönnum, lögmannsfulltrúum og starfsmönnum lögmanna verði óheimilt að notfæra sér í eigin þágu eða annarra viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál sem hefur verið trúnaðarmerkt og þeir hafa orðið áskynja um í starfi sínu eða vegna starfs síns. Þagnarskylduákvæði 1. mgr. 22. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, kveður ekki sérstaklega á um að lögmönnum sé óheimilt að hagnýta sér í eigin þágu eða annarra þær upplýsingar sem þeir verða áskynja í starfi sínu. Vera kann að unnt sé að nýta viðskiptaleyndarmál í eigin þágu án þess að leyndarmálið sé afhjúpað. Ákvæðið er því sett til að taka af allan vafa um þetta atriði.
    Í 4. mgr. er lagt til að málsaðilum, vitnum og öðrum þeim sem taka þátt í máli um ólögmæta öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls eða sem hafa aðgang að skjölum málsins sé óheimilt að afhjúpa eða notfæra sér í eigin þágu eða annarra viðskiptaleyndarmál eða meint viðskiptaleyndarmál sem hefur verið trúnaðarmerkt og þeir hafa orðið áskynja um vegna aðildar að málinu eða aðgangs að skjölum þess. Ákvæðið er sett til að taka af vafa um að þagnarskylda hvíli á þessum aðilum hafi þeir orðið áskynja um trúnaðarmerkt skjöl. Þagnarskyldan virkjast um leið og þeir verða áskynja um hin trúnaðarmerktu skjöl. Í 69. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og 136. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er að finna ákvæði sem heimila að skjal verði í ákveðnum tilfellum lagt fyrir hlutaðeigandi í trúnaði og gegn þagnarskyldu eða verði afhent til eftirritunar. Gert er ráð fyrir að ákvæði 4. mgr. gildi til viðbótar við þau ákvæði.
    Í 5. mgr. er lagt til að þagnarskylda haldist eftir að máli lýkur. Þá er lagt til að þagnarskyldan falli niður annars vegar ef ákveðið er með dómi að upplýsingar teljist ekki viðskiptaleyndarmál í skilningi laganna eða þær verða almennt þekktar eða aðgengilegar meðal einstaklinga innan hópa sem venjulega fást við þess konar upplýsingar. Ákvæðið á jafnt við um þagnarskyldu samkvæmt ákvæðum greinarinnar og þagnarskyldu sem gildir samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Um 8. gr.

    Greinin er sett til innleiðingar á 3. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar. Í 3. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að þegar ráðstafanirnar um að takmarka aðgang að skjali, réttarhöldum og fjölda einstaklinga sem um getur í 2. mgr. 9. gr. eru ákvarðaðar og metið er hvort þær eru í réttu hlutfalli við brot skulu lögbær dómsyfirvöld taka tillit til nauðsynjar þess að tryggja réttinn til raunhæfs úrræðis málsaðila til að leita réttar síns og réttlátrar málsmeðferðar, lögmætra hagsmuna sinna og, eftir því sem við á, þriðju aðila, og hugsanlegs tjóns, sem verður þegar slíkar ráðstafanir eru samþykktar eða þeim hafnað, fyrir annan hvorn málsaðila, og, eftir því sem við á, fyrir þriðju aðila.
    Ekki er talin þörf á að innleiða 2. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar með sérstökum lagaákvæðum þar sem ákvæði íslenskra laga eru talin uppfylla skilyrði hennar og vísast um það til umfjöllunar um ráðstafanir til að varðveita trúnaðarskyldu í kafla 3.9.3 í greinargerð.
    Með greininni er lagt til að við ákvörðun dómara samkvæmt tilgreindum ákvæðum laga um meðferð einkamála, laga um meðferð sakamála og samkvæmt reglum dómstólasýslunnar um birtingu dóma og úrskurða á vef dómstólanna og um aðgang að upplýsingum og gögnum héraðsdómstólanna verði tekið tillit til sjónarmiða sem talin eru upp í a–c-lið.

Um 9. gr.

    Með greininni er lagt til innleiða a- og b-lið 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. og 1–4. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. segir að handhafi viðskiptaleyndarmáls geti fengið lögbann lagt við öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. þó 2. og 4. mgr. greinarinnar. Lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl. eru almenn og fjalla ekki sérstaklega um lögbann vegna öflunar, notkunar eða afhjúpunar viðskiptaleyndarmála. Lögin geta tekið til viðskiptaleyndarmála og er eftir atvikum unnt að fá lögbann lagt við öflun, notkun eða afhjúpun þeirra. Þannig er við lögbannsgerð unnt að stöðva eða eftir atvikum leggja bann við notkun eða birtingu viðskiptaleyndarmálsins í atvinnuskyni og leggja bann við framleiðslu, söluboði, markaðssetningu eða notkun brotavarnings eða innflutningi, útflutningi eða geymslu slíks varnings í þessu skyni, sbr. skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Með ákvæði 1. mgr. er lagt til að almennar reglur laga um kyrrsetningu, lögbann, o.fl. gildi um lögbann vegna viðskiptaleyndarmála nema sérstaklega sé kveðið á um annað í frumvarpinu. Með því er stefnt að innleiðingu þeirra ákvæða tilskipunarinnar sem teljast ekki þegar uppfyllt með ákvæðum laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
    Í 2. mgr. segir að lögbann megi leggja við athöfn skv. 1. mgr. ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að viðskiptaleyndarmál sé fyrir hendi, að gerðarbeiðandi sé handhafi viðskiptaleyndarmálsins og viðskiptaleyndarmálsins hafi verið aflað ólöglega, það sé notað eða afhjúpað ólöglega eða ólögmæt öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins sé yfirvofandi. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. gildir ákvæði 2. mgr. þegar ákveðið er hvort leggja skuli á lögbann við öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls. Hvort öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls er ólögmæt í skilningi c-liðar 2. mgr. fer eftir ákvæðum 4. gr.
    Í 3. mgr. segir að við mat á því hvort lögbann verði lagt á skv. 1. mgr. skuli tekið tillit til sérstakra aðstæðna í málinu. Ákvæði 3. mgr. svara efnislega til 2. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði tilskipunarinnar gera ráð fyrir því að fram fari mat á því hvort bráðabirgðaráðstafanir og varúðarráðstafanir séu í réttu hlutfalli við brot og að tekið sé tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem þar eru tilgreindar. Ákvæði 2. tölul. 3. mgr. 24. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann, o.fl. felur í sér að fram fari hagsmunamat áður en tekin er ákvörðun um hvort leggja eigi á lögbann. Áfram er gert ráð fyrir að hagsmunamat fari fram samkvæmt því ákvæði. Ákvæði 3. mgr. greinarinnar felur aftur á móti í sér að taka skuli tillit til þeirra sjónarmiða sem tilgreind eru í a–h-lið 3. mgr. við mat á hugsanlegu lögbanni, ef við á.
    Í 4. mgr. segir að sýslumaður geti að kröfu gerðarþola fellt lögbann úr gildi ef upplýsingarnar sem lögbannið varðar teljast ekki lengur viðskiptaleyndarmál af ástæðum sem ekki verða raktar til gerðarþola. Ákvæðið svarar efnislega til b-liðar 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar. Í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er ekki að finna samsvarandi ákvæði og er því nauðsynlegt að innleiða það sérstaklega. Ákvæði 4. mgr. kemur til viðbótar við önnur ákvæði laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. sem fjalla um endurupptöku eða niðurfellingu lögbanns.
    Í 5. mgr. segir að í stað lögbanns geti sýslumaður ákveðið að hinn brotlegi geti haldið áfram notkun viðskiptaleyndarmálsins enda sé trygging sett fyrir endurgjaldi til gerðarbeiðanda. Ákvæðið svarar efnislega til 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. er ekki að finna samsvarandi ákvæði og er því nauðsynlegt að innleiða það sérstaklega. Ákvæðið tekur til endurgjalds fyrir notkun viðskiptaleyndarmálsins. Við ákvörðun endurgjalds er meðal annars unnt að líta til virðis viðskiptaleyndarmálsins. Ákvæðið á einkum við þegar lítil hætta er á því að viðskiptaleyndarmálið verði almenningseign, sbr. 26. lið aðfararorða tilskipunarinnar. Ákvæðið gildir einungis um notkun viðskiptaleyndarmáls. Því er ekki unnt að ákveða að hinn brotlegi geti afhjúpað eða haldið áfram að afhjúpa viðskiptaleyndarmál gegn tryggingu fyrir endurgjaldi.

Um 10. gr.

    Með greininni er lagt til innleiða c-lið 1. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Þar segir að aðildarríki skuli tryggja að lögbær dómsyfirvöld geti, að beiðni handhafa viðskiptaleyndarmáls, fyrirskipað haldlagningu eða afhendingu á varningi sem grunur leikur á að sé brotlegur, þ.m.t. innfluttur varningur, til að koma í veg fyrir að hann verði settur á markað eða fari þar í umferð.
    Skv. 2. mgr. 25. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. getur sýslumaður við lögbannsgerð, eftir kröfu gerðarbeiðanda, tekið muni úr vörslum gerðarþola og varðveitt þá á kostnað gerðarbeiðanda uns dómur eða sátt kveður á um réttindi málsaðila hafi munirnir verið nýttir eða bersýnilega verið ætlaðir til nota við þá athöfn sem lögbann er lagt við, enda þyki sýnt að brýn hætta sé á að gerðarþoli muni nýta þá til að brjóta lögbannið ef hann heldur vörslum þeirra. Samkvæmt þessu er skilyrði tilskipunarinnar um haldlagningu þegar uppfyllt í íslenskum rétti. Ákvæði um afhendingu varnings til gerðarbeiðanda er aftur á móti ekki að finna í lögunum og er því nauðsynlegt að setja sérstakt ákvæði um það. Ákvæðið er orðað með svipuðum hætti og ákvæði 2. mgr. 25. gr. fyrrgreindra laga og kemur því til viðbótar.

Um 11. gr.

    Með greininni er lagt til að innleiða 12. og 1. og 2. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði greinarinnar eiga jafnt við um mál til staðfestingar lögbanni skv. VI. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og hefðbundin dómsmál.
    Í 1. mgr. er lagt til að þegar því hefur verið slegið föstu að öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmáls teljist ólögmæt megi grípa með dómi til þeirra ráðstafana sem tilgreindar eru í a–f-lið 1. mgr. Dómstólar geta nú þegar gripið með dómi til þeirra ráðstafana sem taldar eru í a–f-lið 1. mgr. Í íslenskum rétti er hins vegar ekki að finna sérstakar reglur um hvaða ráðstafanir megi grípa til með dómi í þessu tilliti. Tilgangur 1. mgr. er því einungis sá að tryggja fullnægjandi og rétta innleiðingu 1. og 2. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar. Ráðstafanir skv. b-lið 1. mgr. eru bann við framleiðslu, söluboði, markaðssetningu eða notkun brotavarnings eða innflutningi, útflutningi eða geymslu slíks varnings í því skyni að framleiða, bjóða til sölu, markaðssetja eða nota brotavarning. Ráðstafanir skv. e- og f-lið 1. mgr. þurfa ekki nauðsynlega að hafa í för með sér að vörum sé eytt ef aðrir vænlegir kostir eru fyrir hendi. Með hliðsjón af meðalhófsreglu er t.d. unnt að ákveða að fjarlægja skuli þá eiginleika vörunnar sem brjóta í bága við reglur, eða að ráðstafa megi vörunum utan markaðarins, t.d. með framlögum til góðgerðastofnana, sbr. 28. lið aðfararorða tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er lagt til að við mat á því til hvaða ráðstafana verður gripið skv. 1. mgr. og við mat á því hvort þær hæfi brotinu skuli dómari taka tillit til þeirra sjónarmiða sem tilgreind eru í a–h-lið 2. mgr. Ákvæði 2. mgr. felur meðal annars í sér meðalhófsreglu og eru sjónarmiðin ekki tæmandi talin. Gert er ráð fyrir að dómari styðjist við sjónarmiðin eftir því sem þau eiga við í hverju máli fyrir sig. Ákvæðið svarar efnislega til 1. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. málsl. 3. mgr. er fjallað um þætti sem gæta verður að þegar gildistími ráðstafana er tímabundinn skv. 1. mgr. Í 2. málsl. 3. mgr. er fjallað um að ráðstafanir sem gripið hefur verið til með dómi falli sjálfkrafa úr gildi ef þær varða ekki lengur viðskiptaleyndarmál og það er af ástæðum sem ekki verða raktar til stefnda. Þetta á við ef upplýsingarnar, sem leiddu til þess að gripið var til ráðstafananna, uppfylla ekki lengur kröfur til þess að teljast viðskiptaleyndarmál í skilningi 4. tölul. 2. gr. og það er af ástæðum sem ekki má rekja til stefnda í málinu. Ákvæðið svarar efnislega til 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar.
    Í 4. mgr. er fjallað um að ráðstafanir skv. c–f-lið 1. mgr. skuli vera á kostnað hins brotlega nema sérstakar ástæður mæli móti því og að ráðstafanirnar taki ekki til skaðabóta fyrir tjón sem handhafi viðskiptaleyndarmálsins kann að verða fyrir af völdum ólögmætrar öflunar, notkunar eða birtingar viðskiptaleyndarmálsins. Ákvæðið svarar efnislega til 4. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. segir að í stað ráðstafana skv. 11. gr. megi ákveða að greiða skuli bætur fyrir fjártjón. Skilyrði 1. mgr. þurfa öll að vera uppfyllt til að ákvæðið eigi við. Rétt er að taka fram að brjóti sá sem gerist sekur um ólögmæta notkun viðskiptaleyndarmáls einnig gegn ákvæðum annarra laga eða skaði líklega neytendur eigi samt sem áður ekki að leyfa áfram hina ólögmætu notkun, sbr. 29. lið aðfararorða tilskipunarinnar. Greinin svarar efnislega til 3. mgr. 13. gr. tilskipunarinnar.

Um 13. gr.

    Með greininni er lagt til að innleiða ákvæði 14. gr. tilskipunarinnar. Greinin kveður á um skaðabætur vegna tjóns sem handhafi viðskiptaleyndarmáls hefur orðið fyrir vegna ólögmætrar öflunar, notkunar eða afhjúpunar viðskiptaleyndarmáls. Svipuð ákvæði um skaðabótaskyldu má finna í 25. gr. b markaðssetningarlaganna, 43. gr. laga um vörumerki, nr. 45/1997, 58. gr. laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, og 38. gr. laga um hönnun nr. 46/2001. Greinin tekur til skaðabóta hvort sem brotið hefur verið gegn samningi eður ei.
    Í 1. mgr. kemur fram að brot framin af ásetningi eða gáleysi leiða til þess að hinn brotlegi verður skaðabótaskyldur. Bætur miðast við tjón handhafa viðskiptaleyndarmálsins. Um mat á tjóninu gilda almennar reglur skaðabótaréttar og ákvæði 2.–4. mgr. greinarinnar. Einnig er gert að skilyrði að háttsemi hafi verið ólögmæt í skilningi 4. gr. og vísast um það til þeirrar greinar.
    Í 2. mgr. er lagt til að við ákvörðun bóta skuli meðal annars litið til tapaðs hagnaðar handhafa viðskiptaleyndarmálsins og óréttmætrar auðgunar hins brotlega.
    Í 3. mgr. segir að ákveða megi að bætur svari a.m.k. til hæfilegs endurgjalds fyrir hagnýtingu viðskiptaleyndarmálsins. Mat á því hvað telst vera hæfilegt endurgjald er í höndum dómstóla og ber þá að horfa til þess hvað telst vera sanngjarnt í hverju tilviki. Með hæfilegu endurgjaldi er átt við rétthafagreiðslur eða gjöld sem komið hefðu til greiðslu hefði hinn brotlegi óskað eftir heimild til að nota viðskiptaleyndarmálið. Markmiðið með þessu er að tryggja að bætur byggist á hlutlægri viðmiðun og að tillit sé tekið til útgjalda sem handhafi viðskiptaleyndarmálsins varð fyrir, svo sem kostnaðar vegna auðkenningar og rannsókna. Ákvæðið um hæfilegt endurgjald getur t.d. átt við þegar erfitt reynist að ákvarða fjárhæð réttmætra skaðabóta, að teknu tilliti til óáþreifanlegra eiginleika viðskiptaleyndarmála, sbr. 30. lið aðfararorða tilskipunarinnar.
    Í 4. mgr. segir að dæma megi bætur til handhafa viðskiptaleyndarmálsins vegna ófjárhagslegs tjóns. Með þessu er meðal annars átt við hvers konar tjón af siðferðilegum toga sem handhafi viðskiptaleyndarmálsins verður fyrir.

Um 14. gr.

    Með greininni er lagt til að innleiða 15. gr. tilskipunarinnar. Í íslenskum rétti er ekki að finna ákvæði um miðlun dómsniðurstöðu í málum er varða viðskiptaleyndarmál og er því þörf á að innleiða ákvæði 15. gr. í heild sinni. Greinin fjallar um viðeigandi ráðstafanir sem dómari getur ákveðið til að miðla upplýsingum um dóm í máli. Slíkar ráðstafanir verða aðeins ákveðnar eftir kröfu þess sem misgert er við og ef þær eru taldar eiga við. Ráðstafanirnar skulu vera á kostnað hins brotlega. Greinin á bæði við í einkamálum og sakamálum vegna ólögmætrar öflunar, notkunar og afhjúpunar viðskiptaleyndarmála. Rétt er að taka fram að greinin kveður ekki á um birtingu dóma heldur kveður hún á um eina tegund ráðstafana sem dómari getur ákveðið vegna ólögmætrar öflunar, notkunar eða afhjúpunar viðskiptaleyndarmáls. Um birtingu dóma fer eftir reglum dómstólasýslunnar um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna nr. 3/2019, sbr. 6. mgr. 7. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016. Gert er ráð fyrir að miðlun dómsniðurstöðu samkvæmt greininni fari að öðru leyti fram í samræmi við þær reglur, lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, ákvæði almennra hegningarlaga um friðhelgi einkalífs sem og önnur ákvæði laga eftir því sem við á.
    Í 1. mgr. segir að ráðstafanir verði ekki ákveðnar nema að kröfu þess sem misgert er við. Sá sem misgert er við telst jafnan vera handhafi viðskiptaleyndarmálsins. Miðlun upplýsinga í skilningi 1. mgr. getur til dæmis átt sér stað með birtingu í dagblöðum eða með öðrum samsvarandi hætti. Miðlun getur átt sér stað með reifun eða birtingu dóms í heild eða að hluta. Við mat dómara á því hvort viðeigandi ráðstafanir eigi við, sbr. orðalagið „ef við á“, ber að líta til þeirra sjónarmiða sem tilgreind eru í 3. mgr. greinarinnar.
    Í 2. mgr. segir að við ákvörðun ráðstafana skuli gætt að því að viðskiptaleyndarmálið sé varðveitt.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að metið sé hvort ráðstafanir sem gripið er til hæfi brotinu. Matið felur því í sér meðalhófsreglu. Við matið skal litið til sjónarmiða sem tilgreind eru í a–e-lið.

Um 15. gr.

    Með greininni er lagt til að innleiða ákvæði 8. gr. tilskipunarinnar að því er varðar fresti vegna aðgerða í tengslum við ráðstafanir, verklagsreglur og úrræði. Greinin kveður á um fresti til þess að höfða mál og beiðast lögbanns, sbr. 9. og 11. gr. frumvarpsins. Sé lögbannsbeiðni lögð fram að frestinum liðnum ber sýslumanni að synja lögbannsgerðinni. Sé stefna þingfest að frestinum liðnum ber dómara að vísa máli frá dómi. Með greininni er lögð nokkuð ströng aðgæsluskylda á handhafa viðskiptaleyndarmáls. Ef hann fær upplýsingar sem bent geta til þess að ólögmæt öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins hafi átt sér stað er ætlast til þess að hann fylgi upplýsingunum eftir þá þegar með fullnægjandi rannsókn eða öðrum aðgerðum sem ætlast má til af fagaðila svo að frestirnir renni ekki út.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að almennt mál fyrir dómstólunum skuli höfðað innan fjögurra ára frá þeim degi er handhafi viðskiptaleyndarmálsins fékk nauðsynlegar upplýsingar um hina ólögmætu öflun, notkun eða afhjúpun viðskiptaleyndarmálsins til grundvallar kröfu málsins eða honum bar að afla sér slíkra upplýsinga. Með þessu er átt við fresturinn byrji fyrst að líða þegar handhafi viðskiptaleyndarmálsins hafi aflað eða átti þess kost að afla nauðsynlegra upplýsinga til að geta lagt fram lögbannsbeiðni eða höfðað mál. Hvað telst til nauðsynlegra upplýsinga til grundvallar kröfu máls ræðst af atvikum hverju sinni, eðli og umfangi málsins. Þannig má gera ráð fyrir að fresturinn byrji að líða fyrr í einföldum málum en flóknum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að sé mál réttilega höfðað til staðfestingar lögbanni og lögbannsins var beiðst innan frests þá teljist slíkt mál höfðað innan frests í skilningi greinarinnar.

Um 16. gr.

    Með greininni er lagt til að innleiða 16. gr. tilskipunarinnar að því er varðar heimild til að leggja á dagsektir. Í greininni er kveðið á um dagsektarheimild sýslumanns vegna brota á lögbanni sem lagt hefur verið á samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, verði það að lögum, og við fullnustu sýslumanns á dómum vegna ólögmætrar öflunar, notkunar eða afhjúpunar viðskiptaleyndarmáls. Ákvæði 16. gr. tilskipunarinnar teljast uppfyllt að öðru leyti með 2. mgr. 32. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann, o.fl. þar sem kveðið er á um að dæma megi gerðarþola sem brýtur gegn lögbanni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi til sektar sem renni í ríkissjóð eða fangelsi allt að tveimur árum og að hið sama eigi við um aðra menn sem vísvitandi liðsinni gerðarþola í broti á lögbanni.
    Samkvæmt gildandi lögum hefur sýslumaður ekki almenna heimild til að leggja á dagsektir til að fullnusta dómum eða til að halda uppi lögbanni. Af þeim sökum er lagt til að sýslumaður hafi sérstaka heimild til að leggja á dagsektir. Dagsektarheimild kemur til viðbótar við önnur úrræði sýslumanns samkvæmt lögum um aðför og lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
    Við mat á fjárhæð dagsekta skal litið til þess að þær séu skilvirkar, í réttu hlutfalli við brotið og hafi varnaðaráhrif, sbr. 3. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar. Við matið er þannig meðal annars hægt að líta til stærðar brotlegs fyrirtækis, tapaðs hagnaðar og óhagræðis handhafa viðskiptaleyndarmálsins, auðgunar hins brotlega, verðmætis og annarra séreinkenna viðskiptaleyndarmáls, þ.m.t. hættunnar á misnotkun þess.
    Lagt er til að um meðferð dagsektarmáls samkvæmt greininni fari að öðru leyti eftir lögum um aðför og lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. eftir því sem við á. Með þessu er meðal annars átt við að mál til fullnustu dómi fari eftir lögum um aðför en mál vegna brota á lögbanni fari eftir lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Úrskurðir sýslumanns eru aðfararhæfir og fer um fullnustu þeirra eftir lögum um aðför, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga.

Um 17. gr.

    Í greininni er kveðið á um viðurlög vegna ólögmætrar öflunar, notkunar og afhjúpunar viðskiptaleyndarmála.
    Ákvæði 1. mgr. á við um aðra en þá sem greindir eru í a–c-lið 2. mgr. greinarinnar og getur náð til iðnaðarnjósna. Við mat á því hvort um stórfellt brot sé að ræða skal sérstaklega litið til þess tjóns sem verknaðurinn hefur valdið, bæði fyrir handhafa viðskiptaleyndarmálsins og aðra. Þá skal litið til umfangs verknaðarins og þeirrar aðferðar eða aðferða sem notaðar voru við verknaðinn. Um ákæruvald vegna brota skv. 1. mgr. fer eftir lögum um meðferð sakamála.
    Í 2. mgr. er kveðið á um lægri refsimörk vegna ólögmætrar öflunar, notkunar og afhjúpunar viðskiptaleyndarmála þegar sá sem brot fremur tengist þeim sem misgert er við með þeim hætti sem lýst er í a–c-lið. Ákvæði a–c-liðar eru afleiðing þess að efni 16. gr. c er fellt brott úr markaðssetningarlögunum. Ákvæði a-liðar á við um þá sem eru í vinnu- eða verksambandi við þann sem misgert er við eða er í félagi við hann. Ákvæði b-liðar á við um alla þá sem hafa löglegan aðgang að starfsstöð þess sem misgert er við. Með þessu er t.d. átt við þá sem heimsækja fyrirtækið eða eiga lögmætt erindi á starfsstöð. Ákvæði c-liðar á við um þá sem hefur vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar. Þar undir getur fallið hvers konar lausafé, frumgerðir vöru eða upplýsingar sem gera kleift að átta sig á tæknilegum aðferðum. Hér getur einnig fallið undir útreikningar eða drög að útreikningum og lýsingum sem eru notaðar í tilboðum, uppboðum o.fl. Í ákvæði c-liðar felst að trúnaðurinn tengist starfi eða annarri stöðu í atvinnuskyni.
    Í 3. mgr. er lagt til að ef brot þeirra sem brjóta gegn ákvæðum a–c-liðar 2. mgr. er stórfellt megi beita allt að fjögurra ára fangelsi. Við mat á því hvort brot sé stórfellt skal sérstaklega líta til þess tjóns sem verknaður hefur valdið eða hvort verknaður hafi haft í för með sér augljósa hættu.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um viðurlög vegna brota gegn 3. og 4. mgr. 7. gr. um þagnarskyldu. Í 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríki skuli tryggja að lögbær dómsyfirvöld geti lagt viðurlög á hvern þann einstakling sem hlítir ekki eða neitar að hlíta hvers konar ráðstöfun sem er samþykkt skv. 9., 10. og 12. gr. tilskipunarinnar. Viðurlög eru hin sömu og fyrir sambærileg brot skv. 4. mgr. 29. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, og 5. mgr. 45. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að tilraun til brots eða hlutdeild í broti sé refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum og vísast um það til III. kafla almennra hegningarlaga. Fésektir má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi í samræmi við II. kafla A almennra hegningarlaga.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að brot skv. 2. mgr. sæti einungis ákæru eftir kröfu þess sem misgert er við. Hér getur t.d. verið um að ræða vinnuveitanda starfsmanns.
    Að öðru leyti vísast til umfjöllunar um viðurlög í kafla 3.8.3. í greinargerð.

Um 18. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 19. gr.

    Í greininni er kveðið á um gildistöku laganna. Lagt er til að þau taki þegar gildi. Þá er lagt til að frestir skv. 15. gr. renni fyrst út fjórum árum eftir gildistöku laganna. Er þetta gert til að tryggja að ákvæði 15. gr. hafi ekki afturvirk áhrif.

Um 20. gr.

    Í greininni er lagt til að hugtökin atvinnuleyndarmál, rekstrarleyndarmál og framleiðsluleyndarmál verði felld brott úr lögum þar sem það á við. Þau leyndarmál geta öll talist viðskiptaleyndarmál og er því lagt til að hugtakið viðskiptaleyndarmál standi eftir eða komi í stað þeirra. Með frumvarpinu er stefnt að því að hugtakið viðskiptaleyndarmál verði notað sem samræmt heildarheiti yfir allar tegundir leyndarmála sem fallið geta undir skilgreininguna.
    Í greininni er einnig lagt til að 16. gr. c markaðssetningarlaganna verði felld brott. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 fjallar um sömu hagsmuni og verndaðir eru með 16. gr. c markaðssetningarlaganna. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi 16. gr. c laganna og er því nauðsynlegt að fella brott greinina í heild sinni.