Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 137  —  136. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun).

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Fyrri málsl. 1. mgr. orðast svo: Eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem gefin hafa verið út er heimil þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir heyrnarlausa og eða málhamlaða að því leyti sem ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e eiga ekki við.
     b.      3. mgr. fellur brott.
     c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 1. og 2. málsl. eiga ekki við þau svið sem ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e taka til.

2. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna koma fimm nýjar greinar, 19. gr. a – 19. gr. e, svohljóðandi:

    a. (19. gr. a.)
    Í ákvæðum 19. gr. b – 19. gr. e er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Einstaklingur með sjón- eða lestrarhömlun telst sá vera sem, án tillits til annarrar fötlunar:
                  a.      er blindur,
                  b.      hefur skerta sjón, sem er ekki unnt að bæta þannig að ná megi sjónhæfni sem er að mestu leyti sambærileg sjónhæfni einstaklings sem býr ekki við slíka skerðingu, og getur þar af leiðandi ekki lesið prentað mál í nokkurn veginn sama mæli og einstaklingur sem er án slíkrar skerðingar,
                  c.      hefur skerta getu til skynjunar eða lestrar og getur þar af leiðandi ekki lesið prentað mál í nokkurn veginn sama mæli og einstaklingur sem er án slíkrar fötlunar eða
                  d.      getur ekki á annan hátt, vegna líkamlegrar fötlunar, haldið á bók eða meðhöndlað hana eða náð sjónskerpu eða hreyft augun að því marki að viðunandi sé til að geta lesið.
     2.      Eintak á aðgengilegu formi: Verk sem er sett fram með sérstökum hætti eða á formi sem veitir einstaklingi sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða aðgengi að verkinu eða efninu, m.a. til að viðkomandi hafi jafn greiðan og þægilegan aðgang að því og sá sem ekki glímir við neina þá skerðingu eða fötlun sem um getur í 1. tölul.
     3.      Viðurkennd eining: Eining sem er ekki rekin í hagnaðarskyni og sem fengið hefur viðurkenningu eða samþykki aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða annarra aðildarríkja Marakess-sáttmálans, sbr. 4. tölul., til að veita einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða menntun, starfsmenntun, aðgang að lestrarefni á aðgengilegu formi eða aðgengi að upplýsingum. Viðurkennd eining getur meðal annars verið opinber stofnun eða samtök, sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, sem bjóða einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða sömu þjónustu og að ofan greinir sem hluta af aðalstarfsemi sinni, stofnanaskuldbindingum eða hlutverki sínu við að veita þjónustu í almannaþágu.
     4.      Marakess-sáttmálinn: Sáttmáli um að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum sem samþykktur var í Marakess 27. júní 2013.

    b. (19. gr. b.)
    Ákvæði 19. gr. c – 19. gr. e taka til nota á birtum verkum á formi bóka, tímarita, dagblaða, fréttablaða og annars konar ritaðs efnis, táknunar, þ.m.t. nótnablaða, ásamt tengdum myndskreytingum, á hvers konar miðlum.

    c. (19. gr. c.)
    Einstaklingur sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, eða einstaklingur fyrir hans hönd, getur gert eintak á aðgengilegu formi af verki eða öðru efni sem hann hefur lögmætan aðgang að og er eingöngu ætlað til eigin nota.
    Viðurkennd eining getur gert eintak á aðgengilegu formi af verki eða öðru efni sem hún hefur lögmætan aðgang að, eða miðlað eintaki á aðgengilegu formi, gert það aðgengilegt, dreift því eða lánað einstaklingi sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða annarri viðurkenndri einingu með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, sé það ekki gert í hagnaðarskyni og eingöngu til afnota fyrir einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða. Viðurkenndri einingu er einnig heimilt með sömu skilyrðum að miðla eintaki á aðgengilegu formi, gera það aðgengilegt, dreifa því eða lána einstaklingum sem eiga við sjón- og lestrarhömlun að stríða og hafa búsetu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum eða viðurkenndum einingum með staðfestu í sömu ríkjum.
    Einstaklingur sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða sem og viðurkennd eining mega tileinka sér eða fá aðgang að verki á aðgengilegu formi sem er miðlað, gert aðgengilegt, dreift eða lánað af viðurkenndri einingu sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem og af viðurkenndum einingum með staðfestu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum.
    Ekki er heimilt að víkja frá ákvæðum 1.–3. mgr. með samningum.

    d. (19. gr. d.)
    Ef viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi nýtir heimild 2. mgr. 19. gr. c skal höfundur eiga kröfu til bóta utan tilvika sem nefnd eru í 2. mgr. Ef tjón höfundar er óverulegt stofnast ekki bótaréttur.
    Ekki kemur til bótagreiðslna ef viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi gerir eintak af verki eða öðru efni sem hún hefur lögmætan aðgang að eða miðlar slíku eintaki, gerir það aðgengilegt, dreifir því eða lánar, með blindraletri eða á öðru aðgengilegu formi sem eingöngu einstaklingar sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða nýta sér.
    Ef ekki næst samkomulag um bætur skv. 1. mgr. getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð nefndar skv. 57. gr.

    e. (19. gr. e.)
    Viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi sem nýtir heimildir 2. mgr. 19. gr. c til að miðla eintaki á aðgengilegu formi, gera það aðgengilegt, dreifa því eða lána einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða viðurkenndum einingum með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem og viðurkenndum einingum með staðfestu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum, eða sem flytur inn verk á aðgengilegu formi frá slíkum einingum skal setja sér starfsreglur og fylgja þeim til að tryggja að hún:
     a.      dreifi, miðli og geri eintök á aðgengilegu formi einungis aðgengileg einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða öðrum viðurkenndum einingum,
     b.      geri viðeigandi ráðstafanir til þess að vinna gegn óheimilli eftirgerð eintaka á aðgengilegu formi eða því að þeim sé dreift, miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi með óheimilum hætti,
     c.      sýni tilhlýðilega kostgæfni við umsjón sína með verkum eða öðru efni og eintökum þeirra á aðgengilegu formi og haldi skrá um hana og
     d.      birti og uppfæri, á vef sínum ef við á eða eftir öðrum leiðum á netinu eða utan þess, upplýsingar um hvernig hún uppfyllir þær skyldur sem mælt er fyrir um í a–c-lið.
    Sömuleiðis skal viðurkennd eining skv. 1. mgr. veita einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, öðrum viðurkenndum einingum eða rétthöfum verka eftirfarandi upplýsingar á aðgengilegan hátt, sé þess óskað:
     a.      skrá yfir þau verk eða annað efni sem hún hefur eintök af á aðgengilegu formi og á hvaða formi þau eru tiltæk og
     b.      heiti og samskiptaupplýsingar viðurkenndra eininga sem hún hefur skipst á eintökum á aðgengilegu formi við.
    Ef upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein eru veittar einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða skulu þær afhentar á aðgengilegu formi sem þeir geta nýtt.

3. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „4. mgr. 19. gr.“ í 5. mgr. 45. gr. laganna kemur: 19. gr. og 19. gr. a – 19. gr. e.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
     a.      Síðari málsl. 1. mgr. orðast svo: Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þess þó haldast í 50 ár að því er myndrit varðar en 70 ár að því er hljóðrit varðar frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „1., 2. og 4. mgr. 19. gr.“ í 2. mgr. kemur: 1. og 4. mgr. 19. gr. að því er varðar myndrit og 19. gr. og 19. gr. a – 19. gr. e að því er varðar hljóðrit.

5. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1., 2. og 4. mgr. 19. gr.“ í 3. mgr. 48. gr. laganna kemur: 19. gr. og 19. gr. a – 19. gr. e.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. c laganna:
     a.      Á eftir tilvísuninni „19. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 19. gr. c.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þetta á þó ekki við um notkun skv. 19. gr. c.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 57. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „fjárhæð“ kemur: eða fyrirkomulag.
     b.      Á eftir orðunum „4. mgr. 19. gr.“ kemur: 3. mgr. 19. gr. d.

8. gr.

    Við 65. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með lögum þessum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um tiltekna leyfilega notkun á tilteknum verkum og öðru efni sem er verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun og um breytingu á tilskipun 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 19. gr. c öðlast þó ekki gildi fyrr en Marakess-sáttmálinn öðlast gildi að því er Ísland varðar og ráðherra hefur birt auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistökuna.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Lagt er til að ákvæðum 19. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, um takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir þá sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentað mál til lesturs verði breytt í samræmi við ákvæði Marakess-sáttmálans um að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum. Sáttmálinn var samþykktur í Marakess 27. júní 2013 (hér eftir Marakess-sáttmálinn eða sáttmálinn). Jafnframt er lagt til að höfundalögunum verði breytt í samræmi við ákvæði tilskipunar (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um notkun á höfundaréttarvörðu efni í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun og um breytingu á tilskipun 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu (hér eftir Marakess-tilskipunin eða tilskipunin).
    Lagt er til að við höfundalögin bætist fimm nýjar greinar, 19. gr. a – 19. gr. e, sem varða gerð eintaka af höfundavörðum verkum á aðgengilegu formi í þágu einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða. Í þeim greinum er að finna skilgreiningar á hugtökum, ákvæði um hverjir geti gert slík eintök og hverjir geti notað þau, ákvæði um bætur til rétthafa og að lokum ákvæði um starfsreglur viðurkenndra eininga sem geta gert eintök á aðgengilegu formi og miðlað þeim til annarra viðurkenndra eininga í ríkjum EES og eftir aðild Íslands að Marakess-sáttmálanum til annarra aðildarríkja hans. Þá er lagt til að ákvæðum 19. gr. laganna og öðrum ákvæðum sem vísa til greinarinnar verði breytt til samræmis við hin nýju ákvæði.
    Nýju ákvæðin fela ekki í sér efnisbreytingu á 19. gr. höfundalaga að öðru leyti en því að lagt er til að heimilað verði að nota eintök, sem gerð eru í aðildarríkjum Marakess-sáttmálans og aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES) samkvæmt takmörkunum sem núna er að finna í 19. gr., hér á landi og öfugt. Aðrar breytingar varða framsetningu og skilgreiningar í takmörkunarákvæði höfundalaga vegna eintakagerðar og dreifingar verka til handa prentleturshömluðum einstaklingum til samræmis við sáttmálann og tilskipunina auk minni háttar breytinga á öðrum ákvæðum höfundalaganna þannig að þau endurspegli ný ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e.
    Við gerð frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af innleiðingu annarra Norðurlandaþjóða á Marakess-tilskipuninni og Marakess-sáttmálanum í samræmi við norræna lagahefð á sviði höfundalaga.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Tilefni og markmið.
    Tilefni lagasetningar er annars vegar að undirbúa aðild Íslands að Marakess-sáttmálanum og hins vegar að innleiða Marakess-tilskipunina. Þetta tvennt helst í hendur. Tilskipunin er liður í aðild Evrópusambandsins að Marakess-sáttmálanum. Efni tilskipunarinnar fellur undir EES-samninginn en ekki liggur enn fyrir ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella tilskipunina undir samninginn. Slík ákvörðun er væntanleg á næstu mánuðum. Hins vegar er talið brýnt að undirbúa aðild Íslands að Marakess-sáttmálanum sem fyrst, sérstaklega í ljósi þess að hagsmunasamtök sjónskertra og leshamlaðra (Hljóðbókasafn Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu) og Menntamálastofnun hafa óskað eftir að Ísland verði sem fyrst aðili að Marakess-sáttmálanum. Með því að innleiða tilskipunina er jafnframt búið í haginn fyrir Ísland til að gerast aðili að sáttmálanum.
    Samhliða Marakess-tilskipuninni samþykkti Evrópuþingið og ráðið reglugerð (ESB) 2017/1563 um sérstök afnot verka og annars efnis verndað af höfundarétti í þágu einstaklinga sem eru blindir, sjónskertir eða eiga af öðrum ástæðum erfitt með lestur prentaðs máls (hér eftir Marakess-reglugerðin). Reglugerðin er einnig liður í aðild ESB að Marakess-sáttmálanum og tekur á aðgangi aðgengilegra verka samkvæmt sáttmálanum á milli ESB og þriðju ríkja. Þar sem reglugerðin tekur til samskipta ESB og þriðju ríkja fellur hún utan EES-samningsins. Samskipti Íslands á þessu sviði við ríki utan EES munu ráðast af aðild að Marakess-sáttmálanum þegar Ísland hefur gerst aðili.
    Það er og hefur verið stefna stjórnvalda að auka aðgengi þeirra sem eiga erfitt með að lesa prentað mál bókmenntanna. Af þeim sökum hefur frá upphafi nútímalöggjafar um höfundarétt verið ákvæði sem heimila takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir þá sem ekki hafa getað nýtt sér prentað mál til lesturs. Það ákvæði hefur tekið töluverðum breytingum sem hafa átt að tryggja að heimildin næði tilgangi sínum í breyttri tækniveröld. Talið hefur verið að sú takmörkun á einkarétti höfunda sem af þeirri stefnu hlýst sé minni háttar í samanburði við hagsmuni þeirra einstaklinga sem njóta góðs af slíkri takmörkun.
    Að mati ráðuneytisins er mikilvægt og nauðsynlegt að Ísland sé samstíga nágrannaþjóðum sínum og alþjóðasamfélaginu um takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir þá sem ekki geta nýtt sér prentað mál til lestrar. Sérstaklega er það mikilvægt í ljósi þess að nú er auðvelt að flytja verk á aðgengilegu formi milli landa. Takmarkanir á einkarétti höfunda verða einungis gildar með lögfestingu þeirra. Ef ekkert verður aðhafst má búast við að aðstaða þeirra aðila sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentað mál til lesturs verði verri hér á landi en í nágrannalöndunum, sérstaklega hvað varðar aðgang að erlendum verkum, þar sem ekki verða sömu möguleikar á að nýta erlend verk sem sett eru á aðgengilegt form í öðrum ríkjum EES.
    Markmið frumvarpsins eru því þríþætt og eru þau öll samofin. Í fyrsta lagi að undirbúa aðild Íslands að Marakess-sáttmálanum og innleiða tilskipun (ESB) 2017/1564 sem er mikilvægur þáttur í undirbúningi aðildar að Marakess-sáttmálanum. Í öðru lagi að tryggja að bækur og hljóðbækur á formi sem er aðgengilegt einstaklingum geti nýst innan aðildarríkja EES og aðildarríkja Marakess-sáttmálans þegar Ísland hefur gerst aðili að honum eins og ásetningur er um. Í þriðja lagi er markmiðið að samræma skilgreiningar og hugtakanotkun höfundalaga við skilgreiningar og hugtök í tilskipuninni og sáttmálanum til að tryggja samræmdan skilning og einfalda samvinnu. Öll þessi markmið miða að því tryggja hagsmuni aðila sem ekki geta nýtt sér prentað mál til lesturs.

2.2. Meginefni Marakess-sáttmálans.
    Markmið sáttmálans koma fram í inngangsorðum hans. Þar er áréttað mikilvægi þess að greiða aðgang „þeirra sem eru sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun hvað varðar aðgengi að útgefnum verkum til að öðlast jöfn tækifæri í samfélaginu og um þörfina á að fjölga verkum á aðgengilegu formi, auk þess að bæta dreifingu slíkra verka“. Jafnframt er undirstrikað „mikilvægi þess að vernda höfundarétt sem hvatningu og umbun fyrir sköpun bókmennta og listaverka“.
    Í 1. gr. sáttmálans eru tengsl hans við aðra alþjóðasamninga á sviði höfundaréttar afmörkuð. Því næst eru hugtök skilgreind; hvaða verk falli undir hann, hvað sé eintak á aðgengilegu formi, hvað sé viðurkennd eining til að þjónusta þá sem eru rétthafar þjónustu samkvæmt sáttmálanum, þ.e. einstaklingar sem eru blindir, sjónskertir eða eiga af öðrum ástæðum erfitt með lestur prentaðs máls, sjá 2. og 3. gr. sáttmálans.
    Aðilum sáttmálans er skylt, sbr. 4. gr. sáttmálans, að setja takmarkanir eða undantekningar á einkarétti höfunda til eintakagerðar og miðlunar verka sinna til að greiða fyrir aðgengi rétthafa þjónustu. Slíkar takmarkanir eða undantekningar skulu eingöngu gilda gagnvart verkum sem rétthafar eða viðurkennd eining hefur löglegan aðgang að. Aðilum sáttmálans er heimilt að einskorða slíkar takmarkanir eða undantekningar við verk sem ekki er hægt að útvega rétthöfum þjónustu á eðlilegum kjörum á markaði. Einnig er aðilum sáttmálans í sjálfsvald sett hvort þóknun skuli greidd til rétthafa vegna takmarkana og undantekninga frá einkarétti þeirra.
    Þá er í 5. gr. og 6. gr. sáttmálans kveðið á um skyldu aðila sáttmálans til að tryggja að eintök sem eru á aðgengilegu formi fyrir rétthafa þjónustu megi miðla yfir landamæri til rétthafa þjónustu í öðrum löndum sem eru aðilar sáttmálans.
    Aðilum sáttmálans er skylt að tryggja að tæknilegar ráðstafanir sem lögfestar eru samkvæmt höfundalögum samningsaðila komi ekki í veg fyrir að rétthafar þjónustu geti nýtt sér takmarkanir og undantekningar sem kveðið er á um í sáttmálanum, sbr. 7. gr. Einnig skulu aðilar sáttmálans leitast við að vernda friðhelgi einkalífs rétthafa þjónustu við framkvæmd takmarkana og undantekninga sem sáttmálinn kveður á um, sbr. 8. gr.
    Þá er kveðið á um samvinnu milli aðila sáttmálans til að greiða fyrir miðlun verka á aðgengilegu formi yfir landamæri með upplýsingagjöf, sbr. 9. gr. sáttmálans. Að lokum er að finna í sáttmálanum almennar reglur um framkvæmd hans og þeirra takmarkana og undantekninga sem hann heimilar frá höfundarétti, sem og aðildarskilyrði og gildistökuákvæði, sbr. 10–22. gr.

2.3. Meginefni Marakess-tilskipunarinnar.
    Eins og áður hefur komið fram er tilskipunin liður í aðild Evrópusambandsins að Marakess-sáttmálanum. Efni hennar er því nánari útfærsla á hvernig aðildarríki ESB skuli uppfylla skyldur Marakess-sáttmálans.
    Markmið tilskipunarinnar er sett fram í 1. gr. hennar þar sem segir: „Þessi tilskipun miðar að frekari samræmingu á gildandi löggjöf Sambandsins um höfundarétt og skyld réttindi innan ramma innri markaðsins, með því að koma á reglum um notkun á tilteknum verkum og öðru efni án samþykkis rétthafa þeirra í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun.“ Þetta markmið er síðan nánar rætt í 1.–8. og 16.–18. formálsgreinum tilskipunarinnar.
    Skilgreiningar eru settar fram í 2. gr. tilskipunarinnar. Þær byggjast á Marakess-sáttmálanum en lengra er gengið í að gera greinarmun á milli sjónskerðingar og lesblindu og annarra þátta sem geta valdið því að einstaklingur geti ekki nýtt sér prentað mál.
    Í 3. gr. og formálsgreinum 9–10 er fjallað um þau afnot sem takmarkanir og undantekningar í höfundalögum skulu tryggja að séu heimilar án sérstaks samþykkis rétthafa, á verkum sem viðkomandi rétthafi þjónustu, fulltrúi hans eða viðurkennd eining hafa löglegan aðgang að. Skv. 2. mgr. 3. gr. skulu aðildarríki tryggja að þegar verk eru sett á aðgengilegt form á grundvelli takmarkana sem tilskipunin heimilar skuli gæta að sæmdarrétti að því leyti sem mögulegt er. Í 3. mgr. 3. gr. er ítrekað að takmarkanir og undantekningar samkvæmt tilskipuninni skuli vera í samræmi við hina alþjóðlegu þriggja þrepa reglu, sjá nánar í kafla 3.2.2. hér á eftir. Í 4. mgr. 3. gr. er fjallað um samspil takmarkana og undantekninga við ákvæði um tæknilegar ráðstafanir. Í 5. mgr. 3. gr. er kveðið á um að takmörkunum og undantekningum samkvæmt tilskipuninni megi ekki afsala með samningum. 6. mgr. 3. gr. heimilar aðildarríkjum að koma á bótagreiðslum vegna takmarkana og undantekninga samkvæmt tilskipuninni, sbr. formálsgrein 14.
    4. gr. kveður á um að aðildarríki skuli tryggja að viðurkenndar stofnanir, sbr. 5. gr. og formálsgreinar 11–14, megi gera eintök fyrir aðrar viðurkenndar stofnanir í öðrum aðildarríkjum. Einnig er kveðið á um að aðildarríki skuli tryggja að rétthöfum þjónustu og viðurkenndum einingum sé heimilt að nota eintök frá viðurkenndum einingum í öðrum aðildarríkjum.
    5. gr. kveður á um skyldur viðurkenndra stofnana varðandi öryggisatriði til að tryggja rétta meðferð takmörkunarheimildarinnar og upplýsingagjöf til rétthafa höfundaréttar og rétthafa þjónustu. Formálsgreinar 12–15 fjalla einnig um skilyrði notkunar verka samkvæmt takmörkunarheimildum tilskipunarinnar.
    6. gr. kveður á um að aðildarríki skuli hvetja viðurkenndar stofnanir til að upplýsa um nöfn sín og samskiptaleiðir við sig til stjórnvalda. Þessar upplýsingar eiga aðildarríki síðan að senda til framkvæmdastjórnar ESB.
    7. gr. kveður á um að framkvæmd tilskipunarinnar skuli vera í samræmi við persónuverndarlöggjöf, sbr. einnig formálsgrein 15.
    8.–13. gr. fjalla um breytingar sem þarf að gera á tilskipun 2001/29/EB vegna Marakess-tilskipunarinnar, um skýrslugerð framkvæmdastjórnar ESB vegna tilskipunarinnar, innleiðingartíma, gildistökudag og aðildarríki ESB séu viðtakendur tilskipunarinnar.

2.4. Lögfesting í landsrétt.
    Það er mat mennta- og menningarmálaráðuneytis að lagaákvæði vegna aðildar að Marakess-sáttmálanum og innleiðingar tilskipunarinnar eigi best heima innan höfundalaga þar sem þegar að finna ákvæði um takmarkanir á einkarétti höfunda í þágu þeirra sem eiga við prentleturshömlun eða aðra fötlun að stríða, sbr. 19. gr. gildandi höfundalaga. Ákvæði 5. gr. tilskipunarinnar varðar skyldur viðurkenndra eininga í tengslum við inn- og útflutning verka á aðgengilegu formi. Þær skyldur eru ekki höfundaréttarlegs eðlis en eru þó nátengdar öðrum ákvæðum tilskipunarinnar og því þykir rétt að þeim sé einnig fundinn staður í höfundalögum. Eins og áður er minnst á mun innleiðing tilskipunarinnar leiða til nauðsynlegra lagabreytinga til að aðild að Marakess-sáttmálanum sé möguleg.
    Við undirbúning innleiðingar tilskipunarinnar hafa þau ráðuneyti hjá Norðurlandaþjóðunum sem með höfundaréttarmálefni fara haft með sér samráð. Er löng hefð fyrir því að Norðurlandaþjóðirnar leitist við að hafa sem mest samræmi í höfundalöggjöf sinni. Við samningu frumvarpsins hefur sérstaklega verið höfð hliðsjón af dönsku frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum vegna innleiðingar Marakess-tilskipunarinnar sem samþykkt var sem lög frá danska Þjóðþinginu 8. júní 2018 (lov nr. 719 af 08/06/2018 om ændring af lov om ophavsret (Gennemførelse af Marrakeshdirektivet m.v.).
    Frumvarpið felur í sér svonefnda lágmarksinnleiðingu með beinni skírskotun til uppbyggingar og orðalags tilskipunarinnar og er sú stefna í samræmi við stefnu stjórnvalda um upptöku EES-gerða í landsrétt. Eins og að framan greinir ráðast samskipti ESB-ríkja við önnur ríki utan sambandsins af Marakess-reglugerðinni sem fellur því ekki undir EES-samninginn. Samskipti Íslands á því sviði sem frumvarpið varðar við ríki utan EES munu ráðast af ákvæðum Marakess-sáttmálans þegar Ísland hefur gerst aðili að honum, eins og stefnt er að.
    Við innleiðingu tilskipunarinnar var höfð hliðsjón af þýðingu hennar á íslensku sem og íslenskri þýðingu Marakess-sáttmálans.

3. Meginefni frumvarpsins.
     *      Helsta nýmæli í frumvarpinu er að viðurkenndar einingar með staðfestu í ríkjum EES geti miðlað verkum sem komið hefur verið í aðgengilegt form á grundvelli þessara takmarkana til annarra ríkja sem eru innan EES eða eru aðilar að Marakess-sáttmálanum, þegar Ísland hefur gerst aðili að þeim sáttmála.
     *      Þá er að finna skilgreiningar á helstu hugtökum sem varða takmarkanir á einkarétti höfunda vegna eintakagerðar og miðlunar verka á aðgengilegu formi fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun.
     *      Lagt er til að aðilar geti leitað til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga ef ekki næst samkomulag um bætur fyrir rétthafa vegna nota á verkum þeirra til hagsbóta fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun.
     *      Einnig er að finna ákvæði um skyldur og öryggisatriði sem viðurkenndar einingar þurfa að uppfylla þegar verk eru sett í aðgengileg form og við notkun þeirra.

3.1. Skilgreiningar.
    Ekki er að finna neinar skilgreiningar í gildandi höfundalögum yfir þau hugtök sem notuð eru í 19. gr. þeirra. Greinin inniheldur ákvæði um notkun á höfundaréttarvörðu efni af hálfu einstaklinga sem eru blindir, sjónskertir, heyrnarlausir, lestrarhamlaðir eða annarra sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Takmarkanir á einkarétti höfunda sem settar eru fram í gildandi 19. gr. taka til verka sem „út hafa verið gefin“ en gilda þó ekki „um eftirgerð hljóðupptöku“. Skv. 3. mgr. 19. gr. er „með hljóðupptöku“ heimilt að gera eintök af bókmenntaverkum fyrir þau sem ófær eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar.
    Í Marakess-tilskipuninni er að finna lista með skilgreiningum á þeim verkum sem takmarkanir taka til, hverjir teljist vera einstaklingar með sjón- eða lestrarhömlun, hvað sé aðgengilegt form verka og hverjum sé heimilt að framleiða og miðla verkum á aðgengilegu formi á grundvelli ákvæða tilskipunarinnar, sjá 2. gr. tilskipunarinnar og formálsgreinar 7 og 9. Þessar skilgreiningar eru ítarlegri útfærsla á skilgreiningum í 2. og 3. gr. Marakess-sáttmálans.
    Ráðuneytið telur að þær skilgreiningar sem er að finna í Marakess-tilskipuninni séu mikilvægar til að skýra umfang og eðli þeirra takmarkana sem gilda eiga um notkun höfundaréttarvarins efnis í þágu þeirra sem eiga við sjón- og lestrarhömlun að stríða samkvæmt tilskipuninni og sáttmálanum. Samræmdar skilgreiningar munu einnig einfalda notkun verka á aðgengilegu formi yfir landamæri sem er megintilgangur lagabreytingarinnar. Því leggur ráðuneytið til að þær verði teknar upp í lögin, sbr. a- og b-lið 2. gr. frumvarpsins. Það er einnig í samræmi við innleiðingu á tilskipuninni í Danmörku og Svíþjóð.

3.2. Takmörkun til handa þeim sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða.
3.2.1. Gildandi réttur.
    Höfundalögin veita höfundum eignarrétt á verkum sínum, sbr. 1. gr. höfundalaga. Það hefur í för með sér að höfundar eða þeir sem fara með réttindi höfunda samkvæmt framsali hafa einkarétt til að gera eintök af höfundaverkum og gera þau aðgengileg, sbr. 2. gr. höfundalaga, með þeim takmörkununum sem í lögunum greinir.
    Í II. kafla höfundalaga (10. gr. a – 26. gr. c) er að finna takmarkanir á eignar- og einkarétti höfunda. Þar á meðal er í 1. mgr. 19. gr. kveðið á um takmörkun sem heimilar eftirgerð og dreifingu eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til notkunar fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar, sem ekki er í fjárhagslegum tilgangi. Þessi takmörkun heimilar notkun án endurgjalds en hún tekur ekki til hljóðupptöku, sbr. 2. mgr. 19. gr. Hljóðupptaka af bókmenntaverkum „til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar“ er hins vegar heimil gegn sanngjörnum bótum skv. 3. mgr. 19. gr. Þessi heimild var sett með 6. gr. laga nr. 9/2006, um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, en sú grein varð til í meðförum þingsins á frumvarpi til þeirra laga, sbr. breytingartillögu nefndar (222. mál, þskj. 762). Í nefndaráliti um frumvarpið kom fram að með orðalaginu „að lána“ væri átt við að einungis væri átt við útlán eintaka, ekki miðlun hljóðbóka á netinu (222. mál, þskj. 761). Sú framkvæmd hefur hins vegar ekki haldist og núna eru hljóðbækur, framleiddar á grundvelli þessarar heimildar, „lánaðar“ með því að veita notandanum aðgang að upplestri á streymi á netinu hjá Hljóðbókasafninu. Í Danmörku hefur sambærilegt ákvæði um heimild til hljóðbókaútgáfu verið túlkað þannig að ekki eigi að gefa út hljóðbók á grundvelli sambærilegs ákvæðis í dönskum höfundalögum ef þegar er til hljóðbók af sama verki á almennum markaði (sjá umfjöllun í athugasemdum með frumvarpi til breytinga á dönskum höfundalögum, nr. 1140/2004, og í almennum athugasemdum með frumvarpi til breytinga á dönskum höfundalögum vegna innleiðingar Marakess-tilskipunarinnar, nr. 719/2018, kafla 2.2.1 á bls. 10).
    Þá er að lokum að finna í 4. mgr. 19. gr. höfundalaga samningskvaðaheimild sem heimilar „stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga og öðrum stofnunum sem starfa í almannaþágu og ekki í fjárhagslegum tilgangi að gera með mynd- eða hljóðupptöku eintök af verkum, sem hljóðvarpað er eða sjónvarpað eða eru gerð aðgengileg í dreifikerfi fjölmiðlaveitu þannig að hver og einn geti fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa og þá sem vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum eru ófærir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Þess háttar upptökur má aðeins nota innan stofnunar sem samningur tekur til, sbr. 26. gr. a.“ Þessi heimild kom með 4. gr. breytingalaga nr. 93/2010. Ekki hefur verið gerður slíkur samningur með réttaráhrifum samningskvaðar.
    Sú takmörkun sem kveðið er á um í 19. gr. höfundalaga tekur líka til skyldra réttinda eins og við á, þ.e. réttinda listflytjenda, sbr. 5. mgr. 45. gr., réttinda framleiðenda hljóð- og myndrita, sbr. 2. mgr. 46. gr., réttindi útvarpsstofnana, sbr. 3. mgr. 48. gr., réttindi ljósmyndara vegna ljósmynda sem falla ekki undir höfundavernd, sbr. 2. mgr. 49. gr., og réttindi þeirra sem framleiða gagnagrunna sem ekki njóta höfundaverndar, sbr. 4. mgr. 50. gr. Þá getur notandi sem vill nota heimild skv. 19. gr. til að framleiða eintök á aðgengilegu formi en getur það ekki vegna tæknilegra ráðstafana sem rétthafi notar á verkin leitað til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga sem getur gert rétthafa að veita notandanum aðgang, sbr. 1. mgr. 50. gr. c.

3.2.2. Reglur Marakess-sáttmálans og Marakess-tilskipunarinnar.
    Í a-lið 1. mgr. 4. gr. Marakess-sáttmálans er kveðið á um skyldu samningsaðila til að „setja í höfundalög sín takmörkun á eða undantekningu frá rétti til eftirgerðar, rétti til dreifingar og rétti til að gera verk aðgengileg almenningi, eins og kveðið er á um í samningi Alþjóðahugverkastofnunarinnar um höfundarétt, til að greiða fyrir framboði á eintökum verka á aðgengilegu formi fyrir rétthafa þjónustu. Takmarkanir eða undantekningar í landslögum ættu að leyfa þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að gera verkið aðgengilegt á öðru formi.“
    Í b-lið 1. mgr. 4. gr. Marakess-sáttmálans er samningsaðilum heimilað að setja „fram takmörkun á eða undantekningu frá rétti til opinbers flutnings til að greiða fyrir aðgengi rétthafa þjónustu að verkum“. Þá eru í 2. mgr. 4. gr. settar fram tillögur að því hvernig takmörkun skv. 1. mgr. 4. gr. gæti verið framsett. Í 3. mgr. 4. gr. Marakess-sáttmálans er tekið fram að samningsaðilum sé frjálst að velja aðferð við að uppfylla skyldu sína til að setja á takmörkun í samræmi við 1. mgr. 4. gr. og almennar reglur um framkvæmd, sbr. 10. gr. sáttmálans, og almennar skuldbindingar alþjóðasáttmála um takmarkanir og undantekningar, sbr. 11. gr. sáttmálans. Í 4. mgr. 4. gr. sáttmálans er samningsaðilum heimilað að kveða á um þóknun fyrir takmarkanir eða undantekningar samkvæmt greininni.
    Marakess-tilskipunin var sett til að uppfylla aðild ESB að Marakess-sáttmálanum. Í 3. gr. tilskipunarinnar er því kveðið á um skyldu aðildarríkjanna til að setja fram undantekningu þess efnis að ekki sé þörf á samþykki rétthafa höfundaréttar eða skyldra réttinda að verki eða öðru efni skv. 5. og 7. gr. tilskipunar 96/9/EB (gagnagrunnstilskipunarinnar), 2., 3. og 4. gr. tilskipunar 2001/29/EB (InfoSoc-tilskipunarinnar), 1. mgr. 1. gr., 2. og 3. mgr. 8. gr. og 9. gr. tilskipunar 2006/115/EB (leigu- og útlánstilskipunarinnar) og 4. gr. tilskipunar 2009/24/EB (tölvuforritatilskipunarinnar) vegna hvers kyns aðgerðar sem er nauðsynleg til þess að:
     a.      rétthafi þjónustu, eða einstaklingur fyrir hönd hans, geti gert eintak á aðgengilegu formi af verki eða öðru efni sem rétthafi þjónustu hefur lögmætan aðgang að og er eingöngu ætlað til nota hans og
     b.      viðurkennd eining geti gert eintak á aðgengilegu formi af verki eða öðru efni sem hún hefur lögmætan aðgang að, eða miðlað eintaki á aðgengilegu formi, gert það aðgengilegt, dreift því eða lánað rétthafa þjónustu eða annarri viðurkenndri einingu, sé það ekki gert í hagnaðarskyni og eingöngu til nota fyrir rétthafa þjónustunnar.
    Þá er kveðið á um að virða skuli sæmdarrétt í 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar en þar segir að aðildarríkin skuli tryggja að sérhvert eintak á aðgengilegu formi virði heilleika verksins eða annars efnis, að teknu tilhlýðilegu tilliti til þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru til að gera verkið eða annað efni aðgengilegt á öðru formi. Í 3. mgr. 3. gr. er kveðið á um að við beitingu undantekningarinnar skuli gæta að hinni alþjóðlegu þriggja þrepa reglu, þ.e. að henni skuli einungis beita í tilteknum undantekningartilvikum sem stríða ekki gegn eðlilegri hagnýtingu verksins eða annars efnis og skerða ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa þess. Í 4. mgr. 3. gr. er kveðið á um að ákvæði 1., 3. og 5. málsl. 4. mgr. 6. gr. InfoSoc-tilskipunarinnar, um að rétthafi skuli gefa þeim sem rétt eiga á notum verka samkvæmt undantekningu kost á að nýta verk þótt það sé varið með skilvirkum tæknilegum ráðstöfunum, skuli eiga við undantekningu skv. 1. mgr. 3. gr. Marakess-tilskipunarinnar. Þá er kveðið á um í 5. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar að aðildarríki skuli sjá til þess að ekki sé hægt að víkja frá efni tilskipunarinnar með samningi. Nánar er fjallað um efni þessara ákvæða í formálsgreinum 6, 8, 9 og 14. Þannig er nefnt í lok formálsgreinar 6 að undantekningin skuli einnig gilda um skyld réttindi í höfundalögum og í formálsgrein 9. er áréttað að undantekningin taki einungis til þess að gera eintök á aðgengilegu formi af verkum sem notandi hefur löglegan aðgang að og að ekki megi semja um frávik frá undantekningunni.
    Í 4. gr. Marakess-tilskipunarinnar er kveðið á um inn- og útflutning verka sem færð eru í aðgengilegt form á grundvelli takmörkunar í 3. gr. tilskipunarinnar. Þar segir að aðildarríkin skuli tryggja að viðurkennd eining með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra megi gera þær aðgerðir sem um getur í b-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar fyrir rétthafa þjónustu eða aðra viðurkennda einingu með staðfestu í hvaða aðildarríki sem er. Einnig skulu aðildarríki tryggja að rétthafi þjónustu eða viðurkennd eining með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra megi fá eða hafa aðgang að eintaki á aðgengilegu formi frá viðurkenndri einingu með staðfestu í hvaða aðildarríki sem er. Nánar er fjallað um þessi atriði í formálsgreinum. Þannig segir í formálsgrein 10 að undantekningin ætti að leyfa viðurkenndum einingum að gera og dreifa, á netinu og utan þess, eintökum á aðgengilegu formi af verkum eða öðru efni sem fellur undir þessa tilskipun. Einnig segir í formálsgrein 10 að tilskipunin ætti ekki að leggja skyldu á viðurkenndar einingar til að gera slík eintök og dreifa þeim. Þá segir í formálsgrein 11 að eintök á aðgengilegu formi, sem eru gerð í einu aðildarríki, ættu að geta verið í boði í öllum aðildarríkjum til að tryggja víðtækara framboð þeirra á öllum innri markaðnum. Þetta myndi draga úr þörf á tvíverknaði við að framleiða eintök á aðgengilegu formi af sama verki eða öðru efni í öllu Evrópusambandinu og þar með stuðla að sparnaði og aukinni skilvirkni. Þessi tilskipun ætti þess vegna að tryggja að eintökum á aðgengilegu formi, sem eru gerð af viðurkenndum einingum í hvaða aðildarríki sem er, megi dreifa og að rétthafar þjónustu og viðurkenndar stofnanir geti haft aðgang að þeim í öllu Evrópusambandinu. Til þess að styðja við slíka miðlun yfir landamæri og til að auðvelda viðurkenndum stofnunum að finna hver aðra og eiga samstarf sín á milli ætti að hvetja til þess að upplýsingum sé miðlað, að eigin frumkvæði, um heiti og samskiptaupplýsingar viðurkenndra stofnana með staðfestu í ESB, þ.m.t. vefsetur ef þau eru tiltæk. Aðildarríki ættu því að láta framkvæmdastjórninni í té þær upplýsingar sem þau fá frá viðurkenndum stofnunum. Þetta ætti ekki að fela í sér skyldu fyrir aðildarríkin til að kanna hvort slíkar upplýsingar eru heildstæðar og nákvæmar eða hvort þær eru í samræmi við landslög sín sem leiða þessa tilskipun í lög. Framkvæmdastjórnin ætti að gera slíkar upplýsingar tiltækar á netinu á miðlægum aðgangsstað fyrir upplýsingar á vettvangi Evrópusambandsins. Þetta myndi einnig auðvelda viðurkenndum stofnunum, sem og rétthöfum þjónustu og rétthöfum verka, að hafa samband við viðurkenndar stofnanir til að fá frekari upplýsingar, í samræmi við ákvæðin sem sett eru fram í þessari tilskipun og í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1563. Miðlægi aðgangsstaðurinn fyrir upplýsingar sem nefndur er hér að framan ætti að koma til viðbótar miðlæga aðgangsstaðnum fyrir upplýsingar sem alþjóðaskrifstofa Alþjóðahugverkastofnunarinnar (e. World Intellectual Property Organisation, WIPO) á að koma á fót samkvæmt Marakess-sáttmálanum, og sem ætlað er auðvelda viðurkenndum stofnunum að finna hver aðra og eiga samstarf sín á milli á alþjóðavettvangi.
    Í 5. gr. Marakess-tilskipunarinnar er kveðið á um skyldur og öryggisatriði sem viðurkenndar einingar þurfa að uppfylla ef þær ætla að skiptast á afnotum á verkum á aðgengilegu formi á grundvelli tilskipunarinnar. Þar segir:
     1.      Aðildarríkin skulu sjá til þess að viðurkennd stofnun með staðfestu á yfirráðasvæði, sem framkvæmir aðgerðirnar sem um getur í 4. gr., setji sér starfsreglur og fylgi þeim til að tryggja að hún:
                  a.      dreifi, miðli og geri eintök á aðgengilegu formi einungis aðgengileg rétthöfum þjónustu eða öðrum viðurkenndum stofnunum,
                  b.      geri viðeigandi ráðstafanir til þess að vinna gegn óheimilli eftirgerð eintaka á aðgengilegu formi eða því að þeim sé dreift, miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi með óheimilum hætti,
                  c.      sýni tilhlýðilega kostgæfni við umsjón sína með verkum eða öðru efni og eintökum þeirra á aðgengilegu formi og haldi skrá um hana og
                  d.      birti og uppfæri, á vefsetri sínu ef við á eða eftir öðrum leiðum á netinu eða utan þess, upplýsingar um hvernig hún uppfyllir þær skyldur sem mælt er fyrir um í a–c-lið.
                      Aðildarríki skulu tryggja að starfsreglurnar, sem um getur í fyrstu undirgrein, séu settar og þeim fylgt í fullu samræmi við gildandi reglur um vinnslu persónuupplýsinga um rétthafa þjónustu sem um getur í 7. gr.
     2.      Aðildarríkin skulu sjá til þess að viðurkennd stofnun með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra, sem framkvæmir aðgerðirnar sem um getur í 4. gr., veiti rétthöfum þjónustu, öðrum viðurkenndum stofnunum eða rétthöfum verka eftirfarandi upplýsingar á aðgengilegan hátt, sé þess óskað:
                  a.      skrá yfir þau verk eða annað efni sem hún hefur eintök af á aðgengilegu formi og á hvaða formi þau eru tiltæk og
                  b.      heiti og samskiptaupplýsingar viðurkenndra stofnana sem hún hefur skipst á eintökum á aðgengilegu formi við skv. 4. gr.
    Formálsgrein 12 fjallar m.a. um þessar skyldur en þar segir: „Til þess að bæta framboð á eintökum á aðgengilegu formi og koma í veg fyrir óleyfilega dreifingu verka eða annars efnis ættu viðurkenndar einingar, sem starfa við að dreifa eintökum á aðgengilegu formi, miðla þeim til almennings eða gera þau aðgengileg almenningi, að uppfylla tilteknar skyldur.“

3.2.3. Afstaða og tillögur ráðuneytisins.
    Það er mikilvægt að einstaklingar sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða hafi breiðan og góðan aðgang að bókmenntum á öllum sviðum í formi bóka, hljóðbóka eða á öðru formi sem hentar. Þannig má stuðla að því að þeir einstaklingar geti tekið þátt í þjóðfélaginu á jafnréttisgrundvelli á við þá sem ekki eiga við slíka fötlun að stríða, þ.m.t. í menntunarskyni. Hljóðbókasafn Íslands og ýmsar aðrar einingar og stofnanir gegna mikilvægu hlutverki í því sambandi. Hins vegar er töluverður skortur á að ritað efni sé til á aðgengilegu formi fyrir einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða. Þannig mat Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO) árið 2016 að í heiminum væru um 285 milljónir einstaklinga sem ættu við sjón- eða lestarhömlun að stríða en einungis 1–7% af bókum heims væru til á aðgengilegu formi fyrir þessa einstaklinga. Hér á landi hefur notendum Hljóðbókasafnsins fjölgað mikið með aukinni vitund og greiningu á t.d. lesblindu. Á vef safnsins er greint frá því að lánþegafjöldi hafi fjórfaldast á undanförnum árum. Samkvæmt ársskýrslu Hljóðbókasafnsins fyrir árið 2018 voru skráðir lánþegar í lok ársins samtals 25.213 en virkir lánþegar voru þó ekki nema um helmingur, eða 12.441. Þar af voru 8.208 skráðir með lesblindu, 1.473 með sjónskerðingu og 2.832 með aðra hömlun. Til samanburðar má nefna að Nota, danska hljóðbókasafnið, er með um 175.000 lánþega og þar af eru um 132.000 skráðir lesblindir. Eins og á Íslandi eru einungis um helmingur lánþega virkir notendur.
    Marakess-sáttmálinn og í framhaldi af honum Marakess-tilskipunin, sem eins og áður segir er lögfest vegna aðildar ESB að sáttmálanum, eru mikilvægir liðir í átakinu að auka úrval og fjölda rita á aðgengilegu formi. Aðild að sáttmálanum og innleiðing tilskipunarinnar tryggir betra aðgengi þeirra sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, ekki síst með því að skapa tryggan grundvöll til að aðildarríki geti skipst á ritum á aðgengilegu formi. Þannig verður aðgengi þeirra hér á landi sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða að erlendum ritum betur tryggt.
    Ráðuneytið telur að það muni auka samræmi og tryggja skýrleika að sem flest ákvæði Marakess-tilskipunarinnar endurspeglist í höfundalögunum. Það var einnig haft að leiðarljósi við innleiðingu tilskipunarinnar í Danmörku og Svíþjóð. Þannig endurspeglar frumvarpið reglur tilskipunarinnar í ákvæðum 19. gr. a – 19. gr. e. Gildandi ákvæði 19. gr. er varða aðra en sjón- og lestrarhamlaða eru látin halda sér. Þá er eins og áður notuð tilvísunarleið til þess að undirstrika að ákvæði takmörkunarinnar taka einnig til skyldra réttinda sem kveðið er á um í V. kafla höfundalaga. Þá er tilvísunarleiðin einnig notuð varðandi ákvæði um tæknilegar ráðstafanir í VI. kafla laganna.
    Í formálsgrein 14 í Marakess-tilskipuninni er undirstrikað að ekki megi gera frekari kröfur til að nýta þá undantekningu sem tilskipunin kveður á um. Sérstaklega er nefnt sem dæmi um óheimila kröfu vegna beitingar undantekningarinnar að skylda notendur til að kanna hvort viðkomandi verk á aðgengilegu formi sé þegar í boði á markaði.
    Tilskipunin felur í sér ýmsa fyrirvara til að tryggja hagsmuni rétthafa. Þannig er notkun á grundvelli takmörkunarinnar eingöngu heimil fyrir mjög afmarkaðan hóp notenda, þ.e. einstaklinga sem vegna sjón- eða lestrarhömlunar geta ekki nýtt sér venjulegt prentað mál og notin mega ekki vera í fjárhagslegum tilgangi. Þá mega einungis þeir nýta sér takmörkunina sem hafa löglegan aðgang að verkinu sem á að setja á aðgengilegt form. Að lokum eru settar ákveðnar öryggisreglur og skyldur fyrir viðurkenndar einingar sem miðla verkum á aðgengilegu formi, sbr. ákvæði 19. gr. e í frumvarpinu. Ráðuneytið telur sem stendur ekki ástæðu til að setja frekari skyldur á herðar viðurkenndum einingum, aðrar en þær sem tilgreindar eru í tilskipuninni. Þess í stað telur ráðuneytið betur fara á því að viðurkenndar einingar setji sér af sjálfsdáðum þær starfsreglur sem gætu frekar tryggt að ekki komi til misnotkunar á þeim verkum á aðgengilegu formi sem gerð eru eftir takmörkunarheimildinni samkvæmt frumvarpinu, t.d. að ekki séu framleidd verk á aðgengilegu formi á grundvelli ólöglegra eintaka og að verk á aðgengilegu formi séu eingöngu notuð af einstaklingum sem hafa rétt á að nota þau. Hvað varðar sæmdarrétt er ljóst að ákvæði 26. gr. höfundalaga eiga við um ákvæði þau sem lagt er til að sett verði í 19. gr. a – 19. gr. e eins og gildir um gildandi 19. gr. og önnur ákvæði II. kafla höfundalaga, utan 13. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr. höfundalaga.

3.3. Bætur.
    Í 3. mgr. 19. gr. höfundalaga er gert ráð fyrir að gera megi hljóðupptöku af bókmenntaverkum til að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum þeim sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentað mál til lestrar. Sú heimild á þó aðeins við gegn sanngjörnum bótum til höfunda. Slíkar bætur voru ákvarðaðar með samningi ráðuneytisins fyrir hönd Blindrabókasafns Íslands (forvera Hljóðbókasafns Íslands) og Rithöfundasambands Íslands og er gildandi samningur frá árinu 2009.
    Tilskipunin gerir ráð fyrir að aðildarríki geti sett reglur um að verk sem sett eru á aðgengilegt form af viðurkenndum einingum skuli heyra undir bótakerfi innan þeirra marka sem tilskipunin heimilar, sbr. 6. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Þetta ákvæði er meðal annars tilkomið vegna afstöðu Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar við undirbúning tilskipunarinnar. Kveðið er á um viðmið bóta samkvæmt tilskipuninni í formálsgrein 14 en þar segir meðal annars: „Aðildarríkjum ætti aðeins að vera heimilt að taka upp bótakerfi að því er varðar leyfða notkun verka eða annars efnis af hálfu viðurkenndra eininga. Til þess að íþyngja ekki rétthöfum þjónustu og koma í veg fyrir hindranir á miðlun eintaka á aðgengilegu formi yfir landamæri og óhóflegar kröfur til viðurkenndra eininga er mikilvægt að möguleikar aðildarríkja á að taka upp slík bótakerfi séu takmarkaðir. Af þessum sökum ættu bótakerfi ekki að krefjast greiðslna af hálfu rétthafa þjónustu. Þau ættu aðeins að gilda um notkun viðurkenndra eininga með staðfestu á yfirráðasvæði þess aðildarríkis sem setur slíkt kerfi og þau ættu ekki að krefjast greiðslu af hendi viðurkenndra eininga með staðfestu í öðrum aðildarríkjum eða þriðju löndum sem eru aðilar að Marrakess-sáttmálanum. Aðildarríki ættu að tryggja að slík bótakerfi hafi ekki í för með sér meira íþyngjandi kröfur varðandi miðlun eintaka á aðgengilegu formi yfir landamæri en sem gilda þegar ekki er um miðlun yfir landamæri að ræða, þ.m.t. að því er varðar form og hugsanlegt umfang bóta. Þegar umfang bóta er ákvarðað ætti að taka tilhlýðilegt tillit til þess að starfsemi viðurkenndra eininga er ekki í hagnaðarskyni, til þeirra markmiða sem varða almannahagsmuni sem þessi tilskipun stefnir að, til hagsmuna þeirra sem njóta góðs af undantekningunni, til mögulegs tjóns fyrir rétthafa verka og til nauðsynjar þess að tryggja miðlun eintaka á aðgengilegu formi yfir landamæri. Einnig ætti að taka tillit til sérstakra aðstæðna í hverju tilviki sem leiðir af gerð tiltekins eintaks á aðgengilegu formi. Ef tjón rétthafa verks er óverulegt ætti ekki að vera skylt að greiða bætur.“
    Ráðuneytið telur í ljósi norrænnar lagahefðar og framkvæmdar að rétt sé að nýta heimild tilskipunarinnar til að kveða á um bætur til höfunda eins og tíðkast hefur og er það lagt til í 19. gr. c. En einnig er það talið rétt í ljósi þess að lánþegafjöldi Hljóðbókasafnsins hefur stóraukist á undanförnum árum, eða fjórfaldast eins og að framan greinir. Sama þróun hefur átt sér stað í Danmörku en þar hefur lánþegum fjölgað frá því að vera um það bil 10.000 árið 2004 í það að vera um 175.000 um þessar mundir. Þetta helgast aðallega af aukinni vitund og greiningu á lesblindu síðustu ár. Þannig er stærsti notendahópur Hljóðbókasafnsins á aldrinum 6–30 ára (sjá starfsskýrslu Hljóðbókasafns Íslands fyrir árið 2018, bls. 15). Ljóst er að lánþegum mun áfram fjölga þar sem einstaklingar sem þegar hafa verið metnir uppfylla skilyrði þess að vera lánþegar verða almennt svo áfram og nýir bætast við með hverjum árgangi. Þessi afstaða og tillaga er í samræmi við innleiðingu tilskipunarinnar í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð.
    Jafnframt er talið mikilvægt og í samræmi við meginstefnu tilskipunar, eins og fram kemur í formálsgrein 14, að við mat á bótum skuli taka tillit til allra aðstæðna og ef tjón rétthafa verks sé óverulegt verði ekki skylt að greiða bætur, sbr. tillögu að ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 19. gr. d. Þetta ætti að tryggja að bótaskyldan verði ekki of íþyngjandi fyrir viðurkenndar einingar.
    Þá er lagt til í 2. mgr. 19. gr. d að ekki komi til bótagreiðslna þegar gert er eintak á aðgengilegu formi sem eingöngu þau sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða geta nýtt sér. Hér undir fellur t.d. verk með blindraletri sem er eingöngu nýtt af þeim sem ekki sjá og er t.d. forsenda þess að þeir sem eru blindir og heyrnarlausir geti nýtt sér bókmenntaverk. Þetta er í samræmi við gildandi takmörkun í 1. mgr. 19. gr. sem heimilar eftirgerð og notkun á verkum í þágu þeirra sem þar eru taldir upp án sérstakra bóta, utan hljóðupptöku.
    Í samræmi við gildandi lög er ekki lagt til að kveðið verði á um hvernig bætur skuli ákvarðast. Núverandi fyrirkomulag er að ráðuneytið semur um bætur fyrir hönd aðila. Hins vegar er lagt til í frumvarpinu, sbr. 3. mgr. 19. gr. d, að viðurkenndar einingar, t.d. Hljóðbókasafn Íslands, og rétthafar semji milliliðalaust um upphæð og fyrirkomulag bóta. Ef ekki næst samkomulag um bætur getur hvor aðili um sig lagt ágreininginn til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. laganna. Í samræmi við þetta er einnig lagt til að bætt verði við í 1. mgr. 57. gr. orðunum „eða fyrirkomulagi“ sem gerir ljóst að úrskurðarnefnd hafi einnig úrskurðarvald um fyrirkomulag þóknunar, ekki aðeins fjárhæð hennar, sbr. 7. gr. frumvarpsins.

3.4. Aðrar reglur sem varða einstaklinga með fötlun.
    19. gr. höfundalaga tekur ekki eingöngu til einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, ólíkt tilskipuninni, heldur einnig þeirra sem eru heyrnarlausir, sbr. ákvæði 1. mgr. og 4. mgr. sem fjallað er um í kafla 3.2.1. Formálsgrein 20 í tilskipuninni áréttar að aðildarríkjum ætti að vera heimilt að viðhalda undantekningu eða takmörkun í þágu fatlaðs fólks í tilvikum sem falla ekki undir þessa tilskipun, einkum að því er varðar verk og annað efni og fötlun sem ekki fellur undir þessa tilskipun, skv. b-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/29/EB. Ekki er ætlunin með frumvarpinu að breyta þeim ákvæðum sem nú gilda að því er varðar heyrnarlausa, sbr. ákvæði 1. gr. frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að þau ákvæði muni framvegis eftir því sem við á gilda um þá sem eru málhamlaðir, sbr. tillaga að breyttu orðalagi a-liðar 1. gr. frumvarpsins. Er það í samræmi við sambærilegt ákvæði í dönskum höfundalögum þar sem rétt þykir að málhamlaðir njóti sama réttar og heyrnarlausir hvað varðar eftirgerð verka á aðgengilegu formi sem hentar þeim sérstaklega. Hér undir gætu fallið einstaklingar sem þurfa á óhefðbundnum tjáskiptaleiðum að halda, þ.e. nýta sér tjáskiptaborð eða tölvutækni til að tjá sig. Þeim gæti nýst aðlagað efni í táknmyndaformi eða með texta tengdum táknmyndum sem myndi þá falla undir þessa heimild. Hins vegar er líklegt að efni á aðgengilegu formi sem hentar einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða mundi einnig henta þeim sem eru málhamlaðir. Rétt þykir þó að ítreka að ef aðgengilegt form fyrir málhamlaða væri það sérstakt að það félli ekki þar undir þá taki 1. mgr. 19. gr. höfundalaga til þeirra tilvika.
    Í Marakess-tilskipuninni er kveðið á um að aðildarríki skuli tryggja að ekki sé hægt að víkja frá takmörkunarákvæðum tilskipunarinnar með samningum, sbr. 5. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Það ákvæði er tekið upp í 4. mgr. 19. gr. c, sbr. c-lið 2. gr. frumvarpsins.
    Þá er í 6. gr. tilskipunarinnar og í 9. gr. Marakess-sáttmálans ákvæði um að hvetja skuli viðurkenndar einingar til að miðla samskiptaupplýsingum um sig til þess að auðvelda viðurkenndum einingum í aðildarríkjum ESB og í aðildarríkjum Marakess-sáttmálans að finna hver aðra. Alþjóðahugverkastofnuninni er skylt að koma á fót aðgangsstað fyrir upplýsingar um viðurkenndar stofnanir, sbr. 1. mgr. 9. gr. sáttmálans. Aðildarríki ESB eiga að hvetja viðurkenndar einingar að tilkynna, að eigin frumkvæði, stjórnvöldum í því landi sem þær eru staðsettar um heiti sín og samskiptaupplýsingar. Stjórnvöldum ber síðan að láta framkvæmdastjórninni í té þær upplýsingar sem þeim berast frá viðurkenndum einingum innan sinna vébanda. Framkvæmdastjórn ESB er skylt að gera þær upplýsingar aðgengilegar á netinu á miðlægum stað og uppfæra þær reglulega.
    Viðurkenndar einingar hér á landi munu væntanlega sjá sér hag í að tilkynna Alþjóðahugverkastofnuninni um sínar samskiptaupplýsingar og þannig vera með í alþjóðlegu neti viðurkenndra eininga og taka þátt í alþjóðaskiptum á verkum á aðgengilegu formi. Sömuleiðis er ráðuneytið tilbúið að framsenda upplýsingar frá viðurkenndum einingum hér á landi og framsenda þær, væntanlega til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Ekki er talin þörf á að hafa sérstakt lagaákvæði um þá upplýsingamiðlun.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur að geyma ákvæði sem fela í sér innleiðingu á tilskipun (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um notkun á höfundaréttarvörðu efni í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun og um breytingu á tilskipun 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu. Auk þess mun innleiðingin hafa í för með sér að Ísland verður lagalega í stöðu til að gerast aðili að Marakess-sáttmálanum um að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum, sem samþykktur var í Marakess 27. júní 2013.
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja betur jafnræði á milli þeirra sem eiga við sjón- eða lestarhömlun að stríða og annarra þjóðfélagsþegna eins og að framan greinir og stjórnarskrá Íslands kveður á um.
    Frumvarpið gefur að öðru leyti ekki tilefni til mats á samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

5. Samráð.
    Helstu hagsmunaaðilar eru í fyrsta lagi rétthafar efnis, svo sem Rithöfundasamband Íslands, Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennsluefnis og Félag íslenskra bókaútgefenda. Í öðru lagi stofnanir sem veita þeim þjónustu sem eiga erfitt með að nýta sér prentað mál til lesturs, svo sem Hljóðbókasafn Íslands, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Menntamálastofnun, Félag íslenskra sérkennara og Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða. Í þriðja lagi hagsmunasamtök þeirra sem eiga erfitt með að nýta sér prentað mál til lesturs, svo sem Blindrafélagið og Félag lesblindra á Íslandi.
    Höfundaréttarnefnd, sem er nefnd sérfræðinga um höfundaréttarmál og er skipuð í samráði við helstu höfundaréttarsamtök landsins, sbr. 58. gr. höfundalaga, hefur haft frumvarpið til athugunar og yfirlestrar.
    Hagsmunasamtök þeirra sem eiga erfitt með að nýta sér prentað mál til lesturs (Hljóðbókasafn Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu) hérlendis og Menntamálastofnun hafa óskað eftir að Ísland verði sem fyrst aðili að Marakess-sáttmálanum en eins og áður segir er innleiðing Marakess-tilskipunarinnar liður í undirbúningi aðildar að þeim sáttmála.
    Haft var samráð við utanríkisráðuneytið vegna ákvæða sem varða Marakess-sáttmálann og fyrirhugaða aðild Íslands að honum.
    Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 25. október til 8. nóvember 2019 (mál nr. S-266/2019). Alls bárust sjö umsagnir. Blindrafélagið, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og Hljóðbókasafn Íslands lýstu yfir ánægju og stuðningi við frumvarpið.
    Félaga íslenskra bókaútgefenda gerði ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið í umsögn sinni en undirstrikaði að mikilvægt væri að framkvæmd og verkferlar sem byggðust á lögunum væru skýrir, gagnsæir og gerðir í sátt við alla rétthafa. Í umsögninni komu fram ýmsar tillögur um hvernig standa mætti að framkvæmdinni. Eins og fram kemur í lok umfjöllunar í kafla 3.2 er ekki talið rétt að leggja til að frekari skyldur verði lagðar á viðurkenndar einingar, en gert ráð fyrir að þær muni setja sér starfsreglur sem gætu frekar tryggt að ekki komi til misnotkunar á verkum sem þær nota og miðla á grundvelli takmörkunarheimildarinnar.
    Í umsögn Rithöfundasambands Íslands (RSÍ), sem Hagþenkir tók að fullu undir í sinni umsögn, er töluvert fjallað um fyrirkomulag og mat á bótum. Bent á að orðalag frumvarps væri stirt og sérstaklega bent á að hugtakið „viðurkennd eining“ væri óþjált, ógagnsætt og ekki nægilega sérgreint. Ekki var þó komið með tillögu að betra orðalagi. Hugtakið er komið frá Marakess-sáttmálanum og Marakess-tilskipuninni og þýðingu Þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins á því. Rétt er talið að nota sama hugtak og gert er í sáttmálanum og tilskipuninni og í lögum nágrannaþjóða sem hafa innleitt tilskipunina. Hvað varðar bætur þá er, eins og nefnt er í kafla 3.3, gert ráð fyrir því í frumvarpinu að aðilar semji sjálfir um fyrirkomulag bóta og ef ágreiningur kemur upp megi skjóta honum til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga, sbr. 3. mgr. 19. gr. d, sbr. d-lið 2. gr. frumvarpsins. Þá leggur RSÍ til að útlán hljóðbóka eigi að sæta greiðslum í samræmi við ákvæði um greiðslur fyrir afnot á bókasöfnum, sbr. 7. gr. laga um bókmenntir, nr. 91/2007. Það ákvæði hefur ekki verið túlkað þannig hingað til að það nái til útlána hljóðbóka en hugsanlega mætti athuga þá tillögu. Það fellur þó utan þessa frumvarps.
    Í umsögn RSÍ er einnig nefnt að til bóta væri að hafa eftirlitsaðila með framkvæmd og starfsemi viðurkenndra eininga. Ráðuneytið telur ekki rétt að svo stöddu að leggja til slíkan eftirlitsaðila þar sem talið er að aðilar geti sjálfir náð samkomulagi um fyrirkomulag og öryggisatriði varðandi framkvæmd takmörkunarheimildar og ef ágreiningur kemur upp megi skjóta honum til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga. Þá er nefnt að í frumvarpinu væri rétt að „afhenda úrræði“ til hinnar viðurkenndu einingar sem tryggja tækniútfærslur og öryggisatriði til að koma í veg fyrir misnotkun á takmörkunarheimildinni. Ráðuneytið telur að það sé gert með tillögum að nýrri 19. gr. e. Eins og áður segir telur ráðuneytið að viðurkenndar einingar muni sjálfar setja sér frekari starfsreglur, mögulega á grundvelli samkomulags aðila um fyrirkomulag og efni bóta. Að lokum er nefnt í umsögn RSÍ að tryggja þurfi að talgervlar og annars konar hugbúnaður teljist jafngilda gerð hljóðbókar. Ráðuneytið telur að skilgreining á hugtakinu „eintak á aðgengilegu formi“ geti náð til slíkra talgervla og hugbúnaðar á sama hátt og gerð hljóðbókar og það sé því atriði sem huga þarf að í samningi milli aðila.

6. Mat á áhrifum.
6. 1. Afleiðingar af samþykkt frumvarps fyrir almannahagsmuni og helstu hagsmunaaðila.
    Frumvarpið ætti að hafa jákvæð áhrif fyrir þá sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentað mál til lesturs enda tilgangur þess að tryggja að þeir fái betri aðgang að verkum á formi sem þeim hentar, sérstaklega hvað varðar erlend verk.
    Frumvarpið ætti ekki að hafa nein teljandi áhrif á atvinnuvegi þar sem það felur í raun ekki í sér mikla breytingu á núverandi fyrirkomulagi. Hins vegar má benda á að í frumvarpinu er lagt til að skýrt verði kveðið á um að viðurkenndar einingar sem mega framleiða höfundavernduð verk á aðgengilegu formi gæti þess að slík verk á aðgengilegu formi, t.d. hljóðbækur, séu ekki notuð af öðrum en þeim sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða. Þetta á að tryggja að rétthafar verði ekki fyrir fjárhagslegum skaða vegna mögulegrar notkunar almennings á verkum á aðgengilegu formi í stað þess að kaupa þau á almennum markaði. Þá gætu bætur til rétthafa í einstaka tilvikum verið minni í ljósi viðmiða um bætur sem er að finna í formálsgrein 14 í Marakess-tilskipuninni en þar segir meðal annars: „Þegar umfang bóta er ákvarðað ætti að taka tilhlýðilegt tillit til þess að starfsemi viðurkenndra eininga er ekki í hagnaðarskyni, til þeirra markmiða sem varða almannahagsmuni sem þessi tilskipun stefnir að, til hagsmuna þeirra sem njóta góðs af undantekningunni, til mögulegs tjóns fyrir rétthafa verka og til nauðsynjar þess að tryggja miðlun eintaka á aðgengilegu formi yfir landamæri. Einnig ætti að taka tillit til sérstakra aðstæðna í hverju tilviki sem leiðir af gerð tiltekins eintaks á aðgengilegu formi. Ef tjón rétthafa verks er óverulegt ætti ekki að vera skylt að greiða bætur.“

6.2. Áhrif á stjórnsýslu ríkisins.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi veruleg fjárhagsleg áhrif fyrir ríkisjóð. Greiðsla til rétthafa fyrir notkun skv. 19. gr. höfundalaga fer fram á grundvelli samnings sem gerður var í menntamálaráðuneytinu árið 2009 þar sem kveðið er á um bætur til rithöfunda og þýðenda og eingreiðslu vegna almennra afnota á rétti höfunda vegna eigin verka og afnota á vegum safnsins á upptökum.
    Ekki er unnt að gera nákvæma grein fyrir efnahagslegum áhrifum innleiðingar tilskipunarinnar vegna bóta til rétthafa þar sem upphæð þeirra mun áfram hvíla á samningi á milli hagsmunaaðila, þ.e. viðurkenndra eininga (Hljóðbókasafnsins) og rétthafasamtaka, en ekki verða lögfestar, þ.e. hver upphæð þeirra skuli vera. Ef hins vegar ekki næst samkomulag á milli aðila um upphæð er lagt til að hægt verði að skjóta þeim ágreiningi til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. höfundalaga. Þá er það nýmæli í frumvarpinu, í samræmi við formálsgrein 14 í tilskipuninni, að ef eintakagerð verka á aðgengilegu formi hefur óverulegt fjárhagslegt tjón í för með sér fyrir rétthafa skuli ekki koma til bóta. Nánar er fjallað um það atriði í skýringum við 2. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um nýja grein, 19. gr. d.
    Rétt er þó að hafa í huga að þrátt fyrir breytt orðalag takmörkunarheimildarinnar er í raun ekki verið að auka heimildir til að gera eintök af höfundaréttarvernduðum verkum á aðgengilegu formi. Heimildin sem nú er í 19. gr. höfundalaga er jafnvíðtæk og nýjar lagagreinar samkvæmt frumvarpinu. Með frumvarpinu er leitast við að tryggja að undanþáguheimildin sé samræmd í öllum aðildarríkjum EES og að heimilt sé að nýta eintök sem framleidd eru á grundvelli undanþágunnar á milli landa. Ekki verður talið líklegt að mikið verði um útflutning íslenskra verka á aðgengilegu formi til afnota fyrir einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða. Hins vegar skapar frumvarpið grundvöll til þess að íslenskir einstaklingar sem eiga við slíka hömlun að stríða geti fengið greiðari aðgang að erlendu efni á aðgengilegu formi. Fyrir framleiðslu slíks efnis er greitt í viðkomandi upprunalandi. Þess vegna er ólíklegt að frumvarpið sem slíkt leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.
    Í frumvarpinu er lagt til að viðurkenndar einingar skuli setja sér starfsreglur í samræmi við ákvæði Marakess-tilskipunarinnar. Ekki verður talið að þær starfsreglur séu verulega fjárhagslega íþyngjandi og sömuleiðis verður talið að Hljóðbókasafnið, sem líklegast er til að hafa umsjón með inn- og útflutningi verka á aðgengilegu formi, starfi þegar að mestu eftir sambærilegum starfsreglum.
    Með hliðsjón af ofangreindu er talið að ávinningur þeirra sem þurfa á því að halda að verk séu á aðgengilegu formi vegna sjón- eða lestrarhömlunar sé meiri en mögulegt tjón rétthafa vegna takmörkunar á einkarétti þeirra skv. I. kafla höfundalaga.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

     Um a-lið.
    Hér er lagt til að 1. mgr. 19. gr. laganna taki ekki lengur til blindra, sjónskertra, lestrarhamlaðra eða annarra þeirra sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Ástæða þeirrar breytingar er að í frumvarpinu er lagt til að um þessa aðila skuli gilda ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Áfram verður hægt að nota ákvæði 1. mgr. 19. gr. fyrir þá sem eru heyrnarlausir auk þess sem lagt er til að það geti einnig gilt um þá sem eru málhamlaðir eins og gildir í samsvarandi ákvæði danskra höfundalaga. Eins og segir í kafla 3.4 hér að framan er líklegt að efni á aðgengilegu formi sem hentar einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, sbr. skilgreiningu sem lögð er til í 1. tölul. a-liðar 2. gr. frumvarpsins, henti einnig þeim sem eru málhamlaðir. Rétt þykir þó að undirstrika að ef aðgengilegt form fyrir málhamlaða væri það sérstakt að það félli ekki þar undir þá tæki 1. mgr. 19. gr. höfundalaga til þeirra tilvika. Dæmi um slíkt gæti verið aðlagað efni í táknmyndaformi eða með texta tengt táknmyndum eða annað form prentaðs máls til að einfalda málhömluðum að lesa upphátt. Ákvæði 1. mgr. 19. gr. eiga þó áfram við um blinda, sjónskerta, lestrarhamlaða eða aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar, að því marki sem ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e eiga ekki við.
     Um b-lið.
    Hér er lagt til að fellt verði brott ákvæði 3. mgr. 19. gr. Það hefur í för með sér að ekki verður lengur heimilt á grundvelli 19. gr. að gera hljóðupptöku af bókmenntaverkum til þess að lána blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Þess í stað munu ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e gilda um slíka eintakagerð.
     Um c-lið.
    Hér er lagt til að ákvæði 4. mgr. 19. gr. gildi ekki um þau svið sem ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e taka til. Þannig á að tryggja að engin skörun verði á milli ákvæða 19. gr. og ákvæða 19. gr. a – 19. gr. e.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að á eftir 19. gr. laganna komi fimm nýjar greinar, 19. gr. a – 19. gr. e.
     Um a-lið (19. gr. a).
    Hér er lagt til að í 1.–3. tölul. 19. gr. a verði að finna skilgreiningar á þremur atriðum sem skipta meginmáli við þær takmarkanir sem gerðar eru á einkarétti höfunda og annarra rétthafa í 19. gr. b – 19. gr. e. Um er að ræða skilgreiningar á því hver teljist vera „einstaklingur sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða“, hvað teljist vera „eintak á aðgengilegu formi“ og að lokum hvað sé „viðurkennd eining“. Skilgreiningarnar eru nánast orðréttar þýðingar á skilgreiningum þessara atriða í Marakess-tilskipuninni, sbr. 2.–4. tölul. 2. gr. hennar, og einnig í samræmi við skilgreiningar í 2. og 3. gr. Marakess-sáttmálans með einni minni háttar undantekningu. Í tilskipuninni er notast við orðin „rétthafi þjónustu“ en hér er lagt til að orðalagið „einstaklingur sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða“ verði notað. Helgast sú breyting af því að ekki er ráðlagt að nota orðið „rétthafi“ í þessu samhengi þar sem það er afmarkað hugtak í höfundarétti og mikilvægt að það verði ekki notað í öðrum tilgangi. Með því að innleiða skilgreiningarnar sem næst orðréttar frá tilskipuninni eru minni líkur á ósamræmi á milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, sem ætti að tryggja einfaldari flutning eintaka á aðgengilegu formi á milli landanna. Þá er jafnframt skýrt í 4. tölul. hvað átt er við með Marakess-sáttmálanum.
    Í 1. tölul. 19. gr. a er skilgreining á einstaklingi sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða. Um er að ræða tæmandi talningu á þeim sem falla þar undir í skilningi 19. gr. a – 19. gr. e. Þeir sem sjá nægilega vel með aðstoð gleraugna eða augnlinsna skv. b-lið falla utan skilgreiningarinnar. C-liður tekur meðal annars til lesblindu eða annarra námserfiðleika sem hindra viðkomandi í að lesa prentað efni í nokkurn veginn sama mæli og þeir sem ekki eiga við slíka hömlun að stríða, en ákvæðið tekur ekki til þeirra sem geta ekki lesið vegna tungumálaörðugleika, þ.e. viðkomandi skilja ekki málið sem lesefnið er á. Ekki er kveðið á um hvernig sannreyna skuli hvort einstaklingar uppfylli skilyrði þess að teljast eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða en ljóst má vera að ef læknisvottorð eða vottorð annars sérfræðings liggur fyrir eru allar líkur á að viðkomandi uppfylli skilyrðin. Mögulega má þó sannreyna hvort skilyrðin séu uppfyllt á annan hátt en með læknisvottorði, sérfræðirannsóknum eða öðrum mögulega kostnaðarsömum aðferðum.
    Í 2. tölul. 19. gr. a er eintak á aðgengilegu formi skilgreint. Töluliðurinn skýrir sig að mestu sjálfur. Meðal annars getur verið um að ræða eintök af verki með blindraletri eða stærri stöfum, hljóðbækur eða rafbækur.
    Í 3. tölul. 19. gr. a er viðurkennd eining skilgreind. Skilgreiningin tekur í fyrsta lagi til einingar sem er viðurkennd af EES-ríki eða öðru aðildarríki Marakess-sáttmálans og veitir einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða menntun, starfsmenntun og aðgengi að upplýsingum eða aðgang að lestrarefni sem er sniðið að þeirra þörfum. Ekki þarf að vera um stjórnvald að ræða. Þetta getur verið stofnun, t.d. Hljóðbókasafnið eða sambærilegar stofnanir í öðrum EES-ríkjum eða öðrum aðildarríkjum Marakess-sáttmálans, samtök eða hluti stofnunar, svo framarlega sem viðkomandi eining sem hefur umsjón með einum eða fleiri þjónustuþáttum samkvæmt ákvæðinu er viðurkennd, t.d. með lögum, sbr. t.d. IV. kafla bókasafnalög, nr. 150/2012, um Hljóðbókasafn Íslands. Í öðru lagi tekur skilgreiningin til einingar sem ekki þarf nauðsynlega að vera opinberlega viðurkennd til að sjá um þá þjónustu sem ákvæðið tekur til en veitir í raun einstaklingum sem eiga við sjón- og lestrarhömlun að glíma sömu þjónustu sem er hluti af aðalstarfsemi hennar, stofnanaskuldbindingum eða hlutverki í almannaþágu. Hér getur verið um að ræða bókasöfn eða menntastofnanir, sem ekki falla undir fyrri málslið töluliðarins, eða einkarekin samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.
    Vert er að geta þess að skv. 9. gr. Marakess-sáttmálans er gert ráð fyrir að aðildarríki hans komi, að eigin frumkvæði, upplýsingum til alþjóðaskrifstofu Alþjóðahugverkastofnunarinnar um viðurkenndar einingar til að einfalda þeim að finna hver aðra. Þá er sömuleiðis að finna í 6. gr. Marakess-tilskipunarinnar ákvæði um að aðildarríki skuli hvetja viðurkenndar einingar á þeirra landsvæði til að senda sér upplýsingar um nöfn sín og samskiptaupplýsingar. Aðildarríkin skulu síðan senda þær upplýsingar áfram til framkvæmdastjórnarinnar. Í tilviki EFTA- og EES-ríkja munu slíkar upplýsingar væntanlega verða sendar til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eftir að tilskipunin kemur til framkvæmda.
    Í 4. tölul. 19. gr. a er heitið Marakess-sáttmálinn skilgreint með vísan til opinbers heitis sáttmálans þannig að í frumvarpinu verði hægt að nota styttinguna Marakess-sáttmálinn í stað fulls opinbers heitis.
     Um b-lið (19. gr. b).
    Hér er lagt til að í 19. gr. b verði kveðið á um að ákvæði nýrra 19. gr. c – 19. gr. e, sbr. c–e-lið 2. gr. frumvarpsins, taki til birtra verka í formi ritaðs efnis eða táknunar, t.d. nótnabóka, ásamt tilheyrandi myndskreytinga. Þetta hefur í för með sér að ný ákvæði taka ekki til tónlistar eða sjálfstæðra myndlistarverka. Orðalagið í lok ákvæðisins um að það taki til nota á birtum ritverkum á hvers konar miðlum hefur í för með sér að ákvæðið á einnig við um verk á hljóðformi, svo sem hljóðbækur, og á stafrænu formi. Það er skilyrði að verkin hafi verið birt, sbr. 1. mgr. 3. gr. höfundalaga þar sem kveðið er á um að verk teljist birt þegar það hefur löglega verið gert aðgengilegt almenningi. Það þýðir að verk sem ekki hafa verið birt eða hafa verið gerð aðgengileg almenningi á ólöglegan hátt falla utan gildissviðs ákvæðanna. Ákvæði þessarar greinar byggist á a-lið 2. gr. Marakess-sáttmálans og 1. tölul. 2. gr. Marakess-tilskipunarinnar.
     Um c-lið (19. gr. c).
    Hér er lagt til að í 19. gr. c verði kveðið á um hvaða not einstaklingar sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða viðurkenndar einingar geti haft af höfundavernduðum verkum án samþykkis rétthafa. Efni greinarinnar byggist á 4. gr. Marakess-sáttmálans og 3. gr. Marakess-tilskipunarinnar. Notkun sem lagt er til að verði heimiluð er áþekk þeim heimildum sem nú er kveðið á um í 1. mgr. 19. gr. laganna en í 19. gr. c er ekki gert að skilyrði að verkið sem má gera eintak af á aðgengilegu formi hafi verið gefið út, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna, heldur er skilyrðið eingöngu að viðkomandi aðili sem má gera slík eintök hafi löglegan aðgang að verkinu. Helsta nýmælið er hins vegar að viðurkenndar einingar með staðfestu í EES-ríkjum geti miðlað verkum sem komið hefur verið í aðgengilegt form á grundvelli þessara takmarkana til einstaklinga, með búsetu í öðrum EES-ríkjum, sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða til viðurkenndra eininga annarra landa innan EES-ríkja. Þá er lagt til að sama gildi um viðurkenndar einingar innan ríkja sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum þegar Ísland hefur gerst aðili að þeim sáttmála, sbr. 9. gr. frumvarpsins, þ.e. að slíkar einingar geti miðlað verkum til einstaklinga sem til þess hafa rétt og jafnframt til viðurkenndra eininga í öðrum aðildarríkjum Marakess-sáttmálans.
    Í 1. mgr. er lagt til að einstaklingur sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, eða einstaklingur fyrir hans hönd, geti gert eintak á aðgengilegu formi af vernduðu verki sem hann hefur lögmætan aðgang svo lengi sem það er eingöngu ætlað til eigin nota þess sem á við hömlunina að stríða. Þau verk eða annað efni sem heimild þessarar málsgreinar tekur til eru nefnd í 19. gr. b, sbr. b-lið 2. gr. frumvarpsins.
    Ákvæðið heimilar viðkomandi einstaklingi að gera það sem þarf til að koma viðkomandi verki yfir á aðgengilegt form. Þær aðgerðir eða breytingar gætu t.d. falist í að auðvelda þeim sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða að fara um vefsíður. Einnig gæti verið um að ræða endurskipulagningu á stærðfræðiformúlum, yfirlitum, töflum og línuritum þannig að efni og innihald viðkomandi verks yrði skiljanlegra fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun.
    Miðað er við að verki sem ekki er aðgengilegt fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun verði komið í aðgengilegt form, sbr. skýringu við a-lið 2. gr. frumvarpsins við 2. tölul. 19. gr. a, eingöngu til afnota fyrir þá sem um ræðir þannig að þeim sé einnig tryggður aðgangur að verkinu rétt eins og öðrum sem ekki eiga við slíka hömlun að stríða. Ákvæðið á ekki við um verk sem þegar eru á aðgengilegu formi, t.d. hljóðbækur sem þegar eru á almennum markaði. Hins vegar gæti einstaklingur á grundvelli þessa ákvæðis gert sína eigin hljóðbók úr bók sem er á prentletursformi hvort sem hún er útgefin á pappír eða rafræn. Einnig getur einstaklingur með tiltekna sjón- eða lestrarhömlun gert eintak á aðgengilegu formi fyrir þá sem eru með þá hömlun þótt til sé eintak á aðgengilegu formi sem hentar þeim sem eru með annars konar lestrar- eða sjónhömlun. Til dæmis getur lesblindur einstaklingur gert hljóðupptöku af bók til eigin nota þrátt fyrir að bókin sé til á blindraletri. Þess er ekki krafist í ákvæðinu að gerð sé könnun á því hvort verk sé til á aðgengilegu formi áður en búin er til hentug útgáfa af verkinu.
    Í 2. mgr. er lagt til að viðurkenndar einingar megi gera eintak af vernduðu verki eða efni á aðgengilegu formi og miðla því eintaki, svo framarlega sem viðkomandi eining hafi lögmætan aðgang að því og það sé ekki gert í hagnaðarskyni heldur sé verkið eða efnið á aðgengilegu formi eingöngu til afnota fyrir þá sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða. Um er að ræða heimild til að gera slík eintök, ekki skyldu.
    Um eintakagerð viðurkenndra eininga gilda sömu sjónarmið og um eintakagerð einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða og fjallað er um í skýringum við 1. mgr. og vísast því til þeirrar umfjöllunar.
    Eintökum sem viðurkennd eining má gera á aðgengilegu formi má hún einnig miðla á þann hátt sem upp er talið í 2. mgr. 19. gr. c, þ.e. hún getur miðlað eintaki á aðgengilegu formi, gert það aðgengilegt, dreift því eða lánað einstaklingi sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða öðrum viðurkenndum einingum með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu. Sömu heimild með sömu skilyrðum hefur hin viðurkennda eining til að miðla eintökum á aðgengilegu formi til einstaklinga sem eiga við sjón- og lestrarhömlun að stríða og eru búsettir í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum eða til viðurkenndra eininga með staðfestu í sömu ríkjum. Miðlun eintaka á aðgengilegu formi til aðila í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum verður þó ekki virk fyrr en Ísland hefur gerst aðili að sáttmálanum, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    Um er að ræða tæmandi talningu á þeim máta sem viðurkenndri einingu er heimilt að miðla eintaki af verki á aðgengilegu formi. Dæmi um notkun eða miðlun sem fellur utan heimildarinnar er beinn opinber flutningur eða leiga á verki.
    Skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar í 2. mgr. er að eintakagerð og miðlun eintaks á aðgengilegu formi sé ekki í hagnaðarskyni. Það er þó ekki nóg að starfsemi viðurkenndrar einingar sé ekki í hagnaðarskyni heldur má notkun einstakra verka á aðgengilegu formi ekki vera hagnaðardrifin, t.d. ef um útleigu á slíkum verkum væri að ræða fremur en útlán. Þetta atriði mun þó alltaf byggjast á mati, t.d. má krefja um endurgjald fyrir útlán svo fremi sem það endurgjald sé eingöngu til að standa straum af umsýslukostnaði en ef endurgjald væri hærra en slíkur kostnaður teldist slíkt leiga.
    Í 3. mgr. er lagt til að einstaklingur sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða viðurkennd eining megi tileinka sér eða fá aðgang að verki á aðgengilegu formi sem er miðlað, gert aðgengilegt, dreift, eða lánað af viðurkenndri einingu sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem og af viðurkenndum einingum með staðfestu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum. Þetta ákvæði tekur ekki gildi hvað varðar ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins fyrr en Ísland hefur gerst aðili að Marakess-sáttmálanum, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er talið nauðsynlegt þar sem í mörgum tilvikum felur tileinkun eða aðgangur að verki á aðgengilegu formi í sér að til verður nýtt eintak hjá viðtakanda. Því þarf að tryggja að slík notkun sem byggist á takmörkun á einkarétti höfunda í upprunalandi eintaksins á aðgengilegu formi sé einnig lögleg í móttökulandi.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að ekki sé hægt að víkja frá ákvæðum 1.–3. mgr. með samningum. Samningsákvæði sem ganga gegn þeim ákvæðum mundu því ekki hafa nein réttaráhrif. Þetta er innleiðing á ákvæði 5. mgr. 3. gr. Marakess-tilskipunarinnar. Ákvæðið kemur hins vegar ekki í veg fyrir að viðurkenndar einingar og rétthafar eigi samstarf um að ná fram tilgangi Marakess-sáttmálans og -tilskipunarinnar, t.d. með samningum um fjárhæð bóta vegna takmörkunar á einkarétti höfunda, notkun tæknilegra ráðstafana til að hindra misnotkun heimildarinnar og mögulegum kaupum á verkum á aðgengilegu formi á almennum markaði.
     Um d-lið (19. gr. d).
    Hér er lagt til að í nýrri 19. gr. d verði kveðið á um bætur til höfunda fyrir notkun verks á grundvelli 19. gr. c. Bæði Marakess-sáttmálinn og Marakess-tilskipunin eftirláta aðildarríkjum að taka ákvörðun um hvort kveðið sé á um bætur vegna takmarkana á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, sbr. 5. mgr. 4. gr. Marakess-sáttmálans og 6. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Eins og nefnt er í greinargerð hefur hingað til verið kveðið á um bætur fyrir ákveðna notkun skv. 19. gr. höfundalaga, nánar tiltekið fyrir eintakagerð með hljóðupptöku, sbr. 3. mgr. 19. gr. Sama hefur gilt hjá norrænum nágrannaþjóðum og ekki talin ástæða til að breyta þeirri meginhugsun, sjá þó þær afmarkanir sem er að finna í frumvarpsgreininni og byggjast á efni tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er lagt til að höfundur eigi kröfu til bóta þegar viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi nýtir heimild sem lögð er til í 2. mgr. 19. gr. c utan þeirra tilvika þegar tjón höfundar er óverulegt og þeirra tilvika sem fjallað er um í 2. mgr. 19. gr. d. Þetta ákvæði er í samræmi við formálsgrein 14 Marakess-tilskipunarinnar, sbr. umfjöllun í kafla 3.3 í greinargerð.
    Í formálsgreininni, sem gefur nánari skýringu á ákvæði 6. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um bætur, er undirstrikað að ekki megi krefjast bóta af einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða vegna notkunar á grundvelli takmörkunarákvæðisins í 19. gr. c heldur eingöngu af viðurkenndum einingum í viðkomandi landi, ekki viðurkenndum einingum í öðrum löndum. Því geta höfundar hér á landi eingöngu krafist bóta vegna notkunar viðurkenndra eininga á Íslandi. Þá er einnig ljóst af formálsgreininni að bætur vegna miðlunar eintaka yfir landamæri megi ekki vera meiri en vegna notkunar hér á landi.
    Við mat á bótum skal taka tillit til allra aðstæðna, þar á meðal að viðurkenndar einingar sem heimil er notkun skulu aldrei vera reknar í hagnaðarskyni, til almenns tilgangs Marakess-sáttmálans og Marakess-tilskipunarinnar, til hagsmuna þeirra einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, til mögulegs tjóns rétthafa og nauðsynjar þess að tryggja notkun eintaka á aðgengilegu formi yfir landamæri. Við matið skal einnig hafa í huga aðstæður í hverju einstöku tilviki. Þá er skýrt að ekki myndast bótaskylda ef tap rétthafa er óverulegt. Þetta hefur í för með sér að við mat á bótum skuli meðal annars hafa hliðsjón af því hvort rétthafi hafi sjálfur gefið verk út á aðgengilegu formi á almennum markaði og/eða hvort rétthafi hafi á annan hátt fengið greiðslu. Þannig má nefna að ef skóli hefur keypt bók af rétthafa í þeim yfirlýsta tilgangi að gera hana aðgengilega fyrir nemendur í skólanum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða og greitt fyrir í samræmi við þann tilgang þá verði ekki jafnframt krafist bóta vegna eintakagerðar á aðgengilegu formi þar sem greiðsla fyrir slíkt hafi átt sér stað við kaup bókarinnar.
    Gert er ráð fyrir að hagsmunaaðilar komi sér saman um upphæð bótagreiðslna. Ef ekki næst samkomulag má skjóta þeim ágreiningi til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. laganna, sbr. 3. mgr. 19. gr. d, eða til dómstóla. Þetta er breyting frá gildandi lögum þar sem ráðuneytið hefur hingað til séð um samningsgerð um bætur fyrir hönd aðila.
    Réttur höfunda til bóta skv. 1. mgr. tekur bæði til eintakagerðar á aðgengilegu formi og til þeirra leiða sem viðurkenndum einingum er heimilt að nota við miðlun slíkra eintaka. Aðilar geta þó samið um að greiðslur bóta séu ávallt á formi eingreiðslu fyrir alla þætti notkunar, þ.e. fyrir eintakagerð og mismunandi miðlunar- og dreifingaleiðir, í samræmi við þau sjónarmið sem að ofan eru reifuð, þ.m.t. að ekki greiðist bætur ef skaði rétthafa er óverulegur. Gengið er út frá að aðilar muni ganga að samningaborðinu um bætur í góðri trú og að þeir muni veita hver öðrum allar nauðsynlegar upplýsingar til að ákvarða upphæð bóta, þ.m.t. hvort um eitthvert fjárhagslegt tjón sé að ræða.
    Í 2. mgr. er tekið fram að ekki komi til bótagreiðslna ef viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi gerir eintak af verki eða öðru efni sem hún hefur lögmætan aðgang að með blindraletri eða á öðru aðgengilegu formi sem eingöngu einstaklingar sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða nýta sér, eða ef viðurkennda einingin miðlar slíku eintaki, gerir það aðgengilegt, dreifir því eða lánar. Þetta er óbreytt efnislega frá því sem nú gildir þar sem eingöngu eru greiddar bætur fyrir hljóðupptökur á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laganna en ekki fyrir eintök sem gerð eru á grundvelli 1. mgr. 19. gr. Ákvæði 2. mgr. 19. gr. d mun fyrst og fremst eiga við um eintakagerð á formi blindraleturs en tekur líka til annarrar sambærilegrar eintakagerðar verka yfir á aðgengileg form sem ólíklegt er að aðrir en þeir sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða geti nýtt sér. Því er ljóst að aðgengileg form verka sem aðrir geta auðveldlega nýtt sér, t.d. hljóðbækur, falla ekki hér undir. Almennt væri um að ræða form sem krefst sérstakrar þekkingar til að nýta sér, eins og til dæmis blindraletur krefst, sem aðrir en þeir sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að ræða myndu ekki geta nýtt sér. Ákvæðið tekur bæði til prentaðra bóka með blindraletri og rafbóka sem hægt er að lesa með blindraletursforriti.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ef ekki náist samkomulag um fjárhæð bóta megi leita til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. laganna, sbr. einnig 7. gr. frumvarpsins. Ákvæði 3. mgr. hefur í för með sér að úrskurðarnefnd getur ákveðið bótafjárhæð og hvernig staðið er að bótafyrirkomulaginu, þ.m.t. hvort ekki séu efni til að greiða bætur ef tjón rétthafa er óverulegt.
     Um e-lið (19. gr. e).
    Lagt er til að í nýrri 19. gr. e verði kveðið á um skyldur og öryggisatriði sem viðurkenndar einingar þurfa að uppfylla og gæta að við gerð og notkun eintaka sem framleidd eru á aðgengilegu formi á grundvelli heimildar sem lögð er til með 19. gr. c. Efni greinarinnar byggist á c-lið 2. gr. og 10. gr. Marakess-sáttmálans og 5. gr. Marakess-tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að viðurkenndar einingar með staðfestu á Íslandi skuli setja sér starfsreglur og fylgja þeim til að tryggja að þjónusta einingarinnar á grundvelli takmörkunarheimildar í 19. gr. c sé eingöngu til handa þeim sem á henni eiga rétt, þ.e. þeim sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, og að slík eintök séu ekki gerð án heimildar eða komist ekki í hendur annarra á óheimilan hátt. Þá er kveðið á um að viðkomandi eining sýni tilhlýðilega kostgæfni við umsjón sína með verkum á aðgengilegu formi og jafnframt um upplýsingaskyldu um þau verk sem eru á aðgengilegu formi í þeirra umsjón. Þessi ákvæði eiga eingöngu við um þær viðurkenndu einingar með staðfestu á Íslandi sem hafa með höndum miðlun verka á aðgengilegu formi á milli landa á grundvelli Marakess-tilskipunarinnar eða Marakess-sáttmálans.
    Eins og nefnt er í kafla 3.2.3 er gengið út frá því að þær viðurkenndu einingar sem nýta sér heimildir frumvarpsins muni sjálfar hafa frumkvæði að því að gera viðeigandi ráðstafanir sem eiga að tryggja að reglurnar verði ekki misnotaðar, þ.m.t. að ekki verði framleidd eintök á aðgengilegu formi af ólögmætum eintökum og að eintök verka á aðgengilegu formi framleidd á grundvelli takmarkana séu eingöngu nýtt af þeim sem til þess hafa heimild. Slíkar reglur og ráðstafanir geta verið settar í samvinnu eða í samstarfssamningi viðkomandi viðurkenndra eininga og rétthafasamtaka, t.d. Rithöfundasamband Íslands.
    Atriðin sem talin eru upp í a–d-lið 1. mgr. eru lágmarkskröfur sem viðurkenndar einingar þurfa að gæta að í starfsreglum sínum og notkun á höfundavernduðum verkum á grundvelli ákvæða frumvarpsins. Hver viðurkennd eining ber ábyrgð á eigin framkvæmd hvað þetta varðar en getur að sjálfsögðu, eins og að einhverju leyti er gert núna, samið við rétthafasamtök um hvaða aðgerðir séu nauðsynlegar í því sambandi. Ef einhverjar slíkar aðgerðir varða persónugreinanlegar upplýsingar þarf meðferð þeirra að vera í samræmi við persónuverndarlöggjöf hérlendis og meðferð þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að viðurkennd eining sem 1. mgr. tekur til skuli, sé þess óskað, veita til þar til greindum hagsmunaaðilum ákveðnar upplýsingar, þ.e. þeim sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, öðrum viðurkenndum einingum eða rétthöfum verka. Þær upplýsingar sem um ræðir eru skrá yfir þau verk eða annað efni sem einingin hefur eintök af á aðgengilegu formi og á hvaða formi þau eru tiltæk og samskiptaupplýsingar ásamt heiti viðurkenndra eininga sem hún hefur skipst á eintökum á aðgengilegu formi við, sbr. a- og b-lið.
    Ákvæði 2. mgr. eiga eingöngu við þær viðurkenndu einingar með staðfestu á Íslandi sem hafa með höndum miðlun verka á aðgengilegu formi á milli landa á grundvelli Marakess-tilskipunarinnar eða Marakess-sáttmálans.
    Ekki er skylda að veita þær upplýsingar sem kveðið er á um í 2. mgr. nema um þær sé beðið, þ.e. viðurkennd eining hefur ekki frumkvæðisskyldu að þeirri upplýsingagjöf. Upplýsingagjöf þarf eingöngu að miðast við beiðnina, þ.e. ekki þarf að veita upplýsingar um öll verk sem viðkomandi viðurkennda eining hefur ef t.d. eingöngu er beðið um upplýsingar um ákveðin verk á tilteknu aðgengilegu formi. Hins vegar þarf viðurkennd stofnun að hafa tiltæka skrá yfir alla titla sem til eru á aðgengilegu formi hjá henni og upplýsingar um á hvers konar aðgengilegu formi viðkomandi verk er til. Sömuleiðis þarf viðkomandi viðurkennda eining að hafa lista yfir allar þær viðurkenndu einingar sem hún hefur skipst á eintökum á aðgengilegu formi við þótt henni sé ekki skylt að gefa upp allan þann lista ef t.d. eingöngu er spurt um skipti við viðurkenndar einingar í ákveðnu landi.
    Ef einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eru veittar upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein skulu þær afhentar á aðgengilegu formi sem þeir geta nýtt. Það getur falið í sér að viðkomandi fái upplýsingar í símtali ef þannig stendur á. Krafan felur ekki í sér að þýða þurfi upplýsingarnar yfir á annað tungumál en íslensku.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að 5. mgr. 45. gr. laganna verði breytt þannig að um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr. 45. gr., skuli eftir því sem við á gilda ákvæði 19. gr. og 19. gr. a – 19. gr. e í stað þess að áður var eingöngu vísað til 4. mgr. 19. gr.
    Tilvísun í 5. mgr. 45. gr. til 19. gr. og 19. gr. a –19. gr. e hefur í för með sér að listflytjendur, þ.m.t. þeir sem lesa bækur við hljóðbókagerð, geta ekki komið í veg fyrir upptöku, eftirgerð og dreifingu verka á aðgengilegu formi sem gerð eru á grundvelli ákvæða þessara tilvísuðu greina. Tilvísun til 19. gr. d gæti haft í för með sér að sá sem les inn hljóðbók gæti átt kröfu á bótum samkvæmt ákvæði þeirrar greinar en slíkt yrði að skoða í hverju tilviki fyrir sig og í samræmi við aðstæður allar. Ólíklegt að sá sem fenginn er til að lesa inn á hljóðbók sem er framleidd gagngert fyrir viðurkennda einingu skv. 19. gr. c og fær greitt fyrir þá vinnu eigi jafnframt kröfur á bótum. Hins vegar gæti lesari hugsanlega átt rétt á bótagreiðslu ef viðurkennd eining fengi heimild til að dreifa hljóðbókinni sem gerð hefði verið fyrir almennan markað ef talið væri að upphafleg greiðsla til lesara tæki ekki til slíkrar notkunar. Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. laganna gæti úrskurðað um ágreining sem upp kynni að koma í þessu sambandi, einnig sbr. 7. gr. frumvarpsins. Þá hefur tilvísun til 19. gr. e það í för með sér að listflytjendur geta óskað eftir upplýsingum frá viðurkenndum einingum, sbr. 2. mgr. þeirrar greinar.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að skýrt verði kveðið á um að lenging verndartíma framleiðenda, sem var lögfest með lögum nr. 11/2016 vegna innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda, taki eingöngu til hljóðrita. Þetta skiptir máli meðal annars vegna heimildar til að gera eintök á aðgengilegu formi og því þykir rétt að hnykkja á þessu atriði en ekki er um breytingu á núverandi fyrirkomulagi að ræða.
    Þá er lagt til að 2. mgr. 46. gr. laganna verði breytt þannig að um eftirgerð og hvers kyns dreifingu til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, sem um getur í 1. mgr. 46. gr., skuli eftir því sem við á gilda ákvæði 19. gr. að því varðar myndrit og hljóðrit en ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e skuli gilda að því varðar hljóðrit.
    Þeirri tilvísun sem bætt er við 2. mgr. 46. gr., þ.e. 19. gr. og 19. gr. a – 19. gr. e, hefur í för með sér að framleiðendur geta ekki sett sig á móti eftirgerð og hvers kyns dreifingu til almennings á myndritum og hljóðritum, sem eru gerð eintök af á aðgengilegu formi á grundvelli ákvæða 19. gr. og hljóðrita sem framleidd eru á aðgengilegu formi á grundvelli ákvæða 19. gr. c. Þá geta framleiðendur hljóðrita sem gerð eru eintök af á aðgengilegu formi á grundvelli ákvæða 19. gr. c átt rétt á bótum skv. 19. gr. d og úrskurðarnefnd skv. 57. gr. laganna getur skorið úr um ágreining sem að slíkum kröfum lýtur. Þá hefur tilvísun til 19. gr. e það jafnframt í för með sér að framleiðendur geta óskað eftir upplýsingum frá viðurkenndum einingum í samræmi við 2. mgr. þeirrar greinar.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að 3. mgr. 48. gr. laganna verði breytt þannig að um aðgerðir sem óheimilar eru án samþykkis útvarpsstofnunar skv. 1. mgr. 48. gr. muni eftirleiðis beitt ákvæðum 19. gr. og 19. gr. a – 19. gr. e eftir því sem við á í stað 1., 2. og 4. mgr. 19. gr.
    Þetta hefur í för með sér að útvarpsstofnanir muni ekki geta sett sig á móti endurvarpi, upptöku endurflutnings eða eftirgerð á áður gerðri upptöku útvarps hennar og birtingu slíkrar eftirgerðar ef það er gert á grundvelli 19. gr. eða 19. gr. c. Hins vegar fellur birting á sjónvarpi hennar í atvinnuskyni eða til ávinnings utan þessara ákvæða og er því ekki heimil sbr. 19. gr. og 19. gr. c þar sem notkun á grundvelli þeirra má ekki vera í hagnaðarskyni. Útvarpsstofnanir gætu átt kröfu á bótum skv. 19. gr. d og mun úrskurðarnefnd skv. 57. gr. laganna eiga úrskurðarvald um deilur sem af þeim kröfum kynnu að rísa. Þá hefur tilvísun til 19. gr. e það í för með sér að útvarpsstofnanir geta óskað eftir upplýsingum frá viðurkenndum einingum í samræmi við 2. mgr. þeirrar greinar.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að bætt verði við 1. málsl. 1. mgr. 50. gr. c laganna tilvísun til 19. gr. c. Það hefur í för með sér að úrskurðarnefnd skv. 57. gr. getur samkvæmt kröfu notanda gert rétthafa, sem gripið hefur til skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1. mgr. 50. gr. b, að veita þeim notanda aðgang að þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til þess að hann geti nýtt sér ákvæði 19. gr. og 19. gr. c.
    Enn fremur er lagt til að ákvæði 3. mgr. 50. gr. c höfundalaga eigi ekki við um notkun verka sem gerð eru á aðgengilegu formi á grundvelli 19. gr. c. Það hefur í för með sér að úrskurðarnefnd skv. 57. gr. laganna getur, ef rétthafi hefur gripið til skilvirkra tæknilegra ráðstafana, gert honum að veita notanda aðgang að þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til að hann geti nýtt sér verk sem gerð eru aðgengileg á grundvelli 19. gr. c, líka þótt um verk og annað efni sé að ræða sem á grundvelli samnings er gert almenningi aðgengilegt á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs. Þetta ákvæði er innleiðing á ákvæði 4. mgr. 3. gr. Marakess-tilskipunarinnar.

Um 7. gr.

    Hér er lagt til annars vegar að bætt verði við orðunum „eða fyrirkomulag“ á undan orðinu „þóknunar“ og hins vegar að vísað verði til 3. mgr. 19. gr. d til viðbótar við 4. mgr. 19. gr.
    Hvað varðar orðalagsbreytinguna að bæta við orðunum „eða fyrirkomulag“ á undan orðinu „þóknunar“ er sú breyting lögð til þar sem ágreiningur aðila snýst oft ekki eingöngu um upphæð þóknunar heldur einnig um fyrirkomulag hennar, t.d. um fjölda greiðslna, hvort eigi að vísitölubinda upphæðina o.s.frv. Eðlilegt þykir, og í samræmi við framkvæmd t.d. í Danmörku, að úrskurðarnefndin hafi úrskurðarvald um þau efni einnig.
    Síðarnefnda breytingin helgast af því að lagt er til í frumvarpinu að 3. mgr. 19. gr. laganna falli brott. Þess í stað komi 19. gr. d og í 3. mgr. þeirrar greinar verði kveðið á um að ef ekki náist samkomulag um bætur samkvæmt ákvæðinu geti hvor aðili um sig lagt ágreininginn undir úrskurðarnefnd skv. 57. gr. laganna.

Um 8. gr.

    Eins og fram kemur í kafla 2.1 er lagt til með frumvarpinu að undirbúa aðild Íslands að Marakess-sáttmálanum og innleiða Marakess-tilskipunina. Þetta tvennt helst í hendur. Tilskipunin er liður í aðild Evrópusambandsins að Marakess-sáttmálanum. Með því að innleiða tilskipunina er jafnframt búið í haginn fyrir Ísland til að gerast aðili að sáttmálanum. Því þykir rétt að hafa ákvæði í frumvarpinu sem undirstrikar að Marakess-tilskipunin verði innleidd í kjölfar samþykktar frumvarpsins þó svo að hún sé ekki orðin hluti af EES-samningnum. Drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar liggja fyrir og gert er ráð fyrir að þau verði samþykkt á næstu mánuðum enda er enginn ágreiningur um efni ákvörðunarinnar.

Um 9. gr.

    Lagt er til í að lögin öðlist gildi 1. janúar 2021 nema hvað varðar ákvæði sem gilda um samskipti aðila við viðurkenndar einingar í ríkjum utan EES sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum. Lagt er til að þau ákvæði öðlist gildi um leið og Marakess-sáttmálinn að því er Ísland varðar og utanríkisráðherra hefur birt auglýsingu í Stjórnartíðindum þar að lútandi. Þetta er gert til að tryggja að um þau samskipti ríki gagnkvæmni. Fyrirmynd að þessu fyrirkomulagi er að finna í 11. gr. laga um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara, nr. 74/2019, og 4. gr. laga um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, nr. 7/2011.


Fylgiskjal I.


Samanburður á ákvæðum frumvarpsins og gildandi lögum.


GILDANDI LÖG BREYTING, VERÐI FRUMVARPIÐ AÐ LÖGUM
II. kafli. Takmarkanir á höfundarétti og umsýsla höfundaréttar á grundvelli samningskvaða II. kafli. Takmarkanir á höfundarétti og umsýsla höfundaréttar á grundvelli samningskvaða

1. mgr. 19. gr.

    Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi.

1. mgr. 19. gr.

    Eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem gefin hafa verið út er heimil þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir heyrnarlausa og eða málhamlaða að því leyti sem ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e eiga ekki við. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi.

3. mgr. 19. gr.

    Heimilt er með hljóðupptöku að gera eintök af bókmenntaverkum til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar, enda séu eintökin ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Höfundar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar.
Felld brott.

4. mgr. 19. gr.

    Heimilt er stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga og öðrum stofnunum sem starfa í almannaþágu og ekki í fjárhagslegum tilgangi að gera með mynd- eða hljóðupptöku eintök af verkum, sem hljóðvarpað er eða sjónvarpað eða eru gerð aðgengileg í dreifikerfi fjölmiðlaveitu þannig að hver og einn geti fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa og þá sem vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum eru ófærir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Þess háttar upptökur má aðeins nota innan stofnunar sem samningur tekur til, sbr. 26. gr. a.

4. mgr. 19. gr.

    Heimilt er stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga og öðrum stofnunum sem starfa í almannaþágu og ekki í fjárhagslegum tilgangi að gera með mynd- eða hljóðupptöku eintök af verkum, sem hljóðvarpað er eða sjónvarpað eða eru gerð aðgengileg í dreifikerfi fjölmiðlaveitu þannig að hver og einn geti fengið aðgang að þeim á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs, til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa og þá sem vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum eru ófærir um að nýta sér hefðbundna fjölmiðlaþjónustu, enda sé fullnægt skilyrðum um samningskvaðaleyfi skv. 26. gr. a. Þess háttar upptökur má aðeins nota innan stofnunar sem samningur tekur til, sbr. 26. gr. a. Ákvæði 1. og 2. málsl. eiga ekki við þau svið sem ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e taka til.

Ný 19. gr. a.

    Í ákvæðum 19. gr. b – 19. gr. e er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Einstaklingur með sjón- eða lestrarhömlun, án tillits til annarrar fötlunar, telst sá vera sem:
                  a.      er blindur,
                  b.      hefur skerta sjón, sem er ekki unnt að bæta þannig að ná megi sjónhæfni sem er að mestu leyti sambærileg sjónhæfni einstaklings sem býr ekki við slíka skerðingu, og getur þar af leiðandi ekki lesið prentað mál í nokkurn veginn sama mæli og einstaklingur sem er án slíkrar skerðingar,
                  c.      hefur skerta getu til skynjunar eða lestrar og getur þar af leiðandi ekki lesið prentað mál í nokkurn veginn sama mæli og einstaklingur sem er án slíkrar fötlunar eða
                  d.      getur ekki á annan hátt, vegna líkamlegrar fötlunar, haldið á bók eða meðhöndlað hana eða náð sjónskerpu eða hreyft augun að því marki að viðunandi sé til að geta lesið.
     2.      Eintak á aðgengilegu formi: Verk sem er sett fram með sérstökum hætti eða á formi sem veitir einstaklingi sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða aðgengi að verkinu eða efninu, m.a. til að viðkomandi hafi jafn greiðan og þægilegan aðgang að verkinu og einstaklingur sem ekki glímir við neina þá skerðingu eða fötlun sem um getur í 1. tölul.
     3.      Viðurkennd eining: Eining sem er ekki rekin í hagnaðarskyni og sem fengið hefur viðurkenningu eða samþykki aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða annarra aðildarríkja Marakess-sáttmálans, sbr. 4. tölul., til að veita einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða menntun, starfsmenntun, aðgang að lestrarefni á aðgengilegu formi eða aðgengi að upplýsingum. Viðurkennd eining getur meðal annars verið opinber stofnun eða samtök, sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, sem bjóða einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða sömu þjónustu og að ofan greinir sem hluta af aðalstarfsemi sinni, stofnanaskuldbindingum eða hlutverki sínu við að veita þjónustu í almannaþágu.
     4.      Marakess-sáttmálinn: Sáttmáli um að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum sem samþykktur var í Marakess 27. júní 2013.

Ný 19. gr. b.

    Ákvæði 19. gr. c – 19. gr. e taka til nota á birtum verkum á formi bóka, tímarita, dagblaða, fréttablaða og annars konar ritaðs efnis, táknunar, þ.m.t. nótnablaða, ásamt tengdum myndskreytingum, á hvers konar miðlum.

Ný 19. gr. c.

    Einstaklingur sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, eða einstaklingur fyrir hans hönd, getur gert eintak á aðgengilegu formi af verki eða öðru efni sem hann hefur lögmætan aðgang að og er eingöngu ætlað til eigin nota.
    Viðurkennd eining getur gert eintak á aðgengilegu formi af verki eða öðru efni sem hún hefur lögmætan aðgang að, eða miðlað eintaki á aðgengilegu formi, gert það aðgengilegt, dreift því eða lánað einstaklingi sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða annarri viðurkenndri einingu með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, sé það ekki gert í hagnaðarskyni og eingöngu til afnota fyrir einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða. Viðurkenndri einingu er einnig heimilt með sömu skilyrðum að miðla eintaki á aðgengilegu formi, gera það aðgengilegt, dreifa því eða lána einstaklingum sem eiga við sjón- og lestrarhömlun að stríða og hafa búsetu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum eða viðurkenndum einingum með staðfestu í sömu ríkjum.
    Einstaklingur sem á við sjón- eða lestrarhömlun að stríða sem og viðurkennd eining mega tileinka sér eða fá aðgang að verki á aðgengilegu formi sem er miðlað, gert aðgengilegt, dreift eða lánað af viðurkenndri einingu sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem og af viðurkenndum einingum með staðfestu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum.
    Ekki er heimilt að víkja frá ákvæðum 1.–3. mgr. með samningum.

Ný 19. gr. d.

    Ef viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi nýtir heimild 2. mgr. 19. gr. c skal höfundur eiga kröfu til bóta utan tilvika sem nefnd eru í 2. mgr. Ef tjón höfundar er óverulegt stofnast ekki bótaréttur.
    Ekki kemur til bótagreiðslna ef viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi gerir eintak af verki eða öðru efni sem hún hefur lögmætan aðgang að eða miðlar slíku eintaki, gerir það aðgengilegt, dreifir því eða lánar, með blindraletri eða á öðru aðgengilegu formi sem eingöngu einstaklingar sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða nýta sér.
    Ef ekki næst samkomulag um bætur skv. 1. mgr. getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð nefndar skv. 57. gr.

Ný 19. gr. e.

    Viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi sem nýtir heimildir 2. mgr. 19. gr. c til að miðla eintaki á aðgengilegu formi, gera það aðgengilegt, dreifa því eða lána til einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða viðurkenndrar einingar með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem og til viðurkenndra eininga með staðfestu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum eða sem flytur inn verk á aðgengilegu formi frá slíkum einingum skal setja sér starfsreglur og fylgja þeim til að tryggja að hún:
     a.      dreifi, miðli og geri eintök á aðgengilegu formi einungis aðgengileg einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða öðrum viðurkenndum einingum,
     b.      geri viðeigandi ráðstafanir til þess að vinna gegn óheimilli eftirgerð eintaka á aðgengilegu formi eða því að þeim sé dreift, miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi með óheimilum hætti,
     c.      sýni tilhlýðilega kostgæfni við umsjón sína með verkum eða öðru efni og eintökum þeirra á aðgengilegu formi og haldi skrá um hana og
     d.      birti og uppfæri, á vef sínum ef við á eða eftir öðrum leiðum á netinu eða utan þess, upplýsingar um hvernig hún uppfyllir þær skyldur sem mælt er fyrir um í a–c-lið.
    Sömuleiðis skal viðurkennd eining skv. 1. mgr. veita einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða, öðrum viðurkenndum einingum eða rétthöfum verka eftirfarandi upplýsingar á aðgengilegan hátt, sé þess óskað:
     a.      skrá yfir þau verk eða annað efni sem hún hefur eintök af á aðgengilegu formi og á hvaða formi þau eru tiltæk og
     b.      heiti og samskiptaupplýsingar viðurkenndra eininga sem hún hefur skipst á eintökum á aðgengilegu formi við.
    Ef upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein eru veittar til einstaklinga sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða skulu þær afhentar á aðgengilegu formi sem þeir geta nýtt.

1. mgr. 26. gr. a.

    Nú hafa samtök rétthafa, sbr. 4. mgr., gert samning við notanda um þar tilgreinda hagnýtingu verka á grundvelli heimilda í 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. 18. gr., 4. mgr. 19. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a og 1. mgr. 23. gr. b, og fær þá sá notandi rétt til þess að hagnýta önnur verk sömu tegundar þó að samtökin komi ekki fram fyrir hönd höfunda þeirra verka, á sama hátt og með sömu skilmálum og felast í samningnum við samtökin og hinum tilvitnuðu ákvæðum. Réttur notanda skv. 1. málsl. nefnist samningskvaðaleyfi.

1. mgr. 26. gr. a.

    Nú hafa samtök rétthafa, sbr. 4. mgr., gert samning við notanda um þar tilgreinda hagnýtingu verka á grundvelli heimilda í 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 1. mgr. 18. gr., 3. mgr. 19. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a og 1. mgr. 23. gr. b, og fær þá sá notandi rétt til þess að hagnýta önnur verk sömu tegundar þó að samtökin komi ekki fram fyrir hönd höfunda þeirra verka, á sama hátt og með sömu skilmálum og felast í samningnum við samtökin og hinum tilvitnuðu ákvæðum. Réttur notanda skv. 1. málsl. nefnist samningskvaðaleyfi.

5. mgr. 45. gr.

    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–5. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 3. og 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 23. gr., 23. gr. a, 23. gr. b, 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr., 53. gr. og 57. gr.

5. mgr. 45. gr.

    Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu eftir því sem við á gilda ákvæði 2.–5. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 3. og 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 19. – 19. gr. e, 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 23. gr., 23. gr. a, 23. gr. b, 24. gr., 26.–31. gr., 3. mgr. 41. gr., 53. gr. og 57. gr.

1. mgr. 46. gr.

    Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 70 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu

1. mgr. 46. gr.

    Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku hljóðrits dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd hljóðritsins þó haldast í 70 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu

2. mgr. 46. gr.

    Eftir því sem við á skal beita ákvæðum 2.–5. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 3. og 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 23. gr. b, 24. gr., 3. mgr. 26. gr., 26. gr. a – 26. gr. c og 57. gr.

2. mgr. 46. gr.

    Eftir því sem við á skal beita ákvæðum 2.–5. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 3. og 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1. og 4. mgr. 19. gr. að því varðar myndrit og 19. gr. og 19. gr. a – 19. gr. e að því varðar hljóðrit, 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 23. gr. b, 24. gr., 3. mgr. 26. gr., 26. gr. a – 26. gr. c og 57. gr.

3. mgr. 48. gr.

    Eftir því sem við á skal beita ákvæðum 2.–4. mgr. 2. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 1., 2. og 4. mgr. 19. gr., 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 24. gr. og 3. mgr. 26. gr.

3. mgr. 48. gr.

    Eftir því sem við á skal beita ákvæðum 2.–4. mgr. 2. gr., 8. gr., 10. gr. a, 1. mgr. og 3. tölul. 2. mgr. 11. gr., 12. gr., 12. gr. a, 12. gr. b, 1. og 3. mgr. 14. gr., 4. mgr. 15. gr., 17. gr., 18. gr., 19. gr. og 19. gr. a – 19. gr. e, 21. gr., 22. gr., 22. gr. a, 24. gr. og 3. mgr. 26. gr.

1. mgr. 50. gr. c.

    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. getur samkvæmt kröfu notanda gert rétthafa, sem gripið hefur til skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1. mgr. 50. gr. b, að veita notanda aðgang að þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til þess að hann geti nýtt sér ákvæðin í 12. gr., 2. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 17. gr., að því er kennslu varðar, 19. gr., 1. tölul. 1. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 22. gr., 22. gr. a og 3. mgr. 23. gr. Hafi rétthafi ekki farið að fyrirmælunum innan fjögurra vikna frá ákvörðun nefndarinnar er notanda rétt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 50. gr. b, að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir. Ákvæðum þessarar málsgreinar verður aðeins beitt um þá notendur sem eiga löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.

1. mgr. 50. gr. c.

    Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. getur samkvæmt kröfu notanda gert rétthafa, sem gripið hefur til skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1. mgr. 50. gr. b, að veita notanda aðgang að þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til þess að hann geti nýtt sér ákvæðin í 12. gr., 2. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 17. gr., að því er kennslu varðar,. 19. gr., 19. gr. c, 1. tölul. 1. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 22. gr., 22. gr. a og 3. mgr. 23. gr. Hafi rétthafi ekki farið að fyrirmælunum innan fjögurra vikna frá ákvörðun nefndarinnar er notanda rétt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 50. gr. b, að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir. Ákvæðum þessarar málsgreinar verður aðeins beitt um þá notendur sem eiga löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.

3. mgr. 50. gr. c.

    Ákvæði 1. mgr. verður ekki beitt um verk og annað efni sem á grundvelli samnings er gert almenningi aðgengilegt á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs.

3. mgr. 50. gr. c.

    Ákvæði 1. mgr. verður ekki beitt um verk og annað efni sem á grundvelli samnings er gert almenningi aðgengilegt á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs. Þetta á þó ekki við um slíka notkun skv. 19. gr. c.

1. mgr. 57. gr.

    Takist ekki samningur um fjárhæð þóknunar skv. 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 16.–18. gr., 4. mgr. 19. gr., 20. og 21. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a, 23. gr. b, 26. gr. b og 47. gr., eða önnur ágreiningsefni vegna samningskvaðaheimilda, getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð þriggja manna nefndar sem ráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd skv. 58. gr. tilnefnir.

1. mgr. 57. gr.

    Takist ekki samningur um fjárhæð eða fyrirkomulag þóknunar skv. 12. gr. b, 3. mgr. 14. gr., 16.–18. gr., 4. mgr. 19. gr., 3. mgr. 19. gr. d, 20. og 21. gr., 1. mgr. 23. gr., 23. gr. a, 23. gr. b, 26. gr. b og 47. gr., eða önnur ágreiningsefni vegna samningskvaðaheimilda, getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð þriggja manna nefndar sem ráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd skv. 58. gr. tilnefnir.

Ný 2. mgr. 65. gr. a

    Með lögum þessum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um tiltekna leyfilega notkun á tilteknum verkum og öðru efni sem er verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun og um breytingu á tilskipun 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Gildistökuákvæði

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 19. gr. c öðlast þó ekki gildi fyrr en Marakess-sáttmálinn öðlast gildi að því er Ísland varðar og ráðherra hefur birt auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistökuna.