Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1378, 138. löggjafarþing 523. mál: höfundalög (EES-reglur, takmarkanir á höfundarétti o.fl.).
Lög nr. 93 29. júní 2010.

Lög um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum.


1. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Opinber skjalasöfn, almenningsbókasöfn, háskólabókasöfn og önnur bókasöfn sem njóta opinberra styrkja í starfsemi sinni, önnur opinber söfn og söfn sem falla undir safnalög hafa heimild til að gera eintök af:
  1. verkum í öryggis- og varðveisluskyni,
  2. verkum sem í vantar hluta, sem telst minni hluti verksins í heild, og ófáanleg eru á almennum markaði og hjá útgefanda; tekur heimild til gerðar eintaka samkvæmt þessu ákvæði einungis til þess hluta verka sem vantar í eintak viðkomandi safns,
  3. verkum sem safni er skylt, lögum samkvæmt, að eiga eintök af á safni sínu og ófáanleg eru á almennum markaði og hjá útgefanda,
  4. verkum þegar frumrit þeirra eru of viðkvæm til útláns og eru ófáanleg á almennum markaði og hjá útgefanda.

     Heimild til eintakagerðar skv. 1. mgr. er bundin við að eintökin séu einungis til notkunar í starfsemi safnanna og að eintakagerðin sé ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Söfnum eru þó heimil útlán á eintökum sem afrituð hafa verið skv. 2.–4. tölul. 1. mgr.
     Heimild til eintakagerðar skv. 1. mgr. tekur ekki til forrita á stafrænu formi nema um tölvuleiki sé að ræða.

2. gr.

     Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. a, svohljóðandi:
     Þeim stofnunum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 12. gr. er heimilt að veita einstaklingum aðgang í rannsóknarskyni eða vegna náms að birtum verkum sem ekki eru háð kaup- eða leyfissamningum á þar til gerðum búnaði til notkunar á athafnasvæði þeirra.

3. gr.

     Orðið „íslenska“ í 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. a laganna fellur brott.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi.
  3. Orðin „og heimilar ekki dreifingu eintaka með útláni eða leigu til almennings“ í 2. mgr. falla brott.
  4. 3. mgr. fellur brott.
  5. 4. mgr. verður 3. mgr. og orðast svo:
  6.      Heimilt er með hljóðupptöku að gera eintök af bókmenntaverkum til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar, enda séu eintökin ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Höfundar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar.


5. gr.

     Á eftir orðunum „1. mgr. 11. gr.“ í 3. mgr. 45. gr. laganna kemur: 12. gr., 12. gr. a.

6. gr.

     Á eftir orðunum „1. mgr. 11. gr.“ í 2. mgr. 46. gr. laganna kemur: 12. gr., 12. gr. a.

7. gr.

     Á eftir orðinu „ákvæðum 1. mgr. 11. gr.“ í 3. mgr. 48. gr. laganna kemur: 12. gr., 12. gr. a.

8. gr.

     Á eftir orðunum „að því er kennslu varðar“ í 1. málsl. 1. mgr. 50. gr. c laganna kemur: 19. gr.

9. gr.

     Á eftir 53. gr. laganna kemur ný grein, 53. gr. a, svohljóðandi:
     Mennta- og menningarmálaráðherra setur nánari reglur um málsmeðferð vegna viðurkenningar þeirra samtaka sem nefnd eru í 6. mgr. 11. gr., 1. mgr. 15. gr. a, 1. mgr. 23. gr., 1. mgr. 23. gr. a, 2. mgr. 25. gr., 5. mgr. 25. gr. b, 1. mgr. 45. gr. a og 2. mgr. 47. gr.

10. gr.

     Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrir hlutdeild í brotum skal refsa á sama hátt.

11. gr.

     55. gr. laganna orðast svo:
     Nú hafa eintök af verkum verið gerð, flutt hingað til lands eða birt almenningi, þannig að í bága fer við ákvæði laga þessara eða fyrirmæli, sem sett hafa verið skv. 2. mgr. 31. gr., og má þá ákveða í dómi að eintökin séu afhent brotaþola, eyðilögð, fjarlægð af markaði eða tekin úr dreifingu, varanlega eða tímabundið, eða gerð á annan hátt óhæf til hinna ólöglegu nota.
     Hið sama gildir um efni, áhöld og aðra muni sem varða undirbúning eða framkvæmd brots.
     Ráðstafanir skv. 1. og 2. mgr. skulu eiga sér stað á kostnað hins brotlega og án endurgjalds af hálfu brotaþola. Liggi til þess alveg sérstakar ástæður er þó heimilt að kveða á um í dómi að brotaþoli skuli greiða hæfilegt endurgjald.
     Við ákvörðun dómara skv. 1. og 2. mgr. skal þess gætt að samræmi sé milli umfangs brots og þeirra ráðstafana sem kveðið er á um jafnframt því sem tekið skal hæfilegt tillit til hagsmuna þriðja manns, þar á meðal í þeim tilvikum þegar eigandi munar veit ekki um brot.

12. gr.

     56. gr. laganna orðast svo:
     Sá sem hefur brotið gegn lögum þessum af ásetningi eða gáleysi skal greiða bætur vegna brotsins. Þótt brotið sé framið í góðri trú er heimilt að ákveða þeim sem orðið hefur fyrir tjóni bætur úr hendi hins brotlega.
     Við ákvörðun bóta skv. 1. mgr. skal ekki eingöngu miða við það beina fjárhagstjón sem höfundur eða annar rétthafi hefur orðið fyrir, heldur ber auk þess að líta til þess fjárhagslega hagnaðar sem hinn brotlegi hefur haft af brotinu. Verði ekki færðar sönnur á tjón brotaþola eða hagnað hins brotlega skal ákveða bætur að álitum hverju sinni.
     Dæma má höfundi eða öðrum rétthafa bætur fyrir miska vegna brots á lögum þessum.

13. gr.

     Á eftir 59. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (59. gr. a.)
     Þau samtök, sem hlotið hafa löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins skv. 23. gr. og 23. gr. a, geta fengið lagt lögbann við byrjuðum eða yfirvofandi flutningi eða öðrum notum allra þeirra verka, sem löggildingin nær til og verndar njóta samkvæmt lögum þessum, án þess að hafa fengið umboð til þess frá höfundum eða öðrum rétthöfum verkanna, enda sé fullnægt öðrum skilyrðum lögbanns samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
     Að því tilskildu að fullnægt sé öðrum þeim skilyrðum lögbanns, sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., geta einstakir rétthafar eða samtök þeirra fengið lagt lögbann við því að þjónustuveitandi miðli gögnum sem þjónustuþegi lætur í té um fjarskiptanet, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð vegna miðlunar eða sjálfvirkrar, millistigs- eða skammtímageymslu gagna. Enn fremur verður lögbann lagt við því að þjónustuveitandi hýsi gögn sem látin eru í té af þjónustuþega, óháð því hvort þjónustuveitandi beri ábyrgð á gögnunum.
     Um lögbann samkvæmt þessari grein fer að öðru leyti eftir lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
     
     b. (59. gr. b.)
     Í dómsmáli vegna brots á lögum þessum getur dómari að kröfu málsaðila lagt fyrir gagnaðila eða þriðja aðila að láta í té upplýsingar, sem hann hefur aðgang að, um vörur eða þjónustu sem kann að fela í sér brot á lögunum. Þetta á þó aðeins við ef sá sem krafan beinist að:
  1. hefur í atvinnuskyni haft umráð yfir vörunum,
  2. hefur í atvinnuskyni notað þjónustuna,
  3. hefur veitt þjónustu sem notuð er til athafna er kunna að fela í sér brot á lögunum,
  4. hefur veitt aðstoð við að framleiða eða dreifa vörunni eða við að veita þjónustuna.

     Upplýsingar þær sem um ræðir í 1. mgr. ná til:
  1. nafns og heimilisfangs framleiðenda, dreifingaraðila, þjónustuveitanda og annarra fyrrverandi eigenda vara og þjónustu og til heildsala og smásala sem vörurnar voru ætlaðar,
  2. magns framleiddra, afhentra, móttekinna eða pantaðra vara eða þjónustu og söluandvirði vara eða þjónustu.

     Dómara ber að synja kröfu skv. 1. mgr. ef ætla má að það að láta upplýsingarnar í té muni valda þeim sem krafan beinist að óhæfilegu tjóni, að teknu tilliti til þess hve mikið er í húfi fyrir þann sem kröfuna gerir til að fá upplýsingarnar.
     Ekki er skylt að láta í té upplýsingar samkvæmt þessari grein ef sá sem krafa beinist að er undanþeginn vitnaskyldu samkvæmt almennum réttarfarsreglum.
     
     c. (59. gr. c.)
     Í dómi þar sem kveðið er á um brot á lögum þessum eða ráðstafanir skv. 55. gr. má að beiðni brotaþola mæla fyrir um birtingu dómsins að hluta eða í heild. Birtingin skal fara fram með þeim hætti og í þeim mæli sem sanngjarnt má teljast.
     Hinn brotlegi skal annast og kosta birtinguna.

14. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

15. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 9/2006 fellur brott.

Samþykkt á Alþingi 15. júní 2010.