Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 141  —  140. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum (sýklalyfjanotkun).

Flm.: Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


1. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, svohljóðandi:
    Fyrirtæki sem hafa með höndum smásölu matvæla skulu tryggja með merkingum í sölurýmum að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um upprunaland matvælanna og meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í viðkomandi landi. Matvælastofnun skal árlega gefa út leiðbeiningar um miðlun upplýsinga um upprunaland og sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarpið er flutt í þriðja sinn en var síðast lagt fram á 150. löggjafarþingi (229. mál). Markmið frumvarpsins er að bæta miðlun upplýsinga til neytenda um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla. Með þessu er tryggt að neytendur séu upplýstir um meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í upprunalandi þeirra matvæla sem boðin eru til sölu í matvöruverslunum og geti byggt ákvarðanir sínar um val á matvöru á þeim upplýsingum.
    Í byrjun árs 2017 birti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lista yfir sýklalyfjaónæmar bakteríur þar sem stofnunin flokkaði tólf ættir baktería eftir áhættuflokkum. 1 Haustið 2019 varaði stofnunin við að jarðarbúar væru að verða uppiskroppa með nothæf sýklalyf og hvatti til þróunar nýrra lyfja. Aðalframkvæmdastjóri stofnunarinnar, dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, lýsti því yfir 20. september 2017 að neyðarástand væri að skapast í meðhöndlun sjúklinga vegna sýklalyfjaónæmis. 2 Þá kemur fram í skýrslu Evrópusambandsins frá því í febrúar 2019 3 að aukið ónæmi gegn sýklalyfjum stofni í hættu hefðbundinni meðferð við lekanda, sem er næstalgengasti kynsjúkdómur innan EES-svæðisins. Í skýrslu sem unnin var í Bretlandi um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum kemur fram að árlega láti um 700.000 manns lífið á heimsvísu af völdum slíkra baktería. 4
    12. apríl 2017 skilaði starfshópur, skipaður af heilbrigðisráðherra, greinargerð um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Í greinargerðinni kemur m.a. fram að sýklalyfjanotkun í dýrum hér á landi hefur verið ein sú minnsta á heimsvísu. Þá hafi algengi sýklalyfjaónæmis hér á landi verið umtalsvert minna en í nágrannalöndum. Í greinargerð starfshópsins og í áðurnefndri skýrslu frá Bretlandi er fjallað um mikilvægi þess að auka meðvitund almennings um hættuna sem fylgir ofnotkun sýklalyfja. Þá er í greinargerð starfshópsins lagt til að innleidd verði stefna um skynsamlega notkun sýklalyfja í dýrum, m.a. verði gefnar út leiðbeiningar um skynsamlega notkun þeirra. Þótt mikið hafi verið fjallað um notkun sýklalyfja og hættuna sem fylgir sýklalyfjaónæmum bakteríum hefur heildstæða stefnu vantað á Íslandi.
    Lyfjastofnun Evrópu gefur árlega út skýrslu um sölu sýklalyfja sem ætluð eru dýrum í 30 ríkjum Evrópu. 5 Í þeirri skýrslu má finna upplýsingar um notkun sýklalyfja í helstu innflutningsríkjum Íslands. Nauðsynlegt er að auka vitund almennings um efni skýrslunnar enda hefur skort mikið á miðlun upplýsinga til almennings um notkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla. Hafi almenningur greiðan aðgang að þessum upplýsingum í sölurýmum verslana geta neytendur tekið ákvörðun um frá hvaða ríkjum þeir kaupa matvæli á grundvelli opinberra upplýsinga um notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu.

1     www.who.int/medicines/publications/WHO-PPL-Short_Summary_25Feb-ET_NM_WHO.pdf
2     www.who.int/news-room/detail/20-09-2017-the-world-is-running-out-of-antibiotics-who-report-confirms
3     ecdc.europa.eu/en/news-events/gonorrhoea-drug-resistance-compromises-recommended-treatment-europe
4     amr-review.org/sites/default/files/160525_Final%20paper_with%20cover.pdf
5     www.ema.europa.eu/en/documents/report/sales-veterinary-antimicrobial-agents-31-european-countries-2017_en.pdf