Ferill 282. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 315  —  282. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (jafnréttisstefna lífeyrissjóða).

Flm.: Hanna Katrín Friðriksson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sara Elísa Þórðardóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


1. gr.

    Við 1. mgr. 36. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Lífeyrissjóður skal setja sér jafnréttisstefnu er nái til fjárfestinga sjóðsins.

2. gr.

    Við 2. mgr. 41. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: framkvæmd jafnréttisstefnu sjóðsins.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 148., 149. og 150. löggjafarþingi (99. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er því endurflutt nú.
    Þótt margt hafi áunnist í jafnréttismálum hér á landi, m.a. í kjölfar lögfestingar kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, er enn viðvarandi vandamál hversu fáar konur gegna stjórnunarstöðum í fjármálageiranum. Í apríl 2020 gegndu 83 karlar en einungis 13 konur stöðu æðsta stjórnanda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, kauphallar og lánasjóða samkvæmt úttekt Kjarnans. Þessi staða hefur lítið breyst frá því að Kjarninn gerði sams konar úttekt í febrúar 2017, en þá gegndu 80 karlar og 8 konur sömu stöðum. Staða kvenna er verst þegar kemur að verðbréfafyrirtækjum og rekstrarfélögum verðbréfasjóða sem starfa sem milliliðir fyrir fjárfesta, aðallega lífeyrissjóði, gegn þóknun. Rekstrarfélög verðbréfa- og fjárfestingarsjóða eru mörg hver í eigu viðskiptabankanna. Engu þeirra tíu dótturfélaga sem eru með starfsleyfi samkvæmt Fjármálaeftirlitinu er stýrt af konu og flestir starfsmannanna eru karlar. Að sama skapi stýra karlar öllum sjálfstæðum verðbréfafyrirtækjum sem skráð eru með starfsleyfi hjá Fjármálaeftirlitinu. Því er ljóst að lögfesting kynjahlutfalla í stjórnum félaga hér á landi hefur ekki skilað sér í fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum innan fyrirtækjanna sjálfra.
    Umsvifamestu aðilar á íslenskum fjármálamarkaði nú um stundir eru lífeyrissjóðirnir. Þeir eru 24 talsins samkvæmt yfirliti Fjármálaeftirlitsins um eftirlitsskylda aðila. Eignir þeirra í lok desember 2019 voru 4.977 milljarðar kr. samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands. Þeir halda á stórum hluta skuldabréfa og skráðra hlutabréfa, annaðhvort beint eða óbeint í gegnum sjóði sem þeir hafa fjárfest í, þeir hafa fjárfest mikið í óskráðum eignum og sækja einnig á í útlánum til fasteignakaupa. Áhrif lífeyrissjóðanna í íslensku viðskiptalífi eru því veruleg. Lífeyrissjóðunum er í flestum tilvikum stýrt af körlum og karlar eru í miklum meiri hluta ef litið er til starfsmanna sem koma að fjárfestingum og eignastýringu.
    Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðunum er þannig falið að fara með almannafé og hafa því samfélagslegu hlutverki að gegna. Starfsemi lífeyrissjóðanna er að þessu leyti frábrugðin öðrum stofnanafjárfestum, enda byggist hún eins og áður segir á lögbundinni skyldu launþega og atvinnurekenda til að greiða iðgjald til sjóðanna.
    Samfélagslegt hlutverk lífeyrissjóða endurspeglast m.a. í 36. gr. laganna sem kveður á um að lífeyrissjóður skuli hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi og setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Lögbundin skylda lífeyrissjóðanna til að setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum hefur hins vegar ekki leitt til þess að lífeyrissjóðir hafi sett sér jafnréttisstefnu er varðar bæði starfsemi þeirra og fjárfestingar.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að hnykkt verði á samfélagslegu hlutverki lífeyrissjóða að því er varðar jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna í samfélaginu með því að kveða á um að sjóðirnir skuli setja sér jafnréttisstefnu er nái til fjárfestinga sjóðsins. Að sama skapi skuli í ársskýrslu sjóðanna gerð grein fyrir framkvæmd jafnréttisstefnunnar, þ.e. hvernig fjárfestingar sjóðanna samræmast slíkri stefnu. Þannig beri lífeyrissjóðum að skýra sérstaklega forsendur þess að fjárfest er í fyrirtækjum þar sem kynjahalli er verulegur meðal æðstu stjórnenda. Í raun ætti slík stefna að vera sjálfsögð og eðlileg í ljósi hlutverks lífeyrissjóða enda sýna fjölmargar rannsóknir fram á að fyrirtækjum þar sem jafnvægi er í kynjahlutföllum í stjórn og framkvæmdastjórn vegnar almennt betur. Í ljósi stöðunnar í íslensku viðskiptalífi þykir hins vegar rétt að mæla sérstaklega fyrir um þessa skyldu lífeyrissjóðanna með lögum. Ekki verður séð að skylda að lögum til að setja jafnréttisstefnu og skýra frá eftirfylgni og framkvæmd í ársskýrslu samrýmist ekki markmiðum um áhættuvitund og áhættustýringu eða hvetji til frávika frá svonefndri skynsemisreglu. Með frumvarpi þessu er eingöngu verið að kveða á um að sjóðirnir skýri frá því hvernig eftirfylgni við jafnréttisstefnu er háttað í framkvæmd. Geti lífeyrissjóðir fært fyrir því rök að fjárfestingar í fyrirtækjum þar sem kynjahalli er fyrir hendi sé hlutlægt séð skynsamlegar og áhættulitlar er þeim því unnt að færa fyrir því rök í ársskýrslu enda er ekki verið að mæla fyrir um viðurlög í þessu frumvarpi. Megintilgangur frumvarpsins er að auka gagnsæi að því er varðar starfsemi lífeyrissjóða að þessu leyti.