Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 335  —  300. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 (tekjutengdar bætur).

Frá félags- og barnamálaráðherra.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XVI í lögunum:
     a.      Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst“ í 2. málsl. 9. mgr. kemur: 31. desember.
     b.      Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst“ í 10. mgr. kemur: 31. desember.
     c.      Í stað dagsetningarinnar „31. ágúst“ í 11. mgr. kemur: 31. desember.

2. gr.

    Í stað orðanna ,,á yfirstandandi bótatímabili skv. 29. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVIII í lögunum kemur: fyrir 1. júní 2020.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Mikil óvissa ríkir enn á innlendum vinnumarkaði vegna útbreiðslu kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum en nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í mörgum atvinnugreinum eftir að heimsfaraldur veirunnar braust út og er ófyrirséð hve lengi samdrátturinn mun standa yfir. Í frumvarpi þessu, sem samið er í félagsmálaráðuneytinu, eru lagðar til breytingar sem ætlað er að bregðast við þeirri stöðu sem nú ríkir á innlendum vinnumarkaði, meðal annars auknu atvinnuleysi, og tryggja enn betur stöðu þeirra sem hafa misst vinnuna í kjölfar heimsfaraldursins með auknum rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta.
    Breytingarnar sem felast í frumvarpi þessu eru tímabundnar og koma til vegna þeirra aðstæðna sem myndast hafa á vinnumarkaði vegna heimsfaraldursins. Ekki er gert ráð fyrir að þessar tímabundnu breytingar verði til framtíðar en í undirbúningi er heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarpið er lagt fram í ljósi þess að útbreiðsla kórónuveirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft veruleg áhrif á efnahagslífið og samfélagið allt og er þeim breytingum sem lagt er til að verði á lögum um atvinnuleysistryggingar ætlað, líkt og fyrri aðgerðum stjórnvalda, að draga úr tjóni vegna veirunnar og tryggja að neikvæð áhrif hennar á atvinnulíf og efnahag heimilanna verði sem minnst.
    Í september sl. voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar), nr. 112/2020. Með þeim lögum var meðal annars réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta lengdur tímabundið úr allt að þremur mánuðum í allt að sex mánuði. Í lögunum er gert ráð fyrir að lengingin eigi við um þá sem missa vinnuna vegna þrenginga á vinnumarkaði í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar. Þannig er í lögunum kveðið á um að lengingin eigi við um þá sem nýttu rétt sinn til tekjutengdra bóta þegar lögin tóku gildi í september 2020, sem og þá sem koma inn í kerfið eftir þann tíma á nýju bótatímabili. Samkvæmt lögunum á lengingin því ekki við um þá sem voru búnir að nýta rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á yfirstandandi bótatímabili fyrir september 2020. Bótatímabilið getur verið allt að 30 mánuðir skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum á almennt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum.
    Komið hefur í ljós að einhverjir þeirra sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og misst hafa vinnuna vegna þrenginga á vinnumarkaði í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar hafa ekki náð að nýta sér úrræðið. Er þar um að ræða einstaklinga sem hafa lítinn eða engan rétt átt til launa í uppsagnarfresti og komu því inn í atvinnuleysistryggingakerfið strax og áhrifa faraldursins fór að gæta á vinnumarkaði í apríl á þessu ári. Þar sem almenna reglan innan atvinnuleysistryggingakerfisins er sú að greiddar eru tekjutengdar atvinnuleysisbætur fyrstu þrjá mánuðina eftir að bótatímabil hefst hafa þessir einstaklingar í einhverjum tilvikum fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í september og hafa því fallið utan við tímabundna úrræðið um lengra tímabil tekjutengdra bóta þar sem þeir fullnýttu rétt sinn til slíkra bóta áður en framlenging á tímabilinu tók gildi. Í frumvarpi þessu er lagt til að miðað verði við þá einstaklinga sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og ekki voru búnir að nýta rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fyrir 1. júní 2020 í stað þess að miða úrræðið við þá sem nýttu rétt sinn til tekjutengdra bóta þegar fyrrnefnd lög tóku gildi í september sem og þá sem koma inn í kerfið eftir þann tíma á nýju bótatímabili.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögunum verði miðað við að heimilt sé að greiða þeim sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins tekjutengdar atvinnuleysisbætur í allt að sex mánuði hafi þeir ekki þegar nýtt sér rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á yfirstandandi bótatímabili fyrir 1. júní 2020. Áfram er miðað við að hafi hinn tryggði ekki fullnýtt rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta umfram þrjá mánuði fyrir 1. október 2021 falli niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta samkvæmt ákvæðinu og eru því ekki lagðar til breytingar hvað það varðar í frumvarpi þessu.
    Jafnframt eru lagðar til breytingar á 9.–11. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögunum til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á 1. mgr. ákvæðisins þess efnis að ákvæðið gildi til 31. desember 2020.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir hér á landi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og þeirra miklu áhrifa sem veiran hefur haft á samfélagið allt, þ.m.t. vinnumarkaðinn, gafst ekki svigrúm til hefðbundins samráðs.

6. Mat á áhrifum.
    Heildarkostnaður vegna þeirra breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir, er áætlaður á bilinu 315–419 millj. kr. Sá kostnaður stafar af því að fleiri einstaklingar sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins munu eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði í stað þriggja mánaða samkvæmt gildandi lögum. Þess má geta að í júní sl. fullnýttu 506 einstaklingar rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta en af þeim hópi héldu 328 einstaklingar áfram að nýta rétt sinn til grunnatvinnuleysisbóta innan atvinnuleysistryggingarkerfisins. Í júlí fullnýttu 788 einstaklingar rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta en af þeim hópi héldu 578 einstaklingar áfram að nýta réttindi sín til grunnatvinnuleysisbóta og í ágúst fullnýttu 694 einstaklingar rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta en af þeim hópi hélt 591 einstaklingur áfram að nýta réttindi sín til grunnatvinnuleysisbóta. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu má gera ráð fyrir að stór hópur þeirra einstaklinga sem héldu áfram að nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta innan atvinnuleysistryggingakerfisins eftir að rétti þeirra til tekjutengdra atvinnuleysisbóta lauk, sbr. framangreint, geti átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði til viðbótar þannig að þeir muni í heild fá greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur innan kerfisins í allt að sex mánuði, að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Hinn 25. ágúst 2020 skiptist hlutfall þeirra einstaklinga sem fengu greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur þannig að konur voru 41% og karlar 59%. Að því gefnu að konur og karlar nýti áfram rétt sinn samkvæmt ákvæðinu í sambærilegum hlutföllum og áður eftir lögfestingu frumvarpsins má ætla að þessar tilteknu breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að verði á lögum um atvinnuleysistryggingar muni almennt hafa meiri áhrif á karla en konur.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 9.–11. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögunum til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á 1. mgr. ákvæðisins með breytingalögum nr. 112/2020 þess efnis að ákvæðið gildi til 31. desember 2020.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. 32. gr. laganna er kveðið á um að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Með lögum um breytingar á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar), nr. 112/2020, bættist við ákvæði til bráðabirgða XVIII við lög um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið var á um að sá sem teldist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sbr. framangreint, öðlaðist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði enda hefði hann ekki fullnýtt rétt sinn til slíkra bóta skv. 32. gr. á yfirstandandi bótatímabili skv. 29. gr. Lögin tóku gildi 17. september sl. og því gátu þeir sem ekki höfðu fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í september 2020 átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði í stað þriggja mánaða.
    Hér er hins vegar lagt til að sá sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sbr. framangreint, og hafði ekki fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fyrir 1. júní 2020 geti öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 32. gr. í allt að sex mánuði að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Er þetta lagt til í því skyni að tryggja að þeir sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og misst hafa vinnuna vegna þrenginga á vinnumarkaði í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar geti nýtt sér úrræðið þrátt fyrir að þeir hafi lítinn eða engan rétt átt til launa í uppsagnarfresti og hafi því komið inn í atvinnuleysistryggingakerfið strax þegar áhrifa faraldursins fór að gæta á vinnumarkaði í apríl sl. Með því að miða við að þeir sem ekki höfðu fullnýtt rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fyrir 1. júní 2020 geti átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði í stað þriggja mánaða má ætla að fleiri einstaklingar geti átt rétt á slíkum atvinnuleysisbótum en ef miðað er við september 2020.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.