Ferill 316. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 355  —  316. mál.




Álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar


um skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu dómstólanna.


    Með bréfi dagsettu 4. maí 2020 sendi forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu dómstólanna til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis. Í skýrslunni er að finna niðurstöður úttektar Ríkisendurskoðunar á stjórnsýslu dómstólanna.
    Nefndin hefur fjallað um skýrsluna á fundum sínum. Fyrir nefndina komu Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi, Guðrún Jenný Jónsdóttir, Grétar Bjarni Guðjónsson, Haraldur Guðmundsson og Jóhannes Jónsson frá Ríkisendurskoðun og Benedikt Bogason og Ólöf Finnsdóttir frá dómstólasýslunni.

Meginniðurstöður ríkisendurskoðanda.
    Á grundvelli skýrslubeiðni sem samþykkt var í júní 2018 á 148. löggjafarþingi (þskj. 1228, 659. mál) ákvað ríkisendurskoðandi að hefja úttekt á stjórnsýslu dómstólanna. Markmið úttektarinnar var að svara því hvernig dómstólasýslunni hefði tekist að annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna og móta og framfylgja framtíðarsýn stofnunarinnar um þróun stjórnsýslunnar.
    Á grundvelli úttektarinnar lagði ríkisendurskoðandi fram fjórar tillögur til úrbóta. Tillögurnar vörðuðu eftirlit og samræmda framkvæmd, aðgengi að sérfræðiþekkingu í upplýsingatækni og öðrum tæknimálum, setningu ýmissa reglna fyrir Landsrétt og héraðsdómstóla og mat á hagræði af sameiningu héraðsdómstóla.

Umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna.
    Umfjöllun um eftirlit með stjórnsýslu dómstóla hefur áður farið fram á vettvangi fastanefnda þingsins. Í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á 145. löggjafarþingi um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2015 (þskj. 1687, 872. mál) ræddi nefndin um óskýrleika í umgjörð stjórnsýslu dómstóla. Umboðsmaður Alþingis hafði vakið athygli á því að stjórnsýsla dómstóla hefði færst undan eftirliti hans með tilfærslu verkefna frá þáverandi dóms- og kirkjumálaráðuneyti til þáverandi dómstólaráðs og dómstjóra héraðsdómstólanna. Fram komu sjónarmið um að í nýjum lögum um dómstóla, nr. 50/2016, hefði ekki verið tekið fullnægjandi tillit til ábendinga umboðsmanns um eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna. Nauðsynlegt væri að taka skýra afstöðu til þess hvernig starfssviði umboðsmanns skyldi háttað gagnvart stjórnsýslu dómstóla og hvort rétt væri að setja stjórnsýslu dómstólanna skýrari umgjörð með hliðsjón af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Í áliti allsherjar- og menntamálanefndar á 145. löggjafarþingi (þskj. 1315, 615. og 616. mál) um frumvarp til laga sem síðar varð að lögum um dómstóla, nr. 50/2016, sagði m.a. að nefndinni væri kunnugt um að réttarbóta væri þörf um þetta atriði. Taldi nefndin rétt að lögum um umboðsmann Alþingis yrði breytt á þann veg að eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna yrði á hendi umboðsmanns.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að gera eftirlitshlutverki dómstólasýslunnar betri skil í lögum um dómstóla og að traustari lagastoð yrði skotið undir það hlutverk hennar. Þetta mætti gera með breytingu á 5. gr. laga um dómstóla þess efnis að málum, sem snerta stjórnsýslu dómstóla, mætti vísa til úrlausnar hjá dómstólasýslunni og um slík málskot færi eftir reglum stjórnsýslulaga, eftir því sem við á.
    Í skýrslunni telur ríkisendurskoðandi rétt að skoða hvernig eftirliti með stjórnsýslu dómstólanna verði háttað. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið ríkisendurskoðanda og undirstrikar mikilvægi þess að kveðið verði með skýrum hætti á um eftirlitið þannig að efla megi réttaröryggi borgaranna og starfsmanna dómstólanna þegar stjórnsýsla dómstólanna lýtur að þeim.

Reglur dómstólasýslunnar.
    Dómstólasýslan hefur sett margvíslegar reglur um samræmda framkvæmd en enn á eftir að setja reglur fyrir Landsrétt og héraðsdómstólana um málaskrár dómstóla. Fyrir nefndinni kom fram að dómstólasýslan væri að vinna að innleiðingu nýs málaskrárkerfis og þeirri vinnu væri ekki lokið. Verkið væri umfangsmikið og krefðist aðkomu Landsréttar og héraðsdómstólanna. Þegar innleiðingu væri lokið yrðu settar reglur sem tækju mið af kerfinu. Þrátt fyrir að ekki væri búið að setja reglurnar væri unnið samkvæmt ákveðnu verklagi sem dómstólasýslan hefði sett. Að mati meiri hlutans er brýnt að ljúka við innleiðingu hins nýja málaskrárkerfis fyrir héraðsdómstóla og Landsrétt og hvetur meiri hlutinn til þess að verkinu verði flýtt og að settar verði reglur um þessi atriði af dómstólasýslunni.

Birting dóma.
    Dómstólasýslan hefur unnið að aukinni samræmingu og eftirfylgni með birtingu dóma svo að samræmis verði gætt á öllum dómstigum. Framkvæmdin hefur verið sú að hver og einn dómstóll hefur annast birtingu dóma á heimasíðu dómstólanna beint úr málaskrárkerfi viðkomandi dómstóls. Hinn 4. desember 2017 voru samþykktar í stjórn dómstólasýslunnar reglur nr. 3/2018, um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna. Reglurnar giltu þó aðeins um birtingu dóma og úrskurða héraðsdómstólanna. Um útgáfu dóma Hæstaréttar og Landsréttar fór aftur á móti eftir ákvörðun þeirra dómstóla að höfðu samráði við dómstólasýsluna. Með lögum nr. 76/2019 var þessu fyrirkomulagi breytt þannig að dómstólasýslan mundi framvegis setja samræmdar reglur um birtingu dóma og úrskurða allra dómstiganna þriggja. Að mati meiri hlutans var mikilvægt skref stigið í þessum efnum með samþykkt laga nr. 76/2019 og setningu reglna nr. 3/2019. Mikilvægt er þó að dómstólasýslan viðhafi skilvirkt eftirlit með því að samræmi sé á milli dómstóla og dómstiga við birtingu dóma og úrskurða.

Sameining héraðsdómstóla.
    Í skýrslunni bendir ríkisendurskoðandi á að meta þurfi hver yrðu fjárhagsleg samlegðaráhrif af sameiningu héraðsdómstóla og hvernig hún gæti styrkt stjórnsýslu dómstólanna. Jafnframt þurfi að meta faglegan ávinning af sameiningu héraðsdómstólanna. Í umsögn sinni um skýrsluna tekur dómstólasýslan undir þessa ábendingu en það sé álit hennar að í þessu felist mikið tækifæri til að sækja fram og ná frekari árangri í starfsemi dómstólanna.
    Dómstólar í héraði eru átta talsins og við þá sitja 42 dómarar. Fjórir héraðsdómstólar eru einmenningsembætti. Dómstólasýslan telur að auknar líkur séu á hagsmunaárekstrum og vanhæfi dómara í smærri byggðarlögum þar sem einmenningsdómstólar hafa starfað árum saman. Þá séu þeir þess eðlis að starf við einmenningsdómstól í langan tíma sé ekki æskilegt. Við hvern héraðsdómstól skal vera dómstjóri og hefur hann m.a. eftirlit með störfum annarra dómara og starfsmanna og gætir aga gagnvart þeim. Við einmenningsdómstólana gegnir því eini dómarinn jafnframt starfi dómstjóra og ber ábyrgð sem forstöðumaður samkvæmt dómstólalögum og lögum um opinber fjármál. Fyrir nefndinni kom fram að dómstólasýslan hefði reynt að færa verkefni innan þess stofnanaskipulags sem nú er, en ná mætti enn meiri árangri með sameinuðum héraðsdómi með virkum starfsstöðvum um allt land.
    Meiri hlutinn undirstrikar að sameiningu stofnana fylgja yfirleitt bæði kostir og gallar. Þá þarf að vega og meta með tilliti til annarra valkosta. Sameining stofnana á ekki að vera sjálfstætt markmið heldur leið til að ná öðrum markmiðum. Þó að fjárhagsleg áhrif séu vissulega mikilvæg telur meiri hlutinn hinn faglega ávinning ekki síðri. Tækifærin í sameiningu kunna að felast í því að efla minni starfsstöðvar sem styrkir starfsemi þeirra og eflir þar með heildina. Við sameiningu skapast tækifæri til að samræma vinnubrögð betur, miðla þekkingu milli starfsmanna og gera framkvæmd skilvirkari en verið hefur.
    Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Kolbeinn Óttarsson Proppé var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 16. nóvember 2020.

Jón Þór Ólafsson,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Líneik Anna Sævarsdóttir. Óli Björn Kárason.
Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.