Ferill 330. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 386  —  330. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um orkuskipti í flugi á Íslandi.


Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að setja á fót starfshóp sérfræðinga til að móta stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi. Starfshópurinn geri tillögur og ræði eftirfarandi:
     a.      Hvernig Ísland geti orðið í fremstu röð í orkuskiptum í flugi.
     b.      Hvernig styðja megi við nýsköpun á sviði orkuskipta í flugi.
     c.      Fýsileika landsins með tilliti til veðurfars og þess hvaða innviðir þurfi að vera til staðar hér á landi vegna orkuskipta í flugi, m.a. í tengslum við nýsköpun, umhverfisvæna orkugjafa og þátttöku í prófunum og alþjóðlegri þróun orkuskipta í flugi.
     d.      Að sett verði markmið um að byrjað verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030 og hvernig áætlun um það samrýmist öðrum áætlunum ríkisins í orkuskiptum, nýsköpun og loftslagsmálum.
    Lögð er áhersla á að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið verði í forsvari við að koma á samtali á milli framleiðenda og flugrekenda með það að markmiði að Ísland verði áfangastaður við prófanir á flugvélum sem nota umhverfisvæna orkugjafa til farþega- og vöruflutninga á heimsvísu.
    Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. nóvember 2021.
    Ráðherra kynni Alþingi niðurstöðu starfshópsins.

Greinargerð.

    Ein stærsta áskorun samtímans er að vinna gegn loftslagsáhrifum. Þjóðir heims verða að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með öllum leiðum. Ein af þeim er orkuskipti í samgöngum. Alþingi hefur samþykkt ályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti, nr. 18/146, en þar kemur fram það markmið að stefna skuli að því Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Þá hefur ríkisstjórnin sett fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, uppfærð útgáfa var gefin út í júní 2020, þar sem settar eru fram 48 aðgerðir til að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum.
    Innan fluggeirans er nú unnið af krafti að orkuskiptum. Hröð þróun nýrra aflvéla fyrir ýmsar gerðir flugvéla vekur bæði athygli og vonir um stórfelldar framfarir í notkun vistvænna orkugjafa í innanlands- og millilandaflugi. Um er að ræða hönnun flugvéla sem knúnar eru með blönduðum orkugjöfum (tvinn/hybrid), hleðslurafmagni eingöngu og loks vetni. Ætla má að rafmagnsflugvélar verði komnar á markað árið 2022 og því raunhæft að áætla og hvetja til þess að þróun í átt að notkun umhverfisvænna orkugjafa í innanlandsflugi verði hafin árið 2030, þannig að mögulegt verði að knýja allan flugflotann, sem starfræktur verður í innanlandsflugi á komandi árum, umhverfisvænum orkugjöfum. Samhliða slíkri þróun má ætla að vetnisknúnar flugvélar sem henta á meðallöngum og löngum flugleiðum líti dagsins ljós. Í því samhengi er rétt að undirstrika þau tækifæri sem eru hér á landi til vetnisframleiðslu en slík framleiðsla er til þess fallin að styðja við orkuskipti í flugi og skapa landinu sterkari sess sem áfangastað í millilandaflugi.
    Sem dæmi um framfarirnar í orkuskiptum í flugsamgöngum má nefna að sænska fyrirtækið Heart Aerospace er með áætlanir um að koma fyrstu rafknúnu 19 sæta farþegaflugvélinni á flug árið 2026 en vélin mun búa yfir 400 km drægni og nýtast vel í innanlandsflugi í Svíþjóð. Unnið er að hönnun og prófun lítilla flugvéla til farþegaflugs og til flugkennslu á norrænum slóðum sem knúnar eru umhverfisvænum orkugjöfum, einkum rafmagni. Þannig gæti til að mynda tveggja sæta rafflugvél flogið frá Reykjavík til Sauðárkróks og til baka á einni rafhleðslu. Er gert ráð fyrir að slík vél verði tilbúin til sölu árið 2022.
    Í flugstefnu fyrir Ísland frá árinu 2019 (sjá fylgiskjal II með samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034) er eitt af lykilviðfangsefnunum að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum flugs og flugtengds rekstrar með því að greiða fyrir orkuskiptum á sviði flugsamgangna samfara tækniþróun og stuðla að uppbyggingu nauðsynlegra innviða vegna þeirra. Í flugstefnunni kemur fram að þessi þróun hefur ekki eingöngu átt sér stað á meðal stóru fyrirtækjanna á markaðnum, eins og Airbus, Boeing og Rolls Royce, heldur eru einnig minni fyrirtæki að vinna að þessum markmiðum, eins og Joby Aviation, Bye Aerospace, Zunum, Pipistrel, Wright Electrical, Lilium o.fl. Tækifærin munu liggja í umhverfisvænum loftförum og flutningum á næstu árum og áratugum, bæði með vörur og farþega. Tæknin mun að mörgu leyti henta sérstaklega vel hér á landi þar sem aðgengi að raforku er gott og landið víðfeðmt en vegalendir þó það stuttar að þessi nýja tækni hentar vel. Því er mikilvægt að Íslandi taki þátt í þessari þróun, m.a. vegna þess að hér er framleidd raforka á vistvænan hátt með hliðsjón af loftslagsmarkmiðum.
    Orkuskipti í flugvélaflota landsins geta haft í för með sér allt að 80% lægri rekstrarkostnað hvað eldsneyti og viðhald varðar. Þá getur hljóðmengun jafnvel heyrt að mestu sögunni til vegna þess að vélarnar eru nánast hljóðlausar á flugi og til dæmis er nær hundraðfalt minni hávaði við flugtak rafknúinnar flugvélar en hefðbundinnar þyrlu. Þá er flug flestra vistvænna flugvéla laust við útblástur nema vatnsgufu frá vetnisknúnum vélum. Sumar tvinnflugvélar munu eftir sem áður losa kolefnisgas frá brunavélum. Innviðir á flugvöllum breytast með minni notkun og loks brotthvarfi kolefniseldsneytisins. Ef vel tekst til á næstu árum og áratugum verður flug líklega enn algengari samgöngumáti en nú er og afar umhverfisvænn í samanburði við núverandi tilhögun í flugi.
    Íslenskar flugsamgöngur geta verið til fyrirmyndar í umhverfismálum og Ísland þar með orðið í fararbroddi í orkuskiptum í farþegaflugi. Mikilvægt er að styðja við orkuskipti í flugi með því að hvetja til notkunar tvinn- og rafmagnsflugvéla eftir því sem þær verða aðgengilegar. Stefna ber að því að Ísland verði meðal fyrstu landa þar sem meiri hluti flugvéla í innanlands- og kennsluflugi er knúinn rafvélum að meginhluta og tvinnvélum meðan þeirra nýtur við. Í því samhengi er nauðsynlegt að skoðaðar verði svipaðar ívilnanir og gilda um umhverfisvæn ökutæki.
    Annað og meira kann að ýta undir þróunina og því mikilvægt að stuðlað verði að samtali á milli framleiðenda og flugrekenda með það að markmiði að Ísland verði notað til prófana á þessari nýju tækni. Með því að gera landið að áfangastað við prófanir á flugvélum sem knúnar eru umhverfisvænum orkugjöfum fengist hingað dýrmæt reynsla og tækniþekking. Lagt er til að kannað verði hvernig styðja megi við nýsköpun á sviði orkuskipta í flugi enda full ástæða til að Íslandi leggi sitt af mörkum til tæknilegrar framþróunar samhliða prófunum véla frá erlendum framleiðendum.
    Stjórnvöld eru á þeirri vegferð að tryggja innviði fyrir hleðslustöðvar bifreiða og rafvæðingu hafna ásamt aukinni framleiðslu vetnis til nota á sjó, landi og í lofti. Stjórnvöld geta beitt sér fyrir því að allar samgöngur verði umhverfisvænar á fáeinum áratugum.
    Í umfjöllun nefndarinnar um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 og fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 á 150. löggjafarþingi var lögð sérstök áhersla á breytta og vistvænni orkunotkun í samgöngum, sbr. álit meiri hluta nefndarinnar á þskj. 1685 í 434. og 435. máli. Nefndin telur rétt að taka málið fastari tökum og nýta þann mikla slagkraft sem nú er í tækniþróun flugvéla og nýtingu vistvænni orkugjafa og leggur í því ljósi fram þingsályktunartillögu þessa. Vakin er athygli á því að á yfirstandandi löggjafarþingi hefur verið lögð fram tillaga til þingsályktunar um rafvæðingu styttri flugferða (þskj. 215, 214. mál). Markmið og efni tillögunnar er sambærilegt þingsályktunartillögu þessari, þótt efnisafmörkun nefndrar tillögu sé nokkuð takmarkaðri, og þykir því ástæða til að höfð verði hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem sú tillaga byggist á í vinnu starfshópsins.