Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 483  —  5. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


Umsagnir og breytingartillögur.
    Nefndinni bárust átján umsagnir um málið. Hér verður vikið að nokkrum þeirra og sjónarmiðum sem 2. minni hluti tekur undir. Einnig verður fjallað um tilvik þar sem 2. minni hluti getur ekki tekið undir sjónarmið og breytingar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til.

Anna María Allawawi Sonde og Saga María Sæþórsdóttir.
    Skorað er á stjórnvöld að fella niður virðisaukaskatt af tíðavörum og tryggja að tíðavörur verði aðgengilegar í grunn- og framhaldsskólum. Bent er á að stúlkur þurfi á vörunum að halda frá ungum aldri, áður en þær afla sér eigin tekna. Þær verði því að leita aðstoðar forráðamanna eða annarra til kaupa á slíkum vörum sem reynist mörgum erfitt.
    Annar minni hluti tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögninni. Mikilvægt er að auka aðgengi að þessum vörum sem og getnaðarvörnum fyrir ungt fólk. Í því samhengi má nefna að Skotar hafa nýverið ákveðið að tíðavörur skuli unnt að nálgast án endurgjalds. Tíðavörur eru ekki neysluvörur heldur nauðsynjavörur. Oft er talað um skattlagningu af þessu tagi sem bleikan skatt sem mismunar kynjum.
    Með lögum nr. 67/2019 var ákveðið að færa þessar vörur úr hærra þrepi virðisaukaskatt í það lægra. Tímabært er að taka til ítarlegrar skoðunar að stíga skrefið til fulls og fella niður virðisaukaskatt af tíðavörum og getnaðarvörnum. Hvetur 2. minni hluti til þess að það verði gert. Jafnframt verði skoðað hvort unnt skuli að nálgast tíðavörur og getnaðarvarnir endurgjaldslaust, a.m.k. þegar ungmenni eiga í hlut.

BSRB.
    Í umsögn BSRB segir um fyrirhugaðar breytingar á erfðafjárskatti: „BSRB telur eðlilegt að skattfrelsismörk hækki árlega til samræmis við verðlag en telur hækkun á skattfrelsismörkum um 3,5 millj. kr. of mikla miðað núverandi efnahagsaðstæður og tekjufall ríkissjóðs.“
    Annar minni hluti telur að breyta eigi erfðafjárskatti í veigamiklum atriðum. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir slíkum breytingum en það sem lagt er til er góðra gjalda vert. Á hinn bóginn tekur 2. minni hluti undir þau sjónarmið að rétt væri að fresta þessari breytingu um eitt ár í ljósi stöðu ríkisfjármála.
    Annar minni hluti leggur fram breytingartillögu þessa efnis.

Landvernd.
    Í umsögn Landverndar er m.a. bent á mikilvægi kolefnisgjalds í baráttunni við loftslagsbreytingar. Þar segir m.a.: „Eins og komið hefur fram í mörgum umsögnum Landverndar telur stjórn samtakanna að hátt kolefnisgjald sé nauðsynleg og réttlát leið til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar er mengunarbótareglan (e. poluter pays principle) virkjuð. Auk þess hafa alþjóðastofnanir og nágrannalönd okkar sýnt fram á að hátt kolefnisgjald virkar vel án þess að hafa neikvæð áhrif á efnahaginn. […] Í þessu frumvarpi er lagt til að kolefnisgjald á eldsneyti (1. gr.) og gjald vegna losunar gróðurhúsalofttegunda utan ETS (27. gr.) hækki eingöngu um 2,5%. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 5% frá því í desember 2018 þegar gjaldið var síðast hækkað. Þessi hækkun nú heldur því ekki einu sinni í við verðlagsþróun.“
    Annar minni hluti telur þessi sjónarmið mikilvæg og tekur undir þau. Nauðsynlegt er að hækka kolefnisgjald og gjald vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í áföngum á næstu fáum árum. 2. minni hluti leggur til að fyrsta skrefið verði stigið nú og að í stað 2,5% hækkunar verði gjöldin hækkuð um 5% til samræmis við hækkun á vísitölu neysluverðs.
    Samhliða þessu telur 2. minni hluti brýnt að ríkisstjórnin nýti fjármagnið sem kolefnisgjald og gjald vegna losunar gróðurhúsalofttegunda skilar til að skapa hvata til aukinnar bindingar gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis, skógrækt og nýsköpun á sviði bindingar í jarðvegi.

Þjóðkirkjan, Sóknasamband Íslands, Seljakirkja og Gísli Jónasson.
    Umsagnir þessara aðila fela í megindráttum í sér kröfu um að sóknargjöld verði hækkuð. Í umsögn frá Þjóðkirkjunni segir m.a.: „Kirkjuráð lýsir yfir vonbrigðum með framangreinda fjárhæð og þá staðreynd að fyrirhugað er að skerða sóknargjöldin þrettánda árið í röð svo tekjur trúfélaga og safnaða verða 54% af því sem þær ættu að vera en fjárhæð sóknargjalda ætti með réttu að vera um 1815 kr., væri lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987 framfylgt. […] Áréttað er að sóknargjöld eru ekki framlag ríkisins til trúfélaga og safnaða heldur skil innheimtuaðila á innheimtum félagsgjöldum viðkomandi aðila.“
    Annar minni hluti telur ekki rök til þess að sóknargjöld verði hækkuð umfram það sem frumvarpið gerir ráð fyrir. 2. minni hluti telur rétt að hefjast þegar handa við að ríkið hætti innheimtu sóknargjalda fyrir trú- og lífsskoðunarfélög. Í umsögn Þjóðkirkjunnar er enda bent á að skoðun hennar sé sú að um félagsgjöld sé að ræða. Mun betra væri því að viðkomandi sóknir eða lífsskoðunarfélög gætu sjálf ákveðið upphæð félagsgjalda hverju sinni og annast innheimtuna sjálf eins og önnur félög í landinu. Það er mikilvægur liður í því að auka sjálfstæði kirkjunnar, safnaða og lífsskoðunarfélaga.

Aðrar breytingartillögur 2. minni hluta.
Áfengisgjald.
    Í frumvarpinu er lagt til að áfengisgjald hækki um 2,5%. 2. minni hluti getur ekki tekið undir slíka hækkun og leggur til að gjaldið verði óbreytt. Ekki þarf að fjölyrða um mikla rekstrarerfiðleika í veitingageiranum hvert sem litið er. Snar þáttur í rekstri flestra slíkra fyrirtækja er sala áfengis. Hækkun áfengisgjalds mun enn auka á þessa erfiðleika og draga úr getu rekstraraðila til þess að þrauka áfram næstu misseri.
    Annar minni hluti leggur því til að áfengisgjald verði ekki hækkað.

Tryggingagjald.
    Hár launakostnaður dregur úr svigrúmi atvinnulífsins til að skapa ný störf og viðhalda störfum. Mikil þörf er á að liðka fyrir atvinnusköpun til að draga úr atvinnuleysi og neikvæðum áhrifum þess. 2. minni hluti leggur því til að yfir 12 mánaða tímabil verði tryggingagjald fyrirtækja vegna starfsmanna sem ráðnir eru af atvinnuleysisskrá eða voru án atvinnu við upphaf ráðningar 50% af fullu tryggingagjaldi.

Ný ákvæði og breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar.
    Annar minni hluti tekur að öðru leyti undir þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til.
    Sérstaklega er vert að nefna nýtt ákvæði um breytingar á lögum um tekjufallstyrki, sbr. 212. mál á yfirstandandi þingi, skattalega ívilnun tengiltvinnbíla og niðurfellingu virðisaukaskatts við endursölu vistvænna ökutækja.
    Að framansögðu virtu leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað „11,75 kr.; 10,25 kr.; 14,45 kr.; og: 12,85 kr.“ í 1. gr. komi: 12,00 kr.; 10,50 kr.; 14,80 kr.; og: 13,20 kr.
     2.      2. gr. falli brott.
     3.      Á eftir 36. gr. komi nýr kafli, Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með einni grein, svohljóðandi:
                  Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir 1. og 3. mgr. 2. gr. skal atvinnutryggingagjald vera 0,675% og almennt tryggingagjald vera 2,45% af gjaldstofni skv. III. kafla frá 1. janúar til 31. desember 2021 vegna launa eða þóknana manna sem hefja störf hjá gjaldskyldum aðila á tímabilinu og ráðnir eru af atvinnuleysisskrá eða voru án atvinnu við upphaf ráðningar.
     4.      Við 37. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 36. gr. gildi 1. janúar 2022.

Alþingi, 2. desember 2020.

Jón Steindór Valdimarsson.