Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 542, 151. löggjafarþing 361. mál: félagsleg aðstoð og almannatryggingar (framfærsluuppbót og eingreiðsla).
Lög nr. 127 9. desember 2020.

Lög um breytingu á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar (framfærsluuppbót og eingreiðsla).


I. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. Í stað fjárhæðarinnar „310.800 kr.“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 333.258 kr.
  2. Í stað fjárhæðarinnar „247.183 kr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 265.044 kr.
  3. Í stað orðanna „ekki skal telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar skv. 21. gr. laga um almannatryggingar“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: einungis skal telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar skv. 21. gr. laga um almannatryggingar og 95% af fjárhæð tekjutryggingar skv. 22. gr. sömu laga.


II. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris skv. 18. gr., slysaörorkulífeyris skv. 12. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, eða endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, á árinu 2020 skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 50.000 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem greiðist eigi síðar en 31. desember 2020, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast ákvæði 1. gr. gildi 1. janúar 2021.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2020.