Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 799  —  475. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um vistun barna á vegum stjórnvalda á einkaheimilum.


Flm.: Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra, í samráði við dómsmálaráðherra, að skoða hvort ástæða þyki til að kanna vistun barna af hálfu stjórnvalda á einkaheimilum og hvort og þá hvernig slík könnun verði afmörkuð. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar eigi síðar en í lok maí 2021.

Greinargerð.

    Hinn 2. febrúar 2007 var sýndur í ríkissjónvarpinu fréttaþátturinn Kastljós sem fjallaði um vistheimilið í Breiðavík. Vistheimilið var rekið af ríkinu sem barnaverndarúrræði frá 1952 til ársins 1979. Í þættinum komu fram ásakanir um að margir vistmenn hefðu mátt þola alvarlegt ofbeldi, illa meðferð og vanrækslu á meðan þeir dvöldu á heimilinu. Í kjölfarið komu fram ítarlegri upplýsingar um málið. Fyrrverandi vistmenn komu fram og greindu frá ofbeldi og illri meðferð. Hinn 13. febrúar 2007 lagði ríkisstjórnin fram frumvarp þess efnis að fram færi heildstæð könnun á starfsemi heimilisins og annarra hliðstæðra stofnana þar sem börn dvöldu. Lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007, tóku gildi 28. mars 2007.
    Hinni svokölluðu vistheimilanefnd var falið að kanna heildstætt starfsemi Breiðavíkurheimilisins með erindisbréfi forsætisráðherra í apríl 2007. Fyrsta skýrsla vistheimilanefndar kom út í febrúar 2008 og fjallaði um starfsemi Breiðavíkurheimilisins á árunum 1952–1979. Nefndin skilaði jafnframt tillögum til forsætisráðherra um viðbrögð við niðurstöðu skýrslunnar, hugsanlega bótaskyldu ríkisins og hvaða skref skyldi stíga næst.
    Í kjölfarið fékk nefndin nýtt erindisbréf í apríl 2008 þar sem henni var falið að leggja mat á hvort fleiri stofnanir skyldu sæta könnun hennar og ef svo væri, hverjar það væru. Nefndin ákvað í kjölfarið að taka til athugunar starfsemi eftirfarandi heimila, stofnana og sérskóla:
          Heyrnleysingjaskólinn í Reykjavík og miðað var við árabilið 1947–1992.
          Vistheimilið Kumbaravogur við Stokkseyri sem starfaði á árunum 1965–1984.
          Skólaheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi sem starfaði á árunum 1965–1967.
          Vistheimilið Reykjahlíð í Mosfellssveit sem starfaði á árunum 1956–1972.
          Vistheimilið Silungapollur sem var starfrækt af Reykjavíkurborg á árunum 1950–1969.
          Heimavistarskólinn að Jaðri sem starfaði á árunum 1946–1973.
          Upptökuheimili ríkisins í Elliðahvammi og í Kópavogi sem starfaði á árunum 1945–1971.
          Unglingaheimili ríkisins, sem tók við af Upptökuheimilinu, og starfaði á árunum 1971–1994.
    Haustið 2009 skipaði forsætisráðherra nefnd til að semja drög að frumvarpi til laga þar sem mælt yrði fyrir um greiðslu bóta til þeirra sem hefðu orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum og heimilum er heyra undir gildissvið laga nr. 26/2007. Frumvarp þess efnis var lagt fram á 138. löggjafarþingi (494. mál) og samþykkt sem lög nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007. Embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra var falið að annast innköllun krafna, gera sáttaboð o.fl. með heimild í lögunum.
    Tengiliður vistheimila hjá dómsmálaráðuneytinu hefur séð um framkvæmd við mat og greiðslu sanngirnisbóta til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á vist- eða meðferðarheimilum fyrir börn. Starf tengiliðarins hefur m.a. falist í að koma á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga rétt á sanngirnisbótum og veita leiðbeiningar um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá hefur hann aðstoðað fyrrverandi vistmenn, sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar, við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem endurhæfingu og menntun.
    Vistheimilanefnd lauk störfum í lok árs 2011 vegna verkefna á grundvelli skipunarbréfa frá 2007 og 2008. Þegar verkefnið fór af stað komu einnig fram tilkynningar um áþekka háttsemi á öðrum stofnunum og heimilum. Vistheimilanefnd skráði niður allar tilkynningar þess efnis, en þeim var öllum vísað frá enda ekki heimild til greiðslu bóta nema könnun vistheimilanefndar hefði farið fram.
    Vistheimilanefnd var endurskipuð árið 2012 og falið að skoða vistun barna á Kópavogshæli 1952–1993 og skilaði skýrslu um könnunina í byrjun árs 2017.
    Með lögum nr. 117/2015 var ákvæði til bráðabirgða bætt við lög nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, sem heimilar ráðherra að fenginni umsögn vistheimilanefndar að ákveða að aðrar skýrslur en skýrslur vistheimilanefndar verði lagðar til grundvallar því að krafa um sanngirnisbætur verði tekin til meðferðar. Á grundvelli ákvæðisins voru sanngirnisbætur greiddar út vegna illrar meðferðar og ofbeldis sem börn höfðu orðið fyrir í Landakotsskóla á árum áður.
    Í skýrslu um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010 frá desember 2018 kemur fram að alls bárust 1.190 umsóknir um sanngirnisbætur vegna áðurgreindra stofnana og 41 vegna heimila og stofnana sem ekki falla undir lög nr. 26/2007, eða samtals 1.231 umsókn. Öllum umsóknum vegna annarra heimila og stofnana en þeirra sem féllu undir gildissvið laganna var hafnað. Að mati flutningsmanna má því ætla að hluti af þeim erindum sem bárust inn á borð til nefndarinnar varði vistheimili eða einkaheimili þar sem börn voru vistuð að tilstuðlan opinberra aðila, svo sem barnaverndaryfirvalda, og sem þörf er á að kanna nánar og rannsaka.
    Nú á 151. löggjafarþingi lagði forsætisráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 (lokauppgjör) (211. mál). Með frumvarpinu var m.a. lagt til að nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn yrði aflögð. Í því samhengi voru lagðar til breytingar á lögum nr. 47/2010 þannig að unnt yrði að greiða sanngirnisbætur í nánar afmörkuðum tilvikum án þess að skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 eða önnur skýrsla lægi fyrir og einfalda þannig bótauppgjör. Frumvarpið var samþykkt sem lög nr. 148/2020. Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar (þskj. 561) kemur fram að við meðferð málsins hafi verið vakin athygli á þeim fjölda barna sem ráðstafað var af stjórnvöldum á einkaheimili og að mikilvægt væri að þeir einstaklingar fengju jafnframt að gera upp vistun sína á slíkum heimilum með þeim hætti að hið opinbera skapaði vettvang þar sem þeir gætu greint frá uppvexti sínum og aðstæðum á umræddum heimilum. Í því samhengi benti nefndin m.a. á mikilvægi þess að frekari umræða ætti sér stað um vistun barna á einkaheimilum og hvort og þá hvernig væri hægt að afmarka þessi tilvik.
    Með tillögu þessari er lagt til að forsætisráðherra, í samráði við dómsmálaráðherra, skoði hvort ástæða þyki til að kanna starfsemi einkaheimila þar sem börn voru vistuð af hálfu stjórnvalda. Ráðherra er falið að afmarka með nánari hætti þá starfsemi sem könnunin á að taka til og það tímabil sem miða á við, að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða. Til hliðsjónar væri hægt að nýta þá þekkingu vistheimilanefndar sem hefur orðið til við vinnu hennar sem og líta til hvernig önnur lönd hafa brugðist við vegna sambærilegra mála, þar á meðal til Noregs.
    Að mati flutningsmanna er mikilvægt að þeir einstaklingar sem sætt hafa illri meðferð á slíkum heimilum fái að gera upp vistunina. Síðan þessi mál komu upp hefur átt sér stað sársaukafullt uppgjör fjölmargra einstaklinga og ekki síður fyrir samfélagið. Flutningsmenn leggja áherslu á nauðsyn þess að mál einstaklinga sem vistaðir voru af hálfu stjórnvalda á einkaheimilum verði skoðuð með sambærilegum hætti og starfsemi framangreindra heimila, og eftir atvikum, að þeir einstaklingar eigi kost að fá þær misgjörðir bættar.