Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 896  —  36. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ölmu D. Möller landlækni og Kjartan Hrein Njálsson frá embætti landlæknis, Árnýju Sigurðardóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Sylgju Dögg Sigurjónsdóttur frá EFLU verkfræðistofu, Ólaf H. Wallevik frá Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Gretu Ósk Óskarsdóttur, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Samiðn og SUM – Samtökum um áhrif umhverfis á heilsu.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að félags- og barnamálaráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra, leggi til nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum til að uppræta og koma í veg fyrir tjón vegna rakaskemmda í fasteignum.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Þær umsagnir sem nefndinni bárust vegna málsins voru almennt jákvæðar og hvatt til þess að tillagan yrði afgreidd. Þá var afstaða gesta sem fyrir nefndina komu almennt jákvæð.

Myglurannsóknir.
    Í umsögn Samiðnar er á það bent að fyrirhugað sé að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og það kynni að hafa neikvæðar afleiðingar á rannsóknir á myglu. Var hvatt til þess að áframhaldandi fjármagn yrði tryggt svo unnt væri að halda rannsóknum áfram.
    Nefndin bendir á að meðal markmiða þingsályktunartillögunnar er að efla sjálfstætt eftirlit með prófunum á byggingarefni áður en það er tekið í notkun hér á landi og að efla þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum gegn þeim. Telur nefndin mikilvægt að nýta þá þekkingu sem þegar er til staðar og hvetur stjórnvöld til þess að huga vel að þeim rannsóknum sem hafa verið framkvæmdar um árabil og tryggja að ekki verði rof í samfellu þeirra við það að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði lögð niður.

Fagráð embættis landlæknis um rakaskemmdir og myglu.
    Í umsögnum til nefndarinnar og á fundi nefndarinnar var á það bent að embætti landlæknis hefði þegar sett á fót fagráð um rakaskemmdir og myglu. Í fagráðinu sitja sérfræðingar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Vinnueftirliti ríkisins, Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, Landspítala og EFLU verkfræðistofu. Á meðal verkefna sem fagráðinu er ætlað að leysa er (a) hvernig fræða megi heilbrigðisstarfsfólk um rakaskemmdir og áhrif þeirra á heilsu fólks; (b) að útbúa ráðleggingar og leiðbeiningar um hvernig sé best að meðhöndla þau veikindi sem koma upp sökum rakaskemmda og myglu í húsnæði; (c) hvernig best sé að veita almenningi ráðgjöf og fræðslu; (d) að meta hvort þörf sé á því að stofna sérstakt teymi sérfræðilækna sem sinni sjúklingum sem glíma við veikindi sem rekja má til rakaskemmda og (e) að koma með tillögur um hvernig megi efla forvarnir með tilliti til raka- og mygluskemmda.
    Hlutverk fagráðsins er því að nokkru í samræmi við þær aðgerðir sem lagðar eru til í þingsályktunartillögunni. Telur nefndin mikilvægt að sú vinna sem þegar er hafin á vegum áðurnefnds fagráðs og vinna við þær aðgerðir sem lagðar eru til verði samtvinnuð eftir því sem unnt er. Telur nefndin að það myndi efla niðurstöður fagráðsins og flýta fyrir því að aðgerðum samkvæmt tillögunni verði komið í framkvæmd. Engu síður er einnig nauðsynlegt að tryggja framgang þeirrar vinnu sem er utan verksviðs fagráðsins, eða þarfnast frumkvæðis af hálfu ráðherra til að verða að veruleika. Flestar aðgerðir sem gerð er tillaga um og eru nauðsynlegar til að bregðast við þeim útbreidda vanda sem felst í rakaskemmdum og myglu í húsum eru á forræði félags- og barnamálaráðherra og verður forræði á slíkum aðgerðum að vera hjá hans ráðuneyti, óháð vinnu fagráðsins.

Kostnaðarmat.
    Nefndin telur að unnt sé að útbúa gagnagrunn sem geri aðgengilegar á miðlægan hátt upplýsingar um framkvæmdir á húsnæði sem hluta af gagnagrunni sem þegar er til. Væri því um tiltölulega einfalda viðbót að ræða sem gæti kostað um 3 millj. kr. Árlegur rekstrarkostnaður slíks gagnagrunns þyrfti ekki að vera mikill, eða um 2 millj. kr.
    Erfitt er að segja til um hvaða kostnað aðrir þættir þingsályktunartillögunnar muni bera með sér, en ráðherra er falin útfærsla á þeim og fer heildarkostnaður eftir umfangi og forgangsröðun. Þar er m.a. um að ræða aukið eftirlit með prófunum á byggingarefni og þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum gegn þeim. Ekki er útilokað að unnt væri að fjármagna þessa þætti á þann hátt að útgjöldin rúmist innan fjárheimilda gildandi fjárlaga og fer það þá eftir forgangsröðun um nýtingu fjárheimilda.
    Aðrir þættir í tillögunni ættu ekki að hafa nein veruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Nefndin leggur áherslu á að nauðsynlegt er að nægilegt fjármagn verði veitt til verkefnanna, en með góðum árangri verði unnt að draga verulega úr tilkostnaði samfélagsins vegna viðhalds á fasteignum og heilsufarslegu tjóni af völdum rakaskemmda og myglu.

Breytingartillaga nefndarinnar.
    Nefndin bendir á að aðrar leiðir kunni að vera færar til að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt í tillögunni en breytingar á lögum og reglugerðum. Þá telur nefndin að sá tímarammi sem áskilinn er í 2. mgr. tillögugreinarinnar sé óraunhæfur.
    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við tillögugrein:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra, að grípa til aðgerða, eftir atvikum með breytingum á reglugerðum eða framlagningu lagafrumvarpa, sem stuðli að því að draga úr líkum á tjóni vegna rakaskemmda í fasteignum og greiða fyrir nauðsynlegum viðgerðum vegna rakaskemmda með því að.
     b.      2. mgr. orðist svo:
                  Ráðherra geri Alþingi grein fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og áætlun um frekari aðgerðir eigi síðar en í júní 2021.

    Vilhjálmur Árnason skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 12. febrúar 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Sara Elísa Þórðardóttir, frsm. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Vilhjálmur Árnason, með fyrirvara.