Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 927  —  556. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár.


Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra, í samráði við fjármála- og efnahagsáðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og forsætisráðherra, að skipa starfshóp fulltrúa ráðuneyta og stofnana sem sinna grunnrannsóknum, vöktun, hættumati og viðbrögðum vegna náttúruvár til að meta þörf á frekari rannsóknum, vöktun og viðbrögðum við náttúruvá er nýtist til að efla hættumat og vöktun vegna náttúruvár á Íslandi. Starfshópurinn vinni að eftirfarandi verkefnum:
     a.      Kynni sér þá rannsóknarvinnu og vöktun sem unnin er hjá stofnunum ríkisins er varðar náttúruvá, samvinnu þeirra um verkefni og fjármögnun verkefna um þessar mundir.
     b.      Greini fjárþörf til rannsókna sem efla skilning á jarðrænni, hafrænni og veður- og vatnafarstengdri náttúruvá og auðvelda og styrkja vöktun, hættumat og viðbrögð við slíkri vá.
     c.      Leggi fram tillögur um nauðsynlegar fjárveitingar til rannsókna, sbr. a-lið, sem hægt verði að styðjast við í undirbúningi að fjármálaáætlun og meti þörf á sérstökum viðbragðssjóði náttúruvár sem ætlaður væri til að styrkja rannsóknir og vísindaleg viðbrögð, svo sem vöktun, við skyndilegri vá eða áföllum vegna skyndilegrar vár, ásamt tillögum um fjárveitingar til slíks sjóðs.
     d.      Yfirfari, samræmi og forgangsraði verkefnum við gagnaöflun og kortlagningu á náttúru landsins sem miðar að því að efla hættumatsgerð og vöktun, og auðvelda viðbrögð við náttúruvá af öllum toga, með samfélagsleg áhrif þeirra að viðmiði.
     e.      Leggi fram verkefnaáætlun með hliðsjón af a-, b- og d-lið og tækniframförum, á landsvísu, með mati á kostnaði við gagnaöflun, tækni og kortlagningu og vöktun.
     f.      Leggi fram tillögur um hvernig treysta megi samvinnu fagstofnana, ráðuneyta og aðila almannavarna við rannsóknir, gerð hættumats og uppbyggingu vöktunar.
     g.      Greini fjárþörf stofnana og viðbragðsaðila svo efla megi miðlun upplýsinga um náttúruváatburði og nýta nýjustu tækni í viðbragðsháttum til að ná til almennings, þar á meðal ferðamanna.
     h.      Leggi fram grunntillögur um hvernig bæta megi náttúrulæsi almennings og þekkingu á náttúruvá og hvaða leiðir geti verið vænlegar til þess að efla menntun sem hentar svo að sérþekking á náttúruvá og viðbrögðum við henni aukist enn frekar og í takt við þörf samfélagsins.
    Lögð verði áhersla á fjölbreytta þekkingu og reynslu þeirra sem starfshópinn skipa. Þá verði leitað til sérfræðinga og stjórnvalda eftir því sem vinna starfshópsins gefur tilefni til.
    Starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra eigi síðar en 1. júní 2022.
    Ráðherra kynni Alþingi niðurstöðu starfshópsins.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögu þessari er athyglinni fyrst og fremst beint að rannsóknum og vöktun sem undirbyggja hættumat vegna náttúruvár. Það felur í sér mat á því hvort auka verði fé til rannsókna sem styðja hættumat. Fjármagnið er að hluta bundið við árlegar fjárveitingar til fagstofnana sem máli skipta en einnig þarf að vera til sjóður sem hægt er að grípa til þegar á reynir vegna alvarlegra og jafnvel mjög óvæntra atburða. Á meðan ekki hefur verið ráðist í endurskoðun og lagasetningu um svonefndan hamfarasjóð eða ígildi hans hlýtur að þurfa að afla og leggja til fé í viðbragðasjóð vegna náttúruvár. Ofanflóðasjóður nær einkum til snjóflóða, skriðufalla og skyldrar vár. Ekki er ljóst hvert stefnir með tilliti til áforma um einn hamfarasjóð fremur en tvo eða fleiri, frammi fyrir aukinni náttúruvá. Kanna verður hvernig lög um opinber fjármál kallast á við fjármögnunarleiðir og sjóðsstofnun í þessu skyni sem allra fyrst.
    Fjölþættir og óstýrilátir náttúruferlar breyta umhverfi samfélagsins. Þeir geta valdið samfélaginu og lífsskilyrðum hættu, náttúruvá, sem brugðist er við með vísindum og margvíslegri kunnáttu til forvarna, viðbragða á hættustundum og aðlögun að slíkri vá. Óvissa fylgir mörgum náttúruferlum, þ.e. skyndiatburðir geta ógnað þrátt fyrir staðgóða þekkingu á þessum ferlum.
    Stjórnvöld, löggjafinn, vísinda- og þjónustustofnanir, sjóðir og viðbragðsaðilar koma við sögu ár hvert vegna válegra atburða í náttúrunni sem bregðast þarf við. Mikilvægt er að lágmarka efnislegt tjón og heilsufarsáföll af náttúruvá og má telja fjárfestingu er snýr að slíku bæði brýna og í allra þágu. Gera má ráð fyrir að hún kosti minni fjárútlát þegar upp er staðið en sem nemur kostaði samfélagsins við úrlausnarefni eftir áföll án góðra forvarna.
    Reynslan sýnir að aukið fjármagn þarf, meiri festu og víðtækari áætlanir en til eru svo að efla megi enn frekar rannsóknir og vöktun náttúruvár og viðbrögð við henni jafnt sem við áföllum. Umhverfisbreytingar, einkum loftslagsbreytingar, benda til þess sama, enda líklegt að fremur fjölgi en fækki atburðum sem stafa af hlýnun veðurfars og breytingum á úrkomu og geta valdið hættu og áföllum.
    Hættur, vandi og verkefni hér á landi snúa að ofsaveðrum, vatnsflóðum, snjóflóðum, aurflóðum, grjóthruni, berghlaupum, jökulhlaupum, ágangi jökulvatna, sjávarflóðum, t.d. vegna hækkunar sjávarborðs og illviðra eða svonefndra hafnar- eða flóðbylgna (e. tsunami), skógar- eða sinueldum, jarðskjálftum og eldgosum, svo flest sé upp talið.
    Samfélagið er mislangt komið í getu til forvarna og viðbragða í hverjum þessara váflokka og einnig hvað varðar þekkingu á eðli náttúruvár. Þó er ljóst að skynsamleg landnýting og skipulag byggð á raunhæfu hættumati er ein virkasta forvörnin og má með slíku hættumati draga verulega úr líkum á mann- og eignatjóni af völdum náttúruvár.
    Miklar framfarir hafa þegar orðið í rannsóknum, vöktun, hættumati og viðbragðsháttum hjá fagstofnunum og Almannavörnum en engu síður er mikils um vert að gera betur í náinni framtíð. Endurskoða þarf fjármögnun vegna náttúruvár og ferla við ákvarðanir, meta rannsóknir og rannsóknaþörf, efla kortlagningu og bæta hættumat og vöktun, ásamt því að bæta viðbrögð við hættu og hamförum og enn fremur er nauðsynlegt að endurmeta sjóðakerfi fjárbóta vegna tjóns með hæfilegu millibili.
    Þingsályktunartillagan tekur til mats á ýmiss konar gagnaöflun og kortlagningu hættusvæða sem er mikilvæg vegna vöktunar, raunhæfs hættumats og gerð viðbragðsáætlana. Töluvert er til af gögnum og kortum sem þarf að vinna betur úr og samræma en sum náttúruvá krefst nýrra gagna og mun meiri rannsókna og kortlagningar en unnið hefur verið að. Samstarf við skipulagsyfirvöld og sveitarstjórnir er þar augljós þáttur. Einnig er samstaða innan vísindageirans um að koma á formlegra samráði og enn frekara samstarfi milli fagstofnana, háskóla og annarra aðila í þessum efnum en verið hefur. Starfshópnum er ætlað að semja verkefnaáætlun um öflun og meðferð gagna, kortlagningu og skylda vinnu.
    Við blasir þörf á að fræða almenning og skólanema um náttúruvá á Íslandi og hvetja áhugasama nemendur til að afla sér fagþekkingar í vísinda- og tæknigreinum sem gagnast við varnir gegn náttúruvá en líka að auka almennan skilning samfélagsins á náttúruvá og mögulegum afleiðingum hennar. Starfshópnum er ætlað að leggja fram hugmyndir eða tillögur um hvernig standa mætti sem best að því. Honum er líka falið að leggja fram tillögur um hvernig efla megi upplýsingagjöf til almennings og gesta í landinu á hverjum tíma.
    Niðurstöður úr vinnu þess starfshóps sem skipa á samkvæmt þingsályktunartillögunni, þ.e. skýrslan til ráðherra, á ekki að innihalda niðurstöður um breytt, staðbundið hættumat eða nýjar upplýsingar um hættusvæði eða eðli ólíkrar náttúruvár, heldur tillögur um úrbætur er varða fjármögnun og verkefni sem við blasa frammi fyrir vá af völdum náttúrunnar og leysa þarf á næstunni.
    Ekki er heldur þörf á að skýrslan innihaldi fróðleik um náttúruvá á Ísland. Um hana er til mikið efni í prentmiðlum og á vefsíðum. Nægir í þeim efnum að nefna rit, mikið að vöxtum (785 síður), sem kom út á vegum Háskóla Íslands 2013, Náttúruvá á Íslandi, í ritstjórn Júlíusar Sólnes, Freysteins Sigurðssonar og Bjarna Bessasonar en höfundar eru alls um 60 talsins. Sú þekking sem þar kemur fram hefur breyst og aukist eins og gera má ráð fyrir á árunum eftir útkomu bókarinnar en hún er engu síður mikilvægt yfirlitsrit.
    Nefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem skipuð var 2014–15 skilaði skýrslunni Frumathugun á samlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktun á náttúru Íslands (umhverfis- og auðlindaráðuneytið 25. mars 2015). Efni hennar er fróðlegt en mun ekki hafa verið nýtt til framlagningar þingmála eða tillagna um breytt vinnulag stofnana af hálfu stjórnvalda.
    Ný stefna Vísinda- og tækniráðs fjallar um aukna vöktun á náttúru landsins vegna loftslagsbreytinga.
    Nú þegar hefur verið lagt til aukið fjármagn á grunni ákvæðis í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, 110 millj. kr. á ári (2015–2022), til greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða.
    Enn fremur er vísað hér til áætlunar um endurbætur á innviðum í landinu eftir illviðrið í desember 2019 ( www.stjornarradid.is/innvidir/). Meðal aðgerða sem þar koma fram vegna heildstæðari vöktunar náttúruvár eru þessar:
     .      netkerfisinnviðir Veðurstofu LAN-032,
     .      veðursjár í samvinnu við alþjóðaflugið LAN-044,
     .      mælibúnaður vegna vatna-, veður- og jarðeðlismælinga LAN-035, 038, 039,
     .      skilgreining á náttúruvá út frá breyttum loftslagsaðstæðum LAN-024,
     .      formleg aðild að samstarfi United Weather Centres um veðurspár LAN-106,
     .      yfirferð hættu- og áhættumats vegna náttúruvár LAN-034.
    Framangreind LAN-verkefni eru í vinnslu og þeim er fylgt eftir af forsætisráðuneytinu. Væntanlega hefur þessi vinna og umræður, sem henni fylgja, aukið skilning á nauðsyn þess að greina hættur og endurbætur á hættumati og viðbrögðum við náttúruvá.
    Gera má ráð fyrir að vaxandi þrýstingur á úrbætur komi til vegna aukinnar vitundar okkar um náttúruvá og ekki síst vegna ýmiss konar ummerkja um vaxandi áhættu samfara umhverfisbreytingum sem eiga sér augljóslega stað. Til þess að bregðast við því er lögð áhersla á að starfshópurinn vegi, meti og endurskoði tilhögun ýmissa þátta og leggi fram fjárhagstillögur og verkefnaáætlanir eftir því sem talið er henta til sem bestra varna gegn náttúruvá.