Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 946  —  393. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um jafnréttisáætlanir fyrir skólakerfið.


     1.      Hvaða jafnréttisáætlanir hafa verið gerðar í ráðuneytinu eða stofnunum á vegum þess fyrir öll skólastig í skólakerfinu sem bæði taka til kennara og nemenda?
    Allir skólar hafa gert jafnréttisáætlanir sem ná bæði til nemenda og kennara. Jafnréttisstofa hefur eftirlit með því að það sé gert og þeim framfylgt.

     2.      Hafa verið gerð áform eða mótuð stefna í ráðuneytinu þar sem stefnt er að fjölgun karlkyns leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara um tiltekið hlutfall fyrir tiltekið tímamark? Hafi slíkt verið gert, hver hefur árangur orðið af slíkum áformum eða stefnumótun? Hafi áform í þessu efni ekki gengið eftir, hverjar telur ráðherra vera skýringar á því?
    Haustið 2019 tók gildi 5 ára átaksverkefni stjórnvalda til þess að fjölga kennurum sem fela í sér styrki til kennaranema og launað starfsnám á lokaári náms. Jafnframt er lögð áhersla á að fjölga starfandi kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn sem veita munu bæði nemendum í starfsnámi og nýútskrifuðum kennurum faglega leiðsögn. Gert er ráð fyrir að samhliða almennri fjölgun kennara muni karlkyns kennurum jafnframt fjölga. Í kynningarátaki háskólanna vorin 2019 og 2020 voru nýttir ýmsir miðlar og aðferðir undir heitinu „Komdu að kenna“. Þar voru bæði konur og karlar í sviðsljósinu fyrir öll skólastig. „Komdu að kenna“ hefur verið styrkt af ráðuneytinu og undanfarin 2 ár hafa háskólarnir fjórir sem mennta kennara tekið höndum saman í markaðs- og kynningarstarfi undir hatti „Komdu að kenna“ og hefur ráðuneytið haft aðkomu að því starfi. Lögð hefur verið áhersla á karlkyns kennaranema í kynningarefni í því augnamiði að ná sérstaklega til karla sem hyggja á kennaranám. Einnig hefur verið keyrt kynningarátak á facebook og twitter undir heitinu „Járnkarlarnir“ þar sem tveir karlkyns leikskólakennaranemar kynntu nám sitt og störf í leikskólum. Það verkefni var m.a. liður í að fjölga karlkyns leikskólakennurum. Hvorugt þessara verkefna var á forræði ráðuneytisins en komu þau bæði til umræðu í tengslum við átaksverkefnið til að fjölga kennurum og litið á þau sem jákvæða viðbót við það sem þar er gert. Starfshópur um styrkingu leikskólastigsins er að störfum og verður tillögum skilað til ráðherra eftir áramót.
    Auk þess hefur verið unnið að verkefnum sem miða að því að bæta vinnuumhverfi kennaranema og starfandi kennara:
     a.     Viðurkenning á störfum kennara verði aukin.
    Ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla tóku gildi í ársbyrjun 2020. Lögin kveða á um almenna og sérhæfða hæfni kennara og að leyfisbréf til kennslu gildi þvert á skólastig.
     b.     Stuðningur við kennara á fyrstu árum í starfi verði aukinn.
    Mikilvægt er að fjölga kennurum í íslensku skólakerfi sem hafa þekkingu á móttöku og leiðsögn við nýliða í kennslu en slíkir leiðsagnarkennarar gegna veigamiklu hlutverki við að sporna gegn brotthvarfi nýútskrifaðra kennara á fyrstu árum þeirra í starfi. Einn þáttur í nýliðunaraðgerðum stjórnvalda felur í sér hvatningarstyrki til starfandi kennara í því augnamiði að fjölga kennurum sem búa yfir sérhæfingu á þessu. Einkum er horft til þess að við flesta landshluta og skóla verði starfandi leiðsagnarkennarar sem hafa umsjón með leiðsögn við nýútskrifaða kennara á fyrstu árum þeirra í starfi.
     c.     Unnið verði úr tillögum um það hvernig auka megi gæði og samhæfingu starfsþróunar og bæta starfsumhverfi kennara til frambúðar.
    Nýskipað kennararáð, sem á sér stoð í lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla, hefur m.a. það hlutverk að veita ráðherra ráðgjöf og leiðbeiningar um þróun hæfniramma með því að gera tillögu um innihald og endurskoðun reglugerðar um hæfniramma fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda. Ráðið veitir jafnframt ráðgjöf um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og notkun hæfniramma við útfærslu og framkvæmd hennar. Áætlað er að í störfum sínum horfi kennararáð m.a. til tillagna samstarfsráðs um starfsþróun kennara og skólastjórnenda sem skilað var til mennta- og menningarmálaráðherra í október 2019.

     3.      Hvert er kynjahlutfall kennara og stjórnenda á einstökum skólastigum? Telur ráðherra kynjahlutfall í kennaraliði á einstökum skólastigum skipta máli fyrir nám barna og ungmenna, þar á meðal árangur eftir kynjum? Telji ráðherra svo vera, hvernig hyggst ráðherra standa að því að virt séu viðmið um kynjahlutföll í kennaraliði innan 40–60% marka?
    Ráðherra telur mikilvægt að kynjahlutfall kennara á öllum skólastigum sé sem jafnast. Í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar er greint frá aðgerðum sem miða að því að jafna kynjahlutfall í kennslu. Kynjahlutfall stjórnenda og kennara á einstökum skólastigum er sem hér segir:

Skólastig Tölur frá Fjöldi Fjöldi
karla
Hlutfall karla Fjöldi kvenna Hlutfall kvenna
Leikskólar 2019 5.978 419 7% 5.559 93%
Grunnskólar 2019 4.649 783 17% 3.866 83%
Framhaldsskólar 2019 1.694 672 40% 1.022 60%
Háskólar, akademískir starfsmenn 2017 1.224 686 56% 539 44%