Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Nr. 15/151.

Þingskjal 1048  —  556. mál.


Þingsályktun

um mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra, í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og forsætisráðherra, að skipa starfshóp fulltrúa ráðuneyta og stofnana sem sinna grunnrannsóknum, vöktun, hættumati og viðbrögðum vegna náttúruvár til að meta þörf á frekari rannsóknum, vöktun og viðbrögðum við náttúruvá er nýtist til að efla hættumat og vöktun vegna náttúruvár á Íslandi. Starfshópurinn vinni að eftirfarandi verkefnum:
     a.      Kynni sér þá rannsóknarvinnu og vöktun sem unnin er hjá stofnunum ríkisins er varðar náttúruvá, samvinnu þeirra um verkefni og fjármögnun verkefna um þessar mundir.
     b.      Greini fjárþörf til rannsókna sem efla skilning á jarðrænni, hafrænni og veður- og vatnafarstengdri náttúruvá og auðvelda og styrkja vöktun, hættumat og viðbrögð við slíkri vá.
     c.      Leggi fram tillögur um nauðsynlegar fjárveitingar til rannsókna, sbr. a-lið, sem hægt verði að styðjast við í undirbúningi að fjármálaáætlun og meti þörf á sérstökum viðbragðssjóði náttúruvár sem ætlaður yrði til að styrkja rannsóknir og vísindaleg viðbrögð, svo sem vöktun, við skyndilegri vá eða áföllum vegna skyndilegrar vár, ásamt tillögum um fjárveitingar til slíks sjóðs.
     d.      Yfirfari, samræmi og forgangsraði verkefnum við gagnaöflun og kortlagningu á náttúru landsins sem miði að því að efla hættumatsgerð og vöktun, og auðvelda viðbrögð við náttúruvá af öllum toga, með samfélagsleg áhrif þeirra að viðmiði.
     e.      Leggi fram verkefnaáætlun með hliðsjón af a-, b- og d-lið og tækniframförum, á landsvísu, með mati á kostnaði við gagnaöflun, tækni og kortlagningu og vöktun.
     f.      Leggi fram tillögur um hvernig treysta megi samvinnu fagstofnana, ráðuneyta og aðila almannavarna við rannsóknir, gerð hættumats og uppbyggingu vöktunar.
     g.      Greini fjárþörf stofnana og viðbragðsaðila svo að efla megi miðlun upplýsinga um náttúruváratburði og nýta nýjustu tækni í viðbragðsháttum til að ná til almennings, þar á meðal ferðamanna.
     h.      Leggi fram grunntillögur um hvernig bæta megi náttúrulæsi almennings og þekkingu á náttúruvá og hvaða leiðir geti verið vænlegar til þess að efla menntun sem hentar svo að sérþekking á náttúruvá og viðbrögðum við henni aukist enn frekar og í takt við þörf samfélagsins.
    Lögð verði áhersla á fjölbreytta þekkingu og reynslu þeirra sem starfshópinn skipa. Þá verði leitað til sérfræðinga og stjórnvalda eftir því sem vinna starfshópsins gefur tilefni til.
    Starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra eigi síðar en 1. júní 2022.
    Ráðherra kynni Alþingi niðurstöðu starfshópsins.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2021.