Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1053  —  278. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, Óskar Þór Ármannsson, Sonju Dögg Pálsdóttur, Guðna Olgeirsson, Björgu Pétursdóttur, Ívu Sigrúnu Björnsdóttur, Ragnheiði Bóasdóttur, Huldu Önnu Arnljótsdóttur og Steinunni Halldórsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Eyrúnu Björk Valsdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Karl Sigurðsson frá BSRB, Sólveigu Lilju Snæbjörnsdóttur og Selmu Kristjánsdóttur frá VR, Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur frá Samtökum iðnaðarins, Jóhönnu Ásgeirsdóttur og Sylvíu Lind Birkiland frá Landssamtökum íslenskra stúdenta, Júlíus Viggó Ólafsson, Söru Dís Rúnarsdóttur, Sigvalda Sigurðarson og Hildi Björgvinsdóttur frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Ragnar Þór Pétursson og Önnu Maríu Gunnarsdóttur frá Kennarasambandi Íslands, Söru Dögg Svanhildardóttur frá Samtökum sjálfstætt starfandi skóla, Helga Grímsson frá Reykjavíkurborg, Valgerði Rún Benediktsdóttur, Svandísi Ingimundardóttur og Þórð Kristjánsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Þuríði Hörpu Sigurðadóttur og Þórdísi Vilborgu frá Öryrkjabandalagi Íslands, Lindu Hrönn Þórisdóttur, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur og Siggerði Ólöfu Sigurðardóttur frá Bókasafnsráði, Heiðar Inga Svansson frá Iðnmennt, Sigurð Jóhannesson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Jón Atla Benediktsson og Róbert H. Haraldsson frá Háskóla Íslands, Margréti Jónsdóttur Njarðvík frá Háskólanum á Bifröst, Álfheiði Guðmundsdóttur og Tryggva Guðjón Ingason frá fagdeild sálfræðinga við skóla og Sálfræðingafélagi Íslands, Helgu Tryggvadóttur, Klöru Guðbrandsdóttur og Sigríði Sigurðardóttur frá Félagi náms- og starfsáðgjafa, Hermann Nökkva Gunnarsson, Júlíus Viggó Ólafsson, Guðna Ívar Guðmundsson, Berg Daða Ágústsson frá Heimi – félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, Tryggva Hjaltason, Gylfa Magnússon prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Helgu Þórisdóttur og Steinunni Birnu Magnúsdóttur frá Persónuvernd, Svövu Jónsdóttur og Þórunni Sveinsdóttur frá Vinnueftirlitinu, Magnús Þorkelsson skólameistara við Flensborg, Steinunni Bergmann og Sigrúnu Harðardóttur frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Arnór Guðmundsson og Kolfinnu Jóhannesdóttur frá Menntamálastofnun, Ölmu Björk Ástþórsdóttur, Hermund Sigmundsson prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði við Háskólann í Reykjavík og Alexander Ívar Logason, Helgu Maríu Kristinsdóttur, Hildi Jónu Valgeirsdóttur og Elísabetu Vénýju Þórisdóttur Schiöth frá samtökunum Menntakerfið okkar og Heiðdísi Dögg Eiríksdóttur, Rannveigu Sverrisdóttur, Kristrúnu Lenu Þorvaldsdóttur, Eyrúnu Ólafsdóttur og Árnýju Guðmundsdóttur frá starfshópi um málstefnu um íslenskt táknmál.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Ölmu Björk Ástþórsdóttur, Alþýðusambandi Íslands, Bókasafnsráði, BSRB, fagdeild sálfræðinga við skóla og Sálfræðingafélagi Íslands, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Gylfa Magnússyni, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum á Bifröst, Heimi – félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, Iðnmennt, Kennarasambandi Íslands, Landssamtökum íslenskra stúdenta, Landssamtökunum Þroskahjálp, Magnúsi Þorkelssyni, Menntakerfinu okkar, Menntamálastofnun, Öryrkjabandalagi Íslands, Persónuvernd, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum sjálfstætt starfandi skóla, Starfshópi um málstefnu fyrir íslenskt táknmál, Tryggva Hjaltasyni, Vinnueftirlitinu og VR.
    Með þingsályktunartillögunni er lögð fram menntastefna til ársins 2030. Stefnunni, sem ætlunin er að innleiða í þremur tímabilum, er skipt upp í fimm meginþætti sem eru: jöfn tækifæri fyrir alla, kennsla í fremstu röð, hæfni fyrir framtíðina, vellíðan í öndvegi og gæði í forgrunni. Einkunnarorð stefnunnar eru Framúrskarandi menntun alla ævi og gildi hennar eru þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Samhljómur var á meðal umsagnaraðila um mikilvægi þess að fram sé komin menntastefna allt til ársins 2030. Áhersla var lögð á að innleiðingaráætlanir séu gerðar í nánu samtali og samráði við hagaðila og að ferlið sé skýrt. Auk þess sé mikilvægt að menntastefnan sé fjármögnuð frá upphafi svo að þær umbætur sem í stefnunni felast geti orðið að veruleika.
    Að mati nefndarinnar þarf eftirfylgni með stefnunni að vera markviss og nota þarf mælikvarða til að meta árangur. Auk þess er mikilvægt að verkefnum verði forgangsraðað en fyrir liggur að ekki verður hægt að ná öllum markmiðum í einum áfanga. Þá telur nefndin að líta verði til þeirrar vinnu sem þegar hefur átt sér stað á þessu sviði undanfarin misseri og nýta þá vinnu eftir því sem við á. Má þar nefna skýrslu samstarfsráðs um starfsþróun kennara og skólastjórnenda, skýrslu um framtíðarstefnu, markmið og hlutverk samræmdra prófa, eftirfylgd úttektar Evrópumiðstöðvar á opinberri menntastefnu, tillögur starfshóps um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, aðgerðaáætlun um nýliðun kennara og eftirfylgd með innleiðingu nýrra laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, stefnu um náms- og starfsráðsgjöf og vinnu starfshóps um styrkingu leikskólastigsins.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að stefnan væri fyrst og fremst miðuð að menntun í leik,- grunn- og framhaldsskólum en tæki ekki mið af sí- og endurmenntunarkerfinu, hinni svokölluðu fimmtu stoð í menntakerfinu. Að því virtu áréttar nefndin að menntastefnunni er ætlað að taka á öllum þáttum menntakerfisins, allt frá leikskólanámi til háskóla og sí- og endurmenntunarkerfisins. Menntakerfi landsins myndar samstæða heild sem felur í sér samfellu í þjónustu við nemendur frá leikskólum til háskóla og í ævinámi fullorðinna, bæði formlega og óformlega menntun. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að íslenskt menntakerfi sé í stakk búið til að takast á við samfélagsbreytingar og áskoranir framtíðarinnar og að það stuðli að jöfnum tækifærum allra til náms og virkrar þátttöku í sjálfbæru lýðræðissamfélagi. Sjálfbærnimenntun, umhverfisvitund, samfélagskennd og loftslagsmál eiga ríkt erindi í alla skóla.
    Nefndin áréttar að menntastefnunni er ætlað að ramma inn þær áherslur sem settar verða í forgrunn í menntakerfinu næstu tíu árin. Einstaka atriði og aðgerðir verða lagðar fram í innleiðingaráætlun en fyrstu áætlunina á að leggja fram og kynna af ráðherra innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að við innleiðinguna liggi fyrir skýr verkáætlun og stefna, þar á meðal forgangsröðun verkefna, kostnaðarmat og skilgreining á ábyrgð og hlutverki við innleiðingu og útfærslu. Auk þess þurfi að tryggja fjármagn til verkefnisins. Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að við innleiðingu stefnunnar eigi sér stað öflugt samstarf og samráð við alla þá sem starfa innan menntakerfisins, jafnt nemendur sem kennara og annað starfsfólk sem kemur að menntun þjóðarinnar.

A. Jöfn tækifæri fyrir alla.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að auka þurfi námsframboð fyrir fólk með fötlun en ekki væri nægt framboð af námi að loknu framhaldsskólastiginu og þá þurfi að tryggja að búseta takmarki ekki möguleika þeirra til náms eða takmarki að fatlað barn fái nauðsynlegan stuðning í menntakerfinu. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur fullgilt, kemur fram að koma skuli á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar og ævinámi. Nefndin áréttar að við innleiðingu menntastefnunnar verði tekið mið af þessu. Þá komu einnig fram sjónarmið um að halda þurfi vel utan um nemendur af erlendum uppruna svo að þeir geti staðið jafnfætis öðrum nemendum í námi. Að auki var rætt um aðgengi að námi á landsbyggðinni. Nefndin áréttar mikilvægi þess að allir geti fundið nám við sitt hæfi innan menntakerfisins og að komið sé til móts við þá sem þurfa á sérstökum úrræðum að halda. Tækifæri til náms eiga að vera þau sömu alls staðar á landinu og fyrir alla hópa þjóðfélagsins. Nefndin telur mikilvægt í þessu samhengi að nýta þurfi þá tækni sem í boði er og þá þekkingu sem skapast hefur í yfirstandandi heimsfaraldri til þess að efla nám án staðsetningar. Nýta ætti stafræna möguleika til þess að skapa tækifæri fyrir menntun á landsbyggðinni. Þá telur nefndin að sérstaklega þurfi að huga að snemmtækum stuðningi og samspili þjónustukerfa. Sjá þarf til þess að öll börn fái þjónustu við sitt hæfi og viðeigandi stuðning svo að þau missi ekki af tækifærum til náms og þroska. Í því tilliti bendir nefndin á frumvarp félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (354. mál á yfirstandandi löggjafarþingi) þar sem lögð er áhersla á snemmtækan stuðning, samfellu í þjónustu og samvinnu þvert á málaflokka.
    Nefndin telur einnig mikilvægt að taka upp og efla sérstaka áfanga um jafnrétti, eins og kynjafræði, sem gætu gert mikið til að vekja komandi kynslóðir enn frekar til umhugsunar um stöðu sína og viðhorf þegar kemur að kynjasmisrétti í námi og á vinnumarkaði. Mikilvægt er að menntakerfið sé opið og fjölbreytt og að nemendur hafi val í námi. Nemendum standi til boða fjölbreytt úrval bók-, verk-, starfs- og listnáms við allra hæfi.
    Við meðferð málsins var einnig rætt um svokölluð þroskapróf sem mæla stöðu nemenda og nauðsyn þess að uppfæra þau próf og koma í viðeigandi farveg. Nefndin tekur fram að til þess að allir hafi jöfn tækifæri og fái nám og stuðning við sitt hæfi innan menntakerfisins þurfi að vera hægt að mæla hvar nemendur standa. Í því sambandi eru þroskapróf mikilvæg. Nefndinni var bent á að þau próf sem notuð eru hér á landi uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru með tilliti til nýjustu greindarkenninga, almennrar þróunar í málumhverfi og þekkingar barna hér á landi og tækniþróunar. Þá beri engin stofnun eða opinber aðili ábyrgð á þroskaprófum hérlendis. Hér er brotalöm sem nefndin telur afar mikilvægt að verði löguð og verði tekin til nánari skoðunar við framkvæmd menntastefnunnar.

B. Kennsla í fremstu röð.
    Almenn ánægja var með þá áherslu sem lögð er á starf kennara. Þá þurfi að gera ráðstafanir og tryggja gott starfs- og vinnuumhverfi kennara til þess að koma í veg fyrir kennaraskort en svo dæmi sé tekið hafi settum markmiðum um fjölda kennaramenntaðra kennara á leikskólum enn ekki verið náð. Í því samhengi var bent á að meðalaldur kennara sé að hækka sem geti ýtt undir kennaraskort í framtíðinni. Þá hefur orðið veruleg fækkun á karlkyns kennurum sem gæti verið ein ástæða þess að ekki tekst að vekja áhuga drengja og veita þeim nægjanlega hvatningu í skólastarfinu. Einnig komu fram sjónarmið um þætti sem bæta þarf inn í kennaramenntun. Kennarar þurfi að læra ólíkar kennsluaðferðir sem nái til allra hópa samfélagsins. Auka þurfi áherslu á kynfræðslu, fræðslu um öryggi í stafrænu samfélagi, fjármálalæsi, fræðslu um fjölbreytni samfélagsins og forvarnir í kennaranáminu svo að kennarar séu betur í stakk búnir til þess að fræða nemendur um þá þætti sem vantað hefur upp á í menntakerfinu til þessa. Nauðsynlegt er að kennarar, sérstaklega að kennaranámi loknu, séu vel í stakk búnir til þess að taka á móti og aðstoða börn í mismunandi aðstæðum, með mismunandi getu eða með greiningar.
    Nefndin leggur áherslu á að mikilvægt sé að fagfólk verði sýnilegra í menntakerfinu til þess að þjónusta þau börn sem þurfa á sértækum úrræðum að halda en einnig til að styðja við kennara til þess að geta tekið vel á móti og sinnt þeim fjölbreyttu hópum sem eru í skólakerfinu. Einn liður í því að bæta vinnuaðstöðu og draga úr vinnuálagi á kennara er að skólarnir hafi mannafla til þess að sinna öllu því sem upp kemur í daglegu lífi innan skólans. Endurskoða þarf faglegt umhverfi skólans og hlutverk kennarans út frá breyttum og mismunandi fjölskylduaðstæðum skólabarna. Til þess að geta staðist samanburð við nágrannalönd okkar þarf að gera betur í því að fá fagstéttir inn í skólana og þar með minnka álag á kennara og veita nemendum aukinn stuðning. Nefndin telur að með auknum stuðningi inni í skólunum megi draga úr brottfalli nemenda og að draga úr kennaraskorti. Nefndin vill árétta að þegar rætt er um að tryggja hæfni- og þekkingarþróun sem hluta af starfi þá er átt við kennara, skólastjórnendur og aðrar fagstéttir á öllum skólastigum. Einnig er mikilvægt að náms- og starfsráðgjafar séu meðtaldir þegar rætt er um lagaramanna menntamála.

C. Hæfni fyrir framtíðina.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um læsi, þar á meðal lestrarkennslu. Framþróun þurfi að eiga sér stað í lestrarkennslu þar sem áherslan færist frá leshraða yfir í lesskilning. Þá þurfi að taka upp fjölbreyttari mælingar á lestrarkunnáttu og sjá til þess að lestrarkennsla og mælingar á lestrarhæfni séu færðar inn í nútímann og sýni raunverulega hæfni nemenda til þess að lesa sér til gagns. Margar af þeim umsögnum sem nefndinni bárust beindust að alvarlegri stöðu drengja í menntakerfinu en niðurstöður kannana sýna að allt að 34% drengja geti ekki lesið sér til gagns. Mikið var fjallað um þessa stöðu og hugsanlegar lausnir og telur nefndin að taka verði á þessum vanda og finna árangursríka leið til þess að vinna bug á honum.
    Í þessu samhengi bendir nefndin m.a. á verkefnið Þjóðarsáttmáli um læsi sem hófst haustið 2015. Um er að ræða sáttmála með það að markmiði að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Verkefnið var fjármagnað til fimm ára og að baki því liggur mikil fjárfesting. Nefndin telur mikilvægt að við innleiðingu stefnunnar verði litið til þessa verkefnis og kannað hvort halda megi áfram með verkefnið enda er það í samræmi við áherslu stefnunnar, m.a. á lesskilning. Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að læsi verði ekki skilgreint of þröngt. Menningarlæsi, fjármálalæsi, upplýsingalæsi, tæknilæsi og náttúrulæsi eru allt grundvallarhæfni sem menntakerfið þarf að geta byggt upp hjá einstaklingum og nýtast munu samfélaginu öllu. Tilefni er til að endurskoða hvort leggja þurfi meiri áherslu á þessi atriði í aðalnámskrá enda eiga aðalnámskrár að endurspegla menntastefnu og styðja við hæfni til framtíðar. Auk þess er mikilvægt að leggja áherslu á stafræna þekkingu, umhverfismál og sjálfbærni. Þá telur nefndin mikilvægt að nemendur kunni að leita að upplýsingum, meta áreiðanleika þeirra og geti nýtt sér þær upplýsingaveitur sem þeir hafa. Í því samhengi eru bókasöfn mikilvæg og þá sérstaklega skólabókasöfn.
    Nefndin leggur áherslu á að þegar rætt er um starfs-, iðn- og tækninám sé öllu ungu fólki boðið upp á starfsnám við hæfi og að grunnskólanemendur fái kennslu og þeim sé veitt innsýn í iðn- og tæknigreinar. Afar mikilvægt er að náms- og starfsfræðsla verði með skipulögðum hætti þannig að nemendur fái sem besta fræðslu um námsleiðir og starfsmöguleika
    Fram komu sjónarmið um mikilvægi þess að einstaklingar geti viðhaldið þekkingu sinni og hæfni á atvinnumarkaði og því þurfi að leggja enn meiri áherslu á náms- og starfsráðgjöf og kynningar og upplýsingagjöf til allra en þó sérstaklega til þeirra sem hafa litla sem enga formlega menntun. Jafnframt þurfi að taka til skoðunar hvort gera þurfi námskrá um nám utan hins hefðbundna skólakerfis. Í ljósi þess að vinnumarkaður sætir sífelldum breytingum þurfi að bregðast við því í menntakerfinu. Þannig þurfi að tryggja að vinnandi fólk geti aukið hæfni sína til að fylgja ákalli atvinnulífsins um þekkingu og hæfni starfsfólks. Nefndinni var bent á að ekki er fyrir hendi langtíma kortlagning á menntunar- og færniþörf á vinnumarkaði. Að mati nefndin verður kortlagning á menntunar- og færniþörf enn mikilvægari þegar horft er til áskorana fjórðu iðnbyltingarinnar þar sem niðurstöður slíks spáferils auðvelda mótun menntastefnu og bæta samspil menntakerfis og vinnumarkaðar. Nauðsynlegt er að fyrir liggi góð þekking, greining eða mat á starfstækifærum í einstökum fögum, greinum og starfssviðum til nokkurra ára og munu færnispár nýtast í öllu skóla- og fræðslustarfi.
    Við meðferð málsins voru gerðar athugasemdir um að í menntastefnunni komi ekkert fram um hæfniramma um menntun sem lýsi hæfniviðmiðum um þær kröfur sem séu gerðar við námslok á hverju skólastigi og í atvinnulífinu. Þá auki íslenski hæfniramminn gegnsæi menntakerfisins og auðveldi samanburð við önnur menntakerfi innan Evrópu sem einnig byggjast á evrópska hæfnirammanum.

D. Vellíðan í öndvegi.
    Að mati nefndarinnar þarf að auka áherslu á þjónustu sálfræðinga sem og náms- og starfsráðgjafa og félagsfræðinga innan veggja skólanna en jafnframt á víðtækari fræðslu um geðheilbrigði, sérstaklega með hliðsjón af því að kvíði og andleg vanlíðan virðist hafa aukist meðal barna í menntakerfinu. Þá telur nefndin mikilvægt að tryggja ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa og mynda heildstæða skólaþjónustu sem grípur börn snemma á lífsleiðinni og veitir þeim þá þjónustu sem þau þurfa á að halda.

E. Gæði í forgrunni.
    Undanfarnir mánuðir hafa fleytt okkur inn í stafrænan heim í æ meiri mæli. Tækifærin eru gríðarleg á þessum vettvangi. Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um mikilvægi þess að nám yrði áfram þróað og mótað til þess að takast á við breyttan veruleika sem tæknin færir okkur. Það er þó ekki síður mikilvægt að menntakerfið takist á við það verkefni að upplýsa og fræða ungt fólk um öryggi og siðferði hins starfræna heims. Gæta þarf að því að allir hafi jafnan aðgang að tækninni og að skólakerfið dragist ekki aftur úr í þessum stafrænu breytingum.
    Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um námsefni og gerð námsefnis og nauðsyn þess að efla útgáfu þess sem og að uppfæra námsefni sem m.a. standist kröfur um sveigjanleika og einstaklingsbundið nám. Þá þurfi að samræma útgáfu námsefnis milli skólastiga sem og kröfur í þeim efnum en til að mynda sé talsvert um endurútgáfu úrelts námsefnis. Einnig þurfi að auka við útgáfu starfræns námsefnis á öllum skólastigum en í þeim efnum væri hægt að líta til annarra Norðurlanda. Nefndin bendir á að vinna við útgáfu og kynningu vefbóka fyrir framhaldsskólastigið er farin af stað á vegum IÐNÚ og er enn á tilraunastigi. Nefndin telur að með stafrænni námsgagnaútgáfu á öllum stigum skólakerfisins verði skólakerfið bæði jafnara og nútímavæddara og auðveldara verði að uppfæra námsgögnin í takt við tímann. Í þessu samhengi áréttar nefndin einnig mikilvægi þess að allir fái námsgögn við sitt hæfi. Nýta á þá möguleika sem stafræn tækni veitir til þess að útbúa og gefa út námsgögn við allra hæfi. Allir eiga að hafa aðgang af námsgögnum við sitt hæfi sama hvaða tjáskiptaleiðir þeir nota.
    Að mati nefndarinnar er mikilvægt að leggja áherslu á stafræna færni. Stafræn færni grundvallast á þekkingu á samhengi og virkni stafrænnar tækni en hagnýti hennar eykst með hverjum degi sem líður. Stafræn færni leggst þvert á allar stoðir og áherslur stefnunnar. Auðveldlega ætti að vera hægt að byggja á reynslu og þekkingu hinna Norðurlandanna enda hafa þau flest sett sér sérstök markmið og hrint aðgerðum af stað til að treysta þennan þátt menntunar.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Einkunnarorð mennastefnu.
    Auk lagfæringar á orðalagi kafla I. Markmið og framtíðarsýn leggur nefndin til að orðinu sjálfbærni verði bætt við einkunnarorð menntastefnunnar. Menntastefna til ársins 2030 á að endurspegla áherslu á virka þátttöku allra í lýðræðissamfélagi sem byggist á jafnrétti og mannréttindum, heilbrigði, velferð og sjálfbærni.

Raunfærnimat.
    Nefndin telur mikilvægt að skólar auki framboð á starfsnámi og námi á framhaldsskólastigi og að raunfærnimat verði nýtt í auknum mæli til að meta margvíslega hæfni umsækjenda inn í nám. Einnig þarf að leggja áherslu á raunfærnimat sem staðfestir færni einstaklings án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað. Raunfærnimat byggist á því að nám fari ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur með ýmsum hætti við fjölbreyttar aðstæður. Mikilvægt er að sú þekking og hæfni sem einstaklingar ná sér í á starfsævinni hafi gildi og því telur nefndin að þegar komi að jöfnun tækifæra fyrir alla eigi einnig að leggja áherslu á raunfærnimat. Nefndin leggur því til breytingar þess efnis.

Framþróun íslensks máls og táknmáls.
    Nefndin leggur til að liðurinn framþróun íslenskunnar verði að framþróun íslensks máls og táknmáls. Samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, er íslenskt táknmál jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota. Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra.

Náms- og starfsráðgjöf.
    Nefndin telur að liðurinn Náms- og starfsráðgjöf falli betur undir kafla C. Hæfni fyrir framtíðina þar sem hún felur í sér aðstoð við einstaklinga á náms- og starfsferli þeirra og stuðlar að aukinni hæfni til framtíðar fremur en að ráðgjöfin snúist um vellíðan í sjálfu sér. Nefndin leggur því til að liðurinn verði færður úr kaflanum Vellíðan í öndvegi í kafla C.

Bókasöfn.
    Nefndin telur að auka þurfi áherslu á bókasöfn í menntastefnunni og sér í lagi á skólabókasöfnin. Mikilvægi aðgengis nemenda, jafnt barna sem fullorðinna, að bókum er ótvírætt og bókasöfn sem bjóða upp á fjölbreytt úrval efnis bæði efla nám og bæta gæði þess. Leggur nefndin í þessu skyni til að nýr liður um bókasöfn bætist við kafla C. Hæfni fyrir framtíðina og leggur nefndin til breytingar þess efnis.

Námsgögn og námsmat.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að stuðla þyrfti að auknum gæðum námsgagna og hraðari endurnýjun, auk þess sem auka þurfi fjölbreytni á mati náms og námsárangurs. Nefndin telur mikilvægt að áhersla verði lögð á gæði námsgagna og leggur nefndin því til að við 3. tölul. í kafla E. Gæði í forgrunni verði námsgögn einnig tilgreind ásamt námsmati.
    Að auki leggur nefndin til orðalagsbreytingar til lagfæringar og leiðréttingar.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Þorsteinn Sæmundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Olga Margrét Cilia skrifar undir álitið með þeim fyrirvara að í þingsályktunartillögu þessari er ekki notað kynhlutlaust orðalag þar sem unnt er með hliðsjón af lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019. Menntastefnan á að vera grundvöllur að eflingu menntunar á Íslandi næstu tíu árin og á að byggjast á jöfnum tækifærum fyrir öll kyn.

Alþingi, 15. mars 2021.

Páll Magnússon,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson. Olga Margrét Cilia,
með fyrirvara.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.