Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1057  —  321. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Valgeirsdóttur, Brynhildi Pálmarsdóttur og Sigrúnu Brynju Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Gunnhildi Gunnarsdóttur, Björn Karlsson og Ástu Margréti Sigurðardóttur frá félagsmálaráðuneyti, Ingvar J. Rögnvaldsson og Jón Ásgeir Tryggvason frá Skattinum, Inga K. Magnússon frá Ríkisendurskoðun, Hallgrím Jónasson frá Rannís, Jóhann Ólafsson, Herdísi Hallmarsdóttur og Hermann Jónasson frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Pál Árnason frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Aðalstein Þorsteinsson frá Byggðastofnun, Guðrúnu V. Steingrímsdóttur og Katrínu Maríu Andrésdóttur frá Bændasamtökum Íslands, Odd M. Gunnarsson, Sæmund Sveinsson og Jónas R. Viðarsson frá Matís, Bergþóru Þorkelsdóttur og Guðmund V. Guðmundsson frá Vegagerðinni, Svönu Helen Björnsdóttur, Guðrúnu A. Sævarsdóttur og Árna B. Björnsson frá Verkfræðingafélagi Íslands, Ásgerði K. Gylfadóttur og Bjarna Guðmundsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Pál Snævar Brynjarsson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Önnu G. Björnsdóttur og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyþór Björnsson frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Sigurð Sigursveins frá Samtökum þekkingarsetra, Hildi Jönu Gísladóttur, Guðmund Baldvin Guðmundsson og Þórgný Dýrfjörð frá Akureyrarbæ, Björn Ingimarsson, Berglindi Hörpu Svavarsdóttur, Hildi Þórisdóttur og Þröst Jónsson frá Múlaþingi, Helenu Eydísi Ingólfsdóttur, Hjálmar Boga Hafliðason, Kristján Þór Magnússon og Kolbrúnu Ödu Gunnarsdóttur frá Norðurþingi, Írisi Róbertsdóttur frá Vestmannaeyjabæ, Svein Margeirsson frá Skútustaðahreppi, Sigríði Mogensen og Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins og Þórönnu K. Jónsdóttur frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Jón Atla Benediktsson, Sigurð M. Garðarsson, Halldór Jónsson, Ólöfu Vigdísi Ragnarsdóttur og Guðmund Frey Úlfarsson frá Háskóla Íslands, Ara Kristin Jónsson og dr. Jónas Þór Snæbjörnsson frá Háskólanum í Reykjavík, Unnar Stein Bjarndal frá Háskólanum á Bifröst, Erlu Björk Örnólfsdóttur frá Háskólanum á Hólum, Rannveigu Björnsdóttur frá Háskólanum á Akureyri, Peter Weiss frá Háskólasetri Vestfjarða, Fríðu Björk Ingvarsdóttur frá Listaháskóla Íslands, Ragnheiði Ingu Þórarinsdóttur frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Runólf Vigfússon frá Bandalagi háskólamanna, Maríönnu H. Helgadóttur frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Valdimar Össurarson frá Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Elinóru Ingu Sigurðardóttur frá KVENN, Frey Friðfinnsson frá Icelandic Startup, Atla Þór Fanndal frá Geimvísinda- og tækniskrifstofu Íslands, Alexander Richter frá Orkuklasanum, Guðbjörgu Hrönn Óskarsdóttur frá Álklasanum, Ágúst Elvar Bjarnason frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Sigríði Ó. Kristjánsdóttur frá Vestfjarðastofu, Einar Má Sigurðarson og Jónu Árnýju Þórðardóttur frá Austurbrú, Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur frá Íslenska ferðaklasanum, Konráð S. Guðjónsson frá Viðskiptaráði Íslands, Pál Björgvin Guðmundsson og Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Þór Sigfússon frá Sjávarklasanum, Finnboga Magnússon frá Landbúnaðarklasanum, Einar Gunnar Guðmundsson, Þorkel Sigurlaugsson, Ágúst Þór Jónsson, Kristján Leósson og Björn Marteinsson.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bandalagi háskólamanna, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Rannís – Rannsóknamiðstöð Íslands, Ríkisendurskoðun, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Skattinum, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu auk sameiginlegrar umsagnar frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins og upplýsinga frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Samhliða umfjöllun um málið fjallaði nefndin um frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun (þskj. 362, 322. mál).

Umfjöllun.
    Um starfsemi Tækniþróunarsjóðs fer eftir II. kafla laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007. Frumvarp þetta er hluti af endurskoðun á umhverfi nýsköpunar og rannsókna, m.a. í framhaldi af nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem ríkisstjórnin kynnti í október 2019. Megintilgangur frumvarpsins er að flytja ákvæði um Tækniþróunarsjóð í sérlög svo að lagagrundvöllur fyrir starfsemi hans sé tryggður en samhliða er lagt fram frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun (322. mál) þar sem lagt er til að fella brott fyrrgreind lög.
    Nýsköpun og hæfni samfélagsins til að styðja við hugmyndir og veita þeim í frjóan farveg er lykillinn að aukinni fjölbreytni atvinnulífs, efnahagslegri velgengni og velferð. Starfsumhverfi nýsköpunar hefur þarfnast endurskoðunar til að fylgja eftir þeim hröðu breytingum sem eru að verða á samfélaginu. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa umgjörð og stuðningsumhverfi sem er samkeppnishæft á alþjóðavísu og þar leika opinberir samkeppnissjóðir stórt hlutverk.
    Tækniþróunarsjóður hefur það hlutverk að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Sjóðnum er heimilt að fjármagna nýsköpunarverkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs, sbr. nánari skilgreiningu í a–d-lið 10. gr. laga um tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpi þessu er ekki lagt til að gerðar verði efnislegar breytingar á þeim ákvæðum laganna er kveða á um Tækniþróunarsjóð. Þó er gerð sú breyting á a-lið að skýrt verði að sjóðnum sé einnig heimilt að styrkja rannsóknir og tækniþróun í samstarfi við erlenda sjóði. Eins og ákvæðið er orðað nú á það einungis við um stofnanir, háskóla og fyrirtæki sem samstarfsaðila.
    Framlög í Tækniþróunarsjóð hafa aukist verulega undanfarin ár og nýir styrkjaflokkar bæst við. Sjóðurinn býður nú upp á fimm flokka fyrirtækjastyrkja og er hver þeirra sniðinn að mismunandi þróunarstigi verkefna. Einnig býður sjóðurinn upp á styrki til hagnýtra rannsóknarverkefna innan háskóla og rannsóknarstofnana og einkaleyfastyrki. Í greinargerð með frumvarpinu segir að sjóðurinn byggi úthlutunarreglur sínar fyrst og fremst á gæðum umsókna, óháð því hvaðan þær koma. Árið 2019 var árangurshlutfall umsókna í Tækniþróunarsjóð 12%. Árið 2020 höfðu 15% umsókna fengið styrk og munar þar mestu um fjölgun styrkja í styrkjaflokknum Fræ, sem er undirbúningsstyrkur til frumkvöðla með verkefni á frumstigi. Í fjárfestingarátaki vegna heimsfaraldurs kórónuveiru veittu stjórnvöld það ár 700 millj. kr. til Tækniþróunarsjóðs til viðbótar við þá nær 2,3 milljarða kr. sem sjóðurinn hlaut í fjárlögum. Nefndin fjallaði um það sjónarmið, sem fram kom, að styrkir úr samkeppnissjóðum á borð við Tækniþróunarsjóð dreifðust ekki nægilega um landið. Jafnframt kom fram að fáar umsóknir bærust frá landsbyggðinni. Meiri hlutinn beinir því til stjórnar Tækniþróunarsjóðs að efna til átaks til að efla eftir megi þekkingu á starfsemi sjóðsins og þær kröfur sem gerðar eru til styrkumsókna. Í því samhengi bendir meiri hlutinn á að meðal breytingartillagna hans við frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun (322. mál) er að stofnuð verði svonefnd Nýsköpunargátt sem verði stoðtæki nýsköpunar og frumkvöðla auk þess sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti verði falið að stofna og þróa innviði fyrir nýsköpunarumhverfið fyrir tilstilli byggðaáætlunar.
    Nokkur umræða skapaðist fyrir nefndinni um ýmsar breytingar er lagðar voru til og snúa að starfsemi og skipulagi Tækniþróunarsjóðs. Í umsögnum um málið og í máli þeirra gesta er komu fyrir nefndina kom almennt fram það sjónarmið að endurskoða þyrfti og útvíkka hlutverk sjóðsins. Nefna þyrfti Tækniþróunarsjóð heiti sem betur lýsti starfsemi hans og gerði skýrt að styrkveitingar tækju til fleiri sviða en tækni.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að mikilvægt væri að horfa til hlutfallslegrar stærðar og vaxtar atvinnugreina við skipun í stjórn og fagráð sjóðsins, auk þess sem tryggja þyrfti betur aðkomu landsbyggðarinnar. Kveðið er á um skipan stjórnar Tækniþróunarsjóðs í 3. gr. frumvarpsins og er ákvæðið efnislega samhljóða 12. gr. laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Í stjórn sjóðsins sitja sex einstaklingar sem ráðherra skipar til tveggja ára, þ.m.t. formaður og varaformaður sem ráðherra velur úr hópi stjórnarmanna. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn samkvæmt tilnefningu tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, einn af ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins og einn sem ráðherra skipar án tilnefningar. Stjórnarmönnum er einungis heimilt að sitja tvö tímabil í senn. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu sitja nú tveir fulltrúar af landsbyggðinni í stjórn sjóðsins. Meiri hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að við skipan stjórnar verði fest í sessi sú regla að a.m.k. tveir stjórnarmenn komi af landsbyggðinni.
    Nefndin ræddi þær tillögur til breytinga sem komu fram við meðferð málsins og raktar eru að framan en meiri hlutinn bendir á að megintilgangur frumvarps þessa er að tryggja áfram lagagrundvöll fyrir starfsemi Tækniþróunarsjóðs. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að unnið sé að endurskoðun lagaumhverfis Vísinda- og tækniráðs og að af því tilefni verði hlutverk og stjórnskipulag sjóðsins einnig endurskoðað. Ráðið hefur m.a. hlutverki að gegna við skipun í fagráð og úthlutanir úr sjóðnum. Meiri hlutinn telur í ljósi þessa ráðlegt að bíða með breytingar á umgjörð Tækniþróunarsjóðs þar til þeirri endurskoðun er lokið. Meiri hlutinn beinir því hins vegar til ráðuneytisins að við endurskoðun og uppsetningu á framtíðarskipulagi sjóðsins verði aðkoma landsbyggðarinnar að stjórn formlega tryggð.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Þegar ráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um Tækniþróunarsjóð kom fram það sjónarmið í umræðum í þingsal að óeðlilegt væri að í lögunum væri mælt fyrir um heimild sjóðsins til að eiga aðild að sprotafyrirtækjum á frumstigi nýsköpunar, líkt og áfram er gert ráð fyrir í frumvarpinu, sérstaklega með hliðsjón af því að um er að ræða samkeppnissjóð. Var þar vísað til b-liðar 2. mgr. 1. gr. sem er samhljóða núgildandi lagaákvæði, þ.e. b-lið 2. mgr. 10. gr. í lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Sambærilegt sjónarmið kom fram við meðferð málsins fyrir nefndinni þegar bent var á að mikilvægt væri að ekki léki vafi á óhæði og hlutleysi Tækniþróunarsjóðs við mat styrkumsókna. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá ráðuneytinu hefur eignarhald sjóðsins í sprotafyrirtækjum á grundvelli þessa heimildarákvæðis ekki tíðkast og hefur sjóðurinn markað sér þá stefnu að beita ekki þessari heimild. Meiri hlutinn telur í ljósi framangreinds að þrátt fyrir að Tækniþróunarsjóður nýti ekki þessa heimild sé mikilvægt að hlutleysi sjóðsins sé hafið yfir vafa. Meiri hlutinn leggur því til að ákvæði um heimild Tækniþróunarsjóðs til eignarhalds í sprotafyrirtækjum falli brott.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að við bætist ákvæði þar sem lagt er til að skýrt verði kveðið á um heimild stjórnar Tækniþróunarsjóðs til þátttöku í alþjóðlegum samfjármögnuðum verkefnum og að heimilt verði að byggja úthlutun styrkja á mati fagráða sem skipuð eru sameiginlega af samstarfsaðilum. Breytingin er gerð til samræmis við breytingu sem gerð var á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, sbr. lög nr. 42/2019, þar sem stjórn Rannsóknasjóðs var veitt sambærileg heimild til samræmis við verklag sambærilegra sjóða erlendis.
    Jafnframt leggur meiri hlutinn til að gerð verði breyting á ákvæði um gildistöku til samræmis við ákvæði um gildistöku í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun (322. mál), en verði það frumvarp að lögum falla lög nr. 75/2007 úr gildi við gildistöku þess.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Orðin „og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar“ í b-lið 2. mgr. 1. gr. falli brott.
     2.      B-liður 2. gr. falli brott.
     3.      Við 2. mgr. 4. gr. bætist nýr málsliður, sem verði 2. málsl., svohljóðandi: Í alþjóðlegum samstarfsverkefnum rannsókna- og þróunarsjóða er heimilt að byggja á niðurstöðum fagráða sem skipuð eru af samstarfsaðilum.
     4.      Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

             Breyting á öðrum lögum.

                      Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003: Í stað „12. gr. laga nr. 75/2007“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: 3. gr. laga um Tækniþróunarsjóð.
     5.      Í stað dagsetningarinnar „1. maí 2021“ í 7. gr. komi: 1. júlí 2021.

Alþingi, 15. mars 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson.
Sigurður Páll Jónsson.