Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1443, 149. löggjafarþing 411. mál: opinber stuðningur við vísindarannsóknir (samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaráætlana og sjálfstæð stjórn Innviðasjóðs).
Lög nr. 42 20. maí 2019.

Lög um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, með síðari breytingum (samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaráætlana og sjálfstæð stjórn Innviðasjóðs).


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Rannsóknasjóður.
     Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám. Sjóðurinn styrkir nemendur í rannsóknartengdu framhaldsnámi og skilgreind rannsóknarverkefni sem efla stöðu vísindastarfs á Íslandi. Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Ákvörðun um styrkveitingu skal bundin hinu faglega mati.

2. gr.

     3. gr. laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

3. gr.

     4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Stjórn Rannsóknasjóðs.
     Ráðherra skipar fimm manna stjórn Rannsóknasjóðs til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs. Tilnefndir skulu fimm einstaklingar sem hafa reynslu og þekkingu á vísindarannsóknum, þar af skal einn tilnefndur úr vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
     Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr Rannsóknasjóði að fengnum umsögnum fagráða sem skipuð eru skv. 5. gr. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins getur veitt ef þurfa þykir.
     Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
     Ákvarðanir stjórnar um styrkveitingar samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
     Kostnaður við mat á umsóknum og við störf stjórnar skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins.
     Stjórn er heimilt, að tillögu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum af ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs.

4. gr.

     5. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Fagráð Rannsóknasjóðs.
     Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð Rannsóknasjóðs til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn við úthlutanir úr Rannsóknasjóði. Vísindanefnd skipar formenn fagráða sérstaklega. Fagráð eru jafnframt ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er. Í alþjóðlegum samstarfsverkefnum rannsóknasjóða er heimilt að byggja á niðurstöðum fagráða sem skipuð eru sameiginlega af samstarfsaðilum, enda séu sambærilegar kröfur gerðar til matsviðmiða, sbr. 2. mgr.
     Fagráð Rannsóknasjóðs skal vera skipað allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn úthlutunarsjóða samkvæmt lögum þessum. Fagráð metur umsóknir út frá vísindalegu gildi, færni og aðstöðu umsækjenda til að framkvæma verkið og líkum á að verkefnið skili mælanlegum árangri og ávinningi.

5. gr.

     6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Úthlutunarreglur Rannsóknasjóðs.
     Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs markar úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs samkvæmt áherslum Vísinda- og tækniráðs. Stjórn sjóðsins gefur út reglur um umsóknir, málsmeðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests og skulu þær kynntar ráðherra. Í reglunum skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.

6. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 6. gr. a – 6. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (6. gr. a.)
Innviðasjóður.
     Hlutverk Innviðasjóðs er að styðja við uppbyggingu rannsóknarinnviða á Íslandi. Við úthlutun eru höfð til hliðsjónar viðmið og áherslur sem birtast í stefnu Vísinda- og tækniráðs um rannsóknarinnviði hverju sinni.
     
     b. (6. gr. b.)
Stjórn Innviðasjóðs.
     Ráðherra skipar fjögurra manna stjórn Innviðasjóðs til þriggja ára í senn samkvæmt tilnefningu vísindanefndar og tækninefndar Vísinda- og tækniráðs. Að auki skipar ráðherra formann stjórnar án tilnefningar en varaformann úr hópi hinna fjögurra.
     Stjórn byggir ákvarðanir um fjárveitingu á umsögnum fagráðs Innviðasjóðs og áherslum Vísinda- og tækniráðs um uppbyggingu rannsóknarinnviða. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins getur veitt ef þurfa þykir.
     Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
     Ákvarðanir stjórnar um styrkveitingar samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
     Kostnaður við mat á umsóknum og við störf stjórnar skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins.
     
     c. (6. gr. c.)
Fagráð Innviðasjóðs.
     Vísindanefnd og tækninefnd Vísinda- og tækniráðs skipa fagráð Innviðasjóðs til tveggja ára í senn sem hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn við úthlutanir úr Innviðasjóði. Vísindanefnd og tækninefnd skipa formann fagráðs sérstaklega.
     Fagráð Innviðasjóðs skal vera skipað allt að níu einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum og þekkingu á innlendu og erlendu rannsóknarumhverfi. Skulu fagráðsmeðlimir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórnum annarra úthlutunarsjóða samkvæmt lögum þessum. Fagráð metur gæði umsókna.
     
     d. (6. gr. d.)
Úthlutunarreglur Innviðasjóðs.
     Vísindanefnd og tækninefnd Vísinda- og tækniráðs marka úthlutunarstefnu Innviðasjóðs samkvæmt áherslum Vísinda- og tækniráðs. Stjórn sjóðsins gefur út reglur um umsóknir, málsmeðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests sjóðsins og skulu þær kynntar ráðherra. Í reglunum skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs í uppbyggingu rannsóknarinnviða. Rannsóknarinnviðir sem styrktir eru af opinberu fé skulu vera opnir vísindamönnum að uppfylltum faglegum kröfum.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 2019.