Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1271  —  626. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2020.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón S. Brjánsson, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Bylgju Árnadóttur, ritara Íslandsdeildar, og Sigurð Ólafsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins.
    Með tillögunni er skorað á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd þriggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 6. nóvember 2020, um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlandanna (nr. 1/2020), aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða (nr. 2/2020) og um stuðning við aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (nr. 3/2020).
    Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að skort hafi innbyrðis samráð milli vestnorrænna samstarfsráðherra um ályktanir Vestnorræna ráðsins og framfylgd þeirra. Því er kallað eftir því í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2020 að samstarfsráðherrar Norðurlanda á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum geri með sér samstarfssamning sem kveði á um árlegan samráðsfund.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2020 er kallað eftir formlegu vestnorrænu samstarfi um norðurslóðamál. Mælst er til þess að ráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja sem sinna norðurslóðamálum fundi árlega um framgang vestnorrænna hagsmuna á norðurslóðum og gefi Vestnorræna ráðinu sameiginlega skýrslu um stefnu vestnorrænu ríkisstjórnanna í norðurslóðamálum og gagnvart Norðurskautsráði.
    Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 3/2020 eru ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands hvattar til að styðja við mögulega aukaaðild Grænlendinga og Færeyinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO. Lönd sem ekki hafa fullt sjálfstæði og stjórn á utanríkismálum geta fengið aukaaðild að stofnuninni en umsóknin þarf að berast frá ríkinu sem löndin tilheyra. Við meðferð málsins kom fram að af yfirlýsingum utanríkisráðherra Danmerkur árið 2020 megi ráða að dönsk stjórnvöld styðji yfirlýstan vilja Færeyinga að fá aukaaðild að stofnuninni. Nefndin ítrekar að í ályktuninni felist stuðningur þingsins við ákvarðanir landsstjórna Færeyja og Grænlands en ekki tilraun til að hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda eða taka fram fyrir hendur danskra stjórnvalda í þessum efnum.

    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Logi Einarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Olga Margrét Cilia, áheyrnarfulltrúi Pírata, lýsir sig samþykka áliti þessu.

Alþingi, 20. apríl 2021.


Sigríður Á. Andersen,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Ólafur Ísleifsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir.