Ferill 751. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1274  —  751. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um aukið samstarf Grænlands og Íslands.


Frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, að höfðu samráði við Alþingi, að fylgja eftir tillögum í skýrslu Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um aukin samskipti Grænlands og Íslands á sviðum þar sem hagsmunir landanna fara saman. Gerður verði rammasamningur milli landanna þar sem lýst verði markmiðum á tilgreindum samstarfssviðum, að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila. Af Íslands hálfu verði lögð áhersla á þá málaflokka og tillögur sem fjallað er um í skýrslu Grænlandsnefndar. Rammasamningurinn taki einnig fullt tillit til grænlensku sjálfstjórnarlaganna.

Greinargerð.

    Grænlandsnefnd utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur skilað af sér ítarlegri skýrslu með tillögum um aukið samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum.
    Ráðherra skipaði nefndina í apríl 2019. Formaður hennar er Össur Skarphéðinsson, aðrir fulltrúar eru Unnur Brá Konráðsdóttir og Óttarr Guðlaugsson.
    Skýrslan ber heitið Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum, sbr. skýrslu í fylgiskjali I og útdrátt í fylgiskjali II. Í henni forgangsraðar nefndin tíu tillögum til stefnumörkunar og leggur jafnframt til að Grænland og Ísland geri með sér rammasamning um samstarf í framtíðinni. Samtals eru tillögur nefndarinnar 99 talsins og fjalla um möguleika á auknu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og stofnana, einkageirans, frjálsra félagasamtaka, íþrótta, lista og menningar.
    Skýrslan markar tímamót enda hefur utanríkisráðuneytið aldrei fyrr ráðist í jafn umfangsmikla greiningu á samskiptum landanna tveggja.
    Að baki tillögum nefndarinnar er umfangsmikil og ítarleg greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna. Skoðuð var breytt staða landanna vegna aukins áhuga stórveldanna á norðurslóðum. Einnig er viðamikil skoðun á helstu atvinnugreinum svo sem sjávarútvegi, ferðaþjónustu og námuvinnslu.
    Í skýrslunni er fjallað um land og samfélag, stjórnskipulag og stjórnmál í Grænlandi, innviði í uppbyggingu, meðal annars umtalsverða uppbyggingu flugsamgangna og sjóflutninga. Sérstaklega er fjallað um Austur-Grænland og þau sérstöku viðfangsefni sem þar eru.
    Nefndin heimsótti Grænland þar sem hún hélt fjölmarga fundi með heimamönnum. Einnig fundaði nefndin með miklum fjölda íslenskra fyrirtækja, stofnana og frjálsra félagasamtaka.
    Löndin eiga nú þegar mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta meðal annars á sviði sjávarútvegs, flugþjónustu, stjórn flugumferðar, ferðaþjónustu og málefna norðurslóða. Aukin samvinna um heilbrigðismál, menntamál og stoðþjónustu við námuvinnslu gæti orðið mikilvæg í framtíðinni.
    Á alþjóðavettvangi eiga löndin þegar vaxandi samstarf þar sem norræna og vestnorræna samvinnu ber hæst auk samstarfs innan Norðurskautsráðsins.


Fylgiskjal I.


Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum. Tillögur Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s1274-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Grænland og Ísland. Skýrsla Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Útdráttur.

www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s1274-f_II.pdf