Ferill 623. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1305  —  623. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um innleiðingu NPA-samninga.


     1.      Hvernig miðar vinnu við að koma á formlegu samkomulagi um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þann tíma sem eftir er af innleiðingartímabili NPA-samninga, eða til ársloka 2022?
    Í 11. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, er fjallað um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
    Í 4. mgr. 11. gr. kemur fram að ráðherra gefi út reglugerð um meðal annars hlutverk og ábyrgð, skipulag og útfærslu, þ.m.t. viðmið um umfang þjónustu og lágmarksstuðningsþarfir, eftirlit og kostnaðarhlutdeild aðila í samráði við sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
    Í 3. gr. reglugerðar nr. 1250/2018, um NPA, sem sett er á grundvelli fyrrgreindrar 4. mgr. 11. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög bera ábyrgð á gerð og framkvæmd NPA-samninga, sbr. 5. og 6. gr. laganna, óháð því hvernig aðstoð er skipulögð og óháð því hver ber ábyrgð sem umsýsluaðili.
    Í 15. gr. reglugerðarinnar er svo fjallað um fjárhagslega framkvæmd NPA og þar kemur fram í 1. mgr. að kostnaður vegna heildarvinnutímafjölda, sem fram kemur í einstaklingssamningi um NPA, skal skiptast á milli sveitarfélags og ríkisins. Í 2. mgr kemur fram að hlutfallið skuli vera 75% á hendi sveitarfélaga og 25% af á hendi ríkisins.
    Á grundvelli fyrrgreinds er því ljóst að verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga er lögbundin og gildir út innleiðingartímabilið.

     2.      Hvernig eiga sveitarfélög, að mati ráðherra, að forgangsraða umsækjendum þegar á fjárlögum er gert ráð fyrir 120–130 NPA-samningum til loka árs 2022 og fyrir liggur að sá fjöldi nær ekki að uppfylla þörf á þjónustu? Hvernig hyggst ráðherra mæta einstaklingum sem synjað er um samning á grundvelli skorts á fjármagni? Stendur til að ákveða lágmarks- eða hámarksfjárhæðir NPA-samninga?
    Lög um þjónustu við fatlað fólk eru rammalög og geta sveitarfélög sett sér viðmiðunarreglur um þjónustuna á grundvelli ákvæða um sjálfsstjórn, sbr. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrár, og 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Viðmiðunarreglurnar þurfa að vera í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýslulaganna og enn fremur byggjast á reglunni um málefnaleg sjónarmið. Sveitarfélög bera því ábyrgð á framkvæmd aðstoðarinnar og skulu setja nánari reglur þar um í samráði við notendaráð fatlaðs fólks og/eða samtök fatlaðs fólks, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar um NPA.
    Það er því á ábyrgð sveitarfélaga að forgangsraða umsækjendum um þjónustu á grundvelli þeirra reglna sem þau setja sér, sbr. framangreint. Í athugasemdum við bráðabirgðaákvæði I í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 38/2018 kemur fram að NPA-þjónusta sé fyrst og fremst hugsuð fyrir einstaklinga sem þarfnast mestrar þjónustu.
    Varðandi það hvort hvort standi til að ákveða lágmarks eða hámarksfjárhæðir skal það upplýst að 21. janúar sl. skipaði ráðherra starfshóp um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018.
    Í skipunarbréfi starfshópsins kemur fram að starfshópurinn hafi það hlutverk að endurskoða lög nr. 38/2018 í heild sinni og þær reglugerðir sem lögunum fylgja með áherslu á að greina þau álitaefni sem upp hafa komið við framkvæmd laganna. Nánar er fjallað um NPA í skipunarbréfinu þar sem segir að starfshópurinn taki til sérstakrar skoðunar innleiðingu á 11. gr. laganna um NPA, þ.e. fyrirkomulag og framkvæmd ákvæðisins og reglugerðar um NPA, auk bráðabirgðaákvæðis I.
    Starfshópurinn skal skila ráðherra greiningu sinni og tillögum ekki síðar en 30. september nk.

     3.      Vill ráðherra að NPA-samningar verði gerðir um þjónustu við börn? Ef svo er, hvernig hyggst hann standa að þeirri vinnu og hvenær yrði það fyrirkomulag komið til framkvæmda? Ef ekki, hvaða ástæður eru fyrir því?
    Eins og fram kom hér á undan eru það sveitarfélög sem setja sér viðmiðunarreglur um þjónustuna. Sum sveitarfélög hafa sett sér reglur um NPA þar sem miðað er við ákveðið aldurstakmark, t.d. 18 ár en önnur leyfa NPA-þjónustu við börn og ungmenni. Í greiningu ráðuneytisins á grundvelli framangreindra ákvæða telur ráðuneytið að slíkar reglur brjóti ekki í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, enda skulu þær byggðar á málaefnalegum sjónarmiðum og að fötluð börn fái þá þjónustu sem þau eigi rétt á lögum samkvæmt, sbr. 4. tölul. 8. gr. og IV kafla laga nr. 38/2018, um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

     4.      Hvort stefnir ráðherra að því að NPA-samningar verði til frambúðar á forræði ríkis eða sveitarfélaga?
    Varðandi það hvort ráðherra stefni að því að NPA-samningar verði til frambúðar á forræði ríkis eða sveitarfélaga er mikilvægt að hafa í huga að við undirbúning og vinnslu laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, fór fram mjög viðamikið samráð allra hagsmunaðila í málefnum fatlaðs fólks, þ.m.t. með fulltrúum frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, fulltrúum sveitarfélaganna og háskólasamfélagsins.
    Niðurstaðan þar var að þjónusta við fatlað fólk ætti að vera eitt af kjarnaverkefnum sveitarfélaganna og með samþykki laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hinn 1. október 2018, komst löggjafarvaldið að sömu niðurstöðu, þ.e. að NPA-þjónusta ætti að vera á forræði sveitarfélaga en í 5. mgr. 3. gr. laganna kemur skýrt fram að sveitarfélag þar sem fatlaður einstaklingur á lögheimili tekur ákvarðanir um þjónustu við hann samkvæmt lögunum.