Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1336  —  44. mál.
Viðbót.

Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Karl Sigurðsson frá BSRB, Ágúst Arnórsson og Sigurð Jóhannesson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Ólaf Margeirsson. Nefndinni bárust umsagnir frá BSRB, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Ólafi Margeirssyni.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið að móta sjálfbæra iðnaðar- og atvinnustefnu sem taki mið af breyttum aðstæðum á Íslandi og helstu viðskiptalöndum þess. Slík stefnumótun af hálfu hins opinbera hefur hingað til ekki verið til staðar í íslensku atvinnulífi enda hafa stjórnvöld ekki mótað heildstæða stefnu í málaflokknum. Meiri hlutinn telur þó að gerð slíkrar stefnu geti reynst heillaspor, ekki einungis til að bregðast við áskorunum framtíðar, heldur einnig til að styrkja og fjölga stoðum atvinnulífs og styðja þannig við fjölbreyttan og sjálfbæran iðnað, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Framtíð íslensks iðnaðar.
    Við íslenskum vinnumarkaði horfa miklar breytingar á flestum sviðum atvinnulífsins í tengslum við fjórðu iðnbyltinguna og tækniframfarir framtíðarinnar. Stjórnvöld geta með markvissri stefnumótun sinnt mikilvægu hlutverki í skipulagi íslensks iðnaðar og atvinnulífs. Hér á landi hafa á tíðum verið settar stefnur sem taka á einstaka málaflokkum sem snerta á iðnaðarmálum, yfirleitt í sambland við aðra málaflokka. Aldrei hefur verið unnin heildstæð stefnumótun um þróun atvinnumála til framtíðar. Meiri hlutinn telur að nú þegar miklar breytingar verða á samfélaginu sé tækifæri til að setja skýran ramma um þróun íslensks iðnaðar til framtíðar. Slíkt myndi minnka óvissu um stefnu stjórnvalda og kæmi til með að skjóta styrkari stoðum undir íslenskan iðnað til framtíðar. Með auknum fyrirsjáanleika rekstrarumhverfisins aukast möguleikar fyrirtækja á vexti til framtíðar.
    Breytingar á íslenskum vinnumarkaði á næstu árum og áratugum hafa þegar komið til skoðunar framtíðarnefndar forsætisráðherra, sem skilaði í október 2019 skýrslu sem bar heitið Íslenskt samfélag 2035–2040: Þróun atvinnulífs, umhverfis, byggðar og lýðfræðilegra þátta. Í skýrslunni var að finna tillögur sem sneru að þróun vinnumarkaðarins til framtíðar. Þar var í fyrsta lagi lagt til að sett yrðu skýrari markmið um uppbyggingu atvinnu á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, t.d. í formi heildstæðrar nýsköpunar, atvinnu- og iðnaðarstefnu, og kortlögð vaxtartækifæri sem skapast við tæknibreytingar, einkum í hátæknigeiranum. Í öðru lagi að greind yrði færniþörf íslensks vinnumarkaðar með reglubundnum hætti, t.d. með því að kalla eftir mati OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) á færniþörf fyrir íslenskan vinnumarkað eins og gert var í Noregi. Í þriðja lagi að löggjöf fylgdi þróun vinnumarkaðar og verkefnahagkerfisins og að staðinn yrði vörður um réttindi einstaklinga án þess að hindra nýsköpun. Að síðustu var í fjórða lagi lagt til að skilgreindir yrðu mælikvarðar á samkeppnishæfni Íslands sem tækju mið af þróun erlendis og markmiðum í atvinnuuppbyggingu. Þessir mælikvarðar gætu nýst til að meta árangur aðgerða til atvinnuuppbyggingar, svo sem nýsköpunarstefnu, samkeppnissjóða, skattaívilnana og annarra hagrænna hvata. Meiri hlutinn telur að framangreindar tillögur úr skýrslu framtíðarnefndar forsætisráðherra skipti máli þegar kemur að mótun iðnaðarstefnu til framtíðar og geti orðið ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra mikilvægt veganesti við gerð hennar.

Fjölbreyttur og sjálfbær iðnaður til framtíðar.
    Iðnaðarstefna fyrir Ísland yrði að taka til fleiri þátta en bara efnahags þjóðarinnar. Þannig þyrfti hún einnig að taka tillit til líffræðilegs fjölbreytileika og hamfarahlýnunar. Árangur í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum næst enda ekki án þess að ráðist verði í úrbætur og stefnt að árangri í innlendum iðnaði. Með heildstæðri iðnaðarstefnu má betur leggja mat á árangur og stýra stefnumótun í átt að aukinni skilvirkni aðgerða gegn loftslagsbreytingum.
    Íslenskur iðnaður byggist í mörgum tilfellum á tiltölulega fáum stoðum. Sú er reyndin, bæði í einstökum iðngreinum og í einstaka byggðarlögum, að fá fyrirtæki bera stóran hluta framleiðslugetu. Iðnaður sem hvílir á fáum stoðum skapar hættu á kerfishruni við einstök áföll og dregur slíkt fyrirkomulag úr sjálfbærni viðkomandi greinar. Lykilþáttur í sjálfbærum iðnaði er að dreifa framleiðni með þeim hætti að til verði sveigjanleg framleiðslunet margra smárra aðila frekar en fárra stórra og lóðrétt samþættra fyrirtækja. Slík tilhögun iðnaðar stuðlar að byggðafestu og minni hagsveiflum og dregur úr staðbundnum áföllum vegna samdráttar í einstökum geirum eða gjaldþrotum einstakra fyrirtækja. Hér á landi hefur fengist nokkur reynsla af þess konar stuðningi við einstök byggðarlög sem byggist á stuðningi við tiltekna starfsemi. En eins og réttilega var bent á af umsagnaraðilum er vænlegra til árangurs að styrkja atvinnulíf byggðarlaga almennt frekar en afmarkaðar atvinnugreinar. Það skapar áhættu til lengri tíma á að meginstoðir atvinnulífs í byggðarlaginu hrynji vegna einstakra atburða, en dreifður stuðningur við allar atvinnugreinar getur dregið úr áhættunni á áföllum síðar meir.

Önnur opinber stefnumótun stjórnvalda.
    Umsagnaraðilar og gestir sem komu fyrir nefndina ræddu m.a. mikilvægi þess að við opinbera stefnumótun sem hér um ræðir verði unnið að gerð víðtækrar stefnu sem tengir saman stefnur í atvinnumálum, nýsköpun og menntamálum, í iðnaði og í ferðaþjónustu. Það eru óneitanlega stórir snertifletir á þeim málaflokkum sem hér eru nefndir og óumflýjanlegt að stefnumótun í einum málaflokki hafi áhrif á og taki tillit til hinna málaflokkanna. Þess má geta að hér á landi er í gildi almenn nýsköpunarstefna sem sett var árið 2019. Þar að auki var nýlega samþykkt menntastefna fyrir árin 2020–2030 (þskj. 1111, 278. mál). Ljóst er því að Ísland býr nú þegar að opinberum stefnum í þessum málaflokkum. Þá hefur einnig komið fram að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafi haft til undirbúnings langtímaferðamálastefnu eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
    Setning iðnaðar- og atvinnustefnu eins og lagt er til með þingsályktunartillögu þessari myndi óhjákvæmilega taka mikið mark af þessum fyrrnefndu stefnum. Í ljósi þessa telur meiri hlutinn ekki þörf á breytingu á umfangi stefnunnar, þar sem lagt er til að Alþingi álykti að fela ráðherra að vinna að mótun sjálfbærrar iðnaðar- og atvinnustefnu með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og í helstu viðskiptalöndum. Meiri hlutinn áréttar þó mikilvægi þess að við gerð stefnunnar verði sérstaklega skoðað samspil aðgerða á sviði iðnaðar- og atvinnumála við aðra málaflokka, og hvernig aðgerðir í þeim málaflokkum, sérstaklega í menntun og nýsköpun, geti komið til með að stuðla að sjálfbærum iðnaði til framtíðar.

    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Haraldur Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Alþingi, 27. apríl 2021.

Helgi Hrafn Gunnarsson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Haraldur Benediktsson,
með fyrirvara.
María Hjálmarsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson,
með fyrirvara.