Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1434  —  98. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um ástandsskýrslur fasteigna.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Friðrik Ágúst Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins, Herdísi Hallmarsdóttur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Jóhann Þór Magnússon.
    Umsagnir bárust frá Félagi fasteignasala, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Jóhanni Þór Magnússyni og Samtökum iðnaðarins.
    Málið var áður flutt á 148., 149. og 150. löggjafarþingi. Þá bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bjarnarási ehf., Félagi fasteignasala, Frumherja hf., Íbúðalánasjóði, Matsmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Örvari Ingólfssyni og Þjóðskrá Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og dómsmálaráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem feli í sér endurskoðun á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, lögum um fasteignakaup, nr. 40/2002, og þinglýsingalögum, nr. 39/1978.
    Markmið tillögunnar er að stuðla að bættri neytendavernd í fasteignaviðskiptum og að einfalda samskipti á milli seljanda og kaupanda húsnæðis, sem og leigusala og leigjanda hvað varðar gerð samninga og frágang annarra nauðsynlegra löggerninga. Hafa umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar að mestu lýst yfir stuðningi við þessi markmið tillögunnar og við tillöguna í heild.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram að kvöð um ástandsskýrslur færi ábyrgðina að einhverju leyti frá seljanda íbúðarinnar, sem getur verið vörn fyrir viðkomandi í ákveðnum tilvikum, en sú þróun hafi átt sér stað á undanförnum árum, t.d. í Noregi, að auka kröfur um athugun og upplýsingagjöf en um leið að auka ábyrgð seljenda á þeim göllum sem síðar koma í ljós. Með því að gera kröfur um ástandsskýrslur þegar fasteignaviðskipti eigi sér stað og skráningu á breytingum og úrbótum eftir atvikum verði til með tímanum nokkurs konar „smurbók“ hvers húsnæðis – viðhaldsdagbók þar sem komi fram helstu atriði sem snúa að húsnæðinu. Þótt slíkar skráningar geti verið kostnaðarsamar geti þær sparað mikla peninga til lengri tíma.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að ástandsskýrslur ættu einungis að vera krafa í tilfelli notaðs húsnæðis, en í tilfelli nýbygginga sé nóg að miða við gögn sem gerð eru í eðlilegu ferli byggingarframkvæmda. Einnig kom fram að eðlilegt væri að gera mismunandi kröfur um innihald ástandsskýrslna, sérstaklega hversu ítarlegar þær ættu að vera eftir aldri fasteigna. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið en eftirlætur ráðherra nánari útfærslu þeirra.
    Í umsögnum komu einnig fram margvíslegar ábendingar um álitamál varðandi nánari útfærslu á þeim atriðum sem tillagan felur í sér. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að taka þær ábendingar og álitamál til greina við vinnslu frumvarpsins.
    Samkvæmt ábendingu dómsmálaráðuneytisins er ólíklegt að endurskoðun á þinglýsingalögum þurfi til þess að ná markmiðum tillögunnar. Er því lagt til að vísun til þeirra laga falli brott, en því beint til ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra að vinna slíkar breytingar í samráði við dómsmálaráðuneytið gerist þess þörf.
    Að teknu tilliti til þess sem að framan segir leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „lögum um fasteignakaup, nr. 40/2002, og þinglýsingalögum, nr. 39/1978“ í 1. málsl. tillögugreinarinnar komi: og lögum um fasteignakaup, nr. 40/2002.

    Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Smári McCarthy,
frsm.
Jón Steindór Valdimarsson.
Brynjar Níelsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Hjálmar Bogi Hafliðason.