Ferill 750. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1452  —  750. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalheiði Ingu Þorsteinsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Hallgrím Jónasson og Egil Þór Níelsson frá Rannís, Piu Hansson og Magnús Tuma Guðmundsson frá Háskóla Íslands, Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra Akureyrarbæjar, Ásdísi Ólafsdóttur frá Arctic Circle, Eyjólf Guðmundsson og Gunnar Má Gunnarsson frá Háskólanum á Akureyri, Emblu Eiri Oddsdóttur frá Norðurslóðaneti Íslands og Níels Einarsson frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Akureyrarbæ, Arctic Circle – Hringborði norðurslóða, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Norðurslóðaneti Íslands, Rannís – Rannsóknamiðstöð Íslands og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
    Með tillögunni felur Alþingi ríkisstjórninni að fylgja stefnu í málefnum norðurslóða sem byggist á 19 áhersluþáttum. Þessir áhersluþættir voru mótaðir í þverpólitísku samráði innan þingmannanefndar um endurskoðun stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Í stefnunni er fjallað um verkefni við að kynna norðurslóðir sem mikilvægan heimshluta í víðum skilningi, með tilliti til fámennis, víðáttu og fjölbreyttra vistkerfa. Megináhersla Íslands verður á baráttu gegn loftslagsbreytingum, aðlögun að umhverfisáhrifum loftslagsbreytinga, samvinnu milli landa, á frið, mannréttindi, jafnrétti, áhrif og rétt frumbyggja og loks á velferð í samfélagslegum og efnahagslegum skilningi. Samkvæmt tillögunni er utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra falið að móta áætlun um framkvæmd stefnunnar og eftirfylgd hennar.
    Í umsögnum til nefndarinnar kom fram ánægja með áhersluþætti 16 og 17 í stefnunni, þ.e. að styrkja stöðu og ímynd Íslands sem norðurslóðaríkis, byggja upp innlenda þekkingu, efla alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum og móta rannsóknaáætlun um norðurslóðir. Umsagnaraðilar fögnuðu því að stutt yrði enn frekar við rannsóknir á norðurslóðum og alþjóðlegt vísindasamstarf og ítrekað var að samfélagsþróun þyrfti að hvíla á þekkingu og traustum rannsóknum. Mikilvægi norðurslóða væri vaxandi og nauðsynlegt að horfa heildstætt á málefni norðursins þar sem verkefni samfélaga framtíðarinnar væru krefjandi og kölluðu á framsýnar lausnir, öflugt samstarf og víðtæka þekkingu fræðasamfélagsins, ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Í umsögnum kom einnig fram ánægja með áhersluþátt 12, þ.e. um að efla vöktun með bættum fjarskiptum og útbreiðslu gervihnattakerfa.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ólík sjónarmið varðandi 19. áhersluþátt stefnunnar, um að efla Akureyri sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða. Bent var á að fræðasamfélagið á Akureyri hefði haft forustu um rannsóknir á samfélögum á norðurslóðum og vakið athygli á málefnum norðurslóða meðal Íslendinga. Fræðimenn á Akureyri þyrftu stuðning við að halda þessu starfi áfram. Í umsögn Háskólans á Akureyri kemur fram að skólinn hafi árið 2001 komið að stofnun Háskóla norðurslóða, alþjóðlegra samtaka háskóla- og rannsóknastofnana á norðurslóðum. Við skólann sé boðið upp á nám í norðurslóðafræðum og nám til meistaragráðu í heimskautarétti. Við Háskólann á Akureyri sé starfrækt öflugt fræðasamfélag á vettvangi sjálfbærni og samfélags- og umhverfisbreytinga á norðurslóðum. Hins vegar kom einnig fram að rannsóknir á norðurslóðamálum færu fram um allt land og að nauðsynlegt væri að nýta þá þekkingu sem til staðar væri á höfuðborgarsvæðinu. Í umsögn Háskóla Íslands var bent á að til að efla rannsóknir á sviði norðurslóða og nýta niðurstöður vísindarannsókna sem best hér á landi væri mikilvægt að allir háskólar landsins ynnu saman. Hvetja þyrfti innlenda fræðimenn til aukinnar samvinnu sem mundi styrkja þá enn frekar við umsóknir um fjárveitingar úr erlendum sjóðum og verkefnum.
    Nefndin fagnar því að ráðist hafi verið í gagngera endurskoðun á norðurslóðastefnu Íslands. Fyrri stefna íslenskra stjórnmála gagnvart málaflokknum byggðist á þingsályktun frá árinu 2011 og þróun stjórnmála og umhverfismála á norðurslóðum hefur verið gríðarlega hröð á síðustu árum. Málefni norðurslóða eru nátengd hagsmunum Íslands á alþjóðlegum vettvangi og nauðsynlegt að stefna stjórnvalda sé skýr. Það er nýrri stefnu í málefnum norðurslóða til framdráttar að vinna við hana hafi farið fram í samvinnu þingmanna þvert á stjórnmálaflokka og að höfðu samráði við fjölbreytta hagaðila. Stefnan er unnin út frá heildstæðri sýn á norðurslóðir þar sem áréttað er að málefni norðurslóða snerti verksvið nokkurra ráðuneyta.
    Nefndin ítrekar mikilvægi samvinnu milli innlendra fræðimanna og rannsóknastofnana á sviði norðurslóðamála. Ekki má skilja 19. þátt stefnunnar á þann veg að rannsóknir á sviði norðurslóða skuli eingöngu fara fram á Akureyri enda er sérstaklega hvatt til aukins samráðs á málefnasviðinu. Efla þarf íslenskt þekkingarsamfélag í heild sinni til þess að hámarka áhrif íslenskra fræðimanna á alþjóðlegum vettvangi. Fjölmörg verkefni sem við blasa verða aðeins leyst á grunni mikillar gagnaöflunar, vísindarannsókna og nýsköpunar.
    Nefndin hvetur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til að vinna ötullega að framkvæmd stefnunnar. Mikilvægt er að auka samstarf milli ráðuneyta og stofnana á málefnasviðinu til að tryggja að sá metnaður sem birtist í stefnunni skili sér í raunverulegum aðgerðum með tilheyrandi fjármögnun. Nefndin ítrekar nauðsyn þess að ráðherra verði haldið upplýstum um vinnu annarra ráðuneyta og að ráðherra haldi Alþingi upplýstu um framkvæmd stefnunnar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 17. maí 2021.

Sigríður Á. Andersen,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. Logi Einarsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
.Rósa Björk Brynjólfsdóttir Silja Dögg Gunnarsdóttir. Þorgerður K. Gunnarsdóttir.