Ferill 737. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1454  —  737. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um garðyrkjunám á Reykjum.


     1.      Hverjir skipa samráðs- og vinnuhóp um yfirfærslu garðyrkjunáms á Reykjum í Ölfusi frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautaskóla Suðurlands? Hvaða sérfræðingar í málefnum garðyrkjunáms eru með í hópnum?
    Með bréfi, dags. 23. desember 2020, tilkynnti mennta- og menningarmálaráðherra ákvörðun sína um tilfærslu starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum að Reykjum í Ölfusi frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautaskóla Suðurlands. Í framhaldinu var báðum skólum falið að útfæra flutning námsins í samráði við ráðuneytið. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri og ráðgjafi við verkefnið frá Háskólafélagi Suðurlands. Haldnir hafa verið átta samráðsfundir með verkefnisstjóra, fulltrúum skólanna og ráðuneytisins. Af hálfu ráðuneytisins taka þátt í verkefninu sérfræðingar í málefnum framhaldsskóla, háskóla og búnaðarfræðslu.

     2.      Hvernig er samráði við fulltrúa atvinnulífs garðyrkjugreina í landinu háttað við yfirfærsluna?
    Hagsmunaaðilar garðyrkjunnar hafa átt fjölmarga fundi með mennta- og menningarmálaráðherra þar sem þeir hafa komið sjónarmiðum á framfæri sem leitast hefur verið við að taka tillit til við yfirfærslu námsins. Samráð verður haft við starfsgreinaráð í umhverfis- og landbúnaðargreinum um uppbyggingu námsins við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fulltrúar í starfsgreinaráði umhverfis- og landbúnaðargreina eru tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtökum Íslands, Kennarasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

     3.      Hvernig er samráði við nemendur og starfsfólk á Reykjum háttað við yfirfærsluna?
    Landbúnaðarháskóli Íslands og Fjölbrautaskóli Suðurlands hafa átt samráðsfundi með starfsfólki að Reykjum og nemendum í starfsmenntanámi í garðyrkju og skyldum greinum. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur einnig átt fundi með starfsfólki og nemendum að Reykjum. Fleiri slíkir fundir eru á döfinni, sem og fundir með viðkomandi stéttarfélögum.

     4.      Hvernig verður tryggt að garðyrkjunám í Garðyrkjuskólanum á Reykjum, á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands, sé aðgengilegt nemum alls staðar að af landinu og á öllum aldri?
    Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur hingað til þjónustað nemendur af stóru upptökusvæði skólans á Suðurlandi auk nemenda víðsvegar af landinu og verður starfsmenntanám í garðyrkju og skyldum greinum hluti af námi við skólann. Samningur um rekstur heimavistar fyrir nemendur Fjölbrautaskólans var undirritaður 1. október 2020.

     5.      Hvernig verður fjármögnun garðyrkjunámsins háttað?
    Fjármunir munu flytjast frá Landbúnaðarháskólanum samhliða því að námið flyst til Fjölbrautaskóla Suðurlands.

     6.      Hvernig verður stjórnun garðyrkjunámsins á Reykjum háttað eftir að það hefur færst undir Fjölbrautaskóla Suðurlands?
    Með flutningi á náminu til Fjölbrautaskóla Suðurlands tekur skólameistari skólans yfir ábyrgð á framkvæmd og stjórnun námsins.

     7.      Hvernig verður rekstri og umsjón með Garðyrkjuskólanum á Reykjum fyrir komið?
    Garðyrkjuskóli ríkisins var settur á fót með samþykkt laga með sama heiti nr. 91/1936. Lög um Garðyrkjuskóla ríkisins voru leyst af hólmi með lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Með lagabreytingu nr. 71/2004 við lög um búnaðarfræðslu var Garðyrkjuskóli ríkisins lagður niður og starfsemin felld undir Landbúnaðarháskóla Íslands. Í lögum nr. 71/2004 var kveðið á um niðurlagningu starfa hjá Garðyrkjuskólanum og að starfsfólki hans skyldu boðin störf við Landbúnaðarháskóla Íslands. Með lögum nr. 56/2013 voru lög um búnaðarfræðslu felld brott og starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands felld undir lög um opinbera háskóla, nr. 85/2008. Samhliða fluttust málefni skólans frá landbúnaðarráðuneyti til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í bráðabirgðaákvæði IV við lög nr. 56/2013 fólst ráðagerð um að starfsmenntanám á framhaldsskólastigi skyldi fellt undir lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Sú breyting hefur núna komist til framkvæmda með ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra frá 23. desember 2020. Ekki stendur til að endurreisa Garðyrkjuskóla ríkisins sem sjálfstæða skólastofnun. Starfsmenntanám í garðyrkju og skyldum greinum verður fellt inn í námsbrautalýsingar hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands og námið samþætt við annað námsframboð skólans á framhaldsskólastigi.

     8.      Hver fer með staðarhald og umsjón með fasteignum og landareignum Reykjatorfunnar, þ.m.t. skólahúsnæði, gróðurhúsum og öðrum fasteignum á staðnum, eftir fyrrgreindar breytingar?
    Að loknum viðhaldsframkvæmdum og viðgerðum á mannvirkjum að Reykjum sem núna standa yfir á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins er gert ráð fyrir að Fasteignir ríkisins, Ríkiseignir, taki við umráðum og rekstri Reykja og þeirra mannvirkja sem þar eru. Ríkiseignir gera svo leigusamninga við skólana um afnot af einstökum eignum og mannvirkjum eftir því sem skólarnir hafa þörf fyrir. Fyrir afnotin greiðist markaðsleiga, þ.e. svonefnd innri leiga.

     9.      Hver er staða verkefna sem lögð voru til í þarfagreiningu sem unnin var árið 2017 um aðstöðu í tengslum við uppbyggingu og endurbætur á húsnæði skólans?
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið, í samráði við Landbúnaðarháskóla Íslands, óskaði eftir því hinn 19. janúar 2017 að Framkvæmdasýsla ríkisins ynni frumathugun vegna húsnæðis Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi. Um er að ræða endurgerð og endurbætur samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001, og í samræmi við verklagsreglur fjármálaráðuneytisins um tilhögun frumathugunar. Verkefnið náði til skoðunar á nauðsynlegum endurbótum og endurgerð á aðalbyggingu að Reykjum í Ölfusi. Aðrar byggingar skólans á svæðinu, svo sem gróðurhús og tækjageymslur, heyra ekki undir umrætt verkefni. Framkvæmdasýsla ríkisins skilaði frumathugunarskýrslu í júlí 2017. Niðurstaðan var að ráðast bæri í umfangsmiklar endurbætur á aðalbyggingu skólans og að vinna skyldi verkið á 3–4 árum.
    Verkefnið hefur verið flókið í framkvæmd, m.a. vegna ófyrirsjáanleika einstakra verkþátta og verra ástands bygginga en áætlað var sem orsakast af ófullnægjandi viðhaldi undanfarna áratugi. Samkvæmt uppfærðri kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkisins frá 9. mars sl. er gert ráð fyrir að heildarkostnaður við framkvæmdir verði 372 millj. kr. Verkefninu í heild sinni er að langstærstum hluta lokið og vonast er til að ljúka megi því sem út af stendur fyrir mitt ár 2021.