Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1380, 141. löggjafarþing 319. mál: opinberir háskólar (landbúnaðarháskólar og samstarf opinberra háskóla).
Lög nr. 56 9. apríl 2013.

Lög um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008 (landbúnaðarháskólar og samstarf opinberra háskóla).


1. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Lög þessi gilda um Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólann á Hólum sem reknir eru sem opinberir háskólar og lúta yfirstjórn ráðherra.

2. gr.

     2. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, þekkingarleit og sköpun á sviði vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista, sbr. 2. og 3 gr. laga um háskóla.
  2. Við 2. mgr. bætist: sbr. 21. gr. laga um háskóla.


4. gr.

     Í stað orðanna „tveggja ára“ í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: eins árs.

5. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo: Þeir sem bera starfsheitin prófessor, dósent, lektor og sérfræðingur skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti dómnefndar eða með doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla.

6. gr.

     Við 2. mgr. 24. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: umsýslu- og afgreiðslugjöldum umsókna nemenda með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins, að undanskildum Færeyjum og Grænlandi.

7. gr.

     Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
Samstarfsnet opinberra háskóla.
     Rektorar opinberra háskóla, sem fengið hafa viðurkenningu ráðherra, skipa sérstaka verkefnastjórn um samstarfsnet opinberra háskóla undir forustu Háskóla Íslands. Auk rektora skal skipa fulltrúa til viðbótar þar sem tekið verður mið af stærð háskólanna og umfangi. Samstarfsnetið skal koma saman reglulega og fjalla um sameiginleg málefni skólanna, einkum varðandi stoðþjónustu, sameiginlega innritun, nám og námsframboð. Jafnframt skal samræma gæðamat í starfsemi skólanna og samþætta sambærileg fræðasvið í kennslu og rannsóknum.
     Ráðherra skal setja nánari starfsreglur um samstarfsnet opinberra háskóla og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

8. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2013.
     Við gildistöku laga þessara falla brott eftirtalin lög og lagaákvæði:
  1. Lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999.
  2. 2. mgr. 9. gr. og V. kafli, ásamt fyrirsögn, laga um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965.
  3. Lög um tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Landbúnaðarháskóla Íslands að Stóra-Ármóti, nr. 29/1981.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Skipunartími núverandi háskólaráða Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum framlengist til 1. október 2013 eða þar til nýir fulltrúar hafa verið valdir í háskólaráð skólans í samræmi við 6. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

II.
     Skipan kennslu og náms við Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólann á Hólum skal endurskoðuð og færð til samræmis við lög um opinbera háskóla, nr. 85/2008, fyrir skólaárið 2013–2014.

III.
     Nemendur sem við gildistöku laga þessara eru í námi við Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólann á Hólum eiga rétt á að ljúka því námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við skólana miðað við gildandi reglur um námsframvindu.

IV.
     Ráðherra veitir Landbúnaðarháskóla Íslands heimild til að reka starfsmenntun á framhaldsskólastigi og gera sérstakan samning um þann hluta starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands sem fellur undir lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er gildi frá og með skólaárinu 2013–2014.

Samþykkt á Alþingi 27. mars 2013.