Ferill 750. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Nr. 24/151.

Þingskjal 1478  —  750. mál.


Þingsályktun

um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja stefnu í málefnum norðurslóða sem byggist á eftirfarandi áhersluþáttum:
     1.      Að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um málefni norðurslóða á grundvelli þeirra gilda sem höfð hafa verið að leiðarljósi í íslenskri utanríkisstefnu, m.a. um frið, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti.
     2.      Að styðja áfram við Norðurskautsráðið og efla það sem mikilvægasta vettvanginn til samráðs og samstarfs um málefni svæðisins.
     3.      Að leggja áherslu á friðsamlega lausn deilumála sem upp kunna að koma á norðurslóðum og að virða beri alþjóðalög, þar á meðal hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlega mannréttindasáttmála.
     4.      Að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi og taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
     5.      Að leggja áherslu á að sporna gegn loftslagsbreytingum og bregðast við neikvæðum áhrifum þeirra á norðurslóðum.
     6.      Að setja umhverfisvernd í öndvegi, þar á meðal verndun lífríkis norðurslóða og líffræðilegrar fjölbreytni.
     7.      Að standa vörð um heilbrigði hafsins, þar á meðal vinna gegn ógnum sem felast í súrnun sjávar og hvers konar mengun í hafi.
     8.      Að leggja áherslu á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum, þar á meðal hætta brennslu svartolíu í siglingum, bæta aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum og efla aðgerðir sem tryggja orkuskipti.
     9.      Að beina sjónum að velferð íbúa á norðurslóðum, m.a. möguleikum þeirra til lífsafkomu og aðgengi þeirra að stafrænum fjarskiptum, menntun og heilbrigðisþjónustu, að styðja réttindi frumbyggja og jafnrétti í hvívetna sem og viðleitni til að vernda menningararf og tungumál þjóða sem byggja norðurslóðir.
     10.      Að nýta möguleg efnahagstækifæri á norðurslóðum með sjálfbærni og ábyrga umgengni við auðlindir að leiðarljósi.
     11.      Að efla viðskipti og samstarf á sviði atvinnulífs, mennta og þjónustu innan norðurslóða, ekki síst við næstu nágranna Íslands á Grænlandi og í Færeyjum.
     12.      Að vinna að því að efla vöktun og tryggja betur öryggi í samgöngum á hafi og í lofti, m.a. með bættum fjarskiptum og aukinni útbreiðslu gervihnattakerfa, t.d. vegna gervihnattaleiðsögu.
     13.      Að efla getu til leitar og björgunar, auk viðbragða við mengunarslysum, m.a. með því að byggja upp innlendan björgunarklasa og styrkja enn frekar alþjóðlegt samstarf.
     14.      Að gæta öryggishagsmuna á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og á grundvelli þjóðaröryggisstefnunnar, vakta vel þróun í öryggismálum í samráði við aðrar Norðurlandaþjóðir og önnur bandalagsríki Íslands í NATO, mæla gegn hervæðingu og vinna markvisst að því að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu.
     15.      Að líta vaxandi áhuga aðila utan svæðisins á málefnum norðurslóða jákvæðum augum, að því gefnu að þeir virði alþjóðalög og stöðu norðurskautsríkjanna átta og fari fram með friðsamlegum og sjálfbærum hætti.
     16.      Að styrkja stöðu og ímynd Íslands sem norðurslóðaríkis með því að byggja upp innlenda þekkingu og sérhæfingu í málefnum norðurslóða, og efla miðstöðvar mennta, vísinda og umræðu.
     17.      Að styðja við alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum og auðvelda miðlun á niðurstöðum vísindarannsókna, og að efla innlent rannsóknarstarf, m.a. með því að móta rannsóknaáætlun um norðurslóðir.
     18.      Að byggja á árangri Hringborðs norðurslóða og skapa því umgjörð til framtíðar með því að koma á fót sjálfseignarstofnun um norðurslóðasetur á Íslandi.
     19.      Að efla Akureyri enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi, m.a. með stuðningi við mennta- og rannsóknastofnanir og þekkingarsetur, og efla innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða.
    Ráðherra utanríkismála móti á grundvelli þessarar þingsályktunar áætlun um framkvæmd norðurslóðastefnunnar, í samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra, og upplýsi Alþingi um framkvæmd stefnunnar að fimm árum liðnum.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 2021.