Ferill 751. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1530  —  751. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um aukið samstarf Grænlands og Íslands.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Geir Oddsson frá utanríkisráðuneyti, Piu Hansson og Magnús Tuma Guðmundsson frá Háskóla Íslands, Ásdísi Ólafsdóttur frá Arctic Circle – Hringborði norðurslóða, Eyjólf Guðmundsson og Gunnar Má Gunnarsson frá Háskólanum á Akureyri, Emblu Eiri Oddsdóttur frá Norðurslóðaneti Íslands og Níels Einarsson frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Arctic Circle – Hringborði norðurslóða, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Norðurslóðaneti Íslands og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
    Með tillögunni felur Alþingi ríkisstjórninni, að höfðu samráði við Alþingi, að fylgja eftir tillögum í skýrslu Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um aukin samskipti Grænlands og Íslands á sviðum þar sem hagsmunir landanna fara saman. Tillagan kallar eftir því að gerður verði rammasamningur milli landanna í samráði við hagsmunaaðila um markmið á tilgreindum samstarfssviðum. Í greinargerð er fjallað stuttlega um skýrslu Grænlandsnefndar, Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum, en í henni er að finna 99 tillögur að auknu samstarfi landanna á vettvangi stjórnvalda, sveitarfélaga, stofnana, einkaaðila, frjálsra félagasamtaka, íþrótta, lista og menningar. Tíu þessara tillagna eru sérstaklega dregnar fram sem forgangsmál.
    Umsagnaraðilar lýstu ánægju sinni með tillöguna og fögnuðu áformum um aukið samstarf milli Íslands og Grænlands. Í umsögn Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar var þó gagnrýnt að í þingsályktunartillögunni væri lögð áhersla á íslenska hagsmuni. Kallað var eftir því að rammasamningur um samskipti landanna yrði mótaður á jafningjagrundvelli og tæki mið af hagsmunum Grænlendinga ekki síður en Íslendinga.
    Í umsögnum var sérstaklega fjallað um tillögur Grænlandsnefndar sem lúta að samstarfi á vettvangi menntunar, rannsókna og vísinda. Ein af tíu tillögum skýrslunnar til stefnumótunar snýr að uppbyggingu fjarnáms í samstarfi Háskólans á Akureyri og Háskólans í Nuuk. Í umsögn Háskólans á Akureyri var bent á að skólinn hefði átt farsælt samstarf við Háskólann í Nuuk um innleiðingu fjarnáms og í umsögn Norðurslóðanets var kallað eftir því að stutt yrði við þá samvinnu sem þegar ætti sér stað milli Íslendinga og Grænlendinga. Í umsögn Háskóla Íslands var hins vegar ítrekað mikilvægi þess að allar menntastofnanir landsins fengju tækifæri til að taka þátt í samstarfi á vettvangi menntamála. Bent var á að til þess að bjóða upp á sem fjölbreyttast námsframboð væri nauðsynlegt að fá Háskóla Íslands inn í þetta samstarf.
    Nefndin fagnar útgáfu skýrslu Grænlandsnefndar sem er ítarleg og yfirgripsmikil greining á stöðu Grænlands í alþjóðastjórnmálum og yfirferð yfir samskipti Grænlands og Íslands. Í skýrslunni er bent á fjölbreytt tækifæri til samvinnu á milli landanna, t.d. á vettvangi stjórnsýslu, samfélagsmála, innviða, sjávarútvegs og ferðaþjónustu. Í þingsályktunartillögunni kemur fram að við mótun rammasamningsins verði af Íslands hálfu lögð áhersla á þá málaflokka og tillögur sem fjallað er um í skýrslu Grænlandsnefndar. Líkt og getið var að framan eru í skýrslu Grænlandsnefndar 99 tillögur að auknu samstarfi. Hvorki í tillögu til þingsályktunar né greinargerð er tekin afstaða til þess hverjar þessara tillagna verði lagðar til grundvallar eða settar í forgang við mótun rammasamnings um samstarf milli landanna tveggja. Nefndin dregur því þá ályktun að samningsmarkmið Íslands eigi eftir að mótast enn frekar í samráði við hagsmunaaðila og í samningaviðræðum við Grænlendinga. Tillögur í skýrslu Grænlandsnefndar verði hafðar til hliðsjónar í samningaviðræðum en að þess sé ekki krafist með þingsályktunartillögunni að þær hljóti allar framgang. Því telur nefndin ekki ástæðu til að fjalla efnislega um einstakar tillögur skýrslu Grænlandsnefndar, sem lögð er fram sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni. Rammasamningur landanna muni taka mið af áhuga og forgangsröðun Grænlendinga sem Íslendinga og verði borinn undir Alþingi til samþykktar þegar þar að kemur.
    Nefndin fagnar þeirri viljayfirlýsingu sem felst í tillögu til þingsályktunar um aukið samstarf Grænlands og Íslands og lýsir stuðningi sínum við það að ráðist verði í gerð rammasamnings milli landanna. Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að styrkja samstarf landanna tveggja, ekki síst í ljósi aukins áhuga stórveldanna á norðurslóðum. Nefndin hvetur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til að eiga virkt samráð við hagsmunaaðila og við Alþingi við mótun rammasamnings um aukin samskipti milli Grænlands og Íslands.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    3. og 4. málsl. tillögugreinarinnar orðist svo: Af Íslands hálfu verði lögð áhersla á þá málaflokka sem fjallað er um í skýrslu Grænlandsnefndar og tillögur hennar hafðar til hliðsjónar. Í rammasamningnum verði einnig tekið fullt tillit til grænlensku sjálfstjórnarlaganna.

    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 26. maí 2021.

Sigríður Á. Andersen,
form.
Logi Einarsson,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir.