Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1562, 151. löggjafarþing 3. mál: tekjuskattur (milliverðlagning).
Lög nr. 61 4. júní 2021.

Lög um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (milliverðlagning).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
 1. 5. málsl. 5. mgr. færist og verður lokamálsliður málsgreinarinnar.
 2. Á eftir 5. mgr. koma sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Ríkisskattstjóra er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann lögaðila sem vanrækir að skjala viðskipti við tengda aðila að hluta eða að öllu leyti og brýtur þar með gegn ákvæði 1. málsl. 5. mgr. og reglugerðum settum á grundvelli þessarar lagagreinar. Stjórnvaldssekt verður beitt óháð því hvort vanræksla á að skjala viðskipti stafar af ásetningi eða gáleysi.
       Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tekin með úrskurði ríkisskattstjóra og er hann aðfararhæfur. Sekt rennur í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Sé stjórnvaldssekt ekki greidd innan mánaðar frá dagsetningu úrskurðar ríkisskattstjóra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá úrskurðardegi.
       Ákvörðun ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt má kæra til yfirskattanefndar, sbr. lög um yfirskattanefnd. Kæra til yfirskattanefndar frestar hvorki innheimtu né leysir lögaðila undan viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu sektarinnar.
       Sekt sem lögð er á lögaðila getur numið allt að 3 millj. kr. fyrir hvert reikningsár sem skattaðili hefur látið hjá líða að uppfylla skilyrði 1. málsl. 5. mgr. að hluta eða að öllu leyti. Sekt skal nema 3 millj. kr. hafi lögaðili ekki sinnt skjölunarskyldu sinni innan 45 daga. Sekt skal nema 1,5 millj. kr. hafi lögaðili skilað inn gögnum sem teljast ófullnægjandi og lögaðili hefur ekki orðið við kröfum ríkisskattstjóra um úrbætur innan 45 daga. Getur sektarálagning af þessu tilefni tekið lengst til sex tekjuára sem næst eru á undan því ári þegar sektarákvörðun fer fram og numið hæst 6 millj. kr.
       Ef lögaðili bætir úr annmörkum innan 30 daga frá úrskurði ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt skal ríkisskattstjóri lækka sektarfjárhæð um 90%. Ef úrbætur eru gerðar innan tveggja mánaða frá úrskurði ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt skal lækka sektarfjárhæð um 60%. Ef úrbætur eru gerðar innan þriggja mánaða frá úrskurði ríkisskattstjóra um stjórnvaldssekt skal lækka sektarfjárhæð um 40%.
       Skjölunarskylda skv. 5. mgr. tekur enn fremur til fastra starfsstöðva erlendra lögaðila hér á landi vegna viðskipta við höfuðstöðvar og við lögaðila sem tengjast þeim. Lögaðili sem rekur hér á landi fasta starfsstöð skal enn fremur sæta stjórnvaldssekt skv. 6.–10. mgr. sé sú skylda vanrækt.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2021.