Ferill 697. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1565  —  697. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (nýsköpun, arður, yfirskattanefnd o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Steinar Örn Steinarsson og Guðrúnu Ingu Torfadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigurjón Högnason frá KPMG og Ingvar J. Rögnvaldsson og Jón Ásgeir Tryggvason frá Skattinum.
    Umsagnir bárust frá Jóhanni Óla Eiðssyni, KPMG ehf. og Skattinum. Að auki barst nefndinni minnisblað fjármála- og efnahagsráðuneytisins um afstöðu þess til umsagna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld sem hafa það m.a. að markmiði að styrkja og efla skattalegt umhverfi nýsköpunarfyrirtækja, einstaklinga og annarra lögaðila. Þá eru lagðar til nokkrar leiðréttingar og breytingar á lögum á sviði skattamála. Um efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til greinargerðar með því.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Skattlagning á kauprétti hlutabréfa (1. gr.).
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að 9. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði rýmkuð þannig að kveðið verði á um að stjórnarmenn nýsköpunarfyrirtækja, sem kaupa hlutabréf samkvæmt kauprétti í viðkomandi félagi, fái notið frestunar á skattalegri meðferð kauprétta þar til bréfin eru seld. Sama regla gildir skv. 9. gr. laganna um skattalega meðferð tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem maður hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila.
    Í umsögn KPMG kemur fram það sjónarmið að rökrétt sé að til skattlagningar kaupréttartekna skv. 9. gr. komi við eignayfirfærslu hluta óháð því hvernig yfirfærsluna ber að, svo sem við gjöf, slit á fjárfélagi hjóna eða við arftöku. Kynni því að vera ástæða til að huga að því hvort eignaryfirfærsla hluta með öðrum hætti en við sölu skuli leiða til skattlagningar frestaðra kaupréttartekna.
    Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur í samráði við ráðuneytið til breytingu þess efnis að til skattlagningar skv. 9. gr. laga um tekjuskatt komi við eigendaskipti á viðkomandi hlutabréfum, óháð því hvernig eignatilfærsluna beri að.

Skipti á hlutabréfum (2. gr.).
    Í síðari efnismálslið 2. gr. er lagt til að söluhagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar sem myndast þegar hlutabréfum er skipt fyrir hlutabréf í öðru hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi skv. 1. tölul. 2. gr. laga um tekjuskatt að öllu leyti teljist ekki til skattskyldra fjármagnstekna fyrr en viðtökuhlutabréfin eru seld. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að markmið ákvæðisins sé meðal annars að auðvelda nýsköpunarfyrirtækjum að endurskipuleggja eignarhald sitt vegna aðkomu fjárfesta. Í samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til að ákvæðinu verði breytt þannig að það komi eingöngu til móts við ung fyrirtæki, þ.e. sprotafyrirtæki sem eru að hefja starfsemi sína. Með hugtakinu sprotafyrirtæki verði átt við félag sem fellur undir 3. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, er innan stærðarmarka 2. tölul. 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, hefur fyrir skiptin varið meira en 10% af veltu í viðurkennda rannsókna- og þróunarstarfsemi og er stofnað í þeim tilgangi. Ráðherra verði falið að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins í reglugerð.
    Til viðbótar leggur meiri hlutinn, í samráði við ráðuneytið, til breytingu þess efnis að í stað frestunar á skattlagningu hagnaðar sem myndast við skiptin hafi skiptin sem slík ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem lét hlutabréf í sprotafyrirtæki af hendi. Þess í stað ákvarðast kaupverð þeirra hlutabréfa sem viðkomandi eignaðist við skiptin jafnt kaupverði þeirra hlutabréfa sem hann lét af hendi. Þeirri breytingu er fyrst og fremst ætlað að einfalda framkvæmd og tryggja samræmi við önnur ákvæði laga um tekjuskatt.

Framlagning skattskráa.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 10. maí 2021, er lagt til að tímabundin undanþága Skattsins frá skyldu til framlagningar álagningarskrár, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða LXVI við lög um tekjuskatt, verði framlengd og gildi á árinu 2021 vegna tekna ársins 2020. Að auki leggur ráðuneytið til að virðisaukaskattsskrár vegna áranna 2018, 2019 og 2020 skuli leggja fram eigi síðar en 31. maí 2022.
    Forsendur fyrir tímabundinni undanþágu Skattsins frá skyldu til framlagningar skattskráa voru, við lögfestingu undanþágunnar, þær að vegna heimsfaraldurs kórónuveiru væri óæskilegt að kveða á um skyldu til framlagningar álagningarskrár vegna þess fjölda sem gerir sér ferð í afgreiðslur Skattsins ár hvert.
    Meiri hlutinn telur ekki tilefni til að slá því föstu að þörf sé á framlengingu undanþágunnar en hefur á því skilning að aðstæður kunni að breytast með skömmum fyrirvara. Í stað fortakslauss brottfalls skyldunnar leggur meiri hlutinn til að ríkisskattstjóra verði heimilt að fresta framlagningu skránna með samþykki ráðherra. Skilyrði fyrir frestun er að hún sé nauðsynleg vegna aðstæðna sem leiðir af heimsfaraldri kórónuveiru.

Breytingar samkvæmt minnisblaði ráðuneytisins.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 10. maí 2021, eru lagðar til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem meiri hlutinn hefur yfirfarið og gerir að sínum.
    Lagt er til að 3. mgr. 49. gr. laga um tekjuskatt verði endurorðuð þannig að skýrt verði tekið fram að vextir af fjármálagerningum, sem fara skal með sem fjárskuld í reikningsskilum en sem uppfylla á sama tíma kröfur sem gerðar eru til viðbótar eiginfjárþáttar 1 skv. 84. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, teljist frádráttarbærir sem vextir skv. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr.
    Þá er lagt til að kveðið verði á um að um laun og önnur launakjör skattrannsóknarstjóra fari eftir ákvæði 39. gr. og 47. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
    Vísar meiri hlutinn til minnisblaðs ráðuneytisins um útskýringar á breytingunum.

Próf til viðurkenningar bókara.
    Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar á regluverki, nr. 27/2021, var gerð sú breyting á lögum um bókhald, nr. 145/1994, að 43. gr. laganna, sem kvað á um viðurkenningu bókara, félli brott. Við lögin bættist ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að þeir sem hefðu lokið fyrsta prófhluta prófs til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2021 skyldu eiga þess kost að ljúka öllum prófhlutum fyrir 1. apríl 2024. Nefndin hefur orðið þess áskynja að ákvæðið feli í sér óþarflega umfangsmikla takmörkun á rétti til að ljúka prófi, þar sem rétturinn er skilyrtur við þá sem höfðu lokið fyrsta prófhluta fyrir 1. apríl 2021.
    Í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að þeim sem það kjósa skuli gefinn kostur á að ljúka öllum prófhlutum prófs til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2024.

Aðrar breytingar.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Jón Steindór Valdimarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Oddný G. Harðardóttir og Jón Steindór Valdimarsson rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í þingræðu.
    Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. maí 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Jón Steindór Valdimarsson,
með fyrirvara.
Oddný G. Harðardóttir,
með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Hjálmar Bogi Hafliðason.