Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1252, 151. löggjafarþing 444. mál: breyting á ýmsum lögum til einföldunar á regluverki.
Lög nr. 27 23. apríl 2021.

Lög um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar á regluverki.


I. KAFLI
Breyting á lögum um bókhald, nr. 145/1994.

1. gr.

     43. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þeim sem lokið höfðu fyrsta prófhluta prófs til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2021 skal gefinn kostur á að ljúka öllum prófhlutum fyrir 1. apríl 2024.
     Ráðherra skipar án tilnefningar þrjá menn í prófnefnd sem skal sjá um undirbúning og framkvæmd prófa samkvæmt ákvæði þessu.
     Kostnaður við prófin, þ.m.t. þóknun prófnefndarmanna, greiðist með próftökugjaldi sem ráðherra ákveður. Prófnefndin skal ljúka störfum eigi síðar en 1. apríl 2024.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997.

3. gr.

     Orðin „sbr. þó II. kafla“ í 2. mgr. 1. gr. laganna falla brott.

4. gr.

     4. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     II. kafli laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015.

6. gr.

     Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við gerð samnings skal fasteignasali gæta að skyldum samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, m.a. um framkvæmd áreiðanleikakönnunar og könnun á raunverulegum eiganda eftir því sem við á.

7. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Ef eftirlitsnefnd fasteignasala berast upplýsingar um að maður sem hefur ekki fengið löggildingu til fasteignasölu stundi slíka starfsemi, sjálfstætt eða í félagi, eða að fasteignasali fullnægi ekki lengur lögmæltum skilyrðum til löggildingar sem fasteignasali en starfi þó áfram sem slíkur skal hún með atbeina lögreglu loka viðkomandi starfsstöð eða starfsemi þegar í stað.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000.

8. gr.

     Á eftir XV. kafla laganna kemur nýr kafli, XVI. kafli, Frjáls uppboð, með einni nýrri grein, 99. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist röð annarra kafla og greina samkvæmt því:
Uppboð.
     Sá sem ber ábyrgð á uppboði á lausafé er nefndur uppboðsstjóri.
     Uppboðsstjóri má hvorki gera boð á uppboði sjálfur né láta aðra gera það fyrir sína hönd.
     Uppboðsstjóri skal kynna uppboðsskilmála skriflega og skulu þeir lesnir upp áður en uppboð hefst.
     Í uppboðsskilmálum skal gera grein fyrir gjöldum, sem leggjast ofan á söluverð, greiðsluskilmálum, ef ekki er um staðgreiðslu að ræða, ásamt öðrum skilmálum sem uppboðsstjóra er skylt að geta og hvenær ábyrgð á hinu selda flyst úr hendi seljanda til kaupanda.
     Munir sem bjóða á upp skulu vera til sýnis og skoðunar í hæfilegan tíma fyrir uppboð, hvort sem er á uppboðsstað eða með rafrænum hætti.
     Kaupandi uppboðsmunar getur ekki borið fyrir sig galla á honum, nema hann svari ekki til þess heitis er hann var auðkenndur með við söluna, seljandi hafi haft svik í frammi eða almennt sé talið óheiðarlegt að skjóta sér undan ábyrgð.

V. KAFLI
Breyting á höfundalögum, nr. 73/1972.

9. gr.

     1. málsl. 8. mgr. 25. gr. b laganna fellur brott.

VI. KAFLI
Brottfall laga um verslunaratvinnu, nr. 28/1998.

10. gr.

      Lög um verslunaratvinnu, nr. 28/1998, falla úr gildi.

VII. KAFLI
Brottfall laga um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga, nr. 27/1981.

11. gr.

      Lög um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga, nr. 27/1981, falla úr gildi.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

12. gr.

     23. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. apríl 2021.