Ferill 506. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1624  —  506. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Fjarskiptastofu.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Hermann Sæmundsson og Veru Sveinbjörnsdóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Steinunni Pálmadóttur frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins, Jón Birgi Eiríksson frá Viðskiptaráði Íslands, Andrés Magnússon frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Aðalstein Þorsteinsson og Arnar Má Elíasson frá Byggðastofnun, Pál Gunnar Pálsson, Birgi Óla Einarsson og Evu Ómarsdóttur frá Samkeppniseftirlitinu, Hrafnkel V. Gíslason, Björn Geirsson og Friðrik Pétursson frá Póst- og fjarskiptastofnun, Pál Heiðar Halldórsson frá Persónuvernd, Auði Ingu Ingvarsdóttur og Jón R. Kristjánsson frá Mílu, Eirík Hauksson og Orra Hauksson frá Símanum, Pál Ásgrímsson frá Sýn og Hildi Ýri Viðarsdóttur og Karen Björnsdóttur frá kærunefnd vöru- og þjónustukaupa.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Byggðastofnun, kærunefnd vöru- og þjónustukaupa, Mílu ehf., Persónuvernd, Póst- og fjarskiptastofnun, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Símanum hf., Sýn hf. og Viðskiptaráði Íslands.

Umfjöllun nefndarinnar.
Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný heildarlög um starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar og stofnuninni m.a. gefið nýtt heiti, Fjarskiptastofa. Markmið frumvarpsins er að bæta og einfalda regluverk á sviði fjarskipta. Lykilhlutverk stofnunarinnar varðandi eftirlit og framkvæmd fjarskiptamála helst óbreytt, en helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins varða aukna áherslu á framfarir og nýsköpun og hvernig stofnunin geti fylgt eftir hraðri tækniþróun sem best og stutt við slíka þróun. Samhliða framlagningu þessa frumvarps var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu og Byggðastofnun sem felur í sér flutning eftirlits með póstþjónustu til Byggðastofnunar (534. mál).

Gagnaöflun Fjarskiptastofu skv. 10. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins er skylt að veita Fjarskiptastofu allar nauðsynlegar upplýsingar til skráningar í gagnagrunn almennra fjarskiptaneta og gerðar útbreiðsluspár á því formi sem stofnunin ákveður. Fjarskiptastofa getur sett reglur um samræmda skráningu upplýsinga af hálfu fjarskiptafyrirtækja og búið til sniðmát fyrir upplýsingaöflun sem þau skulu nota. Fram kom að þessar gagnaöflunarheimildir væru of víðtækar en umtalsverð vinna færi í að taka saman gögn og koma til fjarskiptaeftirlits sem fjarskiptafyrirtæki telji oft óþarft. Nefndin bendir á að gagnagrunnurinn gegnir mikilvægu hlutverki við stefnumótun og uppbyggingu í málaflokknum en beinir því til stofnunarinnar að hafa samráð við fjarskiptafyrirtæki um afhendingu gagna, m.a. um það á hvaða formi afhenda skuli upplýsingar.

Kvartanir til Fjarskiptastofu.
    Í 17. gr. er mælt fyrir um að neytendur fjarskiptaþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafi að gæta geti kvartað til Fjarskiptastofu vegna háttsemi fjarskiptafyrirtækis. Bent var á að neytendur geti borið einkaréttarlegan ágreining sinn við fjarskiptafyrirtæki undir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa sem viðbótarúrskurðaraðila í skilningi laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019. Með lögunum var tilskipun 2013/11/ESB um lausn deilumála neytenda utan dómstóla innleidd. Samkvæmt gildandi lögum og 17. gr. frumvarpsins geti neytendur jafnframt borið ágreiningsmál undir Fjarskiptastofu til ákvörðunar. Þannig geti neytendur í raun leitað hvort tveggja til Fjarskiptastofu og kærunefndarinnar til úrlausnar á sama einkaréttarlega ágreiningi. Nefndin tekur undir að æskilegt væri að neytendur gætu sent inn kvartanir á einum stað. Hins vegar er í 25. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti sérstaklega áskilið að það stjórnvald sem tekur við kvörtunum hafi sérþekkingu á málaflokknum sem er til staðar hjá Fjarskiptastofu. Líkt og fram kemur í greinargerð byggist fjarskiptalöggjöf á samevrópsku regluverki og því mikilvægt að ákvæði frumvarpsins er varða kvartanir samræmist reglum framangreindrar tilskipunar.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Framkvæmd laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.
    Með lögum um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum (stjórnsýsla neytendamála), nr. 18/2021, var Póst- og fjarskiptastofnun falið að annast framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um 344. mál (þskj. 999) er umhverfis- og samgöngunefnd hvött til þess að huga að nýjum verkefnum stofnunarinnar við umfjöllun um fyrirliggjandi frumvarp. Með vísan til þessa leggur nefndin til breytingu þess efnis að meðal hlutverka Fjarskiptastofu í 2. gr. frumvarpsins verði tilgreint að hún fari með framkvæmd laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.
    Til samræmis leggur nefndin til tvær breytingar á lögum um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum (stjórnsýsla neytendamála), nr. 18/2021, þannig að lögin endurspegli nýtt heiti stofnunarinnar.

Öryggi og almannavarnir.
    Í 8. gr. er fjallað um hlutverk Fjarskiptastofu þegar kemur að öryggi og almannavörnum. Í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar var bent á að stofnunin hefur á undanförnum árum ávallt verið kölluð til þegar upp hefur komið neyðarástand sem ógnað gæti öryggi fjarskiptainnviða eða þegar tryggja þarf örugg fjarskipti í slíku ástandi. Um þetta hlutverk stofnunarinnar hafi ekki verið fjallað í lögum. Ákvæði 8. gr. frumvarpsins sé mjög til bóta en þó sé rétt að styðja betur við þetta hlutverk stofnunarinnar.
    Eins og reynslan hefur sýnt síðustu misserin er aðkoma stofnunarinnar nauðsynleg þegar brugðist er við neyðarástandi, t.d. vegna óveðurs eða annarra náttúruhamfara. Til að endurspegla betur hlutverk stofnunarinnar og aðkomu í þessum málum leggur nefndin til að við 2. mgr. 8. gr. bætist nýr málsliður þess efnis að Fjarskiptastofa skuli stuðla að öryggi og viðnámsþrótti fjarskiptainnviða og samhæfðum viðbrögðum við sérstakar aðstæður. Þá er lagt til að mikilvægi samstarfs Fjarskiptastofu og ríkislögreglustjóra, um framkvæmd viðbúnaðaræfinga og aðrar aðgerðir sem miða að því að stuðla að öryggi og viðnámsþrótti fjarskiptainnviða, verði áréttuð í 10. mgr. 25. gr. frumvarpsins. Nefndin útfærði tillögurnar í samráði við ráðuneytið sem telur kostnað vegna þessara verkefna óverulegan, í þessari framkvæmd felist ekki kostnaðarauki fyrir stofnunina enda sé hér verið að lögfesta hlutverk sem hún hafi þegar verið að sinna.

Gagnagrunnur almennra fjarskiptaneta.
    Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Fjarskiptastofa starfræki stafrænan gagnagrunn um almenn fjarskiptanet. Samkvæmt ákvæðinu skal skrá tilteknar upplýsingar í gagnagrunninn. Í 3. mgr. er Fjarskiptastofu veitt heimild til að hagnýta upplýsingarnar í starfsemi sinni, m.a. vegna greiningar á markaðsbresti vegna ríkisaðstoðar. Bent var á að slík greining getur m.a. lotið að fámennum stöðum og viðskiptatengingum einstakra heimila. Í gagnagrunninum kunni því að vera upplýsingar sem geti verið persónugreinanlegar að einhverju marki. Þá sé í 5. mgr. kveðið á um að heimilt sé að opna fyrir takmarkaðan aðgang almennings að gagnagrunninum, til að mynda um tengingar á mismunandi svæðum sundurliðað eftir staðföngum. Vegna þessa sé mikilvægt að bæta persónuverndarsjónarmiðum við þau atriði sem eru talin upp í ákvæðinu og geta takmarkað aðgengi að upplýsingum. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til breytingu á 5. mgr. 10. gr. þess efnis.

Úrskurðarnefnd fjarskiptamála.
    Í 20. gr. er kveðið á um að ákvarðanir Fjarskiptastofu sæti kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskiptamála. Hið sama eigi við um ákvarðanir stjórnvalda samkvæmt lögum um póstþjónustu. Nefndin er starfandi samkvæmt gildandi lögum um Póst- og fjarskiptastofnun undir heitinu úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála og er sjálfstæð og óháð í störfum sínum. Með vísan til þess að gert er ráð fyrir að nefndin muni áfram taka afstöðu í málum á sviði póstmála telur nefndin rétt að heiti nefndarinnar endurspegli það og verði úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.
    Þá leggur nefndin til nokkrar aðrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. mgr. 2. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: framkvæmd eftirlits með lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.
     2.      Við 2. mgr. 8. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjarskiptastofa skal jafnframt stuðla að öryggi og viðnámsþrótti fjarskiptainnviða og samhæfðum viðbrögðum við sérstakar aðstæður.
     3.      Í stað orðanna „aðgerðir aðila varðandi viðbrögð við“ í 3. málsl. 2. mgr. 9. gr. komi: viðbrögð aðila við.
     4.      2. málsl. 5. mgr. 10. gr. orðist svo: Þó skal takmarka aðgengi að upplýsingum ef það er nauðsynlegt í ljósi öryggis neta og áreiðanleika þeirra, þjóðaröryggis, lýðheilsu eða öryggis almennings, trúnaðarkvaða, réttmætra samkeppnishagsmuna, rekstrar- og viðskiptaleyndarmála og persónuverndar.
     5.      Orðin „þátttaka í“ í 1. mgr. 13. gr. falli brott.
     6.      Í stað orðsins „framkvæma“ í 10. mgr. 15. gr. komi: annast.
     7.      Í stað orðsins „fjarskiptamála“ í 19. gr. komi: fjarskipta- og póstmála.
     8.      Við 20. gr.
                  a.      Í stað orðsins „fjarskiptamála“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. komi: fjarskipta- og póstmála.
                  b.      Í stað orðsins „fjarskiptamála“ í fyrirsögn komi: fjarskipta- og póstmála.
     9.      Í stað orðanna „11. og 12. mgr.“ í 12. mgr. 21. gr. komi: 10. og 11. mgr.
     10.      Við 10. mgr. 25. gr. bætist: svo og um viðbúnaðaræfingar og aðrar aðgerðir sem miða að því að stuðla að öryggi og viðnámsþrótti innviða.
     11.      Við 1. mgr. 30. gr.
                  a.      B-liður orðist svo: gagnagrunni almennra fjarskiptaneta, sbr. 10. gr., þ.m.t. um aðgengi og birtingu upplýsinga úr gagnagrunni um almenn fjarskiptanet og takmarkanir á aðgengi, svo og um öflun og vinnslu upplýsinga.
                  b.      Í stað orðsins „fjarskiptamála“ í d-lið komi: fjarskipta- og póstmála.
     12.      Við 32. gr. bætist nýr töluliður svohljóðandi: Lög um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum (stjórnsýsla neytendamála), nr. 18/2021: Í stað orðanna „Póst- og fjarskiptastofnun“ í 20. gr. laganna kemur: Fjarskiptastofa.

    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Bergþór Ólason skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu. Karl Gauti Hjaltason skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 3. júní 2021.

Bergþór Ólason,
form. , með fyrirvara.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson.
Karl Gauti Hjaltason,
með fyrirvara.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Vilhjálmur Árnason.