Ferill 628. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1625  —  628. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004 (forsendur tekjumarka, raforkuöryggi o.fl.).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Silju Rán Sigurðardóttur frá Orkustofnun, Kristínu Lindu Árnadóttur og Rafnar Lárusson frá Landsvirkjun, Guðlaugu Sigurðardóttur og Guðmund Inga Ásmundsson frá Landsneti, Tryggva Þór Haraldsson frá RARIK, Júlíus J. Jónsson frá Ráðgjafaráði veitufyrirtækja, Baldur Dýrfjörð frá Samorku, Katrínu Maríu Andrésdóttur og Gunnar Þorgeirsson frá Sambandi garðyrkjubænda, Gunnlaug Karlsson og Eymund Sigurðsson frá Sölufélagi garðyrkjumanna, Lárus M. K. Ólafsson og Sigríði Mogensen frá Samtökum iðnaðarins, Eddu Sif Aradóttur frá CarbFix ohf., Magnús Óskarsson, Dirk Nuberg og Silviu Delgado del Saz frá Climeworks AG, Sigrúnu Helgadóttur, Guðrúnu Finnsdóttur og Pál Ólafsson frá Norðuráli, Elínu Smáradóttur, Berglindi Rán Ólafsdóttur og Þránd Sigurjón Ólafsson frá Orku náttúrunnar, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands, Vigdísi Häsler og Kára Gautason frá Bændasamtökum Íslands, Breka Karlsson og Einar Bjarna Einarsson frá Neytendasamtökunum, Guðjón Bragason og Valgerði Rún Benediktsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Pál Hreinsson og Björgu Ágústsdóttur frá Sambandi sveitarfélaga á köldum svæðum, Gest Pétursson frá Veitum ohf., Bjarna Frey Bjarnason, Írisi Lind Sæmundsdóttur og Jóhannes Þorleiksson frá Orkuveitu Reykjavíkur og Kristján Þórð Snæbjarnarson og Elsu Maríu Rögnvaldsdóttur frá Rafiðnaðarsambandi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bændasamtökum Íslands, CarbFix ohf., Climeworks AG, HS Veitum hf., Landsneti hf., Landsvirkjun, Neytendasamtökunum, Norðuráli ehf., Orku Náttúrunnar ohf., Rafiðnaðarsambandi Íslands, Rarik ohf., Ráðgjafaráði veitufyrirtækja, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Veitum ohf., auk sameiginlegrar umsagnar frá Sambandi garðyrkjubænda og Sölufélagi garðyrkjumanna, sem og minnisblaðs frá Orkustofnun.

Efni og markmið frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á raforkulögum sem snúa m.a. að markmiði um og skilgreiningu á raforkuöryggi, einföldun heimildar til setningar hagræðingarkröfu á flutningsfyrirtækið Landsnet og dreifiveitur, m.a. í samhengi við gæði og afhendingaröryggi raforku, skilgreiningu á rekstrarkostnaði í tengslum við setningu tekjumarka, yfirsýn og eftirliti með fjárfestingaráætlunum dreifiveitna, innkaupum á kerfisþjónustu, yfirsýn og eftirliti með varaafli, eflingu á raforkueftirliti Orkustofnunar og breytingu á eignarhaldi Landsnets sem og ákvæði er varðar þá starfsmenn þess sem hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna.
    Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin hefur fjallað um málið og rætt við fjölda gesta sem hafa eðli málsins samkvæmt mismunandi sýn á þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu. Raforkulögum var breytt árið 2011 og gerðar voru grundvallarbreytingar á þeim ákvæðum er varða setningu tekjumarka flutningsfyrirtækisins Landsnets og dreifiveitna. Orkustofnun hefur það hlutverk að setja Landsneti og dreifiveitum tekjumörk vegna kostnaðar við flutning og dreifingu raforku en þau stýra gjaldskrám þessara fyrirtækja. Í ljósi reynslu er nú verið að sníða af ýmsa agnúa í framkvæmd raforkulaga. Mikilvægt er að ramminn um setningu tekjumarka sé skýr og skilvirkur, ekki síst þegar kemur að samkeppnishæfni Íslands á orkumarkaði með það að markmiði að hvetja til fjárfestingar í nýsköpun hér á landi. Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu byggjast þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á umfangsmikilli greiningarvinnu auk þess sem samráðsferli í aðdraganda frumvarpsgerðar er rakið. Við meðferð málsins hefur nefndin haft það að leiðarljósi að samfélagið allt er háð því að til staðar sé áreiðanleg raforka. Tryggja þurfi sjálfbærni og afhendingaröryggi orku til framtíðar á tímum þar sem samfélagið verður sífellt háðara tækni en náttúruöflin hafa nýlega minnt á mikilvægi raforkuöryggis hvort sem kemur að atvinnulífi, heimilum, fjarskiptum eða samgöngum.

Setning hagræðingarkröfu og mat á áhrifum á tekjumörk.
    Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun það hlutverk að setja Landsneti og dreifiveitum tekjumörk vegna kostnaðar við flutning og dreifingu raforku. Stýra tekjumörkin gjaldskrám Landsnets og dreifiveitna. Tekjumörkum er ætlað að hvetja til hagræðingar og skilvirkni innan tekjumarkatímabils og í raforkulögum kemur fram að náist ekki markmið laganna um skilvirkni í rekstri sé Orkustofnun heimilt að setja Landsneti og dreifiveitum hagræðingarkröfu fyrir nýtt tekjumarkatímabil. Líkt og kemur fram í frumvarpinu hefur reynslan verið sú undanfarin ár að í raun er tæknilega ómögulegt að fylgja núverandi fyrirkomulagi við setningu hagræðingarkröfu þar sem um tvöfalt ákvörðunarkerfi er að ræða innan þröngra tímamarka. Því eru með frumvarpinu lagðar til breytingar um aukna skilvirkni, skýrleika og einföldun varðandi heimild Orkustofnunar til setningar hagræðingarkröfu við skilgreindar aðstæður.
    Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu um áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til á 12. og 17. gr. raforkulaga er kveða á um tekjumörk flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna. Í minnisblaði sem raforkueftirlit Orkustofnunar vann að beiðni ráðuneytisins er bent á að þær breytingar í frumvarpinu sem snúa að setningu og uppgjöri tekjumarka ættu almennt að leiða til lækkunar á tekjumörkum. Einnig ætti lagabreytingin almennt að skila meiri skilvirkni og lækkun kostnaðar notenda til lengri tíma, sem og hvata til aukinnar skilvirkni hjá dreifiveitum og flutningsfyrirtækinu. Bent er á í minnisblaðinu að þar er einungis lagt mat á áhrif breytinga á raforkulögum en ekki breytinga á reglugerð nr. 192/2016, um mat á vegnum fjármagnskostnaði (WACC), sem einnig var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar 2021 samhliða drögum að frumvarpinu. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er unnið að breytingum á þeirri reglugerð í samráði við hagsmunaaðila og gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki í haust.

Eftirlit Orkustofnunar með fjárfestingaráætlunum dreifiveitna (10. gr.).
    Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að við lögin bætist ný grein, 16. gr. a, sem felur í sér það nýmæli að Orkustofnun verði veitt heimild til að hafa eftirlit með fjárfestingaráætlunum dreifiveitna. Slík heimild stofnuninni til handa er þegar til staðar í lögunum vegna fjárfestingaráætlana Landsnets í gegnum kerfisáætlun, sbr. 9. gr. a, en ekki fyrir dreifiveitur. Samkvæmt ákvæðinu skulu fjárfestingar í dreifikerfi raforku byggjast á gagnsærri fjárfestingaráætlun sem viðkomandi dreifiveita birtir á a.m.k. tveggja ára fresti. Orkustofnun er heimilt að óska eftir drögum að áætluninni áður en hún birtist en hún er ekki háð samþykki stofnunarinnar.
    Fyrir nefndinni komu fram skiptar skoðanir um hinar auknu heimildir Orkustofnunar. Annars vegar var breytingin talin jákvæð þar sem hún kæmi í veg fyrir svokallaða „gullhúðun“ eða offjárfestingu í kerfinu og gæfi Orkustofnun tækifæri til að hafa betri yfirsýn yfir fjárfestingaráætlanir dreifiveitna. Hins vegar kom fram að breytingin gæti verið íþyngjandi þar sem hún ynni gegn markmiðum um skilvirkni og sýndi lítinn skilning á eðli starfsemi dreifiveitna. Fram kom sjónarmið um að ekki væri tekið tillit til þess hve fjárfestingar dreifiveitna gætu verið háðar skipulagi og uppbyggingu sveitarfélaga þar sem bregðast þurfi við með stuttum fyrirvara. Kallað var eftir frekari rökstuðningi fyrir því að offjárfesting væri talin vera til staðar, auk þess sem skýra þyrfti hugtakið gagnsæi í þessu samhengi, þ.e. gagnsæ fjárfestingaráætlun.
    Meiri hlutinn bendir á að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í áætluninni skal tilgreina áætlaðar fjárfestingar næstu fimm til tíu ára með áherslu á helstu dreifingarinnviði sem eru nauðsynlegir í samræmi við markmið og skyldur dreifiveitna. Meiri hlutinn tekur fram að hann hefur skilning á sjónarmiði dreifiveitna en telur eðlilegt, með hliðsjón af sjónarmiðum um raforkuöryggi og afhendingaröryggi raforku, að til staðar sé ákveðinn fyrirsjáanleiki þegar kemur að fjárfestingum í dreifikerfinu sem tekur við þar sem flutningskerfinu sleppir. Með því að leggja fram fjárfestingaráætlanir til Orkustofnunar náist yfirsýn yfir dreifikerfið, ekki aðeins viðhaldsþörf heldur einnig fyrirhugaða uppbyggingu sem er mikilvægur þáttur þegar kemur að byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á viðkomandi dreifiveitusvæði.
    Jafnframt skal ítrekað að um er að ræða heimild Orkustofnunar en ekki skyldu en fram kom sjónarmið um að í stað þess að Orkustofnun verði heimilt að kalla eftir upplýsingum um fjárfestingar dreifiveitna og forsendur þeirra væri stofnuninni gert það skylt. Meiri hlutinn vísar til þess að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki þurfi að ganga svo langt til að ná því markmiði sem stefnt er að með frumvarpinu og er því með ákvæðinu reynt að gæta ákveðins meðalhófs.

Eignarhald flutningsfyrirtækisins Landsnets hf.
    Í b-lið 4. gr. frumvarpsins er lagt til að flutningsfyrirtækið skuli vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga en skv. 1. mgr. 8. gr. laganna skal fyrirtækið vera í meirihlutaeigu ríkisins, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja í eigu þessara aðila. Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu var samsvarandi breyting á raforkulögum samþykkt árið 2011 og skyldi koma til framkvæmda árið 2015 en fallið var frá henni með nýjum breytingalögum árið 2011. Jafnframt er með 18. gr. frumvarpsins lagt til að ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004, falli brott en það kveður á um að kaupendur hlutafjár geti einungis verið eigendur þeirra flutningsvirkja er falla undir 6. tölul. 3. gr. raforkulaga. Skulu framangreindar breytingar koma til framkvæmda 1. júlí 2022.
    Samkvæmt 2. gr. laga um stofnun Landsnets hf. er hlutverk félagsins að annast raforkuflutning og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga. Því er óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt raforkulögum eða öðrum lögum. Frá 1. janúar 2005 hefur félaginu verið gert að annast rekstur flutningsvirkja er falla undir 6. tölul. 3. gr. raforkulaga. Með gildistöku laganna um stofnun Landsnets hf. í júní 2004 varð heimilt að selja eigendum flutningsvirkjanna hlut í félaginu að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Hluthafar í félaginu við lok árs 2020 voru samkvæmt ársreikningi Landsnets hf.: Landsvirkjun með 64,73% hlut, Rarik ohf. með 22,51%, Orkuveita Reykjavíkur með 6,78% og Orkubú Vestfjarða með 5,98%.
    Meiri hlutinn telur jákvætt að nú sé unnið að því að ljúka þeirri breytingu sem lagt var upp með fyrir um áratug síðan með vísan til sjónarmiða um skýrari aðskilnað milli samkeppnisreksturs og grunnreksturs á orkumarkaði. Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er breytingin gerð með samkeppnissjónarmið í huga en talið var óheppilegt að flutningsfyrirtækið, sem er með einkaleyfi á flutningi raforku og kerfisstjórnun, sé í eigu orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna.

Stórnotendaviðmið og millistórir notendur.
    Í umsögnum til nefndarinnar var hún hvött til að taka til skoðunar að skilgreina millistóra notendur í raforkulögum með vísan til þess hve breitt bil er á milli stórnotenda (þeir sem nota innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst eða ígildi 10MW á ári) og almennra notenda.
    Meiri hlutinn tekur undir að þörf sé á að skoða hvernig breyta megi þessu fyrirkomulagi og vísar um þetta til álits meiri hluta nefndarinnar um mál það er varð að lögum nr. 146/2020, um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004. Þar kom fram að ráðuneytið ynni að því að skoða leiðir til að minnka þau skörpu skil sem eru nú í raforkulögum í skilgreiningu á stórnotanda þar sem miðað er við 10 MW. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu stendur sú vinna enn yfir, bæði af hálfu ráðuneytisins og Landsnets, og felur m.a. í sér endurskoðun á uppbyggingu gjaldskráa, þar á meðal hugmyndir um millistóra notendur og aukna þrepaskiptingu. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki fyrir lok árs.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Hugtakið raforkuöryggi og markmið raforkulaga (1. og 2. gr.).
    Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði fram í markmiðsgrein raforkulaga að það að „tryggja fullnægjandi raforkuöryggi“ sé eitt af markmiðum laganna. Lagt er upp með að horfa á hugtakið í víðara samhengi en aðeins raforkukerfið sjálft, líkt og nú er. Jafnframt er lagt til að hugtakið verði skilgreint svo, sbr. 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins: „Raforkuöryggi: Raforkuöryggi felst í að notendur hafi aðgang að raforku þegar hennar er þörf, með hliðsjón af almennri stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma og skilgreindum áreiðanleika og gæðum. Viðmið fyrir fullnægjandi raforkuöryggi skulu nánar útfærð og skýrð í reglugerð sem ráðherra setur.“
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var því velt upp hvort skilgreiningin væri nægilega skýr og hvort afmarka ætti hugtakið betur í lagatexta í stað þess að útfæra það nánar í reglugerð líkt og lagt er til í frumvarpinu. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að við útfærslu skilgreiningarinnar er byggt á ábendingum úr skýrslu starfshóps um orkuöryggi á heildsölumarkaði fyrir raforku, frá ágúst 2020. Meiri hlutinn bendir á að þar segir að um framboð raforku hafi ekki verið litið lengra en til næstu fimm ára. Mikilvægt sé að skýrt verði hvernig ákvarða skuli mörk fullnægjandi raforkuöryggis, þ.e. jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar til lengri tíma. Því verði í lögunum kveðið á um grunnviðmið við mat á því hvar mörkin liggja en um nánari útfærslu fari samkvæmt reglugerð.
    Meiri hlutinn bendir í þessu samhengi á að það orðalag sem hér er lagt til í ákvæðinu veitir ákveðinn sveigjanleika en meginmarkmiðið er að notendur hafi aðgang að raforku þegar hennar er þörf, með skilgreindum áreiðanleika og gæðum. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að markmið um aðgengi að raforku þegar hennar er þörf sé efnislega sambærilegt því markmiði sem kemur fram í orkustefnu fyrir Ísland til ársins 2050 að „orkuþörf samfélags sé ávallt uppfyllt.“ Þær miklu truflanir sem urðu á flutnings- og dreifikerfi raforku í desember 2019 sýna mikilvægi þess að auka afhendingaröryggi raforku og þá sérstaklega á svæðum sem búa við skert orkuöryggi líkt og Vestfirði og Norðurland vestra. Sama á við um svæði þar sem bregðast þarf við vegna náttúruvár, sbr. jarðskjálfta og eldgos á Reykjanesi í ár. Uppbygging með tilliti til framangreinds er eitt áhersluatriða í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, nr. 26/148.
    Meiri hlutinn telur með vísan til framangreinds að gera megi skýrar að með raforkuöryggi sé einnig átt við aðgengi að raforku þar sem hennar er þörf og leggur til breytingu þess efnis. Meiri hlutinn undirstrikar jafnframt að verði frumvarpið samþykkt munu sömu skorður eiga við þegar túlkuð verða ákvæði raforkulaga, um að notendur hafi aðgang að raforku þegar hennar er þörf og þar sem hennar er þörf. Því er í skilgreiningu kveðið á um að hafa beri hliðsjón af almennri stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma, en þar undir falla m.a. byggðasjónarmið.
    Þá bendir meiri hlutinn á að í skýrslu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um langtímaorkustefnu og aðgerðaáætlun (þskj. 894 á yfirstandandi löggjafarþingi) segir að skilgreina skuli „raforkuöryggi“ í raforkulögum. Setja skuli mælikvarða um hversu áfallaþolið kerfið á að vera og markmið um dreifða framleiðslu og hvernig hún styður við markmið um orkuöryggi, þ.m.t. vegna náttúruhamfara. Einnig skuli setja viðmið varðandi nægjanlega flutningsgetu á milli landshluta og afhendingaröryggi raforku. Meiri hlutinn telur með hliðsjón af framangreindu eðlilegt að þegar kemur að því að útfæra hugtakið „raforkuöryggi“ í reglugerð verði m.a. litið til þeirra viðmiða sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun Orkustefnu.
    Þá er lagt til að í markmiðsákvæði 3. tölul. 1. gr. laganna verði kveðið á um að tryggja skuli neytendavitund á markaði. Neytendasamtökin bentu í umsögn sinni um málið á að hvorki sé í frumvarpinu né í greinargerð fjallað um hvernig hin aukna neytendavitund skuli tryggð eða hver beri ábyrgð á því. Telja samtökin þörf á að tilgreina hvaða aðili beri ábyrgð á að framfylgja því markmiði og hvernig það skuli gert. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið og beinir því til ráðuneytisins að útfæra það nánar í reglugerð.

Starfsmenn flutningsfyrirtækisins (c-liður 4. gr.).
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að 6. mgr. 8. gr. raforkulaga verði breytt á þann hátt að hún kveði á um að stjórnarmenn og þeir starfsmenn flutningsfyrirtækisins sem samkvæmt sérstöku áhættumati þess gegna störfum sem nauðsynleg eru til að tryggja truflunarlausan rekstur flutningskerfisins megi hvorki fara í verkfall né taka þátt í verkfallsboðun. Áhættumatið skuli endurskoðað reglulega og verði staðfest af Orkustofnun. Gildandi ákvæði kveður á um að stjórnarmenn og fastráðnir starfsmenn flutningsfyrirtækis hafi réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna en í greinargerð segir að af því leiði að þeir hafa ekki verkfallsrétt samkvæmt lögum um verkfall opinberra starfsmanna, nr. 33/1915. Í umsögn ASÍ er lýst stuðningi við þessa breytingu á ákvæðinu en gagnrýnt að flutningsfyrirtækinu, þ.e. atvinnurekenda og opinberum aðila, Orkustofnun, sé falið að staðfesta áhættumat án aðkomu viðkomandi stéttarfélaga, m.a. með vísan til félagafrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt þannig að tekið sé mið af lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, og lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, sbr. einnig lög um skrá yfir störf hjá sveitarfélögum sem heimild til verkfalls nær ekki til, nr. 129/2020. Komi upp ágreiningur verði aðilum heimilt að leggja hann fyrir Félagsdóm.
    Meiri hlutinn bendir á að starfsemi flutningsfyrirtækisins, sem hefur það lögbundna hlutverk að annast flutning og kerfisstjórnun raforku, er ein undirstaða samfélagsins og raforkuöryggi er órjúfanlegur hlekkur í þjóðaröryggi. Óumdeilt er hve mikilvægt það er fyrir almannahagsmuni að starfsemi flutningsfyrirtækisins raskist ekki og því telur meiri hlutinn að ekki megi leika vafi á því til hvaða starfa innan flutningsfyrirtækisins verkfallsheimildin nær en í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að ákveðin óvissa hafi ríkt um það. Meiri hlutinn leggur einnig áherslu á að slík breyting sé gerð í sem mestri sátt við alla hlutaðeigandi og leggur til breytingu er kveður á um breytt fyrirkomulag áhættumats með aðkomu viðeigandi stéttarfélaga. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að í ákvæði til bráðabirgða verði flutningsfyrirtækinu falið að ljúka við gerð áhættumats með aðkomu viðeigandi stéttarfélaga eigi síðar en þremur mánuðum frá gildistöku laganna.
    Þá kom fram fyrir nefndinni sjónarmið um að eðlilegt væri að setja sambærilegt ákvæði fyrir dreifiveitur í ljósi samfélagslegs mikilvægis þeirra. Með hliðsjón af því sem að framan greinir um mikilvægi raforku í samhengi við almannaheill og þjóðaröryggi telur meiri hlutinn að um sé að ræða réttmætt sjónarmið sem rétt sé að skoðað verði nánar.

Varaafl – skilgreining, yfirsýn og eftirlit (3. tölul. 2. gr., 4. gr. og 14. gr.).
    Með 3. tölul. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að bæta við 3. gr. laganna orðskýringu til skilgreiningar á hugtakinu varaafl. Ákvæðið er svohljóðandi: „ Varaafl: Afl sem kemur í staðinn fyrir afl sem er ekki tiltækt vegna bilana, skorts á flutningsgetu, orkuskorts eða annarra orsaka. Afl sem kerfisstjóri þarf að hafa aðgang að til að viðhalda stöðugri kerfistíðni.“ Jafnframt er með 14. gr. lagt til að bæta nýrri málsgrein við 24. gr. laganna þar sem Orkustofnun verði veitt heimild til að tryggja að fullnægjandi varaafl sé til staðar til að bregðast við áföllum í raforkukerfinu og falið að hafa yfirsýn og eftirlit með tiltæku varaafli raforku í landinu. Nánar verði kveðið á um útfærslu í reglugerð, þar á meðal um skiptingu kostnaðar á milli Landsnets og dreifiveitna. Í umsögnum og fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við skilgreiningu hugtaksins varaafl þess efnis að mikilvægt væri að skilgreiningin væri sem skýrust, sérstaklega með vísan til þess að Orkustofnun væri falið aukið eftirlit það að lútandi, en sams konar athugasemdir komu einnig fram þegar drög að frumvarpinu voru lögð fram í samráðsgátt.
    Fram kom tillaga frá Ráðgjafaráði veitufyrirtækja innan Samorku um að skilgreiningin yrði tvískipt og greint verði á milli varaafls í hefðbundinni merkingu þess orðs, þ.e. varafls í varaaflsstöðvum, og reiðuafls sem er hluti af daglegri stýringu flutnings- og dreifikerfa raforku, þ.e. stýrt varaafl. Vísað er til þess að í reglugerð um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005, sé greint þar á milli. Í 24. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar er hugtakið varaaflsstöð skilgreint sem virkjun sem einungis vinnur raforku tímabundið vegna bilunar eða truflunar í kerfinu að beiðni kerfisstjóra.
    Meiri hlutinn telur jákvætt að skilgreiningu á hugtakinu varaafli sé bætt við lögin og skyldur Orkustofnunar, flutningsfyrirtækja og dreifiveitna frekar skýrðar í því samhengi, enda er það í samræmi við áherslur Orkustefnu og aðgerðaráætlunar sem byggist á henni. Meiri hlutinn tekur jafnframt undir ábendingar um að skýra megi frekar hugtakið varaafl með því að gerður sé greinarmunur á varaafli í varaaflsstöðvum sem ekki er stýrt af kerfisstjóra og stýrðu varaafli, sbr. umfjöllun í greinargerð. Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn því til að skilgreiningu hugtaksins varaafl verði skipt upp í tvo liði, þ.e. stýrt varaafl og varaafl í varaaflsstöðvum sem ekki er stýrt af kerfisstjóra.
    Þá var komið inn á mikilvægi skýrrar skilgreiningar varaafls með vísan til 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna sem kveður á um útgáfu virkjanaleyfis en með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að ekki þurfi virkjunarleyfi vegna varaaflsstöðva sem gegna eingöngu því hlutverki að útvega afl til eigin nota vegna bilana, skorts á flutningsgetu, orkuskorts eða annarra þátta, þ.e. eru ekki tengdar við flutningskerfið. Bent er á að ekki megi leggja að jöfnu virkjanaleyfi til raforkuvinnslu skv. II. kafla laganna og varaaflsstöðvar sem eru tímabundið tengdar flutnings- eða dreifikerfum raforku vegna bilana eða viðhalds.

Endurnýting orku – heimild til að nýta og selja glatvarma (nýtt ákvæði við 18. gr.).
    Eitt af markmiðum orkustefnunnar er að finna lausnir sem vinna að aukinni sjálfbærni við nýtingu orkuauðlinda og fela í sér hámarksnýtingu orkunnar. Nefndin ræddi sérstaklega hvaða leiðir eru færar til að stuðla að aukinni endurnýtingu orku, m.a. nýtingu glatvarma, þ.e. orku sem leysist úr læðingi í formi varma við iðnaðarframleiðslu. Fyrir nefndinni kom fram að glatvarmi er nær ónýtt orkuauðlind hér á landi en endurnýting orku snýr að ábyrgri nýtingu, lágmörkun sóunar og hámörkun verðmætis sameiginlegra auðlinda. Hins vegar gerir íslenskt lagaumhverfi ekki með beinum hætti ráð fyrir endurnýtingu á orku. Gera má ráð fyrir að margir stórnotendur raforku hér á landi myndi í starfsemi sinni glatvarma sem hægt væri að nýta til annarrar starfsemi, t.d. álver, járnblendi, kísilver og aflþynnuverksmiðjur. Dæmi um tækifæri til orkuendurnýtingar eru hjá kísilveri Elkem Ísland á Grundartanga þar sem myndast um 110 megavött (MW) af varmaafli sem ekki er nýtt í dag. Með orkuendurnýtingu væri hægt að setja þar upp 25–30 MW túrbínu og/eða allt að 70 MW af varmaafli fyrir hitaveitu eða varmakrefjandi starfsemi á t.d. sviði líftækniiðnaðar. Þá kom fram fyrir nefndinni að hægt væri að nýta glatvarma frá Fjarðaáli til húshitunar á Reyðarfirði í stað beinnar rafhitunar sem er dýrasti kosturinn þegar kemur að húshitun. Að mati meiri hlutans er nýting glatvarma því einnig mikilvæg út frá byggðasjónarmiði.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að til staðar séu heimildir í lögum sem heimili stórnotendum, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að nýta og selja þá orku sem leysist úr læðingi frá eigin framleiðsluferlum og annars færi til spillis (glatvarma). Meiri hlutinn leggur því til, að höfðu samráði við ráðuneytið, breytingu þess efnis á V. kafla raforkulaga. Bætt verði við lögin ákvæði sem kveður á um að stórnotendum verði heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að nýta og selja áfram orku sem leysist úr læðingi í formi varma frá eigin framleiðsluferlum og vélbúnaði sem nota orku. Í 19. gr. laganna er kveðið á um skyldur sölufyrirtækja raforku. Stórnotandi sem býr yfir glatvarma gæti talist „sölufyrirtæki“ í þrengri merkingu þess orðs, hvort sem glatvarminn er seldur sem raforka eða hitaveita og væri skylt að greina slíka sölu frá annarri starfsemi sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá telur meiri hlutinn nauðsynlegt að kveðið verði á um nánari útfærslu á nýtingu glatvarma í reglugerð og leggur til að sérstök reglugerðarheimild þess efnis komi fram í ákvæðinu. Þar verði m.a. litið til tímamarka á slíku leyfi ef glatvarminn tengist t.d. tímabundinni afmarkaðri starfsemi. Meiri hlutinn áréttar að þessi heimild nær eingöngu til nýtingar og sölu á glatvarma sem myndast frá eigin framleiðsluferlum. Ekki er um að ræða almenna heimild stórnotenda til endursölu eða áframsölu orku sem þeir kaupa, en um slíkt fer samkvæmt samningum milli raforkusala og raforkukaupanda.
    Jafnframt bendir meiri hlutinn á að æskilegt er að skoðað sé hvort gera þurfi breytingar á öðrum lögum til að breyting sem þessi nái því markmiði sem ætlað er, og vísar þar sérstaklega til laga um mat á umhverfisáhrifum og laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Beinar tengingar og afslættir frá flutningsgjaldi.
    Í 5. og 6. mgr. 12. gr. a raforkulaga er kveðið á um heimild til beinnar tengingar notanda við virkjun og afslátt af flutningsgjaldskrá í ákveðnum tilvikum. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að skýra þyrfti betur þá afslætti sem flutningsfyrirtæki er heimilt að veita bæði stórnotendum og öðrum notendum. Þá kom fram sjónarmið um að rýmka mætti heimild til að veita afslátt af flutningsgjaldi þannig að afslátturinn gæti orðið allt að 100%, þ.e. veita undanþágu frá greiðslu gjaldsins að tilteknum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal að starfsemin sé algjörlega háð orku frá virkjuninni. Slíkir afslættir gætu skipt sköpum um það hvort nýsköpunarfyrirtæki, sem sjá sér hag í að tengjast jarðvarmavirkjun og þurfa ekki að tengjast flutningsnetinu, velji sér stað hér á landi eða erlendis.
    Meiri hlutinn bendir á að raforkulög byggjast á meginreglum um rétt og skyldu virkjana og notenda til tengingar við flutnings- eða dreifikerfi raforku, jafnræði aðila og að tenging nýrra aðila við kerfið eigi ekki að valda auknum tilkostnaði annarra notenda. Heimild til afsláttar af flutningsgjaldi, í þeim tilvikum þegar notandi er tengdur við virkjun sem er tengd flutningskerfinu, líkt og almennt er, hefur því skv. 5. og 6. mgr. 12. gr. a verið hlutfallsleg þar sem viðkomandi nýtur varaafls í gegnum tengingu virkjunar við flutningskerfið, jafnvel þó að virkjunin fari út. Notandinn hefur því greitt hluta af flutningsgjaldi á þeim grunni að honum beri að taka þátt í kostnaði við meginflutningskerfið og rekstur þess þar sem virkjunin nýtur tengingar við kerfið og þegar hefur verið lagt í kostnað vegna tengingar virkjunarinnar.
    Meiri hlutinn tekur fram að nokkurrar sérstöðu gæti hins vegar varðandi þá notendur sem eru beintengdir jarðvarmavirkjun og eru háðir því að fá aðrar afurðir frá virkjuninni en raforku, og njóta ekki varaafls í gegnum flutningskerfið þó að virkjunin detti út. Í gildandi lögum er kveðið á um að heimilt sé að veita slíkum aðilum aukinn afslátt frá flutningsgjaldi án þess að það sé skýrt. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hefur þessari heimild ekki verið beitt í framkvæmd.
    Meiri hlutinn leggur því til, að höfðu samráði við ráðuneytið, að 6. mgr. 12. gr. a. raforkulaga verði breytt og kveðið skýrt á um fullan afslátt frá flutningsgjöldum hjá þeim notendum sem alfarið eru háðir því að fá aðrar afurðir en raforku frá jarðhitavirkjun, hafa enga tengingu við flutningskerfið og njóta þannig engrar þjónustu frá flutningsfyrirtækinu. Slíkir beintengdir notendur verða því undanþegnir greiðslu gjalda til flutningsfyrirtækisins, að því gefnu að hámarksþörf þeirra sé ekki umfram samtals 20 MW í raforku.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að sett sé slíkt hámark varðandi úttekt frá virkjun með vísan til þeirrar meginreglu að tenging nýrra aðila við kerfið eigi ekki að valda auknum tilkostnaði annarra notenda. Sé t.d. nýr 40–50 MW notandi beintengdur við virkjun gæti það haft þau áhrif að sú virkjun hættir að framleiða sambærilegt magn inn á flutningskerfið, með þeim afleiðingum að gjaldskrá annara notenda hækkar. Meiri hlutinn ítrekar því að svigrúm til að beintengja stóra nýja notendur og undanþiggja þá flutningsgjaldi, án þess að komi til hækkunar á almennri gjaldskrá annarra notenda, er að því leyti takmarkað út frá lögmálum flutningskerfisins og reksturs þess.
    Meiri hlutinn leggur til að ákvæðið verði útfært nánar með reglugerð en heimild þar að lútandi er í niðurlagsákvæði 12. gr. a.
    Meiri hlutinn telur að með framangreindri breytingu sé stutt við þá aðila sem standa að nýsköpunarverkefnum á sviði orku- og loftslagsmála, auk þess að hvetja til fjárfestingar og nýsköpunar á þessu sviði. Meiri hlutinn ræddi jafnframt hvort afmarka skyldi ákvæðið við nýsköpunarfyrirtæki en telur að slík afmörkun gæti verið of þröng og réttara sé að horfa til eðlis verkefna með hliðsjón af orkustefnu og loftslagsmarkmiðum samkvæmt loftslagsstefnu.
    Meiri hlutinn bendir einnig á, með vísan til orkustefnu þar sem sjálfbærni og fullnýting orkuauðlinda eru meðal leiðarljósa, hve mikilvægt er að ná fyrirsjáanleika og samræmi með stefnumótun, sbr. einnig markmið um orkuskipti, loftslagsstefnu og nýsköpunarstefnu. Framangreint byggist á því að til staðar sé þekking og hugmyndaauðgi til útfærslu markmiða og því mikilvægt að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar, laði til sín slík verkefni og auki jafnframt samkeppnishæfni Íslands.
    Meiri hlutinn telur að þær breytingar sem hann leggur til um heimild til nýtingar og sölu glatvarma, sem og undanþágu frá greiðslu flutningsgjalds raforku að tilteknum skilyrðum uppfylltum vegna beinna tenginga, falli vel að og komi til með að styðja við þau verkefni stjórnvalda sem snúa að því að efla græna fjárfestingu og auka samkeppnishæfni Íslands, m.a. með eflingu hringrásarhagkerfisins og fjölnýtingu ólíkra auðlindastrauma. Má þar nefna Græna dregilinn sem er samstarfsverkefni ráðuneytisins, Íslandsstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélaga landshlutanna með það að markmiði að hægt verði að fullnýta auðlindastrauma og efla hringrásarhagkerfið á tilteknum atvinnusvæðum. Nátengt því er verkefnið Grænir iðngarðar sem er samstarfsverkefni ráðuneytisins, Íslandsstofu, Landsvirkjunar og Norðurþings um græna iðngarða og hringrásalausnir. Er það í fyrsta áfanga og sem tilraunaverkefni verið að kanna uppbyggingu á grænum iðngarði að Bakka við Húsavík.
    Aðrar breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „þörf“ í 2. tölul. komi: og þar sem hennar er þörf.
                  b.      3. tölul. orðist svo: Stýrt varaafl: Afl sem kerfisstjórn hefur aðgang að til að viðhalda og/eða endurreisa kerfistíðni.
                  c.      Við bætist nýr töluliður sem orðist svo: Varaafl í varaaflsstöðvum: Afl sem ekki er stýrt af kerfisstjóra en er notað tímabundið vegna bilana eða truflana í flutnings- og/eða dreifikerfum eða vegna viðhalds á einstökum hlutum þeirra og fæðing eftir öðrum leiðum er útilokuð.
     2.      Efnismálsgrein c-liðar 4. gr. orðist svo:
                      Fyrir 1. febrúar ár hvert skulu ráðherra og flutningsfyrirtækið, að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög, birta skrár um þau störf sem heimild til verkfalls nær ekki til samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, og lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Ný skrá tekur gildi 15. febrúar næst eftir birtingu. Sé ný skrá ekki birt samkvæmt framangreindu framlengist síðast gildandi skrá um eitt ár. Andmæli gegn breytingum á skrám skulu borin fram fyrir 1. mars sama ár og skal ágreiningur um breytingar lagður fyrir Félagsdóm sem sker úr honum til fullnustu.
     3.      8. gr. orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. a laganna:
                  a.      6. mgr. orðast svo:
                      Notandi sem í framleiðslu sinni er alfarið háður því að fá aðrar afurðir jarðhitavirkjunar en raforku getur óskað heimildar til beinnar tengingar við virkjun skv. 5. mgr. enda þótt hann nái ekki stórnotendaviðmiði. Skilyrði þessa er að notandi njóti engrar þjónustu frá flutningsfyrirtækinu, hafi enga tengingu við flutningskerfið og vinni að skilgreindum verkefnum á sviði orku- og loftslagsmála. Slíkir notendur skulu undanþegnir greiðslu gjalda til flutningsfyrirtækisins. Hámarksaflþörf slíkra notenda sem beintengdir eru virkjun má ekki vera umfram 20 MW.
                  b.      Í stað orðsins „sex“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: átta.
     4.      Á eftir 11. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Á eftir 18. gr. a laganna kemur ný grein, 18. gr. b, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

             Leyfi til orkuendurnýtingar.

                      Stórnotanda raforku skv. 17. tölul. 3. gr. er heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að nýta og selja orku sem leysist úr læðingi í formi varma frá eigin framleiðsluferlum og vélbúnaði sem nota orku (glatvarmi). Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skilyrði til nýtingar glatvarma.

Alþingi, 4. júní 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Haraldur Benediktsson.