Ferill 645. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1654  —  645. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnvald G. Gunnarsson, Sigríði Jakobínudóttur og Ásthildi Knútsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur og Gígju Gunnarsdóttur frá landlæknisembættinu, Ingibjörgu Loftsdóttur og Jónínu Waagfjörð frá VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði, Ingu Þórsdóttur frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Guðrúnu Magnúsdóttur og Jóhann Friðrik Friðriksson frá lýðheilsuráði Reykjanesbæjar, Þóru Jónsdóttur frá Barnaheillum, Guðjón Bragason og Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Auði Ingu Þorsteinsdóttir frá Ungmennafélagi Íslands og Svandísi Önnu Sigurðardóttur og Achola Otieno frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Barnaheillum, Bindindissamtökunum IOGT, embætti landlæknis, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagsráðgjafafélagi Íslands, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Hrafnistu, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Krabbameinsfélagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, lýðheilsuráði Reykjanesbæjar, Reykjavíkurborg, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum um líkamsvirðingu, Ungmennafélagi Íslands og VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði.
    Með tillögunni er lagt til að sett verði lýðheilsustefna til ársins 2030 og að horft verði til sjö meginviðfangsefna, líkt og þegar hefur verið gert í heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Með þeirri aðferð er notast við þá miklu vinnu sem þegar er að baki í heilbrigðisráðuneyti við gerð heilbrigðisstefnu, þó að eðli málsins samkvæmt séu önnur atriði sem huga þurfi að. Í umsögnum og málflutningi gesta kom fram almennur stuðningur við að sett yrði lýðheilsustefna á þeim forsendum og með þau markmið sem fram koma í þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra um lýðheilsustefnu til ársins 2030 og þykir hún rökrétt framhald fyrri lýðheilsustefnu sem sett var árið 2016.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram áhyggjur nefndarmanna vegna athugasemda umsagnaraðila um skort á samráði þegar tillaga að stefnunni var í undirbúningi. Meiri hlutinn tekur undir þær áhyggjur og leggur áherslu á mikilvægi þess að samráð sé haft við þá sem eiga að framfylgja stefnunni. Þá leggur meiri hlutinn sérstaka áherslu á slíkt samráð þegar kemur að framkvæmd stefnunnar og þeim aðgerðum sem af henni leiðir.
    Vikið var að mikilvægi lýðheilsu og forvarna fyrir alla aldurshópa og minnt á hversu mikilvægt væri að hin almenna lýðheilsustefna tæki til allra landsmanna. Ábendingar komu fram um að mikilvægt væri að stefnumótun og aðgerðir í lýðheilsumálum grundvölluðust ávallt á bestu fáanlegu þekkingu og að mikilvægt væri að stuðla að öflugu rannsóknarstarfi á þessu sviði svo að unnt yrði að ná þeim markmiðum um lýðheilsustarf á heimsmælikvarða sem stefnt er að. Tekur meiri hlutinn undir ábendingar í umsögn heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um mikilvægi grunnrannsókna og gagnreyndra forvarna fyrir farsælan framgang lýðheilsustefnunnar og almenna eflingu líkamlegrar og andlegrar heilsu landsmanna. Bent var á mikilvægi samstarfs ólíkra geira þegar kemur að rannsóknum og vísindastarfi á þessu sviði, svo sem menntastofnana, heilbrigðiskerfisins og íþróttahreyfingarinnar.
    Á það var bent að hinni almennu heilsugæslu væri ætlað veigamikið hlutverk við framkvæmd lýðheilsustefnu og vakin athygli á því að mikilvægt væri að búa svo um hnúta að landsmenn hefðu greiðan aðgang að heilsugæslu alls staðar á landinu.
    Ljóst þykir að hlutverk sveitarfélaganna við framkvæmd lýðheilsustefnu til 2030 verður viðamikið og krefjandi. Meiri hlutinn áréttar í þessu sambandi að þótt útgjöld fylgi lýðheilsustefnunni og verkefnum sem efnt er til vegna hennar mun einnig verða af henni fjárhagslegur ávinningur til lengri tíma litið þar sem hún leiðir til betri heilsu og aukinna lífsgæða. Lýðheilsustefnunni er hvorki ætlað að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga né verða til þess að útgjaldaskipting milli þessara stjórnsýslustiga breytist.
    Áhrif lýðheilsustefnunnar á börn og ungmenni komu til umræðu og var í því sambandi vakin athygli á mikilvægi þess að huga heildstætt að málefnum barnafjölskyldna með það að markmiði að efla fjölskyldur og gera þær færari til að taka upp lífshætti sem þjóna lýðheilsumarkmiðum. Mikilvægt væri að hugað yrði að því við framkvæmd lýðheilsustefnunnar að hún tæki ekki einvörðungu til þeirra viðfangsefna sem falla undir starfssvið heilbrigðiskerfisins heldur yrði einnig hugað að fjölskyldu- og félagsmálum. Í þessu sambandi var fjallað um samstarf og samskipti fjölskyldna, skóla og heilbrigðiskerfis og m.a. vikið að því hversu mikilvæg heilsugæsla á vegum skóla gæti reynst með tilliti til lýðheilsumarkmiða. Bent var á að sú mikla vinna sem fram hefði farið á kjörtímabilinu við mótun heildstæðrar og samþættrar stefnu og þjónustu í málefnum barna gæti þarna komið að gagni. Ljóst þykir að markmið um lýðheilsustarf á heimsmælikvarða krefst víðtækrar samvinnu fjölda aðila á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, þriðja geirans, íþrótta- og æskulýðsfélaga og almennings og enn fremur að nauðsynlegt er að gefa gaum að mismunandi efnahag fólks og félagslegri stöðu við ráðstafanir sem eiga að miða að bættri lýðheilsu.
    Fram kom að mikilvægt væri að þróaðar yrðu haldbærar aðferðir til að meta ávinning af lýðheilsuráðstöfunum og bæri í því samhengi að líta bæði til fjárhagslegs ávinnings og félagslegs. Var í þessu sambandi rætt um að þróa ætti „mælaborð“ þar sem unnt væri að fylgjast með og birta niðurstöðu mælinga á stöðu lýðheilsu og framvindu í þróun mælanlegra markmiða. Bent var á að þróun slíkra mælaborða væri þegar hafin hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga. Þar sem ljóst er að áhrif lýðheilsustefnu og lýðheilsuaðgerða verða langvinn þarf slíkt „mælaborð“ að vera þannig úr garði gert að það ráði við að fylgja mælingunum eftir um langt skeið.
    Vikið var að þróun aldursskiptingar og fólksfjölda í fyrirsjáanlegri framtíð og bent á að miklu skipti fyrir ætlaðan kostnað við öldrunarþjónustu og heilsugæslu eldri borgara á næstu áratugum hvernig til tekst við framkvæmd lýðheilsustefnu. En þótt athygli væri einkum vakin á horfum varðandi öldrun þjóðarinnar kom einnig fram að það væri talið skipta miklu að vel tækist til við að efla lýðheilsu á öllum aldursskeiðum.
    Enn fremur var bent á að mikilvægt væri að haga aðgerðum þannig að gert yrði ráð fyrir því að allir landsmenn nytu þeirra aðgerða sem lýðheilsustefnan kynni að leiða til og hefðu tækifæri til að tileinka sér þau gæði sem henni fylgdu. Til þess að svo megi verða þarf við framkvæmdina að huga að kyni og kynvitund, uppruna og málakunnáttu, fötlun, stöðu gagnvart vinnumarkaði, efnahag og mörgu öðru er varðar aðstöðu almennings til að tileinka sér það sem lýðheilsustefnan hefur upp á að bjóða.
    Meiri hlutinn tekur undir þessar ábendingar og telur að hin víðtæka og almenna lýðheilsustefna sem innleidd verður samkvæmt þingsályktunartillögunni muni snerta mjög mörg svið samfélagsins og leiða til nýrra aðgerða og stefnumörkunar á ýmsum sviðum. Þar muni skapast vettvangur til nýs samstarfs og tækifæri gefast til að huga sérstaklega að lýðheilsumálum ýmissa hópa og svæða sem mikilvægt er að verði vel nýtt. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi þess að víðtækt samráð verði haft við hlutaðeigandi, því að þannig má ætla að best samstaða náist um þessa mikilvægu stefnu.
    Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Helga Vala Helgadóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 4. júní 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form., með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason.