Ferill 850. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1655  —  850. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991 (samkomudagur reglulegs Alþingis 2021).

Flm.: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 1. gr. skal 151. löggjafarþingi ljúka 25. september 2021 enda hafi þingrofi þá verið lýst skv. 24. gr. stjórnarskrárinnar. Skal reglulegt Alþingi 2021, 152. löggjafarþing, þá koma saman þegar forseti Íslands hefur stefnt saman Alþingi, sbr. 22. og 24. gr. stjórnarskrárinnar, og standa fram til reglulegs samkomudags Alþingis 2022, annars þriðjudags septembermánaðar það ár, sbr. 35. gr. stjórnarskrárinnar og 4. mgr. 1. gr. laga þessara.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að yfirstandandi löggjafarþing, 151. löggjafarþing, verði framlengt til 25. september 2021 en þann dag er áformað að almennar alþingiskosningar fari fram. Setning reglulegs Alþingis 2021, 152. löggjafarþings, sem að óbreyttu ætti að fara fram 14. september nk., frestast því og mun í samræmi við 22. og 24. gr. stjórnarskrárinnar verða sett þegar forseti Íslands hefur stefnt Alþingi saman að afloknum alþingiskosningum.
    Í 1. mgr. 35. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að reglulegt Alþingi skuli koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er og standi til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið. Þeirri tímasetningu má samkvæmt ákvæði 2. mgr. breyta með lögum. Svo var gert með lögum nr. 84/2011, um breytingu á lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis (nefndaskipan, eftirlitshlutverk Alþingis o.fl.), og var samkomudagurinn þá ákveðinn annar þriðjudagur í september ár hvert.
    Samkomudegi reglulegs Alþingis hefur einu sinni áður, þ.e. haustið 2016, verið breytt í tengslum við þingrof og ákvörðun á kjördegi alþingiskosninga frá því að gildandi ákvæði stjórnarskrárinnar um samkomudaginn var sett. Þrisvar sinnum að auki hefur samkomudagurinn verið fluttur til, nú síðast er setningu reglulegs Alþingis 2020, 151. löggjafarþings, var seinkað til 1. október það ár, til þess að betra svigrúm fengist til að undirbúa nauðsynlegar breytingar á stefnu og áætlun í ríkisfjármálum að breyttum efnahagslegum aðstæðum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Yfirstandandi kjörtímabili Alþingis lýkur að óbreyttu 28. október nk. en þar sem fyrirhugað er að alþingiskosningar fari fram áður en kjörtímabil alþingismanna rennur út þarf að rjúfa þing á grundvelli 24. gr. stjórnarskrárinnar og stofna til nýrra kosninga. Tilkynning um þingrof felur í sér hina formlegu ákvörðun um kjördag sem skal fara fram áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið. Með frumvarpi þessu er því sem fyrr segir lagt til að núverandi þing standi yfir fram að kjördegi og að reglulegt Alþingi 2021, 152. löggjafarþing, muni koma saman að afloknum þingkosningum eða í síðasta lagi 10 vikum eftir kjördag í samræmi við 22. og 24. gr. stjórnarskrárinnar. Þingið getur starfað áfram þótt gert hafi verið kunnugt um þingrof enda halda alþingismenn eftir sem áður umboði sínu til kjördags, sbr. 24. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í frumvarpinu er loks lagt til að áréttað verði að 152. löggjafarþing, sem sett verður að afloknum kosningum, skuli standa fram til reglulegs samkomudags Alþingis 2022, þ.e. annars þriðjudags septembermánaðar það ár, í samræmi við 35. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga um þingsköp Alþingis.