Ferill 791. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1694  —  791. mál.
3. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016 (hámark greiðslubyrðar, undanþágur o.fl.).

Frá Ingu Sæland.


    Á eftir 3. gr. komi þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:
     1.      Á eftir 33. gr. laganna kemur ein ný grein, 33. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Verðtryggð lán.

             Neytandi á ávallt rétt á að breyta eftirstöðvum verðtryggðs láns í óverðtryggt lán, án endurnýjunar lánshæfis- og greiðslumats, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
                  1.      Lánið sé ekki í verulegum vanskilum.
                  2.      Heildarskuld neytanda hækki ekki við breytinguna.
                  3.      Greiðslubyrði neytanda hækki ekki við breytinguna.
     2.      Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Sértækar skyldur vegna fasteignalána með breytilegum lántökukostnaði.
     3.      Við 63. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ákvæði 33. gr. a taka til allra samninga um fasteignalán sem lánveitendur eða lánamiðlarar hafa gert í atvinnuskyni við neytendur samkvæmt lögum þessum eða lögum um neytendalán.

Greinargerð.

    Lagt er til að í lög um fasteignalán komi ný grein sem veiti neytendum heimild til að breyta eftirstöðvum verðtryggðra húsnæðislána í óverðtryggð lán. Þegar er til staðar sambærileg heimild í 3. mgr. 33. gr. laganna sem tekur til lána sem tekin eru í erlendum gjaldmiðli. Neytendur eru berskjaldaðir gagnvart skyndilegum gengissveiflum þegar lán eru tekin í erlendum gjaldmiðlum. Neytendur eru einnig berskjaldaðir gagnvart skyndilegri verðbólgu þegar lán þeirra eru verðtryggð. Því ættu sömu úrræði að standa neytendum til boða í báðum tilvikum.
    Verði breytingartillaga þessi samþykkt, og svo frumvarpið svo breytt, munu neytendur geta óskað þess að lánveitandi bjóði upp á endurfjármögnun verðtryggðs láns með töku óverðtryggðs láns og er þá lánveitanda skylt að veita neytanda kost á slíkri endurfjármögnun, svo fremi sem önnur skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.