Ferill 645. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Nr. 29/151.

Þingskjal 1759  —  645. mál.


Þingsályktun

um lýðheilsustefnu til ársins 2030.


    Alþingi ályktar að leiðarljós lýðheilsustefnu fram til ársins 2030 verði heilsuefling og forvarnir sem verði hluti af allri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins.
    Með lýðheilsu í þessari þingsályktun er átt við heilsueflingu og forvarnir sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er.
    Framtíðarsýn fyrir lýðheilsu á Íslandi verði eftirfarandi:
     a.      Lýðheilsustarf verði markvisst, á heimsmælikvarða og einkennist m.a. af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu, sérstaklega heilsugæslu, og annarra hagaðila á Íslandi, t.d. sveitarfélaga, með áherslu á heilsueflingu og forvarnir.
     b.      Lýðheilsustarf verði metið með því að mæla gæði, öryggi, árangur, aðgengi og kostnað sem og kostnaðarhagkvæmni.
    Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika verði lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni til þess að styrkja stoðir lýðheilsustarfs hér á landi:
     1.      Forysta til árangurs.
     2.      Rétt þjónusta á réttum stað.
     3.      Fólkið í forgrunni.
     4.      Virkir notendur.
     5.      Skilvirk þjónustukaup.
     6.      Gæði í fyrirrúmi.
     7.      Hugsað til framtíðar.
    Lýðheilsustarf á Íslandi hafi jafnrétti og jöfnuð að leiðarljósi.

1. Forysta til árangurs.
    Til að skýra hlutverk og vinna að bættri stjórnun og samhæfingu í lýðheilsustarfi á Íslandi verði stefnumiðin til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Stjórnvöld hafi lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun.
     2.      Löggjöf sem fjallar um lýðheilsu verði skýr, hún kveði afdráttarlaust á um hlutverk heilbrigðisstofnana, sveitarfélaga og annarra sem sinna lýðheilsustarfi.
     3.      Hlutverk og fjárhagsleg ábyrgð stjórnvalda sem sinna lýðheilsustarfi verði vel skilgreind.
     4.      Stofnanir heilbrigðisráðuneytisins geri árlega eigin starfsáætlun sem taki mið af lýðheilsustefnu og aðgerðaáætlunum heilbrigðisráðherra sem og öðrum stefnum og áætlunum hins opinbera á sviði lýðheilsu eða sem snerta lýðheilsu á einn eða annan hátt.
     5.      Markmið lýðheilsustarfs verði öllum ljós og upplýsingar um árangur þess verði aðgengilegar almenningi.
     6.      Embætti landlæknis verði áfram í forystuhlutverki í íslensku samfélagi á sviði lýðheilsu í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.
     7.      Vísindarannsóknir á sviði lýðheilsu verði efldar með markvissum hætti.

2. Rétt þjónusta á réttum stað.
    Til að skapa heildrænt kerfi sem stuðlar að heilsu allra landsmanna og til að gæta að hagkvæmni og jafnræði verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Allir landsmenn hafi aðgang að skýrum upplýsingum um hvernig og hvert skuli leitað þegar kemur að þjónustu er varðar heilsueflingu og forvarnir.
     2.      Heilsuefling og forvarnir verði hluti af heilbrigðisþjónustu á öllum stigum þjónustunnar. Stuðlað verði að markvissri heilsueflingu og forvörnum, á réttum stöðum innan heilbrigðisþjónustu, m.a. með ráðgjöf um heilbrigða lifnaðarhætti, forvarnir og skaðaminnkun fyrir einstaklinga og hópa, m.a. á sviði næringar, hreyfingar, geðræktar, tannverndar, kynheilbrigðis og áfengis-, vímu- og tóbaksvarna, þ.m.t. um notkun rafrettna og nikótínvara.
     3.      Heilsugæslan taki virkan þátt í lýðheilsustarfi, m.a. í samstarfi við sveitarfélög, og stuðli þannig að aukinni samfellu og gæðum í þjónustu.
     4.      Rafræn upplýsingamiðlun til landsmanna um heilsueflingu og forvarnir verði efld, svo sem í gegnum Heilsuveru.

3. Fólkið í forgrunni.
    Til að tryggja markvisst lýðheilsustarf sem mætir þörfum notenda á einstaklingsmiðaðan hátt og stuðlar að heilsu allra landsmanna verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Samstarf og teymisvinna verði milli stofnana og þverfagleg nálgun einkenni vinnubrögð með það fyrir augum að tryggja aðgengi, gæði og samfellu í lýðheilsustarfi.
     2.      Stjórnvöld stuðli að aukinni heilsueflingu allra með því að skapa ákjósanlegar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum og með mismunandi þarfir. Sköpuð verði greið leið á milli þjónustustiga, hvort sem hún snýr að t.d. þjálfun eða félags- og tómstundastarfi, t.d. hjá öldruðum. Mikilvægt er að ryðja úr vegi kerfisbundnum hindrunum sem hamla gegn tækifærum fólks til að lifa heilbrigðu lífi, búa við heilsusamlegar aðstæður og taka virkan þátt í samfélaginu, svo sem fátækt, atvinnuleysi, ójöfnuði, skorti á menntun, skorti á félagslegum stuðningi og jaðarsetningu.
     3.      Komið verði á þverfaglegri heilsueflandi móttöku innan heilsugæslu fyrir alla aldurshópa, hún efld og jafnt aðgengi allra að slíkri þjónustu tryggt.

4. Virkir notendur.
    Til að stuðla að virkri og ábyrgri þátttöku í lýðheilsustarfi verði stefnumið málaflokksins til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Stjórnvöld stuðli að því að allir Íslendingar verði meðvitaðir um ábyrgð á eigin heilsu, m.a. með fræðslu og vitundarvakningu um gildi forvarna og heilsueflingar, svo sem á sviði næringar, hreyfingar og geðræktar. Stjórnvöld auki möguleika fólks á að hlúa að eigin heilsu og auki meðvitund almennings um gagnreyndar leiðir til að efla eigin heilsu og vellíðan.
     2.      Allir hafi góðan aðgang að upplýsingum um heilsueflingu og forvarnir, t.d. um rafræna notendagátt eins og Heilsuveru. Allir hafi þannig aðgang að hagnýtum og gagnreyndum upplýsingum sem auðveldi þeim að stunda heilbrigðan lífsstíl og viðhalda heilsunni eða bæta hana.
     3.      Stjórnvöld stuðli að því að allir hafi viðeigandi þekkingu og færni til að taka upplýstar ákvarðanir um heilsueflingu og forvarnir og geti þannig betur borið ábyrgð á eigin heilsu, svo sem með því að auka heilsulæsi og færni almennings með markvissum hætti, m.a. með fræðslu í heilsugæslu og í menntakerfi landsins, og veiti nauðsynlegan stuðning fyrir þá sem ekki hafa forsendur til að tileinka sér heilsulæsi eða færni til að bera ábyrgð á eigin heilsu.

5. Skilvirk þjónustukaup.
    Til að stuðla að hagkvæmum og markvissum lýðheilsuverkefnum í samræmi við stefnu stjórnvalda og þarfir notenda verði stefnumið málaflokksins til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Stjórnvöld kaupi heilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni og styrki lýðheilsustarf sem er gagnreynt, árangursríkt og sjálfbært.
     2.      Fjármagn til lýðheilsustarfs á Íslandi verði aukið, bæði með kaupum Sjúkratrygginga Íslands á heilbrigðisþjónustu í forvarnaskyni og með fjárveitingum, svo sem úr lýðheilsusjóði.
     3.      Stjórnvöld styrki nýsköpun á sviði lýðheilsustarfs með markvissum hætti.
     4.      Stjórnvöld samræmi eins og kostur er kaup á þjónustu er varðar söfnun og vinnslu gagna um lýðheilsu með það að markmiði að þau nýtist sem best við stefnumótun og áætlanagerð á vettvangi hins opinbera. Mikilvægt er að það liggi skýrt fyrir hvaða gögnum er verið að safna, hvaða gögn er nauðsynlegt að séu til staðar og skýrt hvert eignarhald á gögnum er sem safnað er fyrir opinbert fé og hver hafi heimild til að nota þau gögn og með hvaða hætti.

6. Gæði í fyrirrúmi.
    Til að tryggja gæði og öryggi í lýðheilsustarfi verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu, m.a. með því að nota staðbundna lýðheilsuvísa og önnur viðeigandi gögn og aðferðir til greiningar, velja árangursríkar lausnir, meta framvindu og birta niðurstöður um árangur í lýðheilsustarfi.
     2.      Gögn um lýðheilsustarf verði samanburðarhæf milli landsvæða og við árangur annarra þjóða. Samanburður verði gerður reglulega af embætti landlæknis. Nauðsynlegt er að viðhafa markvissa gagnasöfnun til að leggja mat á árangur.
     3.      Tryggt verði að heilbrigðisstarfsfólk og aðrir sem vinna að lýðheilsustarfi, svo sem innan stjórnsýslu sveitarfélaga og skóla og frístundastarfs, búi yfir viðeigandi þekkingu og færni og fái stuðning til að sinna heilsueflingu og forvörnum með markvissum hætti.

7. Hugsað til framtíðar.
    Til að tryggja áframhaldandi þróun í lýðheilsu þjóðarinnar verði stefnumið til ársins 2030 eftirfarandi:
     1.      Heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem skrifi drög að frumvarpi til heildarlaga um lýðheilsu með áherslu á heilsueflingu og forvarnir.
     2.      Markvisst verði tryggð gagnasöfnun um lýðheilsu þjóðarinnar með það að markmiði að fylgjast með framvindu og bregðast við yfirvofandi lýðheilsuógnum með áhrifaríkum hætti.
     3.      Efnahagslegir hvatar verði nýttir til að efla lýðheilsu á Íslandi.
     4.      Samstarf ráðuneyta og stofnana á sviði lýðheilsu verði eflt með markvissum hætti. Þá verði markvisst unnið að eflingu vísindastarfs á sviði lýðheilsu og forvarna og stutt verði við nýsköpun á sviðinu.

8. Stefnan í framkvæmd.
    Til að hrinda lýðheilsustefnu til ársins 2030 í framkvæmd verði gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu aðila, svo sem sveitarfélög. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega meðan lýðheilsustefnan er í gildi. Heilbrigðisráðherra leggi árlega fram aðgerðaáætlanir lýðheilsustefnunnar til umræðu á Alþingi.

Samþykkt á Alþingi 12. júní 2021.