Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1788  —  558. mál.
2. umræða.Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001 (bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið þrjár umsagnir, frá Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Ungum umhverfissinnum.
    Með frumvarpinu er lagt til að felld verði brott lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, og með því verði leit og vinnsla jarðefnaeldsneytis bönnuð hér á landi. Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að ráðherra geri tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar séu í kjölfar samþykktar frumvarpsins. Meiri hlutinn telur betur fara á því, ef vilji er til að setja bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis, að málið verði skoðað heildstætt og frumvarp lagt fram sem feli í sér allar nauðsynlegar breytingar á lögum. Þar sem ekki stendur yfir leit eða vinnsla jarðefnaeldsneytis er svigrúm til að vinna málið frekar. Meiri hlutinn áréttar þó mikilvægi þess að Ísland grípi til markvissra og ákveðinna aðgerða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í samræmi við metnaðarfullan stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar og vinnslu.

Alþingi, 12. júní 2021.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Njáll Trausti Friðbertsson.