Ferill 893. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1912  —  893. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um gjaldfrjálsar tíðavörur.


     1.      Náðist það markmið að tryggja gjaldfrjálsar tíðavörur í skólakerfinu við lok vorannar árið 2021 líkt og ráðherra taldi raunhæft við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2021? Ef ekki, mun ráðuneytið sjá til þess að allir framhaldsskólar, grunnskólar og félagsmiðstöðvar í öllum sveitarfélögum bjóði upp á gjaldfrjálsar tíðavörur strax við byrjun næsta skólaárs?
    Ráðherra sendi skólameisturum allra framhaldsskóla bréf 2. mars 2021 og beindi því til skólanna að sjá til þess að tíðavörur yrðu aðgengilegar og gjaldfrjálsar fyrir nemendur framhaldsskóla fyrir lok síðasta skólaárs. Taldi ráðherra það bæði sanngjarnt og réttlátt að aðgengi að tíðavörum væri gjaldfrjálst í skólakerfinu. Allnokkrir framhaldsskólar hafa boðið upp á gjaldfrjálsar tíðavörur í nokkur ár en aðrir brugðust við bréfi ráðherra frá því í vor og bjóða allir þessar vörur gjaldfrjálsar frá og með skólaárinu 2021–2022.
    Ráðuneytið aflaði upplýsinga hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um hvort sveitarfélög bjóði upp á gjaldfrjálsar tíðavörur í grunnskólum og félagsmiðstöðvum. Ráðuneytið getur ekki séð til þess að sveitarfélög bjóði upp á tíðavörur í grunnskólum og félagsmiðstöðvum en hefur hvatt til þess að það verði gert. Mörg sveitarfélög hafa brugðist við og bjóða nú þegar upp á slíkar vörur í sínum mannvirkjum.

     2.      Hvaða sveitarfélög buðu upp á gjaldfrjálsar tíðavörur í grunnskólum og félagsmiðstöðvum við lok vorannar árið 2021? Hvaða framhaldsskólar buðu upp á gjaldfrjálsar tíðavörur á sama tíma?
    Ráðuneytið aflaði upplýsinga hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um hvaða sveitarfélög bjóða upp á gjaldfrjálsar tíðavörur. Sambandið sendi út könnun til allra sveitarfélaga þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort boðið væri upp á gjaldfrjálsar tíðavörur í grunnskólum og félagsmiðstöðvum eða hvort það væri í vinnslu. Góð svörun var í könnuninni en þau sveitarfélög sem svöruðu ná yfir u.þ.b. 96% landsmanna. Rétt er að árétta að ekki er um lagaskyldu fyrir sveitarfélög og ræða heldur byggist ákvörðun á stefnu viðkomandi sveitarfélaga.
    Hvað varðar grunnskóla eru rúm 70% sveitarfélaga að bjóða upp á gjaldfrjálsar tíðavörur eða með það í vinnslu. Það þýðir að um 86% grunnskólanema hafa eða munu fljótlega hafa aðgang að ókeypis tíðavörum í grunnskólum.
    Tæp 30% bjóða ekki upp á gjaldfrjálsar tíðavörur en þó verður að setja þann fyrirvara að af þeim 30% eru þónokkur sveitarfélög að hefja umræðu um málið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eftirfarandi sveitarfélög bjóða upp á gjaldfrjálsar tíðavörur í grunnskólum: Akureyrarbær, Akraneskaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Múlaþing, Dalabyggð, Bolungarvíkurkaupstaður, Stykkishólmsbær, Vestmannaeyjabær, Reykjavíkurborg, Bláskógabyggð, Þingeyjarsveit, Ásahreppur, Suðurnesjabær, Húnavatnshreppur, Sveitarfélagið Skagafjörður, Seltjarnarnesbær, Hvalfjarðarsveit, Hveragerðisbær, Hörgársveit, Sveitarfélagið Hornafjörður, Grindavíkurbær, Grímsnes- og Grafningshreppur, Tálknafjarðarhreppur, Dalvíkurbyggð, Svalbarðsstrandarhreppur og Vopnafjarðarhreppur.
    Eftirfarandi sveitarfélög eru með málið í vinnslu: Kópavogsbær, Akrahreppur, Strandabyggð, Ísafjarðarbær og Kaldrananeshreppur.
    Hvað varðar félagsmiðstöðvar eru um 68% sveitarfélaga að bjóða upp á gjaldfrjálsar tíðavörur eða eru með það í vinnslu. Það þýðir að um 88% grunnskólanemenda hafa eða munu fljótlega hafa aðgang að ókeypis tíðavörum í félagsmiðstöðvum.
    Tæp 32% bjóða ekki upp á gjaldfrjálsar tíðavörur í félagsmiðstöðvum en þó verður að setja sama fyrirvara og áður að mörg eru að hefja umræðu um málið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eftirfarandi sveitarfélög bjóða upp á gjaldfrjálsar tíðavörur í félagsmiðstöðvum: Akureyrarbær, Akraneskaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Múlaþing, Dalabyggð, Borgarbyggð, Stykkishólmsbær, Reykjavíkurborg, Þingeyjarsveit, Ásahreppur, Húnaþing vestra, Fjarðabyggð, Suðurnesjabær, Húnavatnshreppur, Sveitarfélagið Skagafjörður, Seltjarnarnesbær, Hveragerðisbær, Hörgársveit, Sveitarfélagið Hornafjörður, Grindavíkurbær, Grímsnes- og Grafningshreppur, Dalvíkurbyggð, Svalbarðsstrandarhreppur og Vopnafjarðarhreppur.
    Eftirfarandi sveitarfélög eru með málið í vinnslu: Kópavogsbær, Vestmannaeyjabær, Akrahreppur, Strandabyggð, Hvalfjarðarsveit og Ísafjarðarbær.
    Ráðuneytið aflaði upplýsinga frá framhaldsskólum nú í sumar og kom í ljós að á næsta skólaári munu eftirfarandi framhaldsskólar bjóða gjaldfrjálsar tíðavörur fyrir nemendur sína:
    Borgarholtsskóli
    Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra
    Fjölbrautaskóli Snæfellinga
    Fjölbrautaskóli Suðurlands
    Fjölbrautaskóli Suðurnesja
    Fjölbrautaskóli Vesturlands
    Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
    Fjölbrautaskólinn við Ármúla
    Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
    Flensborgarskólinn í Hafnarfirði
    Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu
    Menntaskóli Borgarfjarðar
    Menntaskólinn á Egilsstöðum
    Menntaskólinn að Laugarvatni
    Menntaskólinn á Akureyri
    Menntaskólinn á Ísafirði
    Menntaskólinn á Tröllaskaga
    Menntaskólinn í Kópavogi
    Menntaskólinn í Reykjavík
    Menntaskólinn við Hamrahlíð
    Menntaskólinn við Sund
    Tækniskólinn
    Verkmenntaskóli Austurlands
    Verkmenntaskólinn á Akureyri
    Verzlunarskóli Íslands
    Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort Framhaldsskólinn á Laugum hyggst bjóða upp á gjaldfrjálsar tíðarvörur fyrir nemendur sína.