Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 145  —  143. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.


Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin geri tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks. Við vinnuna verði miðað við að uppfylla að minnsta kosti markmið stöðuskýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um einföldun gildandi regluverks frá september 2014 og sértækar jafnt sem almennar aðgerðir útlistaðar og tímasettar. Forsætisráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina á vorþingi 2022.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 150. löggjafarþingi (5. mál) og 151. löggjafarþingi (24. mál). Umræðan um óþarflega flókið og íþyngjandi regluverk og þörfina á einföldun þess er ekki ný af nálinni heldur hefur vandinn lengi legið ljós fyrir. Sem dæmi má nefna að 30. mars 1999 tóku gildi lög um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999, en í upphafsorðum greinargerðar frumvarpsins sem varð að þeim lögum sagði: „Undanfarin ár hefur komið í ljós að ofvöxtur er víða hlaupinn í reglugerðir og eftirlitsumfang opinberra aðila í iðnvæddum ríkjum. Regluverk eru sums staðar orðin svo flókin og viðamikil að fyrirtæki og einstaklingar eiga erfitt með að fylgjast með réttarstöðu sinni. Jafnframt hafa strangar hömlur af ýmsu tagi leitt til hægari nýsköpunar og atvinnustarfsemi og þannig haft neikvæð áhrif á hagvöxt og lífskjör.“
    Þrátt fyrir markmið laganna um að sporna við þeirri þróun sem þarna er lýst verður ekki um það villst að reglubyrði atvinnulífsins og flækjustig regluverksins í heild hefur margfaldast frá setningu þeirra fyrir tveimur áratugum. Talsverður hluti þeirrar auknu reglubyrði er kominn til vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og skyldubundinnar innleiðingar reglna vegna þátttöku landsins í innri markaði Evrópusambandsins. Því verður hins vegar ekki einu um kennt og má nefna að hagsmunaaðilar á vinnumarkaði hafa á undanförnum árum verið iðnir við að benda á að stjórnvöld innleiði EES-gerðir með meira íþyngjandi hætti fyrir almenning og atvinnulíf í landinu en nauðsynlegt er. Stjórnvöld nýti ekki það svigrúm sem bjóðist til að létta reglubyrði heldur hneigist þvert á móti til að bæta við séríslenskum reglum sem íþyngi atvinnulífinu og veiki samkeppnisstöðu þess á alþjóðamarkaði.

Stefna stjórnvalda.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013 var að finna sérstaka áherslu á einföldun regluverks og tekið fram að sérstakt markmið væri að engar nýjar íþyngjandi reglur yrðu innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið féllu brott jafnveigamiklar kvaðir. Þannig mundu heildaráhrif regluverksins þróast í rétta átt. Í september 2014 gaf forsætisráðuneytið út Handbók um einföldun regluverks, 1 sem var hluti af aðgerðaáætlun þáverandi ríkisstjórnar um málefnið og var ætlað að leiðbeina stjórnvöldum við skipulega einföldun á sínu sviði. Í sama mánuði kom út stöðuskýrsla ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur sem lagt er til að höfð verði til hliðsjónar við mótun áætlunar samkvæmt þessari tillögu.
    Undanfarin ár virðist hafa dregið úr áherslu stjórnvalda á einföldun regluverks. Þannig var í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar ekki minnst á málefnið. Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar segir að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings án þess þó að nánar sé útskýrt hvað í því felist. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 151. löggjafarþing, sem taldi 180 lagafrumvörp og 20 þingsályktunartillögur, var að finna þrjú frumvörp sem sérstaklega var ætlað að einfalda regluverk, tvö á sviði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og eitt á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þessi viðleitni er af hinu góða. Skili hún árangri í þá átt sem lagt er upp með í þessari tillögu hvetja flutningsmenn til að aðgerðaáætlun ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði öðrum ráðherrum hvatning á sínum málefnasviðum.

Stöðuskýrsla ráðgjafarnefndarinnar.
    Líkt og fram hefur komið leggja flutningsmenn til að við gerð aðgerðaáætlunar um einföldun regluverks verði tekið mið af stöðuskýrslu um einföldun gildandi regluverks sem ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur skilaði af sér og forsætisráðuneytið birti í september 2014. 2 Í 5. kafla skýrslunnar er fjallað um mismunandi aðferðir til að ná fram einföldun og í undirkafla 5.5 er gerð grein fyrir svokallaðri jafnvægisreglu. Vísi að slíkri reglu var að finna í áðurnefndum stjórnarsáttmála frá 2013 þar sem kveðið var á um að ekki skyldi bæta við nýrri íþyngjandi reglu án þess að önnur jafnveigamikil félli brott. Í skýrslu ráðgjafarnefndarinnar er gerð grein fyrir hertri kröfu að þessu leyti, sem ríkisstjórn Breta hafði þá nýverið markað, og gerir ráð fyrir að til þess að ein íþyngjandi regla fái brautargengi þurfi tvær sambærilegar að falla brott.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að jafnvægisregla verði innleidd með skýrum hætti og höfð að leiðarljósi við reglusetningu stjórnvalda. Þá telja flutningsmenn skynsamlegt að krafa verði gerð um að tvær íþyngjandi reglur á tilteknu málefnasviði falli brott við innleiðingu einnar nýrrar á því sviði, a.m.k. tímabundið, og árangurinn af slíkri kröfu metinn. Rétt er að innleiðingar EES-gerða verði undanþegnar þessari reglu að því marki sem innleiðing felur ekki í sér þyngri kvaðir en nauðsynlegt er.

Tímasett aðgerðaáætlun.
    Í þágu framangreindra markmiða um einföldun regluverks til að auka skilvirkni og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er í tillögunni kveðið á um að gerð verði tímasett aðgerðaáætlun. Nauðsynlegt er að útlistaðar verði sértækar aðgerðir, svo sem brottfall tiltekinna reglna eða einföldun á borð við þá að taka upp tilkynningarskyldu í stað leyfisskyldu fyrir ákveðna starfsemi, og þær tímasettar. Samhliða sértækum aðgerðum er nauðsynlegt að kveða á um almennar aðgerðir á borð við upptöku jafnvægisreglu líkt og framar greinir. Flutningsmenn leggja til að forsætisráðherra hafi forgöngu um gerð áætlunarinnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og kynni Alþingi áætlunina á komandi vorþingi.

1     www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/utgefidefni/einfoldun-regluverks-handbok-sept-2014.pdf
2     www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/Skyrslur/einfoldun-regluverks-stoduskyrsla-sept-2014.pdf