Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 153  —  151. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum (framlenging bráðabirgðaheimilda).

Frá innanríkisráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991.

1. gr.

    Í stað ártalsins „2021“ á tveimur stöðum í 158. gr. laganna kemur: 2024.

II. KAFLI

Breyting á erfðalögum, nr. 8/1962.

2. gr.

    Í stað ártalsins „2021“ í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: 2024.

III. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

3. gr.

    Í stað ártalsins „2021“ á tveimur stöðum í 208. gr. laganna kemur: 2024.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

4. gr.

    Í stað ártalsins „2021“ á þremur stöðum í ákvæði til bráðabirgða X í lögunum kemur: 2024.

V. KAFLI

Breyting á lögum um dómstóla, nr. 50/2016.

5. gr.

    Í stað ártalsins „2022“ í ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2027.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Hinn 9. maí 2020 tóku gildi breytingalög nr. 32/2020 sem heimiluðu framlengingu fresta og rafræna meðferð mála hjá sýslumönnum, dómstólum o.fl. í því skyni að koma í veg fyrir réttarspjöll af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru og draga úr neikvæðum áhrifum faraldursins. Með lögunum var meðal annars samþykkt að bæta ákvæðum til bráðabirgða við lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, lög um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991 og erfðalög, nr. 8/1962. Heimildirnar hafa reynst vel og ákveðið var að framlengja gildistíma þeirra með frumvarpi því er varð að lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (framlenging bráðabirgðaheimilda), nr. 121/2020. Með lögunum voru heimildir sýslumannsembætta, lögreglu og dómstóla til þess að beita rafrænum lausnum og fjarfundabúnaði í ákveðnum tilvikum framlengdar til ársloka 2021. Í ljósi þess að áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar gætir enn er talið rétt að framlengja bráðabirgðaheimildirnar á ný þannig að tími gefist til að taka ákvæði laganna til frekari endurskoðunar. Með frumvarpi þessu er lagt til að framangreindar bráðabirgðaheimildir verði framlengdar til ársloka 2024.
    Þá samþykkti Alþingi þann 27. febrúar 2017 bráðabirgðaheimild þess efnis að fram til 1. janúar 2022 geti Landsréttur haft aðsetur utan Reykjavíkur, sbr. 3. gr. laga nr. 10/2017. Frá því að Landsréttur tók til starfa hefur hann haft aðsetur í Kópavogi og þar sem enn er unnið í húsnæðismálum dómstólsins er lagt til að umrædd heimild verði framlengd um önnur fimm ár eða fram til 1. janúar 2027.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni setningar breytingalaga nr. 32/2020 og 121/2020 var útbreiðsla kórónuveiru (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum og sú óvissa sem ríkti vegna útbreiðslu hennar hér á landi. Vegna útbreiðslu og alvarleika veirunnar, sem leiddu til ýmissa lokana og takmarkana við afgreiðslu og framkvæmd lögbundinna verkefna stjórnsýslunnar og dómstóla, var talið nauðsynlegt að varna réttarspjöllum með því að heimila aukna notkun rafrænna lausna og fjarfundabúnaðar við málsmeðferð. Umræddar heimildir hafa þjónað tilgangi sínum vel.
    Vegna útbreiðslu kórónuveiru liggur fyrir að sýslumannsembættin og dómstólar þurfa í auknum mæli að beita rafrænum lausnum við málsmeðferðina, með það að markmiði að fækka óþarfa komum á skrifstofur dómstóla og sýslumanna, og því er talið mikilvægt að framlengja heimildir til þess. Þar sem allri óvissu vegna útbreiðslu kórónuveiru hér á landi hefur ekki verið eytt þykir nauðsynlegt að leggja til að bráðabirgðaheimildir umræddra laga verði framlengdar þannig að dómstólar og sýslumannsembættin geti áfram sinnt lögbundnu hlutverki sínu og málsaðilar verði ekki fyrir réttarspjöllum.
    Hvað varðar staðsetningu Landsréttar þá er ennþá unnið að því að finna dómstólnum varanlegt húsnæði í Reykjavík en fyrirséð er að það muni ekki takast fyrir 1. janúar 2022. Því er nauðsynlegt að framlengja bráðabirgðaheimild þess efnis að dómstóllinn geti verið staðsettur utan Reykjavíkur.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaheimildir stjórnvalda og dómstóla til að beita áfram rafrænum lausnum við meðferð mála og notkun fjarfundabúnaðar verði framlengdar. Verði frumvarpið að lögum er reiknað með að það nái því markmiði sem stefnt er að strax við gildistöku laganna enda krefjast tillögurnar almennt ekki sérstaks undirbúnings. Það sama á við um staðsetningu Landsréttar utan Reykjavíkur.
    
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á fjórum lagabálkum vegna ráðstafana til að mæta áhrifum af útbreiðslu kórónuveiru á framkvæmd lögbundinna verkefna hjá sýslumannsembættum og dómstólum. Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þó er rétt að árétta að um heimildarákvæði er að ræða. Ef fyrirséð verður í einstökum málum að ekki verði unnt með þeim að tryggja að fullu réttindi sakborninga og annarra málsaðila verður að telja að forsendur fyrir beitingu þeirra séu ekki fyrir hendi.
    Þá stangast það hvorki á við stjórnarskrá né alþjóðlegar skuldbindingar að heimila staðsetningu Landsréttar utan Reykjavíkur.

5. Samráð.
    Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við sýslumannaráð, dómstólasýsluna og réttarfarsnefnd. Þá voru drög að frumvarpinu kynnt á samráðsgátt stjórnvalda frá 12. nóvember – 22. nóvember 2021 en engar umsagnir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Tilgangur frumvarpsins er aðallega að tryggja að stjórnvöld og dómstólar geti sinnt lögbundnum verkefnum með því að lágmarka áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar ásamt því að tryggja þeim svigrúm til að bæta þjónustuna við almenning með auknu framboði tæknilausna. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi fjárhagsleg áhrif fyrir ríkissjóð.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið svarar til 158. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 7. gr. laga nr. 32/2020 og 3. gr. laga nr. 121/2020. Nánar um skýringu ákvæðisins vísast til athugasemda við þau ákvæði í greinargerðum við frumvörp þau sem urðu að framangreindum lögum.
    Þar sem um er að ræða heimildarákvæði þykir rétt að árétta að þeim verði beitt með varfærnum hætti og í samræmi við ákvæði viðeigandi laga og reglna, þar á meðal um miðlun og vistun persónuupplýsinga. Ákvæðið leysir hlutaðeigandi stofnanir ekki undan þeirri skyldu að framkvæma mat á áhrifum persónuverndar og rafræna vöktun í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þannig að vinnslan fari fram í málefnalegum tilgangi og að uppfylltum skilyrðum þeirra laga.

Um 2. gr.

    Ákvæðið svarar til ákvæðis til bráðabirgða í erfðalögum, sbr. 8. gr. laga nr. 32/2020 og 4. gr. laga nr. 121/2020. Nánar um skýringu ákvæðisins vísast til athugasemda við þau ákvæði í greinargerðum við frumvörp þau sem urðu að framangreindum lögum. Þar sem umsóknir um leyfi til setu í óskiptu búi hafa að geyma persónuupplýsingar um hinn látna og erfingja er mikilvægt að árétta að sýslumannsembættin þurfi að gæta varfærni við miðlun og vistun gagna auk þess að vinnslan fari fram í málefnalegum tilgangi og að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er samhljóða gildandi 208. gr. eins og henni var breytt með 6. gr. laga nr. 32/2020 og 1. gr. laga nr. 121/2020. Nánar um skýringu ákvæðisins vísast til athugasemda við þau ákvæði í greinargerðum við frumvörp þau sem urðu að framangreindum lögum.

Um 4. gr.

    Ákvæðið er samhljóða gildandi ákvæði til bráðabirgða X eins og því var breytt með 5. gr. laga nr. 32/2020 og 2. gr. laga nr. 121/2020. Nánar um skýringu ákvæðisins vísast til athugasemda við þau ákvæði í greinargerðum við frumvörp þau sem urðu að framangreindum lögum.

Um 5. gr.

    Samkvæmt 2. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, skal Landsréttur hafa aðsetur í Reykjavík. Þrátt fyrir það samþykkti Alþingi með lögum nr. 10/2017 bráðabirgðaheimild þess efnis að dómstólnum væri heimilt að hafa aðsetur utan Reykjavíkur fram til 1. janúar 2022. Síðan þá hefur Landsréttur haft aðsetur í Kópavogi. Þar sem ennþá er unnið að því að finna dómstólnum varanlegt húsnæði í Reykjavík er með þessari grein lagt til að framangreind bráðabirgðaheimild verði framlengd um fimm ár, eða til ársins 2027.


Um 6. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.